16.04.1963
Efri deild: 73. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2121)

49. mál, félagsheimili

Fram. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Þetta frv., sem hér er til umr., er 49. mál þingsins. Það var flutt í hv. Nd. s.l. haust og hefur því verið mjög lengi til athugunar í þinginu. Það felur í sér það nýmæli, að styrk megi veita til félagsheimilis, sem ætlað er að vera samhýsi eða héraðsheimili félaga og sveitarfélaga ákveðins héraðs, þannig að styrkurinn nemi þá 50% af byggingarkostnaði. En til þess að þessu skilyrði sé fullnægt, að húsið teljist héraðsheimili, þurfa 80% sveitarfélaga héraðsins og eigi færri en 3 að hafa gert með sér samning um að reisa og reka félagsheimili.

Það er augljóst, að ef frv. þetta yrði samþ., mundi það leiða til verulegra hagsbóta á vissum stöðum, þar sem verið er að reisa hús, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem ákveðin eru í frvgr. að þurfi að vera fyrir hendi, til þess að styrkur geti numið 50%. Hins vegar er jafnaugljóst, að hús, sem fullnægja þessum skilyrðum, eru ekki mjög mörg. Staðhættir hér á landi eru þannig, að það getur aldrei mikill fjöldi félagsheimila fallið undir þau ákvæði, sem í frvgr. segir. Vegna þess er ekki ástæða til að ætla, að af samþykkt frv. mundi leiða stórfelldan útgjaldaauka fyrir félagsheimilasjóð. Það fór og svo, að menntmn. Nd., sem hafði þetta mál til athugunar alllengi á fyrri hl. þessa þings, mælti einróma með samþykkt frv. og gaf út um það nál. 5. des. 1962. En svo virðist á afstöðu hv. meiri hl. menntmn. sem einhver skoðanaskipti hafi orðið síðan fyrir síðustu áramót, því að meiri hl. hv. menntmn. þessarar hv. d. getur ekki fallizt á að mæla með samþykkt frv., en leggur til, að því verði vísað til ríkisstj.

Nú er það rétt, sem hv. frsm. meiri hl. menntmn. tók fram, að fjárhagur félagsheimilasjóðs er ekki traustur, og svo hefur verið um skeið, að félagsheimilasjóð hefur tilfinnanlega vantað fé til að standa straum af þeim gjöldum, sem honum ber að inna af hendi samkv. félagsheimilasjóðslögunum. En þetta er ekki nýtilkomið. Ég sé ekki, að félagsheimilasjóður standi að þessu leyti verr að vígi, svo að teljandi sé, heldur en fyrirsjáanlegt var 5. des. 1962, þegar hv. menntmn. Nd. afgreiddi þetta frv., og svo nokkrum vikum síðar, þegar hv. Nd. samþykkti frv.

Það hefur verið gefið í skyn nú á síðari hluta þessa þings, að von væri á frv. frá hæstv. ríkisstj., sem miðaði að því að efla hag félagsheimilasjóðs, og nú síðustu dagana hefur komið fram frv. um breyt. á l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, og munu í því felast þær till., sem hæstv. ríkisstj. hyggst leggja fyrir þetta þing og reyna að koma fram í þessu efni. Ég fæ því ekki séð, að það sé í sjálfu sér eftir neinu að bíða með að lögfesta þau ákvæði, sem í þessu frv. felast, enda er nú komið að lokum þessa þings. En till. meiri hl. um að vísa málinu til ríkisstj. jafngildir að sjálfsögðu því, að þetta frv. sé fellt, vegna þess að ríkisstj. hefur ekki að óbreyttum lögum heimild til að greiða meira en 40% stofnkostnaðar úr félagsheimilasjóði; þótt hún kynni að hafa hug á því eða álita það réttmætt í vissum tilfellum. Ég legg því til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir á þskj. 49.