26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

218. mál, ferðamál

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég hef aðeins lesið þetta frv. til l. um ferðamál lauslega yfir, en ef ég á að segja álit mitt á því, þá er það á þá leið, að mér sýnist það frekar vel úr garði gert og í því vera ýmis merk ákvæði og jafnvel merk nýmæli. Ég stend þess vegna ekki upp til að gagnrýna þetta frv., hvorki almennt né í einstökum atriðum. Að sjálfsögðu mun þessi hv. d. athuga frv. nánar í meðferð. En ég stend upp af því, að mér sýnist vera vert á þessu stigi að benda á eitt atriði, sem gæti, ef það yrði samþ. óbreytt, komið til með að stangast á við önnur lög eða réttara sagt stangast á við ákvæði í frv., sem einmitt liggur nú fyrir hjá hv. samgmn.

Ég fagna því, að ekki var horfið að því óráði að leggja Ferðaskrifstofu ríkisins niður. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að hún haldi áfram að starfa og hún gegni áfram miklu og mikilvægu hlutverki, eins og nánar er rakið í III. kafla þessa frv. Í 17. gr. frv. segir, að Ferðaskrifstofa ríkisins skuli fylgjast með hvers konar starfsemi í landinu varðandi móttöku ferðamanna, bæði að því er snertir verðlag, gæði, þjónustu og viðurgerning, og Ferðaskrifstofan á enn fremur að líta eftir umgengni og aðbúnaði á gistihúsum og veitingahúsum, farfuglaheimilum, gistiheimilum og greiðasölustöðum. Hér fer ekki á milli mála, að Ferðaskrifstofu ríkisins er ótvírætt falið eftirlit með gistihúsum og veitingahúsum.

Í frv. til l. um veitingasölu, gististaðahald o.fl., sem þegar hefur verið til afgreiðslu í hv. Nd. og liggur nú hjá hv. samgmn. þessarar d., er ákvæði, sem algerlega stangast á við þetta ákvæði í 17. gr. þessa frv. Í 19. gr. frv. til l. um veitingasölu, gististaðahald o.fl. segir:

„Ráða skal sérfróðan mann til þess að hafa á hendi eftirlit með starfsemi gisti- og veitingastaða, og starfar eftirlitsmaður undir stjórn landlæknis. Heimilt er landlækni að fela sérstökum heilbrigðiseftirlitsmönnum, sem starfandi eru í kaupstöðum, eftirlit þar. Eftirlitsmaður skal leita aðstoðar heilbrigðisnefnda og héraðslækna, þar sem hann eða landlæknir telja þess þörf. Ákvörðunum eftirlitsmanns svo og heilbrigðiseftirlits má skjóta til ráðuneytis.“

Ég fæ ekki betur séð en þarna eigi tveir aðilar að hafa eftirlitið með höndum, því að það segir í 17. gr., að Ferðaskrifstofan skuli líta eftir umgengni og aðbúnaði á gistihúsum og veitingahúsum. Það má kannske segja, að það geti aldrei orðið of mikið af svo góðu. Það er ágætt að hafa fleiri en einn aðila til þess að líta eftir þessu mikilvæga atriði í okkar ferðamálum, gistihúsunum og veitingahúsunum. En það gæti verið, að vesalings gistihúsaeigendunum og veitingastaðaeigendunum þætti nóg um, hvað sem öðrum líður. Og það vill svo til, að höfundar frv. til l. um veitingasölu, gististaðahald o.fl. hafa einmitt viljað taka þetta eftirlit úr höndum Ferðaskrifstofu ríkisins. Í skýringum þeirra við 19. gr. frv. segir svo á bls. 12, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú verður því ekki neitað, að Ferðaskrifstofa ríkisins á mikil viðskipti við gisti- og veitingastaði. Ferðamannahópar á vegum skrifstofunnar ferðast víða um land, og fararstjórar Ferðaskrifstofu ríkisins annast uppgjör við gisti- og veitingastaði.“

Svo segir:

„Virðist því óeðlilegt, að þessum viðskiptaaðila gisti- og veitingastaðanna sé jafnframt falið eftirlit með starfsemi þeirra.“

Hér er ótvírætt kveðið að orði. Hér er ótvírætt um breytingu að ræða af ráðnum hug að taka eftirlitið úr höndum Ferðaskrifstofu ríkisins og fela það öðrum aðilum undir yfirstjórn landlæknis. Ég er ekki að taka afstöðu með eða móti, hvort heppilegra sé á þessu stigi. Ég vil aðeins benda á þetta, sérstaklega hlutaðeigandi nefnd, að hún geri þennan samanburð og athugi, hvort hún komist ekki að raun um, að hér er um visst ósamræmi að ræða í þessu atriði.