17.04.1963
Efri deild: 74. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2063)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls var frv. rætt allmikið og gerð grein fyrir þeim breytingum, sem það felur í sér frá gildandi lögum. Mál þetta hefur einnig borið á góma í sambandi við annað frv., sem nýlega hefur verið afgreitt, og er þar af leiðandi minni ástæða til en ella væri að fjölyrða mjög um þetta mál nú við þessa umr. Ég vil þó gera örstutta grein fyrir afstöðu okkar, sem skipum minni hl. landbn., og nál., sem prentað er á þskj. 510.

Aðalefni þessa frv. er það, að afnuminn verði skattur sá, sem bændum er nú gert að greiða til stofnlánadeildar landbúnaðarins, og enn fremur gjald á söluvörum landbúnaðarins, en árlegt framlag ríkissjóðs til stofnlánadeildarinnar verði í þess stað hækkað í 30 millj. kr., að ríkissjóður taki á sig halla stofnlánasjóða landbúnaðarins vegna gengisfellinganna 1960 og 1961, enn fremur, að vextir af stofnlánum bænda verði lækkaðir og færðir í sama horf og var, áður en efnahagsmálalöggjöfin frá 1960 var sett. Þá leggjum við til, að fellt verði niður úr 1., að gengisákvæði skuli vera á vissum lánum til landbúnaðarins, og einnig berum við fram í þessu frv. till. um, að veðdeild Búnaðarbankans verði efld. Loks er ákvæði um það í frv., að lögbundið verði fast, árlegt framlag til rannsókna og leiðbeininga um gerð húsa, en til þeirrar starfsemi hefur ekki verið veitt nægilegt fé að undanförnu að okkar dómi.

Hér er um mikið hagsmunamál bændastéttarinnar að ræða. Það er viðurkennt, að 1% gjald á landbúnaðarvörur, sem rennur til stofnlánadeildarinnar, er í reynd skerðing á tekjum bændanna sjálfra, þar sem ekki er heimilt samkv. gildandi lögum að færa það inn í verðlagið og taka það til greina sem sérstakan kostnað við búreksturinn, þegar verðlagið er ákveðið. Þetta gjald var lögleitt gegn mótmælum félagssamtaka bænda, og það mun vera álit a.m.k. mjög margra í bændastétt og að ég ætla alls þorna bænda, að það sé ekki réttmætt að krefjast þess, að bændur leggi fram þessa fjármuni til stofnlánadeildarinnar. Ríkisvaldið ákvað hinar miklu gengisfellingar, sem röskuðu fjárhagsgrundvelli stofnlánasjóða landbúnaðarins. Hvorki bændastéttin né stjórn Búnaðarbankans hafði neitt ákvörðunarvald í því efni. Er því réttmætt, að ríkissjóður standi straum af þeim útgjöldum stofnlánadeildar, sem af gengisfellingunum leiðir, enda þolir landbúnaðurinn illa, eins og hag hans er nú háttað, að taka á sig byrðar, sem af þessu leiðir, og hann þolir einnig illa að taka á sig gengishalla af lánum, þótt veitt séu til vélakaupa og vinnslustöðva.

Um vextina af stofnlánum bænda hefur verið allmikið rætt að undanförnu og skýr grein gerð fyrir því, hvaða áhrif þeir hafa á þá byrði árlegra afgjalda, sem bændur verða að bera af lánum úr stofnlánadeildinni, og enn fremur hefur verið sýnt fram á það, hvaða áhrif vextirnir hafa á verðlag landbúnaðarafurða og að þeir hafa allrík áhrif í fjárhagskerfinu til dýrtíðaraukningar. Það er því fullkomlega réttmætt og ástæða til að samþykkja það ákvæði þessa frv. að lækka vexti af lánum bændanna í það horf, sem þeir voru, áður en viðreisnarlöggjöfin var sett.

Þá er það kunnara en frá þurfi að segja, að veðdeild Búnaðarbankans hefur um alllangt skeið skort tilfinnanlega fjármagn til þess að sinna því mikilvæga hlutverki, sem henni er ætlað að gegna samkv. lögum. Þær till., sem hér eru bornar fram um veðdeild Búnaðarbankans, miða að því að bæta fjárhagsaðstöðu hennar verulega frá því, sem nú er.

En á samþykkt frv. og þau rök, sem að því hníga, að það verði lögfest, hefur meiri hl. landbn. ekki fallizt. Hann leggur til, meiri hl., eins og frsm. gerði grein fyrir, að afgreiða nú þetta frv. með rökst. dagskrá. Og rök meiri hl. eru þau, að með gildandi lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins hafi verið lagður grundvöllur að viðunandi lausn stofnlánaþarfar landbúnaðarins. Þegar l. voru sett um þetta efni á síðasta þingi, var um það talað af hálfu þeirra, sem beittu sér fyrir þeirri löggjöf, að með henni væri tryggð fjárhagsafkoma stofnlánadeildarinnar. En nú er talið, að þetta sé aðeins viðunandi lausn. Reisnin á þeirri löggjöf, sem hér er lagt til að gera breytingar á, er nú ekki orðin meiri en þetta að dómi stjórnarflokkanna, enda er það svo, að samkv. þeim upplýsingum, sem koma fram í hinni nýju þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi, fer því fjarri, að séð sé fyrir fjárþörf stofnlánadeildarinmar á fullnægjandi hátt með 1., eins og þau voru úr garði gerð á síðasta þingi. Í þessari skýrslu er því lýst, hvernig hagur stofnlánadeildarinnar hafi verið á árinu 1962. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1962 naut þeirra tekjustofna, sem í I. greinir, enn ekki við, þannig að útvega þurfti sjóðnum á því ári 49 millj. kr., til þess að hann gæti fullnægt lánsfjárþörfinni. Fyrir þessari fjáröflun var ekki hægt að sjá á árinu 1962, nema að því leyti, að 19 millj. kr. voru veittar til deildarinnar af PL-480 lánsfé ársins 1962. Þetta fé kom hins vegar ekki til útborgunar fyrr en eftir áramót, og veitti því Seðlabankinn stofnlánadeildinni jafnháa fjárhæð að láni til bráðabirgða, en það lán endurgreiðist af PL-480 láninu á árinu 1963. Þá veitti Seðlabankinn í viðbót við þetta 30 millj. kr. að iáni til bráðabirgða, og þarf að afla fjár á árinu 1963 til þess að endurgreiða þetta lán.“

Og um framtíðarhorfur stofnlánadeildarinnar segir enn fremur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á árunum 1963 og 1964 verður fjárþörf stofnlánadeildarinnar talsvert minni en á árinu 1962 vegna þeirra nýju tekjustofna, sem nú eru að koma til sögunnar. Eigi að síður þarf að afla um 30 millj. kr., til þess að hægt sé að fullnægja árlegri lánsfjárþörf bænda, og auk þess 30 millj. kr. á árinu 1963, til þess að hægt sé að endurgreiða Seðlabankanum bráðabirgðalánið frá 1962. Er þá ætlun ríkisstj., að 30 millj. kr. af PL-480 lánsfé gangi til að fullnægja lánsfjárþörfinni á árinu 1963, en 30 millj. kr. af því fé, sem aflað verður innanlands, gangi til endurgreiðslu á bráðabirgðaláni Seðlabankans. Mun þá sjóðurinn hafa 82 millj. kr. til útlána á árinu 1963:

Ég hef gerzt svo fjölorður um þetta af því, að þetta eru nýjar upplýsingar, sem þm. hafa verið látnar í té um fjárhagsaðstöðu stofnlánadeildarinnar, og þær sýna svo ljóslega sem verða má, að sá grundvöllur, sem lagður var í fyrra, er engan veginn svo traustur sem þá var látið í veðri vaka af þeim, er beittu sér fyrir setningu löggjafarinnar, og að enn þá þarf, — og fyrirhugað er, að svo verði á næstunni, — að sjá borgið fjárþörf stofnlánadeildarinnar með lánum til stutts eða langs tíma. M.ö.o.: þrátt fyrir setningu löggjafarinnar í fyrra er enn miðað við að fara svipaða leið og gert hefur verið að undanförnu að allmiklu leyti um að afla fjár til stofnlánadeildarinnar til útlána, og er þá ekki ástæða til að finna till. okkar í þessu frv. það til foráttu, að við gerum ráð fyrir, að stofnlánadeildinni verði útvegað fé af því fjármagni, sem til ráðstöfunar er hverju sinni í þjóðarbúinu. Og það er á engan hátt hægt að fullyrða, að þær till., sem við berum fram og eru byggðar á því, að árlegt framlag ríkissjóðs til stofnlánadeildarinnar nemi 30 millj. kr., séu óraunhæfari en þær reglur, sem nú gilda um þessi efni.

Hér segir, að þetta mál hafi verið leyst að dómi meiri hl. landbn. og væntanlega stjórnarflokkanna á viðunandi hátt. Þá mun vera átt við, að þetta sé leyst á viðunandi hátt, ef horft er á málið frá sjónarmiði bankans eða stofnlánadeildarinnar. En það er annar aðili, sem hér kemur einnig til greina, og það er bændastéttin sjálf, sem byrðarnar ber af 1% gjaldinu og einnig á að njóta fyrirgreiðslu af hálfu stofnlánadeildarinnar. Og eins og ég gat um áðan, er það svo, að mikill hluti bændastéttarinnar, svo að ekki sé meira sagt, telur ekki viðunandi þá lausn, sem gerð var á þessu á síðasta þingi.

Eitt atriði við meðferð þessa máls er þess eðlis, að ég vil nú við þessa umr. vekja sérstaka athygli á því. Á þessu þingi hefur verið lögfest frv. um eflingu iðnlánasjóðs. Þar er lagt út á svipaða braut um fjáröflun og gert var með löggjöfinni í fyrra um fjáröflun til stofnlánadeildarinnar, þannig að iðnaðurinn á að bera 0.4% gjald, sem rennur til iðnlánasjóðs. En við meðferð þess máls var það afstaða Framsfl., að í stað þess að leggja þetta sérstaka gjald á iðnaðinn, yrði iðnlánasjóði greitt árlegt framlag úr ríkissjóði. Sú afstaða var ekki tekin til greina, því að meiri hl. ákvað að fylgja þeim ákvæðum, sem upphaflega voru sett í frv. En það er sérstaklega eftirtektarvert, að þegar það frv. var til umr. í þessari hv. d., gefur iðnmrh., þegar hann mælir fyrir frv., yfirlýsingu á þessa leið.

„Sú nefnd, sem undirbjó frv., hafði um það samráð við samtök iðnaðarmanna, bæði Landssamband iðnaðarmanna og Félag íslenzkra iðnrekenda, um, að þetta gjald yrði á lagt, og eru þeir því eindregið fylgjandi.“

Og frsm. n., hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ), komst svo að orði í sambandi við þennan skatt, sem lagður er á iðnaðinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú skattlagning, sem gert er ráð fyrir, nemur 0.4%. Um það varð samkomulag í þeirri mþn., sem undirbjó frv., að þýðingarlaust væri að setja þar aðra tölu en þá, sem aðilar samþykktu, þ.e.a.s. þeir aðilar, sem áttu að standa skil á þessari greiðslu til sjóðsins. Og svo er þessi tala sett með fullu samþykki þeirra og að þeirra eigin sameiginlegu till.

Þannig er farið að, þegar iðnaðurinn á í hlut. En þegar skattleggja á bændastéttina, er farið allt öðruvísi að. Þá er ekki leitað til félagssamtaka bændanna fyrir fram, og þó að þau mótmæli eftir á, þegar frv. er komið fram, þá eru þau mótmæli að engu höfð. „Hátt skal það rísa og heitt skal það brenna,“ sagði Pétur Gautur. Það má segja, að það sé svipuð hugsun, sem hafi komið fram hjá meiri hl., þegar hann ákveður að leggja þennan skatt á bændastéttina gegn mótmælum félagssamtaka þeirra og án þess að leita eftir fylgi bændastéttarinnar fyrir fram við málið, eins og yfirlýst er að gert hefur verið, þegar iðnaðurinn á í hlut.

Það er þó viðurkennt í hinni rökst. dagskrá meiri hl., að veðdeild Búnaðarbankans þurfi að efla. En þrátt fyrir það virðist meiri hl. ekki vilja fallast á þá till., sem við gerum í þessu frv. um fjáröflun til veðdeildarinnar. En það er vitnað til þess, að fyrir hendi séu lántökuheimildir og meiri hl. treysti ríkisstj. til þess að nota þær lántökuheimildir þannig, að um stuðning við veðdeild Búnaðarbankans verði að ræða. Ég veit, að í l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum er heimild til þess, að fengnu samþykki ráðh. hverju sinni, að verja árlega allt að 10 millj. kr. af fé stofnlánadeildarinnar til að kaupa bankavaxtabréf veðdeildar Búnaðarbankans, enda sé það auðið án þess að skerða nauðsynleg útlán deildarinnar. Vitanlega er ekki haggað við þessari gr. í frv. okkar, þannig að þessi heimild er í fullu gildi, þótt frv. yrði lögfest. Mér er það enn fremur ljóst, að í l. um Búnaðarbankann frá 1941 hefur ríkisstj. heimild til samkv. 39. gr. l. að taka allt að 5 millj. kr. lán innanlands eða utan á ábyrgð ríkisins til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildarinnar og með þeim kjörum, að ríkissjóður verði að líkindum skaðlaus af. Ég vildi gjarnan, að það kæmi fram í þessum umr. til skýringar á málinu, hvort það eru þessar tvær lagaheimildir, sem hv. meiri hl. landbn. miðar við í hinni rökstuddu dagskrá, eða hvort fyrir hendi eru einhverjar aðrar heimildir, sem ég hef ekki að svo stöddu komið auga á, og þá væri fróðlegt að heyra, hvað heimilt er að taka háar fjárhæðir í þessu skyni samkv. þeim ákvæðum. Þá kemur einnig til greina í þessu sambandi, hvort búið er áður að nota lagaheimildina frá 1941 eða hvort hún er enn þá ónotuð. En væri svo, þá hef ég ekki komið auga á aðrar heimildir í þessu efni en eru nú í l. um stofnlánadeild og ég drap á, að er um 10 millj. kr. fjárhæð árlega. Ég vek athygli á þessu vegna þess, að það skýrir málið, að það komi greinilega fram í umr., hvaða lagaheimildir hér er átt við.

Ég mun svo ekki, nema ástæða gefist til, fara fleiri orðum um þetta mál. Það er öllum hv. þdm. ljóst, að hvaða breytingu er stefnt með frv. okkar, og við, sem skipum minni hl. landbn., leggjum til, að það verði samþykkt óbreytt.