15.11.1962
Efri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

94. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, hefur bifreiðum stórfjölgað hér á landi síðustu árin og með því vaxið umferð á vegum, og þar með hefur skapazt stóraukin hætta á slysum. Það voru fyrir skömmu sett ný lög um umferð, sem gera strangari kröfur til öryggis en áður voru. Allt þetta gerir nauðsynlegt, að betur sé fylgzt með viðgerðum bíla en hingað til, að þeir séu raunverulega í því ástandi, sem lög og öryggi gera kröfur til.

Af þessum sökum var á árinu 1960 flutt frv. til l. um löggildingu bifreiðaverkstæða, sem að verulegu leyti var sniðið eftir sams konar löggjöf, sem þá hafði verið sett fyrir alllöngu í Noregi og gefizt þar vel. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Nd., en um það varð ágreiningur, svo að það náði ekki fram að ganga.

Í fyrra var af þáv. dómsmrh., Jóhanni Hafstein, skipuð nefnd til að kanna þetta mál að nýju og reyna að leita samkomulags milli þeirra aðila eða fulltrúa þeirra aðila, sem ætla má að það snerti meira en flesta aðra, og voru í þeirri nefnd deildarstjóri í iðnmrn., fulltrúi Iðnaðarmálastofnunar Íslands, fulltrúi Sambands bílaverkstæða, fulltrúi Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, fulltrúi Félags bifvélavirkja, fulltrúi Landssambands vörubifreiðastjóra og fulltrúi Félags sérleyfishafa. Þessir aðilar hafa íhugað allt málið frá rótum, og niðurstaðan af þeirri athugun er frv., sem nú er lagt fram og í meginatriðum er að efni til hið sama og frv. frá 1960. En aðalbreytingin er sú, að nú á að vera minni hætta á, að einokunaraðstaða skapist fyrir þau bifreiðaverkstæði, sem löggildingu fá.

Mér er ljóst, að hér er um töluvert ágreiningsmál að ræða og vandasamt efni, sem ég tel þó að úrlausn þurfi að fá, og ákvað ég því að flytja frv. óbreytt, eins og það kom frá þeirri nefnd, sem ég áður gat um.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið á þessu stigi, en leyfi mér að leggja til, að það gangi til 2. umr. og hv. iðnn.