22.10.1962
Efri deild: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

16. mál, þinglýsingar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þessi mikli lagabálkur ásamt þeim frv., sem síðar eru á dagskránni og standa í beinu sambandi við hann, er saminn af háskólarektor Ármanni Snævarr og af Ólafi Pálssyni fulltrúa borgarfógetans í Reykjavík. Prófessor Ármann hafði unnið að þessu máli í mörg ár, en fékk síðan til samstarfs við sig við undirbúning þess Ólaf Pálsson, sem er sá embættismaður, sem í daglegu starfi mest allra fjallar um þinglýsingar. En prófessor Ármann hafði sérstaklega kynnt sér það efni þegar á námsárum sínum. Þetta frv. er því undirbúið af þeim tveim mönnum, sem mesta hafa þekkingu á því efni, sem hér er um fjallað: annars vegar sá, sem er hiklaust bezt að sér í því fræðilega, og hins vegar sá, sem mesta reynsluna hefur.

Ég hygg, að ekki verði um það deilt, að núverandi löggjöf í þessum efnum sé að verulegu leyti úrelt, bæði þurfi þar breytingar á afgreiðsluháttum og tækni í samræmi við breytta tíma og enn fremur, að þess var ekki gætt nægilega, þegar þessi löggjöf var síðast endurskoðuð, að setja efnisbreytingar, heldur mest haldið sér við endurbætur á framkvæmd, sem voru þá að vísu mjög til bóta, en hins ekki gáð, að efnislega þurfti nýjar og skýrari reglur um þessi flóknu mál en þá voru í gildi. Af þessum sökum er núverandi löggjöf nokkuð óljós og ófullkomin. Auk þess, eins og ég sagði, hafa orðið tæknilegar framfarir, síðan hún var sett fyrir einum mannsaldri. Þá er einnig eðlilegt, að nú eigi sér stað endurskoðun á löggjöfinni, ekki sízt vegna þess, að nú hafa verið sett á hinum Norðurlöndunum ýtarleg fyrirmæli, sem mjög hafa þótt horfa til bóta, um réttarreglur varðandi þinglýsingar.

Þetta frv. hefur svo að segja óbreytt verið áður lagt fyrir þing, Alþingi 1958–59. Það var þá ekki útrætt, vafalaust að nokkru vegna þess, að hér er um mjög tæknileg málefni að ræða, sem einstakir þingmenn eiga erfitt með að átta sig á, og er því ekki að neita, að nokkur uggur mun vera í sumum þeim, sem munu eiga að framkvæma löggjöfina, verði hún samþ., um að erfitt sé til hlítar að átta sig á þeim nýmælum, sem hér er um fjallað, og þeir óttast, að þau verði ef til vill helzt til þung í vöfum. En málið hefur nú að nýju verið skoðað, og það er eindregin till. dómsmrn., að frv. ásamt þess fylgifrv. verði samþ. á þessu þingi. Og ef svo yrði, mundu verða gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að gefa þeim, sem þurfa ekki eins mikið að sinna þinglýsingum og borgarfógetaembættið hér í Reykjavík, skýrari grein fyrir framkvæmd og auðvelda þeim þannig þær breytingar, sem ætla má að tímarnir muni krefjast.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál í einstökum atriðum. Þar eru mörg lögfræðileg og tæknileg atriði, sem koma til úrlausnar, og annaðhvort yrði að ræða um þau í svo löngu máli, að ekki er gerlegt, eða þá fara svo stutt yfir sögu, að enginn væri að bættari. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.