01.11.1962
Neðri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

49. mál, félagsheimili

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við þm. Austfirðingakjördæmis í þessari hv. þd. höfum leyft okkur að endurflytja frv. það um breyt. á félagsheimilalögunum frá 1947, sem við lögðum fyrir hv. deild á síðasta þingi. Sökum þess, hve frv. var þá seint fram komið, vannst ekki tími til afgreiðslu þess, en nál. frá hv. menntmn. kom fram, þar sem einróma var lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Þegar frv. var lagt fyrir á síðasta þingi, var í framsögu og grg. gerð allýtarleg grein fyrir málinu, og fylgir sama grg. frv. nú. Þar sem svo stutt er síðan málið lá fyrir hv. þd., verður að ætla, að hv. þdm. sé það enn nokkuð í fersku minni og því ekki nú ástæða til að hafa um það mörg orð. En ég vil aðeins minna á, að tildrögin eru þau, að öll sveitarfélög Fljótsdalshéraðs, 10 að tölu, hafa bundizt samtökum um að byggja sameiginlegt félagsheimili, þ.e. héraðsheimili, í Egilsstaðakauptúni, og hafa sveitarstjórnirnar mælzt til þess við okkur þm. Austf., að við flyttum þessa brtt. við félagsheimilalögin, sem miðar að því að létta lítils háttar það mikla og nauðsynlega átak, sem sveitarfélög þessi ætla að ráðast í.

Aðalatriðið í brtt. okkar er, að félagsheimilasjóði sé gert heimilt að greiða allt að 50% af stofnkostnaði héraðsheimilis, ef innanhéraðssamtök eru mynduð um byggingu þess og að þeim samtökum standa a.m.k. 80% af sveitarfélögum héraðsins og minnst þrjú.

Jafnframt leggjum við til, að síðasta málsgr. 2. gr. félagsheimilalaganna falli niður. En þar er fram tekið, að ef félagsheimili nýtur sérstaks byggingarstyrks frá ríkissjóði, þá skuli þó sá styrkur og framlag félagsheimilasjóðs aldrei nema meiru samtals en 40% af byggingarkostnaði. Þetta ákvæði hefur að sögn í nokkrum tilfellum reynzt óheppilegt. Komið hefur fyrir, að ríkið hafi séð sér verulegan hag í að öðlast viss réttindi í félagsheimilum, og veit ég þess dæmi, að það hefur með sérstöku fjárframlagi tryggt barna- og unglingaskóla frambúðarrétt til leikfimiskennslu í félagsheimili og þannig sparað byggingu leikfimishúss. Þótt þetta umrædda ákvæði laganna sé fellt niður, veldur það ekki aukinni fjárhagsbyrði fyrir félagsheimilasjóð, en opnar aðeins eðlilega leið fyrir hið opinbera, þegar það telur sér það hagkvæmt.

Herra forseti. Ég vil mælast til þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.