21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

119. mál, náttúrurannsóknir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Atvinnumálanefnd ríkisins hefur fyrir nokkru samið a.m.k. tvö frv. varðandi vísindi og rannsóknarmál. Tvö þessara frv. hafa verið lögð fyrir þingið, annað það, sem hér er til umr., frv. um almennar náttúrurannsóknir og náttúrufræðistofnun, og hitt stærra og viðtækara frv. um hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna o.fl.

Enda þótt þessi frv. væru samin af sömu nefnd og hefðu samflot inn í þingið, eru þau ekki svo tengd hvort öðru, að þau þurfi að sigla saman gegnum þing. Um þetta frv. um náttúrurannsóknir og náttúrufræðistofnun er, að því er menntmn. hefur komizt næst, enginn ágreiningur og hefur ekki verið. Fram hafa komið eindregnar óskir frá náttúrugripasafninu, sem nú á að breytast í náttúrufræðistofnun, að frv. verði ekki látið bíða eftir hinu frv., og þess vegna hefur menntmn. afgreitt frv. til 2. umr., enda þótt ekki sé lokið athugun á stærra frv.

Helztu breytingar, sem þetta frv. gerir á skipulagsmálum náttúrurannsókna, eru þessar: Það breytir í fyrsta lagi nafninu Náttúrugripasafn Íslands í Náttúrufræðistofnun Íslands, og um leið er staðfest, að hér er ekki aðeins um safn að ræða, heldur almenna vísindastofnun. Að vísu hefur þetta verið viðurkennt í verki um allmargra ára skeið, því að náttúrugripasafnið varð að ríkisstofnun í ársbyrjun 1947 og hefur síðan í vaxandi mæli haft forustu um hinar almennu rannsóknir á sviði dýrafræði, grasafræði, jarðfræði og landafræði. En sjálfsagt þykir að staðfesta formlega með nafni og lögum hið eiginlega starf og verkefni þessarar stofnunar.

Í öðru lagi er með þessum lögum gerð skýr verkaskipting, eftir því sem hægt er, á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem verður, og rannsóknaráðs ríkisins. Mörk hafa verið óljós milli þessara stofnanna, og hefur sá vandi verið leystur þannig í raun, að rannsóknaráðið hefur æði oft falið Náttúrugripasafni Íslands að gegna þessu eða hinu hlutverki.

Í 2., 3. og 4. gr. þessa frv. eru ákvæði, sem fjalla um ýmis atriði, sem áður voru í verkahring rannsóknaráðs, en allir aðilar, þ. á m. rannsóknaráð, eru sammála um, að eigi heima hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Þetta eru þær höfuðbreytingar, sem gerðar eru með frv. Frv. hafði, áður en það var flutt, verið borið undir Háskóla Íslands. Háskólinn hafði gert smávægilegar aths., og var tekið tillit til þeirra, áður en frv. var flutt. Síðan hefur verið leitað umsagna náttúrugripasafnsins og rannsóknaráðs, og eru báðir aðilar sammála um, að æskilegt sé, að frv. nái fram að ganga, og engar till. hafa heyrzt um breytingar á því. Í samræmi við þetta mælir menntmn. með, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.