03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2093)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð til að leiðrétta eitt atriði, sem fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), og þykir mér miður, að hann hefur vikið af fundi í bili. En þar sem umr. er að ljúka, vil ég ekki láta það undan falla að láta þessa leiðréttingu koma fram.

Hv. þm. dró þá ályktun af ummælum mínum hér áðan, að við flm. þessa máls teldum, að ekki hefði verið hægt að vinna að þessu máli fyrr en eftir að núv. kjördæmaskipun var lögleidd. Þetta er röng túlkun á ummælum mínum. Og ég hygg, að þessi misskilningur stafi af því, að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi ekki verið viðstaddur fyrri hluta þessarar umr. í dag. Jafnglöggur maður og hann er gat naumast skilið orð mín á þennan veg, hefði hann hlustað á allt það, sem hér hefur fram komið.

Það hafði komið fram í umr., áður en ég tók til máls, að það hefði áður verið vanrækt af þeim, sem áttu að vera málsvarar fyrir Austurland og Vestfirði, að halda nógu vel fram hlut þessara landssvæða í sambandi við skiptingu vegafjár, og var vitnað til þess, hvað þeir, sem nú væru í stjórnarandstöðu, hefðu gert, meðan þeir höfðu meiri völd á þingi og studdu þá ríkisstj., sem þá sat. Ummæli mín voru einungis sögð til þess að svara þessu og benda á, að eðli málsins væri ekki það, að einn eða neinn hefði vanrækt að beita sér fyrir leiðréttingu í þessum efnum, og það væri ekki réttmætt eða sanngjarnt að gera þar upp á milli þm. eftir því, í hvaða flokkum þeir væru, því að meðan einmenningskjördæmi voru í landinu, hefðu sum þau sýslufélög, sem í hlut ættu, notið forustu sjálfstæðismanna. Af þessu leiðir það, að það eru ekki rétt túlkuð mín orð á þann hátt, að að þessu hefði ekki verið hægt að vinna, fyrr en eftir að núv. kjördæmaskipun var lögleidd, heldur ber að skilja orð mín þannig, að eðli málsins er það, eins og m.a. síðasti ræðumaður vék að, að þarna er um erfitt viðfangsefni að ræða og að við setningu fjárlaga um langt skeið hefur mjög verið fylgt þeirri reglu að gera ekki stórbreytingar á fjárframlögum til hinna einstöku héraða frá því, sem gilt hefur að undanförnu. Og í því ljósi verðum við fyrst og fremst að skoða þetta mál, sem hér er til umr.