25.10.1962
Neðri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

33. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um það að fella niður einkarétt Ferðaskrifstofu ríkisins til að reka ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn. Einkaréttur þessi var veittur fyrir 27 árum og þá miðað við allt aðrar aðstæður en þær, sem nú eru. Ástæðurnar fyrir þeirri breytingu, sem lagt er til að hér verði gerð, eru m.a. þessar:

Í flestum eða öllum löndum er nú keppt að því að greiða fyrir ferðalögum útlendinga, enda er það í mörgum löndum vaxandi tekjulind. Það er eðlilegt, að Íslendingar dragist ekki aftur úr í þessum efnum og taki fullan þátt í þessari samkeppni, enda er það víst, að ef rétt er á þessum málum haldið, þá eiga ferðalög útlendinga hingað að geta orðið veruleg atvinnugrein og þjóðinni veruleg tekjulind.

Eitt af því. sem er mjög mikilvægt í þeim efnum að greiða fyrir komu erlendra ferðamanna hingað, er það, að hinar stóru erlendu ferðaskrifstofur auglýsi ferðir hingað og greiði fyrir ferðum hingað. Þetta eru þær mjög tregar til að gera, meðan hér er aðeins einn aðili, sem má annast þessa starfsemi, því að helzt vilja þær hver um sig hafa sína sérstöku umboðsmenn. Í öðru lagi má svo benda á það, að hér á landi starfa nú orðið nokkrar ferðaskrifstofur, sem, meðan lögin eru þannig eins og nú er háttað, geta ekki gert annað en greitt fyrir ferðalögum Íslendinga, sem fara til útlanda eða ferðast hér innanlands, en geta ekki tekið á móti erlendum ferðamönnum, þó að þær séu vel færar um að gera það. Það er óeðlilegt að takmarka svo starfsemi þessara stofnana, að þær geti aðeins stuðlað að því, að menn ferðist til útlanda, en ekki að því, að útlendingar komi hingað.

Það mun áreiðanlega reynast bezt í þessum efnum eins og öðrum, þar sem því verður við komið, að hæfileg samkeppni geti átt sér stað í þessu tilfelli um það að greiða sem mest fyrir komu útlendinga hingað. Það er þess vegna eðlilegt, að þetta verði gefið frjálst og þeim ferðaskrifstofum, sem til þess eru taldar hæfar og einstaklingar, fyrirtæki eða félög reka, leyft að annast þessa starfsemi.

Á það hefur verið bent af aðilum, sem þessum málum eru kunnugir, að þegar þetta væri gefið frjálst, þá sé eðlilegt, að það sé haft nokkurt eftirlit með þeim fyrirtækjum, sem þessa starfsemi annast. Ég tel það vera rétt, þó að þessu atriði séu ekki gerð skil í þessu frv., heldur hef ég lagt fram annað frv., sem fjallar um þetta mál.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni, en legg til, að frv. verði vísað til samgmn.