03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv. er ekki nýtt af nálinni. Það hefur verið flutt á öllum þingum þessa kjörtímabils, og hefur þá að sjálfsögðu komið til kasta samgmn. í þessari hv. d. að afgreiða málið. Við í meiri hl. höfum alltaf verið svo frjálslyndir, að við höfum eiginlega leyft minni hl. að ráða því, hvaða dauðdaga þetta frv. fengi. Við höfum látið þá vita, að við værum andvígir þessu frv. En hvort frv. heldur yrði svæft eða því væri vísað til ríkisstj., því hefur minni hl. yfirleitt fengið að ráða, og þess vegna, eins og síðasti ræðumaður tók fram, var það af tillitssemi við óskir minni hl., að við vísuðum þessu frv. til ríkisstj., af því að flutningsmenn heimtuðu afgreiðslu á því. Við töldum, að það gæti vel verið skynsamlegt að bíða með afgreiðsluna, þangað til séð væri til um það, hvort fram kæmi frv. til vegalaga á þessu þingi. En minni hl. óskaði eftir því, að frv. væri afgreitt, og ég verð að viðurkenna það sem formaður nefndarinnar, að þeir, sem flytja frv., eiga rétt á því, að frv. fái yfirleitt skjóta afgreiðslu.

Þetta frv. er byggt á því, að Vestfirðir og Austurland hafi á undanförnu löngu tímabili eða undanförnum áratugum orðið mjög út undan um fjárveitingar til nýbyggingar vega. Ég er í raun og veru þeirrar skoðunar, að það sé gert allt of mikið úr þessu hér í þessu frv. En ef þetta væri rétt, að þessir fjórðungar hefðu orðið svo mjög út undan, þá væri rétt að velta því fyrir sér, af hvaða orsökum það væri og hver ætti sökina á því. Hv. frsm. minni hl. og fleiri, sem hafa talað hér fyrir frv., hafa getið þess, að fyrir því lægju landfræðilegar ástæður, það væri miklu erfiðara um alla vegagerð á Austfjörðum og Vestfjörðum en öðrum landshlutum og af þessu mundi þetta fyrst og fremst stafa, að þessir landshlutar væru langt á eftir.

Mér dettur ekki í hug að halda annað en 1958, þegar vegamálastjóri lét framkvæma athugun á vegakerfi í landinu og ástandi þess, þá hafi allir menn vitað þetta um landslagið á Austfjörðum og Vestfjörðum og löngu fyrir þá skýrslugerð, þannig að auðvitað átti það þá að vera þannig, að það væri veitt meira fé í þessa staði á undanförnum áratugum, til þess að það skapaðist ekki misrétti, eins og hv. flm. þessa frv. álita og rökstyðja það með. Ef þeirra rök væru tekin gild, þá gæti þetta naumast stafað af öðru en því, að á fyrri árum, þegar Framsfl. fór með fjármálin og samgöngumálin, hafi hann vanrækt þessa staði, og það hlýtur þá að vera úr þeirri vanrækslu, sem hv. flm. þessa frv. eru að bæta, því að mér dettur ekki í hug að halda, að mönnum hafi ekki verið ljóst, hvað mikið var ógert eða hvernig ástandið var í þessum málum, fyrr en vegamálastjóri tók saman skýrslu um það árið 1958. Hitt vita svo allir, að a.m.k. frá því, að þessi ríkisstj. tók við völdum, hafa hærri fjárveitingar verið veittar á Vestfirði og Austfirði en í önnur kjördæmi. Ég man t.d. eftir bæði 1960 og 1961, þegar 4 millj. kr. voru veittar sérstaklega á fjárlögum til samgöngubóta á landi, þá fengu þessi tvö kjördæmi bróðurpartinn af því. Og ég hygg, að á hverju ári hafi í fjárlögum þessir staðir fengið 1–1½ millj. kr. umfram aðra, þannig að misréttið hefur væntanlega minnkað í tíð þessarar ríkisstj.

Hitt er svo annað mál, að ég er persónulega þeirrar skoðunar, að flm. þessa frv. geri allt of mikið úr því, hvað Vestfirðir og Austfirðir séu út undan í samgöngumálum. Það er alls ekki fullnægjandi að leggja fram þessar tölur frá vegamálastjóra 1958, þó að það hafi sjálfsagt orðið breyting til batnaðar fyrir þessa staði síðan, því að í fyrsta lagi er enginn kominn til að segja um, að þeir þjóðvegir og þau hlutföll milli þjóðvega í einstökum kjördæmum, sem þá voru og eru reyndar óbreytt enn í dag, eigi að gilda í framtíðinni. Það kann vel að vera, að þjóðvegakerfinu verði raskað. Það verði teknir inn nýir þjóðvegir og það verði felldir úr þjóðvegir, þannig að enginn veit, hvort þessi hlutföll milli kjördæmanna frá 1958 séu í sjálfu sér þau hlutföll, sem eðlilegt er að gildi í framtíðinni.

Í öðru lagi, þó að teiknaður hafi verið vegur og tekinn inn á vegalög sem þjóðvegur, þá þarf það raunverulega ekki alltaf að sýna ríka nauðsyn þess, að sá vegur sé lagður. Það getur vel verið, að þm. þessara staða hafi hér áður fyrr verið duglegri en aðrir við það að fá þjóðvegi teiknaða og tekna inn á vegalög, og það verður líka að taka það með í reikninginn, þegar á þetta er litið.

Ég lít svo á, að þegar þarf að taka ákvörðun um það, hvar fyrst og fremst eigi að verja fé til samgöngubóta, þá verði aðallega að leggja áherzlu á, hvað það kemur mörgum landsmönnum að gagni. Það er fyrst og fremst fólksfjöldinn, sem þarf að leggja áherzlu á, þegar teknar eru ákvarðanir um, hvar eigi að leggja áherzlu á nýjar vegaframkvæmdir. Það er ekki endilega vegalengdin, heldur fólksfjöldinn. Mér skilst um þessar vegaframkvæmdir, sem þarna eru fyrirhugaðar, það er að vísu ekki tekið fram, hvaða ákveðnu framkvæmdir eigi að gera, — að þetta séu ákaflega fámenn byggðarlög. Ég er auðvitað ekki á móti því, að allir komist í vegasamband, og það er út af fyrir sig nauðsynlegt að auka vegaframkvæmdir alls staðar á landinu. Fjármagnið er hins vegar ekki nægilegt til þess að verða við óskum allra, og þá verðum við auðvitað að velja og hafna. Og ég tel, að langmestu áherzluna verði að leggja á þær vegaframkvæmdir, sem koma sem flestum að notum. Og þá mun ég t.d. taka fram yfir aðrar vegaframkvæmdir, eins og borið hefur á góma, og það er Siglufjarðarvegur, þar sem fjölmennur kaupstaður er samgöngulaus á landi meiri hluta ársins. Það verður líka að taka tillit til annarra atriða, við skulum segja eins og t.d. um Siglufjörð, að hann nýtur engra flugsamgangna. Það geta aðrir staðir, sem hafa slæmar samgöngur á landi, haft góðar flugsamgöngur. Þá er ýmislegt, sem verður að taka tillit til. Ég tel því, að ef maður hefur það sjónarmið í huga, fólksfjöldann, sem á að njóta þeirra framkvæmda, þá séu ekki eins sterk rök fyrir því að styðja að þessum auknu vegaframkvæmdum á Austfjörðum og Vestfjörðum og hv. flm. þessa frv. vilja vera láta.

Það hefur borið hér lítillega á góma erlendar lántökur til vegaframkvæmda. Yfirleitt tel ég, að það sé allvarhugavert að leggja vegi fyrir erlent fé. En hvort það á að gera eða ekki, hlýtur þó að fara talsvert eftir fjárhagsástandinu og gjaldeyrisástandinu á hverjum tíma. Og þó að það hafi ekki verið talið ráðlegt á fyrstu árum viðreisnarinnar, hefur viðreisnarstefnan þó borið þann árangur, að það mætti vissulega endurskoða þá afstöðu, sem þá var tekin.