19.10.1962
Neðri deild: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

11. mál, ríkisábyrgðir

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 11 höfum við hv. 4. þm. Sunnl. leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á 1. nr. 37 frá 1961, um ríkisábyrgðir. Við fluttum sams konar frv. hér á síðasta Alþingi, en það náði þá ekki fram að ganga, en frv. er nú flutt í þeirri von, að betur takist til á þessu þingi.

Eins og kunnugt er, er það tilgangur ríkisins með því að veita ábyrgðir að stuðla að uppbyggingu í landinu. Ríkissjóður hefur á þennan hátt tekið veigamikinn þátt í uppbyggingu, bæði hjá sveitarfélögum og ýmsum atvinnufyrirtækjum.

Á árinu 1961 voru sett lög um ríkisábyrgðir, og í 2. gr. þeirra laga er það tekið fram, að ríkið megi ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema slíkt sé sérstaklega ákveðið í lögum þeim, sem ábyrgðina heimila. Þetta ákvæði ríkisábyrgðarlaganna hefur komið mjög hart við hin einstöku sveitarfélög, eins og ég skal nú greina, og gera grein fyrir því, af hverju frv. okkar gerir eingöngu ráð fyrir því að ná til sveitarfélaganna.

Í einstökum lagabálkum, svo sem lögum um vatnsveitur, rafveitur og hitaveitur og hafnir, er ríkissjóði heimilað, auk þess sem sumar af þessum framkvæmdum eru sérstaklega styrktar, að ábyrgjast einnig lán vegna þessara framkvæmda, og er þá venjulega tekið fram, að lán og styrkur megi vera svo og svo mikið af framkvæmdinni í heild. Í þessum lögum er ekki skilgreint, hvort um er að ræða sjálfskuldarábyrgð eða einfalda ábyrgð. Í framkvæmdinni hefur það verið svo, að ríkissjóður hefur fram til þess, að lögin um ríkisábyrgðir voru sett, gefið út sjálfskuldarábyrgð til handa þessum sveitarfélögum, sem hafa þurft að halda á ábyrgðinni, og mun það vera meiri hl. af sveitarfélögum landsins eða a.m.k. öll þau, sem með slíkar framkvæmdir hafa að gera. En með l. um ríkisábyrgðir frá 1961 er loku fyrir þetta skotið, þar sem þessir eldri lagabálkar skilgreina það ekki, að hér skuli vera um sjálfskuldarábyrgð að ræða.

Þá er í öðru lagi, að einföld ábyrgð kemur ekki sveitarfélögunum að því liði, sem hún kemur einstaklingunum, þar sem um það er að ræða, að að ábyrgðaraðilanum er ekki hægt að ganga, fyrr en búið er að ganga að skuldaranum sjálfum. Nú er það kunnugt, að það er yfirleitt ekki hægt að ganga að sveitarfélögum, því að framkvæmdir eins og t.d. vatnsveitur eru ekki veðhæfar sem slíkar og verða ekki seldar á nauðungaruppboði. Þetta þýðir það, að lánastofnanir, sem að öðrum kosti lána út á ríkisábyrgðir, geta ekki lánað sveitarfélögunum, ef um einfalda ábyrgð er að ræða. Þess vegna er sveitarfélagið verr sett en einstaklingurinn eða hlutafélögin, þegar til ríkisábyrgða kemur, þar sem þeirra ábyrgðir verða yfirleitt ekki gjaldgengar, þegar um einfalda ábyrgð er að ræða.

Í öðru lagi er það, að í 5. gr. l. um ríkisábyrgðir er ríkissjóði heimilað að taka hvers konar greiðslur, sem viðkomandi sveitarfélag á að fá, upp í áfallna ríkisábyrgð, þó að þær séu ekki um skylt efni. T.d. má taka greiðslu, sem sveitarfélag ætti að fá vegna skóla, upp í áfallna ríkisábyrgð vegna hafnargerðar. Þetta atriði laganna gerir það að verkum, að ríkissjóður er betur settur til að afturkalla eða endurheimta ríkisábyrgðarlán, sem hann hefur innt af hendi fyrir sveitarfélög. Það er því auðveldara að innheimta hjá sveitarfélaginu en hjá einstaklingum. Af þeirri ástæðu er einnig ástæða til þess, að sveitarfélagið sitji ekki við verra borð en einstaklingar og félög á þessu sviði.

Eins og lögunum er háttað í dag, er því þannig varið, að sveitarfélög eiga miklu erfiðara með og næstum því ókleift fyrir sveitarfélög að hagnýta sér ríkisábyrgð vegna ákvæðis þessarar greinar ríkisábyrgðarlaganna. Og þegar það kemur til viðbótar, að ríkissjóður á auðveldara með að innheimta hjá sveitarfélagi en einstaklingum, þá virðist þessi breyting vera eðlileg og sjálfsögð.

Ef frv. það, sem við hv. 4. þm. Sunnl. flytjum hér á þskj. 11, verður að lögum, geta sveitarfélögin aftur fengið sjálfskuldarábyrgðir og þannig hagnýtt sér þá aðstoð, sem ætlazt er til að ríkið veiti þeim með hinum einstöku lögum, sem ég vitnaði til hér í upphafi máls míns. Það er því von okkar flm., að skilningur hv. alþm. verði sá, sem eðlilegt er, að sveitarfélög eigi ekki að sitja hér við verra borð en aðrir og þess vegna verði þessi breyting samþ. hér á hv. Alþingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. í fjhn.