14.03.1963
Neðri deild: 53. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

193. mál, höfundalög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Nd. Alþingis samþykkti hinn 12. maí 1959 rökst. dagskrá um endurskoðun á höfundalöggjöfinni. Aðalákvæði um höfundarétt eru nú í lögum um rithöfundarétt og prentrétt, nr. 13 20. okt. 1905, en þau lög eru fyrir löngu orðin á eftir tímanum í mörgum atriðum. Með l. nr. 49 1943 var ákveðið, að l. frá 1905 skyldu einnig taka til hvers konar listgreina, svo sem málaralistar og myndhöggvaralistar, en þess var þá ekki gætt, að vegna þessa viðauka hefði þurft að setja ný efnisákvæði um réttindi listamanna, þar sem reglur l. nr. 13 1905 voru á takmörkuðu sviði og áttu alls ekki við um sumar listgreinar, sem við bættust. Breytingin 1943 var hins vegar óhjákvæmileg, til þess að Ísland gæti fengið inngöngu í Bernarsambandið. En auk þessa eru ákvæði í. nr. 13 frá 1905 orðin úrelt og á eftir tímanum um réttindi rithöfunda og tónskálda. Mun óhætt að fullyrða, að í engu Bernarsambandsríki sé höfundalöggjöf svo áfátt sem hér á landi.

Hinn 2. júlí 1959 fól ég dr. Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara að semja nýtt frv. til höfundalaga, en hann er sá Íslendingur, sem hefur dýpsta fræðiþekkingu á höfundarétti. Hefur dr. Þórður samið það frv., sem hér er nú lagt fyrir Alþingi, og þá grg., sem fylgir frv. Þar sem hún er mjög ýtarleg, mun ég láta mér nægja að rekja aðalefni málsins.

Hin Norðurlöndin, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, höfðu frá því laust fyrir 1950 haft með sér samvinnu um endurskoðun höfundalöggjafar. Settu þau sér öll ný höfundalög á árunum 1960–61. Hefur þessi nýja löggjöf verið lögð til grundvallar við samningu þessa frv., bæði vegna æskilegrar samræmingar á norrænni löggjöf og þess ekki síður, að norrænu lögin eru vandlega yfirveguð og samin. Víkja ákvæði frv. ekki í neinum verulegum atriðum frá efni norrænu laganna, en niðurröðun ákvæðanna er ekki að öllu leyti hin sama. Hliðsjón hefur einnig verið höfð af nýjum frönskum höfundalögum frá 11. marz 1957 og frv. til höfundalaga Vestur-Þýzkalands frá 23. marz 1962.

Í I. kafla frv. eru ákvæði um þau réttindi, sem höfundar hafa á verkum sínum, ef þau verða talin til bókmennta eða lista. Er hér ekki um neina efnisbreytingu að ræða frá núgildandi rétti. Aðalréttindin eru í því fólgin, að höfundar hafa í fyrsta lagi einkarétt til að gera eintök af verkum sínum, svo sem prentun bóka og nótna, upptöku á hljómplötur eða önnur hljóðrit, eftirprentanir málverka, eftirmynd höggmynda o.s.frv. Í öðru lagi hafa höfundar einkarétt til að birta verk sín opinberlega, t.d. að dreifa þeim í söluskyni, leyfa, að leikrit séu leikin, sögur eða ljóð lesin upp á samkomum eða í útvarpi o.s.frv. Loks er höfundum áskilinn persónulegur réttur til að njóta heiðurs af verkum sínum.

Í II. kafla frv. eru gerðar ýmsar takmarkanir á réttindum höfunda samkv. I. kafla. Eru þær flestar hinar sömu, sem nú gilda, beint eða óbeint. Samsvarandi ákvæði í núgildandi lögum taka aðeins til rithöfunda og tónskálda, og hljóta því fyrirmæli frv. að verða miklu ýtarlegri. Um einstakar greinar er rétt að taka þetta fram:

Í 11. gr. er gerð veigamesta takmörkunin á réttindum höfunda. Er mönnum hér heimilað að gera eintök af vernduðum verkum höfunda án samþykkis þeirra, ef eintökin eru höfð til einkanota eingöngu. Er þetta ákvæði óbreytt að efni til frá því, sem nú gildir. Sérstaklega má geta þess, að í frv. eru engin ákvæði, sem hindra frjálsa upptöku á segulbandstæki til einkanota, t.d. eftir hljómplötu, útvarpi o.s.frv. Er um þetta fylgt fordæmi norrænu laganna. Að vísu er talið, að slíkar upptökur muni draga úr sölu á hljómplötum og skerða þannig að einhverju leyti réttindi höfunda, einkum tónskálda, en ekki kemur til mála að banna upptöku af þeim sökum. Ekki virðist heldur framkvæmanlegt að leggja árleg afnotagjöld á segulbandstæki eða segulbandsupptökur. Annað mál er það, hvort innflutningur segulbandstækja yrði skattlagður til hagsmuna fyrir höfunda, en þá yrði fé það að ganga í sérstakan sjóð, sem úthlutað væri úr eftir tilteknum reglum. Ættu slík ákvæði um skattlagningu og sjóðsstofnun heima í sérlögum, en ekki í almennum höfundalögum.

Í 18. gr. eru nýmæli um heimild skóla til upptöku verndaðra verka til afnota við kennslu. Er þetta í samræmi við ýmsa erlenda höfundalöggjöf.

Í 23. gr. eru tekin upp óbreytt að efni ákvæði 2. gr. l. nr. 49 1943 um réttindi útvarpsstofnunar ríkisins til að flytja verndað efni gegn greiðslu. Er eins og áður gert ráð fyrir, að ríkisútvarpið semji um þetta við stéttasamtök höfunda.

Í 24. gr. er svo ákveðið, að þeir, sem eignast eintök af bókmenntaverki eða tónverki, hafi full eignarumráð á þeim sem hverjum öðrum nýtilegum hlutum. Eru því m.a. heimil útlán bóka til almennings úr bókasöfnum, svo sem verið hefur. Þar sem höfundar telja slík útlán draga úr sölu bóka sinna, hafa þeim í sumum löndum verið ákveðnar greiðslur úr ríkissjóði vegna útlánanna, m.a. í Danmörku og Noregi. Í öðrum löndum mun hafa komið fyrir, að tekin væru lág gjöld af lántökum bókanna og látin renna til höfunda. Úrlausn þessa málefnis á fremur heima í sérlögum um bókasöfn en í almennum höfundalögum. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að á vegum menntmrn. starfar nú n. að athugun á þessum málum, og eiga sæti í henni dr. Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, sem er formaður hennar, dr. Finnur Sigmundsson landsbókavörður, Guðmundur G. Hagalín bókafulltrúi, Stefán Júlíusson formaður Rithöfundasambands Íslands og Matthías Jóhannessen skáld.

Í III. kafla frv. eru ákvæði um, hvernig höfundaréttur getur flutzt úr hendi höfunda til annarra aðila.

Í IV. kafla eru ákvæði um gildistíma höfundaréttar. Látin er haldast núgildandi regla um vernd höfundaréttar í 50 ár frá láti höfundar, og er tíminn reiknaður frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Þessi 50 ára regla gildir nú samkv. Bernarsáttmálanum og langflestum höfundalögum, þ. á m. norrænu höfundalögunum. Á síðustu árum hefur verið nokkur hreyfing innan Bernarsambandsríkja um að lengja verndartímann upp í 80 ár, en það hefur ekki komið til framkvæmda. Mundi Ísland væntanlega fylgja slíkri reglu, ef um hana kæmi alþjóðleg samþykkt. Þess skal getið, að fram hefur komið áskorun frá Tónskáldafélagi Íslands til ríkisstj. og Alþingis, að samþ. verði nú á yfirstandandi Alþingi, að verk þeirra höfunda, sem hafa dáið 1913 og síðar, njóti fullrar verndar, þangað til 80 ár eru liðin frá láti höfunda, miðað við 1. janúar eftir dánardag.

Um vernd bókmenntaverka gagnvart þýðingum gildir nú sú sérregla samkv. l. nr. 11 1956, að verndartíminn er aðeins 25 ár frá því, að rit var gefið út í fyrsta sinn. Þessi undantekning er heimil Bernarsambandsríkjum, sem ekki hafa fullgilt breytingu þá, sem gerð var á Bernarsáttmálanum í Brüssel 1948, og er Ísland í þeirra tölu. Nú munu flest eða öll Bernarsambandsríki önnur en Ísland, þ. á m. Norðurlandaríkin, hafa í höfundalögum sínum áskilið bókmenntaverkum fulla vernd gagnvart þýðingum, þ.e.a.s. 50 ára verndartíma. Er ekki líklegt, að sérstaða Íslands geti haldizt lengi úr þessu. Ef ekki þætti rétt að breyta frá reglum l. nr. 11 1956 í sambandi við setningu höfundalaga nú, mætti annaðhvort láta nefnd lög halda gildi sinu eða hafa sérreglu um þýðingar í bráðabirgðaákvæði, þ.e.a.s. að núgildandi reglur haldist, þar til Ísland hefur staðfest breytingar Bernarsáttmálans frá 1948 eða önnur skipan verður á gerð.

Í V. kafla frv. eru þau fyrirmæli, sem mestu máli skipta fjárhagslega, bæði fyrir ríkisútvarpið og atvinnu- eða skemmtistaði, sem láta flytja tónlist af hljómplötum eða eftir útvarpi til viðskiptamanna eða starfsmanna. Samkv. núgildandi lögum er bæði ríkisútvarpi og atvinnu- eða skemmtistöðum skylt að greiða höfundum þóknun fyrir flutning tónlistar af hljómplötum, sem á markaði eru keyptar. Ef þetta frv. verður að l., bætast við greiðslur til listflytjenda og hljóðritaframleiðenda, og skal þá greiða þóknun til þeirra í einu lagi. Til listflytjenda teljast þeir, sem flytja eða túlka þá list, sem höfundar hafa skapað, svo sem söngvarar, hljóðfæraleikarar, leiksviðsleikarar, upplesarar o.s.frv. Alþjóðasamtök listflytjenda og hljóðritaframleiðenda hafa um áratugi barizt fyrir því, að þeim yrði veittur réttur til þóknunar, þegar hljómplata er leikin í útvarp eða á öðrum stöðum í atvinnu- eða ágóðaskyni. Þessir aðilar hafa haldið því fram, að þegar hljómplata er leikin í útvarp eða annars staðar fyrir almenning, dragi það úr sölu hljómplötunnar á markaði og spilli atvinnu þeirra. Hafa þessir aðilar fært fram hliðstæð rök fyrir kröfum sínum og höfundar gerðu á sínum tíma, áður en þeim var áskilinn réttur til þóknunar. Listflytjendur telja, að eftirspurn og afnot af hljómplötum byggist í raun og veru engu síður á listflutningnum en á tónverkum þeim, sem flutt eru.

Á síðustu áratugum hefur hvert landið af öðru sett í höfundalög sín ákvæði um rétt listflytjenda og hljóðritaframleiðenda til þóknunar. Er auðsætt, að slíkt er að verða alþjóðleg regla. Í ýmsum löndum höfðu og samtök þessara aðila samið við útvarpsstofnanir um greiðslu sér til handa, áður en til nokkurrar lagasetningar kom. Þá er þess og að geta, að árið 1961 var í Róm samþykktur alþjóðasáttmáli um réttindi listflytjenda og hljóðritaframleiðenda. Svarar þessi sáttmáli um vernd þessara aðila til Bernarsáttmálans um vernd höfunda.

Ísland tók þátt í þessari alþjóðaráðstefnu og er samhliða þessu frv. flutt frv. til l. um heimild til þess að staðfesta þennan milliríkjasáttmála, sem gerður var í Róm 26. okt. 1961, um vernd listflytjenda o.fl. Mun það frv. koma til umr. hér á eftir, og mun ég þá gera nánari grein fyrir efni þess.

Í norrænu höfundalögunum eru nú sams konar ákvæði um þetta efni og eru í þessu frv. Þar eð ákvæði norrænu l. eru ekki að öllu leyti samhljóða, skal þess getið, að í þessu frv. er fylgt ákvæðum dönsku laganna.

Þá er í frv. ákvæði um vernd útvarpsstofnana, m.a. gegn endurvarpi og upptöku á útvarpsefni. Loks eru ákvæði um vernd ljósmynda, sem hafa ekki listrænt gildi og falla því ekki undir ákvæði um réttindi höfunda.

Varðandi VII. kafla frv. er aðeins ástæða til þess að geta 53. gr. Þar er hvers konar bókmenntaverkum og listaverkum veitt refsivernd gegn misþyrmingum og spjöllum og það allt að einu, þótt þau hafi aldrei notið höfundaverndar eða slík vernd sé brott fallin. Hins vegar tekur 53. gr. ekki til verka, sem eru undir höfundavernd. Refsimál skal aðeins höfða eftir kröfu menntmrh., enda telji hann þess þörf vegna almennrar menningarverndar.

Í VIII. kafla eru ákvæði um viðurlög gegn brotum, ákærureglur o.fl. Svipar þeim að efni til núgildandi ákvæða í l. frá 1905. Samkv. frv. geta þau brot varðað varðhaldi allt að 3 mánuðum, en í gildandi lögum liggja aðeins sektir við brotum á höfundarétti.

Ákvæði í VIII. kafla um gildissvið l. eru í samræmi við reglur Bernarsáttmálans að því er höfunda varðar og reglur Rómarsáttmálans um listflytjendur, hljóðritaframleiðendur, útvarpsstofnanir, að því er til þeirra aðila tekur.

Um 62. gr. skal þess getið sérstaklega, að í 2. mgr. er ákveðið, að verndunin nái ekki til listflutnings eða útvarps, sem fram hefur farið fyrir gildistöku 1., og ekki til hljóðrita, sem gerð hafa verið fyrir þann tíma, nema slíkt hafi verið ákveðið í reglugerð. Þykir bezt henta, að afstaða til þessara mála verði tekin í sambandi við gildistöku Rómarsáttmálans hér, ef frv. það., sem ég gat um áðan, um heimild til þess að staðfesta Rómarsáttmálann, verður að lögum og ríkisstj. ákveður að staðfesta sáttmálann. En það er nauðsynlegt að hafa í lögum heimild ríkisstj. til handa til að taka ákvarðanir um þetta efni.

Ég vona, að frv. þetta geti orðið að lögum á þessu þingi, enda er hér tvímælalaust um hinn merkasta frumvarpsbálk að ræða. Hlutverk og efni höfundalaga er að veita mönnum réttarvernd á tilteknum andlegum verðmætum, bókmenntum og listum. Með l. er viðurkenndur réttur þess, sem verkið hefur gert, þ.e. höfundarins, til umráða yfir því og er hann ýmist fjárhagslegs eða persónulegs eðlis.

Höfundalög höfðu lengi framan af einungis ákvæði um réttindi og vernd höfunda, þ.e.a.s. þeirra, sem skapað höfðu bókmenntaverk eða listaverk. Eru þá til höfunda einnig taldir þeir, sem aðlöguðu verk tiltekinni notkun, svo sem þýðendur rita, þeir, sem breyttu skáldsögu í leikrit, sömdu kvikmyndahandrit eftir skáldsögu eða leikriti o.s.frv. Hins vegar voru lögin áður yfirleitt ekki látin taka til listflytjenda, þ.e. manna, sem túlkuðu verk höfunda með listflutningi, söngvara, hljóðfæraleikara, leiksviðsleikara, upplesara o.s.frv. En sökum náins sambands slíkra listamanna við höfunda hefur á síðari tímum verið talið haganlegt að hafa ákvæði um réttindi þeirra einnig í höfundalögum. Sama er að segja um réttindi einstaklinga og fyrirtækja, sem framleiða hljómplötur eða önnur hljóðrit, svo og útvarpsstofnana. Eru ákvæði þessa frv. um þetta efni nýmæli og helzta nýmæli frv. Verði frv. að lögum, má hiklaust fullyrða, að Ísland komist í tölu þeirra menningarríkja, sem hafa fullkomnasta og vandaðasta höfundalöggjöf. Ætti það sannarlega að vera Íslendingum keppikefli að hafa jafnan sem bezta og traustasta löggjöf á þessu sviði, svo ríkur þáttur sem íslenzk menning er í íslenzku þjóðlífi og svo traustur hornsteinn sem hún er undir íslenzku þjóðfélagi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.