18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

198. mál, loftferðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af n., sem var skipuð af samgmrh. 23. marz 1956 samkv. þál. sama ár. Í n. áttu sæti Gizur Bergsteinsson hæstaréttardómari, Hákon Guðmundsson hæstaréttarritari og Jónas G. Rafnar alþm. Síðan núgildandi loftferðalög voru sett árið 1929, hefur orðið gerbylting á sviði flugmála tæknilega. Hefur hinn mikli vöxtur flugstarfseminnar og sér í lagi flugs milli landa valdið því, að mikil og góð alþjóðleg samvinna hefur tekizt um flugmál, einkum öryggismál.

Ísland er aðili að mörgum alþjóðasamþykktum á sviði flugmála, og hafa sumar þeirra lagagildi hér, en aðrar ekki. Hafa þau mörgu og dreifðu ákvæði. sem þannig gilda um íslenzk flugmál, oft valdið bagalegri óvissu um, hvaða reglum skyldi fara eftir, því að enda þótt alþjóðasamþykkt, sem Ísland er aðili að, en ekki hefur verið lögfest hér, kunni að þoka fyrir eldri lagaákvæðum, eru þó íslenzkir flugmenn erlendis ávallt bundnir af hinum alþjóðlegu ákvæðum.

Í frv. þessu er hinum dreifðu ákvæðum safnað saman í einn bálk, og er efnið að sjálfsögðu í samræmi við alþjóðasamninga þá um flugmál, sem Ísland er aðili að. Við samningu frv. var höfð hliðsjón af nýjum norrænum loftferðalögum, einkum þeim dönsku og norsku. Vegna eðlis flugsins hlýtur löggjöf hvers lands um flugmál að sníðast í verulegum atriðum eftir alþjóðlegum reglum. Í aths. með frv. er að þessu vikið á bls. 31, en þar segir m.a.:

„Loftför eru eðli sínu samkvæmt alþjóðleg samgöngu- og flutningatæki í enn þá ríkara mæli en skip. Skipin verða að halda sig við löginn, en loftförin fara yfir láði og legi á örskömmum tíma. Á einni stundu eru þau yfir yfirráðasvæði ríkisins A, en á annarri stundu yfir úthafinu og þeirri þriðju yfir yfirráðasvæði ríkisins B og svo koll af kolli. Þótt loftför hafi geysimiklu hlutverki að gegna í sínum heimalöndum sem samgöngutæki og til áburðardreifingar o.s.frv., þá er innanlandsflug einungis takmarkaður þáttur af starfsemi loftfara, ef rétt er á haldið. Af þessu leiðir, að innanlandslög, sem miðuðust aðallega við notkun loftfara innanlands, yrðu mjög ófullkomin og þung í framkvæmd, enda yrðu loftför þá að hlíta síbreytilegum reglum, er þau fljúga yfir landamæri eins ríkis til annars. Markmiðið hlýtur því að vera að skapa alþjóðlegar reglur um loftferðir, bæði stjórnvaldsreglur og einkamálareglur, og samræma síðan innanlandslög hinna einstöku ríkja þessum reglum. Niðurstaðan er því sú, að setja verði milliríkjasáttmála um þau efni, er loftferðir varða, og veita þeim lagagildi í sáttmálaríkjunum. Verða slíkir milliríkjasáttmálar að ganga fyrir annarri innanlandslöggjöf, ef á milli ber. Eyður í sáttmálanum ber síðan að fylla með reglum alþjóðlegs valdstjórnarréttar, alþjóðlegs einkamálaréttar og innanlandslögum samkv. þeim kennisetningum lögvísinda, sem um þau fjalla.“

Á bls. 31 er getið um, hvaða sáttmálar það eru, sem Ísland hefur gerzt aðili að, og er óþarfi að vera að telja þá hér upp, þar sem allir hv. þm. hafa frv. fyrir framan sig. En næst því eru taldir upp ýmsir þeir samningar, sem gerðir hafa verið um þessi mál. Ber þar fyrst að nefna svonefndan Chicago-sáttmála um borgaralegar loftferðir, sem undirritaður var m.a. af Íslands hálfu hinn 7. des. 1944. Var samningur þessi fullgiltur af Íslands hálfu 21. marz 1947 og gekk í gildi að því er Ísland varðar 20. apríl 1947. Chicago-sáttmálinn hefur ekki lagagildi, en er birtur sem fskj. með auglýsingu nr. 45 1947. Síðan hefur þessum samningi verið breytt, sbr. auglýsingu nr. 100 1955.

Of langt mál er að rekja ákvæði Chicago-sáttmálans, en óhætt er þó að fullyrða, að hann og ýmsir aðrir alþjóðasamningar varðandi flug hafa verið hin raunverulegu loftferðalög Íslendinga síðustu áratugina í öllu millilandaflugi Íslendinga.

Frv. það. er hér er til umr., er, eins og fyrr var sagt, efnislega að mestu í samræmi við þau mörgu dreifðu ákvæði laga, t.d. loftferðalaganna frá 1929 og flugvallalaga 1945, og þeirra alþjóðasamþykkta, sem Ísland hefur gengizt undir varðandi flug. Enda þótt nýmælin séu mörg, ef miðað er við gildandi loftferðalög, nr. 32 1929, eru nýmæli fá, ef miðað er auk laga við þá alþjóðasamninga um flugmál, sem Ísland er aðili að. Frv. þetta stefnir að því að færa loftferðalög okkar í sem bezt samræmi við alþjóðlegan flugrétt. Er lagt til, að það komi í stað hinna gömlu loftferðalaga og einnig í stað laga um flugvelli, nr. 24 1945, en þau lög verða einnig að teljast algerlega úrelt að undanskilinni heimild til eignarnáms á landi undir flugvelli og önnur mannvirki fyrir flugið, en slík heimild er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að verði áfram. Eftir er að semja frv. til l. um réttindi yfir flugvélum svo og kyrrsetningu flugvéla, en um bæði þessi efni gilda sums staðar sérstök lög, þótt önnur lönd hafi fært þau inn í hin almennu loftferðalög.

Mér þykir ekki ástæða til að fjölyrða um einstakar greinar frv., en ég vænti þess, að það þyki nægilega skýrt með hinum ýtarlegu aths., sem Gizur Bergsteinsson hæstaréttardómari hefur samið. Eins og frv. ber með sér, er hér um mikinn lagabálk að ræða og tæknilegar hliðar á því, sem er dálítið erfitt fyrir einstaka þm. að gera sér grein fyrir. Verður því í aðalatriðum að leita til hinna tæknifróðu manna um hin ýmsu ákvæði, og er eðlilegt, að hv. samgmn., sem málið fær til meðferðar, leiti upplýsinga hjá þeim, sem helzt væru færir um að svara til um það, hvort þetta frv. er nægilega vel undirbúið til að verða gildandi loftferðalög fyrir Ísland. Ég leyfi mér að vænta þess, að svo sé. Það hefur verið varið miklum tíma í að semja frv., og það hefur verið leitað eftir upplýsingum um, hvernig loftferðalög eru í öðrum löndum, og eins og segir í grg. frv., er frv. samið með það fyrir augum að samræma okkar loftferðalög við þau lög, sem annars staðar gilda.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.