03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2087)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Það er ekki margt í þessari síðari ræðu hv. frsm., sem ég þarf að gera að umtalsefni. Hann leggur enn áherzlu á, að það sé ekki tímabært að samþykkja frv. Það hefur ekki verið tímabært að hans dómi í 4 ár. Ég gæti svo sem vel trúað, að honum fyndist það ekki tímabært næstu 4 árin. Ég held, að hann álíti, að það sé aldrei tímabært að samþykkja þetta frv. Hann er andvígur því og berst gegn því og hans félagar í meiri hl. samgmn. Það þýðir ekkert að fara í kringum hlutina hvað þetta snertir. Ég vil ekki vera að minna á ummæli, sem féllu í n., sem þýddu þetta. En ég get svo sem gjarnan gert það, ef með þarf. (BGuðm: Það er velkomið af minni hálfu.) Það er von, því að það var ekki þessi hv. þm., 10. landsk., sem lét þau orð falla, það skal ég taka fram. (JÞ: Ef þau eru frá mér, þá er velkomið að hafa þau eftir.) Þá segir hv. þm., þegar hann fer að afsaka Keflavíkurveginn, að hann var lagður fyrir lánsfé, alveg eins og við viljum nú fá lán til annarra vega, að það hafi verið búið að taka lán til vegarins, þegar þáltill. var samþ. um endurskoðun vegalaga. Ég sé enga afsökun í því, hvort sem búið var að samþ. þessa þáltill. um endurskoðun vegalaga eða ekki. Ef það var óviðeigandi að fara að leggja veginn fyrir lánsfé, þá var það alveg eins á undan till. og eftir. En ég vil nú benda hv. frsm. á, að þetta út af fyrir sig eru nokkrar upplýsingar, að hæstv. ríkisstj. hafi verið búin að taka lán til Keflavíkurvegar 22. marz 1961. Er hann nú alveg viss um, að þetta sé rétt? Það var nefnilega byrjað á þessum vegi sumarið 1961. Og ég hef litið svo á, að lán til vegarins hafi ekki verið tekið fyrr en það sumar. En nú segir hann, að það hafi verið búið að taka það 22. marz. En hvort heldur er, þá er það engin afsökun. Ef réttmætt er að bæta úr brýnni þörf í vegamálum með lánsfé, þá á að gera það, ef menn eru á móti því, þá á ekki að gera það. En þeir töldu réttmætt að gera það, þegar Keflavíkurvegur átti í hlut, en voru búnir að fella í tvö ár á undan að gera hliðstæðar ráðstafanir við aðra landshluta. Fram hjá þessu verður ekki komizt. Þannig vilja þeir mismuna héruðum, og var þó þetta hérað, Reykjanesskaginn, ekki neitt svipað sett og flest byggðarlög í þessum tveimur landshlutum, Vestfjörðum og Austurlandi. Það var þar vegur og er þar enn og þætti vandaður vegur og skemmtilegur og góður, ef hann væri á Vestfjörðum og Austurlandi. Þrátt fyrir það held ég, að það sé rétt ráðstöfun að steypa veg til Keflavíkur, og hef ekki á móti því, að tekið sé til hans lán. En ég krefst þess, að aðrir landshlutar fái að njóta jafnréttis, og það er á móti þessu jafnrétti, sem meiri hl. n. er að berjast.

Hv. frsm. minnir mann á það, að þeir, stjórnarsinnarnir í n., hafi farið fram á, að við féllumst á að fresta málinu. Og það er rétt haft eftir hjá honum, að ég var andvígur því. En hann segir, að við hefðum viljað hraða málinu, til þess að það yrði drepið. Þetta er einhver sú nýstárlegasta kenning á Alþingi, sem ég hef heyrt: þegar verið er að leggja áherzlu á að koma málum fljótt fram, þá er það til þess að þau séu drepin í Svo að ég taki dæmi: Þegar hæstv. fjmrh. lagði fram frv. hér um lántökuheimild í Bretlandi upp á 240 millj., þá hefur hann líklega verið að hraða því, til þess að málið væri drepið. Ég held, að hv. frsm. ætti ekki að koma með meira af svona rökum. En það, sem hann meinar, er þetta: að þeir geti ekki annað en drepið svona mál. Þegar verið er að berjast fyrir því, að landshlutar, fjarlæg byggðarlög, fái það sama og verið er að gera fyrir þéttbýlið hér á Reykjanesskaga, þá verður að drepa þetta frv. Þetta er hugsjónin hjá honum, ef hugsjón skyldi kalla.

Þá drap hv. frsm. á það, að ef þessir tveir landshlutar hafi verið settir hjá að undanförnu, þá sé ekki hægt að saka núv. stjórnarflokka um það. Það er nokkuð til í þessu hjá hv. frsm., og ég er ekki að saka neinn flokk um það, sem gerzt hefur á undanförnum áratugum. Það vita allir ástæðuna til þess, af hverju þetta er. Landslagið er þannig í þessum héruðum, að það þarf miklu meiri fjárhagsleg átök til þess að koma samgöngum þar í viðunandi horf heldur en í öðrum héruðum. Þetta er öllum ljóst og hefur alltaf verið ljóst. En þegar svo er komið, að heilar sveitir eru að leggjast í auðn vegna vegaleysis, þá er ekki hægt að bíða með þetta, þá verður að gera átak. Og eftir skýrslu vegamálastjóra, sem kom út árið 1958, kemur þetta í ljós, að það er voði fyrir dyrum í þessum landshlutum, ef ekki er bætt úr ástandinu. En það er það, sem þessir hv. þm., sem skipa meiri hl. n., vilja ekki. Þeir vilja ekki bæta úr ástandinu þarna. Þeir vilja bara bæta úr því í Reykjaneskjördæmi. Þeirri ráðstöfun eru þeir samþykkir. Hv. frsm. segir, að á undanförnum þingum, þessum 3–4 undanförnum þingum, hafi þessi kjördæmi ekki fengið minna fé en önnur kjördæmi. Það er að vísu rétt, en við höfum alltaf bent á, að það er ekki hægt og verður aldrei hægt að bæta úr þessu misrétti með þessum venjulegu fjárframlögum á fjárlögum. Það þarf að gera átak með lántöku, eins og verið er að gera á Reykjanesskaga.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta meira. Ég held, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, hvað ber á milli hjá mér og hv. frsm. Ég vil láta bæta úr þessari brýnu þörf og gera það strax, og það veit ég að verður ekki gert nema með lánsfé. Það vill hann ekki. Þetta er munurinn. Hann bendir á vegi, sem þurfi að leggja í öðrum kjördæmum. Hann nefnir Siglufjarðarveg, þ.e.a.s. Strákaveginn. Það er víst óhætt að nefna hann, því að það hefur verið farið eins að þar að koma í veg fyrir, að þar yrði gert átak til þess að koma veginum á með sama hætti og verið er að gera í Reykjaneskjördæmi. Það er bara ein sagan enn um afstöðu þessara manna. Hann nefnir Ólafsfjarðarveg, þar sé óskað eftir láni til þess að koma vegi áfram. Og af hverju fæst það ekki? Af hverju fæst það ekki til Siglufjarðarvegar, ekki til Ólafsfjarðarvegar, ekkert í Vestfjarðavegi og ekkert í Austurlandsvegi, þar sem þarfirnar eru brýnastar? En þó er þetta gert með lántökum í milljónatali og ég býst við innan skamms í tugmilljónatali í öðrum landshluta. Hvernig á að verja þetta?

Ég sé alls ekki eftir því, að ég hef ýtt á eftir þessu máli, til þess að það fengi afgreiðslu hér, og meiri hl. n. sá enga ástæðu til þess að fresta því. Þótt það væri imprað á þessu, þá var engin alvara í því, því að meiri hl. n. gat frestað málinu, ef hann vildi. Ef á að drepa málið, þá má gjarnan gera það strax. Ég hef ekkert á móti því. Ég tel það hreinlegra, miklu hreinlegra. Eða heldur hv. frsm., að mér hafi fundizt aðferðin, sem var notuð fyrstu tvö árin, eitthvað betri, að svæfa málið í nefnd? Nei, alls ekki betri. Ég er ekkert að ásaka hv. frsm. fyrir það, að hann leggur nú lið sitt til þess að drepa þetta frv. núna. Það hefði ekkert verið betra, þótt hann hefði seigdrepið það á nokkrum mánuðum.