03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt teljandi.

Um þann illvilja, sem hv. frsm. minni hl. varð svo tíðrætt um að væri hjá mér og meiri hl. samgmn. í garð þeirra byggðarlaga, sem illa eru sett með samgöngur, skal ég ekki ræða. Þar verður hver og einn að mynda sér skoðun um, eftir því sem honum finnst efni standa til, og draga sínar ályktanir út frá einhverju öðru en orðum þessa hv. þm. En það var aðeins eitt atriði, sem kom mér til að segja örfá orð, og það var, að hann sagði, að ég hefði sagt, að það hefði verið búið að ákveða lántöku til Keflavíkurvegar, þegar þáltill. sú um endurskoðun vegalaga, sem talað hefur verið um, var samþykkt 1961. Það, sem ég sagði, var það, að þegar vegamálanefndin starfaði og gerði sínar till., hefði þetta mál verið afgreitt fyrir alllöngu og þess vegna væri það fyrir utan umr. þessa máls. Hann fór ekki rétt með það, sem hann sagði um orð mín hér í ræðu áðan, og ég vildi leiðrétta það.