17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til fjárl. fyrir 1961 var lagt fram hér á Alþingi í byrjun þings haustið 1960, og 1. umr. um það fór fram 24. okt. þ. á. Þá lét hæstv. fjmrh. þess getið, að við undirbúning fjárlaganna hefði verið reynt að færa gjöldin niður og sú viðleitni hefði borið þann ávöxt, að 10 af 14 gjaldagreinum fjárlaganna væru nú lægri en árið áður. Það var látið mjög vel af þessu í aðalmálgagni ríkisstjórnarinnar. Þar var látin uppi ánægja mikil yfir því, að nú hefði orðið allmikil lækkun útgjalda flestra gjaldagreina fjárlaganna, og blaðið taldi það mikilsvert, að horfið væri frá hinum sífelldu útgjaldahækkunum og þenslu ríkisbáknsins, eins og það var orðað þar í ritstjórnargrein.

En margt fer öðruvísi en ætlað er. Nú liggur fyrir ríkisreikningurinn fyrir árið 1961, og hann segir aðra sögu. Skv. ríkisreikningnum eru það aðeins 3 gjaldagreinar, sem hafa orðið lægri en árið áður, árið 1960. Það er í fyrsta lagi 9. gr., þar er færður kostnaður við Alþingi. Þau gjöld hafa orðið nokkru lægri 1961 en árið áður. Munurinn er 1 millj. 436 þús. kr., og stafar þetta af því, að þing stóð skemmri tíma síðara árið en hið fyrra. Þá er það 15. gr., sem er kostnaður við kirkjumál. Þau gjöld hafa orðið 102 þús. kr. minni árið 1961 en 1960. Og loks er það 16. gr. Við samanburð á henni sést, að árið 1961 hefur verið varið til landbúnaðarmála 1 millj. 497 þús. kr. lægri fjárhæð en árið áður og til raforkumála rúmum 4 millj. 182 þús. kr. minna en árið áður. Aftur hafa aðrir liðir á 16. gr. orðið nokkru hærri árið 1961 en 1960, svo að í heild er niðurstaðan sú, að gjöld á þeirri gr. eru 3 millj. 394 þús. kr. lægri en þau voru næsta ár á undan. En allar aðrar útgjaldagreinar á ríkisreikningi 1961 en þær 3, sem hér hafa verið nefndar, eru hærri en þær voru 1960. Og alls eru gjöldin á rekstrarreikningi ríkissjóðs 1961 um 177 millj. kr. hærri en þau voru 1960.

Það hefur komið fram við athugun á þessu máli, að það vantar tæpar 8 millj. kr. inn á þennan ríkisreikning gjaldamegin. Í árslok 1961 var búið að verja til nýja Keflavíkurvegarins 7821922.47 kr. En þessi upphæð sést ekki á ríkisreikningnum, og virðist mér því gjöldin vera vantalin sem því nemur. Þá var einnig búið að taka lán til þessarar vegargerðar hjá Seðlabanka Íslands rúmlega 3.8 millj. og hjá Framkvæmdabanka Íslands 3.7 millj, kr. Ég get ekki séð, að þessar skuldir séu heldur færðar á ríkisreikninginn 1961.

Ég hef gefið út sérstakt nál. um þetta frv. á þskj. 197. Þar með fylgir grg. frá ríkisendurskoðuninni um, hvað eftir er að endurskoða af reikningum ríkisstofnana og fleira hinn 19. nóv. s.l. Þessi listi er prentaður með nál. mínu, og kemur þar fram, að það er allmikið óendurskoðað enn af þeim reikningum, sem ríkisreikningurinn byggist á. Af þeirri ástæðu tel ég ekki tímabært að afgreiða frv. að svo stöddu, heldur vil ég leggja til, herra forseti, að málið verði tekið út af dagskrá og ekki tekið fyrir fyrr en á framhaldsþinginu síðar í vetur. Þá mætti fá nýjar upplýsingar frá endurskoðunardeild fjmrn. um, hvað endurskoðuninni liði, og mætti þá ganga frá frv. og samþ. það á framhaldsþinginu, ef endurskoðuninni væri þá lokið.