17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

49. mál, félagsheimili

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um félagsheimili er flutt af öllum þm. Austurlands, sem sæti eiga í þessari hv. d. Það var flutt á síðasta þingi og fékk afgreiðslu í menntmn., sem lagði einróma til þá, að frv. yrði samþ. En málið kom svo seint fram á því þingi, að ekki vannst tími til að ljúka afgreiðslu þess úr d., og er málið því flutt öðru sinni nú. Og enn hefur menntmn. samþ. einróma, að frv. verði samþ.

Þetta frv. gerir ráð fyrir nokkrum breyt. á l. um félagsheimili frá 1947. Eins og kunnugt er, tóku þau lög gildi 1. jan. 1948, og hafa félagsheimili verið reist samkv. þeim víðs vegar um land, bæði stór og smá. Hafa þau verið byggð af ýmsum einstökum félögum, svo sem ungmennafélögum, íþróttafélögum og kvenfélögum og fleiri slíkum innan sama sveitarfélags, og svo hefur sveitarfélagið sjálft oftast nær eða ætið verið einn stærsti þátttakandi ásamt slíkum félögum. Hefur hið opinbera eða ríkissjóður veitt styrk nokkurn til slíkra bygginga, og er heimild til þess að veita styrk að fjárhæð allt að 40% af byggingarkostnaði.

Nú hefur það komið í ljós, að sums staðar háttar svo, að nauðsyn ber til, að sveitarfélög fleiri í senn geti haft tök á sameiginlegu samkomuhúsi til félagslegra starfa og mannfagnaðar. Eru þá félagsheimili einstakra sveitarfélaga ekki til staðar eða þá þannig staðsett og óhentug, að þau geta alls ekki átt við, svo að vel fari. Þegar svo ber við, hljóta samtök fleiri sveitarfélaga og ýmiss konar félaga innan þeirra að koma til og reisa sameiginlegt héraðsheimili á hentugum stað innan héraðsins. Eðlilega yrði þá um stærri byggingu að ræða, sem fullnægði betur sameiginlegri þörf hins stóra svæðis. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að félagsheimilasjóði — og það er höfuðatriði þessa frv. — sé heimilt að veita styrk, þar sem um félagsheimili er að ræða, sem mörg sveitarfélög standa að og félög innan sama héraðs. Það skilyrði er sett, að 80% af sveitarfélögum héraðsins og eigi færri en 3 hafi gert með sér samning um að reisa og reka slíkt heimili. Og má styrkurinn, þegar svo stendur á, nema allt að 50% af byggingarkostnaði. Það sýnist eðlilegt, að styrkur af opinberri hálfu sé nokkru hærri til slíks heimilis, héraðsheimilis, m.a. vegna þess, að um verulega stærra átak ræðir en venjulegt er um félagsheimili, og auk þess mætti hugsa sér, að þörf einstakra sveitarfélaga til stærri félagsheimila minnkaði að sama skapi og félagsheimilasjóði sparaðist þar af leiðandi hlutfallslega fé. Og það má enn fremur alveg hiklaust telja, og það er álit nm., að héraðsheimili geti orðið enn notadrýgra til félagslegra samtaka og traustara samkomuhalds og svo auðveldara í rekstri á ýmsa lund heldur en hin minni félagsheimili.

Ég tel ekki þörf að ræða málið nánar, en leyfi mér að vísa til grg., sem fylgir frv., og enn fremur til ítarlegrar ræðu 1. flm. frv. Legg ég svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.