16.04.1963
Efri deild: 73. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2120)

49. mál, félagsheimili

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. þd. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess frv., sem hér er til umr. Hv. 5. þm. Austf. hefur skilað sérnál., en hv. 5. þm. Reykn. var fjarverandi, þegar afstaða var tekin til málsins í n. Meiri hl. n. leggur hins vegar til, að málinu verði vísað til ríkisstj.

Samkv. núgildandi lögum um félagsheimili er hámark styrks úr félagsheimilasjóði til byggingar félagsheimila 40% af byggingarkostnaði. Með frv. er lagt til, að styrkur geti farið upp í 50% af byggingarkostnaði, ef um er að ræða sameiginlegt félagsheimili margra félaga og sveitarfélaga ákveðins héraðs, og eru þessi félagsheimili í frv. nefnd héraðsheimili.

Í grg. með frv. víkja hv. flm. að því, að með byggingu slíkra héraðsheimila vinnist það á, að félagsheimilin í einstökum sveitum verði höfð smærri í sniðum, sniðin eftir heimaþörf að mestu og þannig muni sparast í stofnkostnaði fé fyrir hlutaðeigandi sveitir og þar með fyrir félagsheimilasjóð og um leið verði rekstur þessara heimila hagkvæmari og kostnaðarminni fyrir þá aðila, sem að rekstrinum standa. Hvort það, sem þannig kann að sparast, vegur á móti framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitar til byggingar og rekstrar héraðsheimilisins, skal látið ósagt, en af grg virðist mega ráða, að flm. telji, að svo muni ekki verða, enda mætti þá ef til vill segja, að grundvöllur væri hæpinn fyrir hærri byggingarstyrk til héraðsheimila, ef hlutaðeigandi sveitir sæju sér beinlínis fjárhagslegan ávinning að byggingu héraðsheimila vegna lækkaðs byggingar- og rekstrarkostnaðar heima fyrir. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. og hv. þm. er reyndar öllum kunnugt, skortir nú í dag milljónatugi á, að félagsheimilasjóður geti staðið undir sínum skuldbindingum. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér um þetta nýverið í menntmrn., munu skuldir félagsheimilasjóðs vegna framkvæmda, sem þegar hafa farið fram, nema um 23 millj. kr., og fyrirsjáanlegt, að við þetta bætast 24 millj. vegna framkvæmda, sem í gangi eru, þ.e.a.s. með því, sem enn er óunnið við þær framkvæmdir. Þetta gerir samtals milli 47 og 48 millj., sem vantar á, að endarnir nái saman. Að vísu mun það fé, sem félagsheimilasjóður hefur til umráða á næstu árum, ganga til greiðslu á þeim upphæðum, en einnig má búast við, að ráðizt verði í nýjar framkvæmdir, sem félagsheimilasjóður þarf þá jafnframt að standa undir að sinum hluta. Meðan svo horfir, telur meiri hl. menntmn. óeðlilegt að hækka hlutfallslega framlög til einstakra framkvæmda.

Síðan málið var afgr. í n., hefur það gerzt, að lagt hefur verið fram í hv. Nd. Alþingis stjórnarfrv. um breyting á skemmtanaskattslögunum. Í því frv. er lagt til að undanþiggja ýmiss konar samkomuhald skemmtanaskatti, en jafnframt að leggja sérstakan nýjan skemmtanaskatt á gesti vínveitingahúsa. Í grg. með því frv. segir, að erfitt sé að áætla með vissu annars vegar, hve mikið hinar nýju undanþágur muni lækka tekjur af skemmtanaskattinum, og hins vegar, hve mikill tekjuauki verði af hinum nýja skatti á gesti vínveitingahúsanna, en um hið síðarnefnda er gerð lausleg áætlun, sem allur fyrirvari er þó hafður á um að staðizt geti að nákvæmni. Það er þó talið, að frv., ef að lögum verður, sem full ástæða er til að ætla, að það hljóti fullnaðarafgreiðslu nú á þessu þingi, — það er þó talið, að það muni auka heildartekjur af skemmtanaskatti, en hann rennur, svo sem kunnugt er, að helmingi í félagsheimilasjóð. Með tilliti til hinnar erfiðu afkomu félagsheimilasjóðs og þess, að ekki er vitað með neinni vissu, að hve miklu leyti fram komið stjórnarfrv. um breytingar á skemmtanaskattslögunum mundi auka tekjur félagsheimilasjóðsins, telur meiri hl. menntmn. ekki hægt að mæla með samþykkt þess frv., sem hér er til umr., og leggur því til, að því verði vísað til ríkisstj.