17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af einu atriði, sem borizt hefur í tal við þessa umr. og hefur raunar borizt í tal áður á Alþingi oftar en einu sinni. Það er í sambandi við lántökur ríkisins til Keflavíkurvegar.

Eins og menn vita, hefur verið áhugi fyrir því undanfarin missiri hér í þinginu að taka lán til vega, og ýmsar till. hafa verið fluttar hér varðandi þau efni, bæði til vegagerða á Austurlandi og Vesturlandi og til Strákavegarins. Ég man eftir þessum þremur dæmum. En þessi mál hafa ekki fengið afgreiðslu. Þeim hefur verið vísað frá eða komið á einhvern hátt fyrir kattarnef á hv. Alþingi af meiri hlutanum.

Á hinn bóginn fréttist það svo, að hæstv. ríkisstj. væri farin að láta leggja veg til Keflavíkur fyrir lánsfé, en þetta mál hafði aldrei verið lagt fyrir hv. Alþingi á einn eða annan hátt. Eins og kunnugt er, er þó óheimilt að taka lán fyrir ríkissjóð nema samkv. lánsheimild. Nú hefur það komið fram hér hvað eftir annað, að yfirleitt eru allir þeir, sem um það hafa talað, sammála um, að þessi vegagerð til Keflavíkur sé ákaflega nauðsynleg. Og ég segi fyrir mig, að ég hefði óhikað greitt atkvæði með lánsheimild til vegarins hér á hv. Alþingi. Mér er ekki kunnugt um, að það sé nein andstaða gegn vegagerðinni, þvert á móti.

Það hefur vakið ákaflega mikla undrun, að hæstv. ríkisstj. hefur valið þá leið að fara algerlega á bak við Alþingi með þessa stórkostlega miklu framkvæmd og ríkislántöku í því skyni. Og menn hafa velt því fyrir sér, hvernig á því gæti staðið, að hæstv. ríkisstj. skyldi velja þessa leið, þar sem hún átti alveg opna leið að leggja málið fyrir á venjulegan hátt. Það hefur ekki fundizt á þessu nokkur skýring önnur en sú ein, sem ég hef leyft mér að halda fram áður og ég vil enn benda á, og henni hefur ekki verið mótmælt, að hæstv. ríkisstj. hafi kviðið fyrir því að koma öðrum vegagerðarlántökuheimildum fyrir kattarnef í þinginu á sama tíma sem hún fengi samþ. lánsheimildina til Keflavíkurvegarins. Þess vegna hafi hún valið þessa furðulegu aðferð, að fara algerlega á bak við Alþingi með þessa vegagerð.

Í þessu sambandi kemur það svo fram, að þegar ríkisreikningurinn fyrir 1961 kemur, þá er sleppt að færa á reikninginn þá skuld, sem ríkið stendur í vegna vegarins. Það er hreinlega hafður rangur reikningurinn, til þess að þessi skuld sé ekki talin með, og þá vitanlega líka ríkisútgjöldin rangt tilgreind. Þegar fjárlagafrv. kom svo fyrir næsta ár, þá er ekki heldur gert ráð fyrir greiðslu vaxta og afborgana af ríkisláni, sem tekið hefur verið til vegarins. Og ekki nóg með þetta, heldur er leikurinn slíkur feluleikur með þetta mál, að í stað þess að fjmrh. skrifar yfirleitt undir öll ríkislán, þá er þessu komið þannig fyrir, að það er vegamálastjóri, sem skrifar undir þetta ríkislán, sem tekið er til vegarins, en samt vitanlega eftir ráðherrafyrirlagi. Auðvitað er ekkert um það að efast, að þetta er ríkisskuldbinding alveg nákvæmlega eins fyrir því. Það er skuldbinding, sem ríkissjóður hefur tekið á sig, því að engum dettur í hug, að vegamálastjóri eigi að borga persónulega þetta lán, og enginn eyrir er til á vegum vegagerðarinnar, hún er engin stofnun í því tilliti. Hún hefur engan einasta eyri umfram það, sem henni er ávísað hreint og beint úr ríkissjóði. Það er þess vegna. enginn munur á láni, sem vegamálastjóri skrifar undir fyrir ríkisstjórnarinnar hönd, og þeim, sem fjmrh. skrifar sjálfur undir. Samt sem áður er sá háttur hafður á þessu, að þetta ríkislán er ekki fært í ríkisreikninginn, því er haldið utan við hann.

Ef svona hlutir geta gengið óátalið af hv. Alþingi, þá er hægt að leika þann leik að láta embættismenn ríkisins taka slík lán ótakmarkað, halda þeim utan við ríkisreikninginn, þó að þetta séu alveg óumdeilanlega skuldbindingar ríkissjóðs og hann verði að greiða þær, koma svo, þegar á Alþingi er spurt um þetta, með vífilengjur, eins og t.d. þær, að þetta sé að einhverju leyti hliðstætt lánum, sem sveitarfélög og bæjarfélög taka til vega og standa sjálf undir og koma ríkissjóði ekkert við. Það eru hreinar vífilengjur að blanda þessu tvennu saman: annars vegar hreinni ríkisskuldbindingu, sem er undirskrifuð f.h. ríkisstj. af einum embættismanni ríkisstj. og verður að greiðast úr ríkissjóði, og hins vegar lántökum, sem einstök bæjar- eða sveitarfélög standa að, greiða sjálf vextina af og standa skil á, jafnóðum og þau fá fjárveitingar úr ríkissjóði til að annast þær vegagerðir, sem greiddar eru með lánunum.

Þetta er ósæmilegur feluleikur með þetta mál allt saman, sem ég veit að hæstv. ríkisstj. gerir sér grein fyrir. En það er full ástæða til þess að benda skýrt á þetta, eins og gert hefur verið áður og eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gert í sambandi við þetta mál, ríkisreikninginn, því að hvar endar þetta, ef svona hlutir geta gerzt óátalið? Líka þarf að sýna hæstv, ríkisstj., að hún getur ekki komizt upp með svona hluti. Hún verður auðvitað að hætta þessu. Hún verður að hætta því að taka lán í heimildarleysi og halda lánum utan við sjálfan ríkisreikninginn. Það er t.d. ekki hægt að halda þessu utan við ríkisreikninginn, þegar á að fara að borga af láninu, — eða hvernig ætlar hæstv. ráðh. að fara þá að? Þá kemur allt í einu inn í reikninginn og ríkisbókhaldið ávísun, sem heitir: greiðsla af láni teknu vegna Keflavíkurvegarins. Þá er ekki hægt að komast lengur undan þessu, eða ætla ráðherrarnir að borga þetta úr eigin vasa? Þá er ekki lengur hægt að komast fram hjá þessu, þá kemur þetta inn í ríkisbókhaldið, og þá sýnir það, að þetta hefur allt verið blekking. Þessi skuld er til, og hún á að færast í bækurnar eins og aðrar skuldir.

Halda ráðherrarnir, að það sé hægt að segja þm., að hér sé rétt með farið? Á Alþingi er veraldarvant fólk, sem veit, að hér er um hreina ríkisskuld að ræða, sem á að koma annaðhvort beint inn á sjálfan ríkisreikninginn eða, ef menn vilja feluleik, sem skuld vegagerðarinnar. En þá verður hún að koma inn á heildarreikning ríkisins allt að einu. Kemur það allt að einu þar inn í gegnum bókhald vegagerðarinnar.

Hingað til hefur það aldrei tíðkazt, að stofnanir eins og Vegagerð ríkisins tækju milljónatuga lán á sínum vegum, enda er þetta lán vitanlega á vegum ríkissjóðs.

En allt er þetta alveg vafalaust til komið vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur fremur kinokað sér við að láta koma fyrir kattarnef sanngjörnum till. þm. um lán til annarra vegagerða í landinu, ef þetta mál fengi þinglega meðferð, og er ástæða til að finna mjög að slíku.

Nú býst ég ekki við, að hæstv. fjmrh. sé fáanlegur til að leiðrétta landsreikninginn fyrir 1961. En það, sem hér hefur komið fram um þetta efni, ætti þó að vera algerlega nægilegt til þess að sýna fram á, að hér hafa orðið stórkostleg mistök. Þetta er stórkostlega hættulegt fordæmi. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. láti gera ráðstafanir til þess að færa ríkisreikninginn á yfirstandandi ári rétt og láti setja í hann útgjöld vegna þessarar vegagerðar og lántökur vegna hennar. Enn fremur væri hægt að láta leiðrétta fjárlfrv. að þessu leyti, því að ég hygg ég megi fullyrða, að í fjárlfrv. séu ekki greiðslur færðar af þessum lánum.