17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

49. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil gjarnan láta það koma fram nú við 2. umr. þessa máls, að málefni félagsheimilanna eða félagsheimilasjóðs eru í sérstakri athugun í menntmrn.

Svo sem öllum hv. dm. er án efa kunnugt, hefur ríkisvaldið til umráða til styrktar byggingu félagsheimila helming af skemmtanaskatti. Hinn helmingur skemmtanaskattsins rennur til þjóðleikhússins til greiðslu á rekstrarhalla þess. Það hefur komið í ljós um mörg undanfarin ár, að þessi helmingur skemmtanaskatts, sem hefur numið 3–3½ millj. kr. á ári, dugir hvergi nærri til að greiða þá hámarksstyrkupphæð, sem gildandi lög um félagsheimili gera ráð fyrir að félagsheimilasjóður greiði, en heimild er til að greiða til að styrkja byggingu félagsheimilis allt að 40% byggingarkostnaðar. Það hefur undanfarin ár vantað mjög mikið á, að helmingur skemmtanaskatts hafi dugað til að greiða 40% byggingarkostnaðar þeirra félagsheimila, sem byggð hafa verið eða í byggingu eru nú, og hefur þess vegna mjög mikið á það skort, að félagsheimilasjóður hafi getað innt af hendi þann hámarksstyrk, sem lögin gera ráð fyrir. En ástæða er til að undirstrika það, að gildandi lög um félagsheimilasjóð leggja ekki skyldu á sjóðinn um að greiða 40% styrk, heldur er þar um hámarksheimild að ræða, og sjóðurinn greiðir að sjálfsögðu ekki meira en helmingur skemmtanaskatts hrekkur til að inna af hendi. En ríkisstj. er algerlega ljóst, að við svo búið má ekki öllu lengur standa, að í fyrsta lagi séu byggð félagsheimili hér þannig, að byggingarkostnaður þeirra sé miklu meiri en nokkur von er til þess, að helmingur skemmtanaskatts geti styrkt með 40% byggingarkostnaðar, samtímis því sem þessi ákvæði séu í lögum, að heimilt sé að greiða 40% byggingarkostnaðar í styrk. M.ö.o.: annaðhvort verður að gerast, að aflað sé fjár til viðbótar skemmtanaskattinum eða l. um skemmtanaskatt sé breytt, þannig að hann gefi meiri tekjur, ef það á að vera raunhæft, sem nú er í lögum, að félagsheimilasjóður megi styrkja allt að 40% af byggingarkostnaði. Þetta hefur valdið því, að þessi mál eru, eins og ég sagði í upphafi, í sérstakri athugun, og er sú athugun tengd athugun, sem fer samhliða fram á lögunum um skemmtanaskatt.

Um nokkurt skeið undanfarið hafa komið fram hér á Alþingi till, til breyt. á gildandi skemmtanaskattslögum, en aldrei náðst um þær breytingar samstaða. Nú hefur undanfarnar vikur farið fram alveg sérstök athugun á möguleikum þess að auka tekjur af skemmtanaskatti, og ætti þá félagsheimilasjóður að geta notið góðs þar af, ef samkomulag næðist um þær breyt. á skemmtanaskattinum, sem till. verða væntanlega lagðar fyrir Alþingi um, þegar það kemur saman aftur. En það vildi ég þó taka fram, að ekki er nokkur von til þess, að hægt sé að auka tekjur af skemmtanaskatti svo mjög, að það dugi til þess að greiða 40% af byggingarkostnaði þeirra félagsheimila, sem byggð hafa verið undanfarin ár og gera má ráð fyrir að verði byggð á næstu árum, þannig að ég tel Alþingi standa þarna frammi fyrir þeim vanda, þegar það kemur saman aftur nú eftir þinghléið, að gera upp við sig, hvort það er reiðubúið til að finna nýjan tekjustofn, sem félagsheimilasjóður geti fengið til umráða. Ég segi það aftur og undirstrika það, að þó að samkomulag næðist um aukningu, — ekki hækkun á skemmtanaskattinum, heldur aukningu á gjaldsviði hans, — þótt samkomulag næðist um þær breytingar á skemmtanaskattslögunum, sem gætu aukið tekjur af skemmtanaskatti nokkuð, þá tel ég vonlaust, að sú hækkun geti verið svo mikil, að það leysi fjárhagsvandamál félagsheimilasjóðs, þannig að nauðsynlegt mun vera að grípa til annarra ráðstafana til viðbótar, ef Alþingi vill, að ákvæðið um 40% styrk félagsheimilasjóðs af byggingarkostnaði sé annað en dauður bókstafur, svo sem það raunverulega hefur verið undanfarin ár.

Ég vona, að þegar í upphafi starfstíma þingsins eftir þinghléið verði hægt að leggja fram till. um breytingar á skemmtanaskattslögunum, sem leysi hluta af vanda félagsheimilasjóðsins. Í því sambandi er einnig hugsanlegt, að lagðar verði fram till. um breyt. á félagsheimilalögunum, viðtækari en þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En um þetta frv. út af fyrir sig vil ég aðeins segja það, að ég tel meginhugsunina í því stefna í rétta átt, hana út af fyrir sig vera skynsamlega, þar sem með þessu frv. er stefnt í þá átt, að félagsheimilin verði færri og stærri en þau hafa orðið undanfarið. Það er breyting í rétta átt, og ég tek undir með þeim ræðumönnum, sem það hafa sagt, að það mun eflaust verða til sparnaðar í byggingarkostnaði og þá um leið til sparnaðar á styrk félagsheimilasjóðs til bygginganna, að þessi stefna sé tekin. En vera má, eð enn lengra þurfi að ganga í þessa átt m.a. heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv., og þá verður Alþingi að gera það mál upp við sig þegar eftir þinghléið, því að ég er þeirrar skoðunar, og skulu það vera mín síðustu orð að þessu sinni, að það sé ekki vansalaust, að Alþingi láti árum saman, ef ekki áratugum saman, standa í lögum ákvæði, sem heimila ákveðnum opinberum sjóði, í þessu tilfelli félagsheimilasjóði, að styrkja byggingar að ákveðnum hundraðshluta, en Alþingi sjái sama sjóði ekki fyrir nægilegu fé til að fullnægja þessu ákvæði sinna eigin laga. Annaðhvort verður að gerast, að Alþingi afli fjár, sem geri sjóðnum kleift að standa undir skuldbindingum sínum, eða breyta skuldbindingunum þannig, að það fé, sem Alþingi veitir, sé raunhæf fjárveiting í þessu skyni.