12.02.1963
Efri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2056)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. (BGuðm) er að rifja upp atburð, sem gerðist hér, þegar tollskránni var breytt, og vill mótmæla því, að það sé rétt hjá hv. 1. þm. Vesturl., að hann hafi ekki staðið við það, sem hann var búinn að segja í ræðu hér á Alþingi.

Ég vil minna hv. þm. á, hvernig þetta gekk fyrir sig. Þegar frv. var komið fram, talaði hann fyrstur eftir frummælanda og lýsti því sem skoðun sinni, að það bæri nauðsyn til að lækka tolla og innflutningsgjöld á landbúnaðarvélum, og krafðist í þeirri ræðu sinni, að þetta yrði gert við afgreiðslu málsins. Við vorum alveg sömu skoðunar, framsóknarmenn, um þetta og hv. 10. landsk., og það var hv. 1. þm. Vesturl. og ég, sem fluttum um það brtt. við frv., að það skyldu felldir niður tollar af landbúnaðarvélum. Hvernig fór svo, þegar málið kom til atkvgr.? Þá stóð svo á, að það vantaði einn stjórnarliðann hér í hv. Ed. Hvernig fór svo um tillöguna okkar? Við reiknuðum auðvitað með því, að hv. þm. stæði við það, sem hann var nýbúinn að segja, en hann sat hjá við atkvgr. og sagðist ekki vilja notfæra sér það, að einn þm. væri veikur. M.ö.o.: hann vildi ekki samþykkja tillöguna.