03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2086)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. samgmn. hefur nú gert grein fyrir sínu máli. Það er í sjálfu sér ekki margt, sem hann vék beint að mér sem frsm. meiri hl., sem ég þarf að svara, en viðvíkjandi einni spurningu, sem hann lagði beint fyrir mig um það, hvað væri í því frv., sem vegamálanefnd, mþn. í vegamálum, leggi til. Hann spyr um það, hvað sé í þessu frv. Það er vitanlega algerlega ómögulegt að gera grein fyrir því á þessari stund, svo yfirgripsmikið mál sem það er, og þó sérstaklega tel ég það ekki tímabært, meðan veigamikil atriði í því frv. eru enn í endurskoðun, og ég tel alls ekki rétt að fara með neitt úr því, fyrr en það hefur verið formað þannig, að það sé lagt fyrir Alþingi. Hann vék einnig að því, að það hefði þótt vel frambærilegt að taka lán til Keflavíkurvegar á sínum tíma. Það er mál, sem var búið að afgreiða, áður en vegamálanefndin tók til starfa og áður en hún formaði sínar till. Þess vegna er það mál, sem liggur utan við þessa umr., því að það er eldra. Það er aðeins framtíðin í vegamálum, sem vegamálanefndin hefur hugsað sér og lagt sig í framkróka með að reyna að leysa sem haganlegast með till. á breiðum grundvelli.

Þá vil ég vekja athygli á því, sem lauslega er að vikið í nál. meiri hl. og frsm. minni hl. talaði hér nokkuð um áðan, og það var, að það kom uppástunga um það í n. að geyma að afgreiða þetta mál úr nefnd, þar til betur væri séð um afdrif vegalagafrv. Á þetta vildi frsm. minni hl., sem hér talaði áðan, alls ekki fallast í nefnd. Það er satt hjá honum, að þetta var ekki borið undir atkv. í n., það hefði verið hægt sennilega að fá þessa afgreiðslu á málinu, en hann lagði svo mikla áherzlu á, að þetta væri einmitt afgreitt úr nefnd, að meiri hl. sá ekki ástæðu til að leggjast beinlínis á móti því. Það er algerlega rangt hjá honum, að það hafi vakað fyrir meiri hl. að drepa þetta mál strax. Hitt mun vera sanni nær, að það hafi vakað fyrir þessum hv. frsm., að málið væri drepið strax. Þess vegna lagði hann áherzlu á, að málið væri afgr. úr nefnd strax.

Ég er reiðubúinn — og hef líka verið það áður — að viðurkenna, að mikil þörf sé á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Austfjörðum. En ég fullyrði einnig það, sem ég áður sagði, að sú þörf er mjög mikil í öllum öðrum kjördæmum einnig. Ég vil aðeins nefna t.d. Norðurlandskjördæmi vestra, Siglufjarðarveg, sem mikil áherzla er lögð á að sé þokað fram eða fullgerður sem allra fyrst með lántöku, og ég man ekki betur en það hafi verið lögð sérstök áherzla á þennan veg í blaðagrein nú nýlega í öðru stjórnarandstöðublaðinu og talað um allt að 20 millj., sem þar þyrfti að leggja fram helzt í einu lagi. Ég vil einnig minna á mjög aðkallandi veg í Norðurlandskjördæmi eystra. Það er vegur út á Ólafsfjörð, sem mjög mikil áherzla er lögð á að sé flýtt og það helzt með lántökum. Ég vil einnig nefna, að það er talin mjög brýn þörf á mjög kostnaðarsamri vegalagningu í Vesturlandskjördæmi, í Snæfellsnessýslu. Og ég gæti talið upp fjölda af vegum og vegaframkvæmdum og brúargerðum og því, sem tilheyrir vegagerðinni yfirleitt, sem er mjög aðkallandi að leysa. Ef eitt atriði eða tvö af þeim, sem mest kalla á, væru leyst með því að samþykkja eitt frv., þá hlýtur annað og margt annað að kalla á um leið að leysa. Þess vegna get ég ekki skilið annað en það séu algerlega eðlileg vinnubrögð að reyna að leysa þetta í einu lagi. Og ef þær till., sem nú eru til umr. og athugunar í ríkisstj. frá vegamálanefnd, ná fram að ganga og fjárframlög til vega vaxa verulega, máske eitthvað í áttina við það, sem fram kemur í þessu frv., þá er það að mínu áliti ekki lakari lausn en þótt þetta frv. verði samþykkt. En eftir því, að þetta kæmi betur í ljós, vildi frsm. minni hl. alls ekki bíða, þegar málið var rætt í samgmn., heldur lagði áherzlu á, að málið væri afgreitt strax.

Annars er það dálítið einkennilegt við umr. um þetta mál, bæði í fyrra og nú, hversu mikla áherzlu flm. frv. eða þeir, sem tala fyrir þeirra hönd, leggja á það að sýna fram á, að Vestfirðir og Austfirðir hafi orðið á eftir í vegagerð á undangengnum tíma. Á þessu kjörtímabili, þ.e.a.s. frá 1959, hafa þessi kjördæmi alls ekki verið sett hjá að því er snertir skiptingu á vegafé. Þvert á móti virðist mér, að þau hafi fyllilega haldið sínum hlut, miðað við önnur byggðarlög. Ef þessi byggðarlög hafa orðið á eftir með vegagerð á undangengnum tíma, þá er það frá eldri tíð, og ég minnist þess ekki sérstaklega, að fram hafi komið frá þessum flm. né öðrum till. um að auka verulega vegafjárframlög til þessara byggðarlaga fyrr en nú. Manni virðist, að meðan þessir hv. þm. höfðu stjórnaraðstöðu á Alþingi, hefðu þeir átt að flytja till., sem gengju í þessa átt, meðan þeir réðu og gátu að sjálfsögðu komið sínum málum fram, en bíða ekki eftir því, að þeir væru komnir í stjórnarandstöðu og hefðu þar af leiðandi miklu verri aðstöðu til að koma fram sínum áhugamálum heldur en áður. Þetta finnst mér vera dráttur, sem sé undarlegt að þessir menn skuli leggja eins mikla áherzlu á nú og þeir gera að sýna fram á að hefur orðið, á meðan þeir sjálfir réðu í landinu og áttu þá að sjálfsögðu auðvelt með að lagfæra, ef þeir hefðu haft áhuga á því þá.