25.10.1962
Neðri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

33. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þar sem málefni Ferðaskrifstofu ríkisins heyra í ríkisstj. undir mig, þykir mér rétt að láta í tilefni af þessu frv. koma fram nokkrar upplýsingar varðandi það mál, sem þetta frv. fjallar um.

Ég vil fyrst skýra frá því, að ríkisstj. skipaði fyrir nokkru nefnd þriggja manna til þess að fjalla um íslenzka löggjöf varðandi ferðamál. Í þeirri nefnd eiga sæti Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri í samgmrn., sem fer með málefni ferðaskrifstofunnar og ferðamál yfirleitt, Þorleifur Þórðarson framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu ríkisins og Sigurður Bjarnason alþm. Þessi nefnd hefur ekki enn lokið störfum, og er því ekki unnt að segja til um, að hvaða niðurstöðu nefndin kann að komast varðandi hugsanlegar breytingar á löggjöfinni um ferðamál. En ég tel sjálfsagt, að hið háa Alþingi bíði með að taka afstöðu til þessa frv., þangað til þessari nefnd hefur gefizt kostur á að ljúka störfum, en það ætti ekki að taka mjög langan tíma frá þessum degi.

Annars gefur þetta frv. mér tilefni til að gefa nokkrar almennar upplýsingar um starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins, til þess að hv. þm. verði það ljósara en þeim e.t.v. er, hvert er hlutverk hennar og að hverju hún hefur starfað.

Samkv. lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins er hlutverk hennar ferþætt: Í fyrsta lagi að annast landkynningu, í öðru lagi að annast fyrirgreiðslu gagnvart erlendum ferðamönnum, sem hingað koma, og hefur hún einkarétt á móttöku erlendra ferðamanna, í þriðja lagi að skipuleggja ferðalög Íslendinga innanlands og utan, og enn fremur er það hlutverk hennar lögum samkv. að annast hóteleftirlit, eftirlit með gistihúsarekstri.

Þessi störf hefur ferðaskrifstofan innt af hendi án þess að fá til þess nokkur bein framlög úr ríkissjóði hin síðari ár, hún hefur aflað sér tekna með annarri starfsemi en þeirri, sem hún á að hafa á hendi, til þess að standa undir þessari starfsemi, sem henni ber lögum samkv. að sinna.

Ferðaskrifstofan hefur helgað sig öðrum verkefnum, sem hún lögum samkv. þarf ekki að sinna. Er þar fyrst að nefna minjagripaverzlun, en ferðaskrifstofan hefur komið á fót mjög umfangsmikilli gerð og sölu minjagripa, sem fært hafa henni miklar tekjur. Þá hefur ferðaskrifstofan og annazt sölu farmiða innanlands og utan og haft af því verulegar tekjur. Í þriðja lagi hefur ferðaskrifstofan annazt gistihúsarekstur, einkum hin síðari ár. Það hefur að vísu ekki verið gert í tekjuöflunarskyni, en þó án þess að ferðaskrifstofan hafi haft af því nokkra fjárhagslega byrði. Hins vegar hefur þar verið um mjög þjóðnýtt starf að ræða.

Það er sérstaklega landkynningin, sem lögum samkv. er skylda ferðaskrifstofunnar að sinna, sem verið hefur fjárfrek. Ferðaskrifstofan hefur eytt mörgum millj. kr. á undanförnum árum í landkynningu, og — eins og ég sagði áðan — hin síðari ár aflað sér fjár til þess með rekstri, sem henni ber ekki skylda að hafa með höndum. Það sem af er þessu ári, hefur ferðaskrifstofan notað um 700 þús. kr. af eigin tekjum til landkynningar. Hún er fyrst og fremst fólgin í því, að gefnir eru út bæklingar á mörgum málum, og á þessu ári hafa verið gefnir út bæklingar um Ísland á sex tungumálum og upplag þeirra verið um 300 þús. eintök. Ferðaskrifstofan hefur og tekið á móti og greitt fyrir fjölda blaða- og kvikmyndatökumanna og rithöfunda, sem komið hafa til landsins, og aðstoðað þá á margvíslegan hátt um útvegun bóka og tímarita, sem helguð eru Íslandi, og haft af þessu veruleg útgjöld. Þá hefur Ferðaskrifstofa ríkisins samvinnu við stofnanir á hinum Norðurlöndunum um rekstur upplýsingaskrifstofu, bæði í Frankfurt am Main í Þýzkalandi og í Zurich í Svisslandi, og hefur þetta starf gefið góða raun. Í Bandaríkjunum er ferðaskrifstofan aðili að svonefndri European Travel Commission, en það eru samtök Evrópuríkja um ferðamál, og vinnur stofnunin að kynningu Evrópu í Bandaríkjunum. Þess má og geta, að nú nýlega tók ferðaskrifstofan þátt í hinni miklu vörusýningu í Frankfurt am Main í Þýzkalandi og greiddi kostnað við það. Eins og ég sagði áðan, hefur skrifstofan þegar á þessu ári varið um 700 þús. kr. af eigin tekjum sínum til landkynningar, og þeirra tekna er fyrst og fremst aflað með minjagripaverzluninni.

Þá hefur ferðaskrifstofan undanfarin ár látið sig það mjög miklu skipta að bæta gistihúsaaðstöðu hér á landi, bæði með því að fjölga gistirúmum og bæta aðstöðu á gististöðum.

Fyrir þrem árum skipaði menntmrn. nefnd til þess að athuga möguleika á því að hagnýta skóla, sérstaklega utan Reykjavíkur, heimavistarskóla á sumrum sem gistihúsnæði. Í þeirri nefnd áttu sæti Helgi Elíasson fræðslumálastjóri, Jónas B. Jónsson fræðslufulltrúi, Óskar Hallgrímsson framkvæmdastjóri A.S.Í. — gegndi því starfi þá, Lárus Ottesen framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og Þorleifur Þórðarson forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins. Nefndin athugaði aðbúnað í fjölmörgum skólahúsum þegar fyrir tveimur árum og komst að þeirri niðurstöðu, að unnt væri að hagnýta skólahúsnæðið miklu betur en gert hefur verið til þess að bæta gistiaðstöðu, en taldi þó, að nauðsynlegt væri að gera endurbætur á húsunum, til þess að þau yrðu hæfari sem gistihús en þau voru þá. Í framhaldi af þessu beitti ég mér fyrir því, að bankar hér í Reykjavík hefðu samtök um að lána Ferðaskrifstofu ríkisins nokkurt fé til að endurbæta heimavistarhús í nokkrum skólum utan Reykjavíkur og enn fremur til að endurlána nokkrum gistihúsum til að bæta húsnæði þeirra og aðstöðu til móttöku ferðamanna. Á árinu 1961, þ.e. í fyrravor, veittu bankarnir hér í Reykjavík sameiginlega nær 3 millj. kr. lán til að auka og bæta gistiaðstöðuna í landinu. Af þessu nær 3 millj. kr. láni bankanna fengu eftirtaldir gististaðir fé til þess að bæta aðstöðu sína: gistihúsið í Reynihlíð, Hótel Blönduós, gistihúsið í Grafarnesi, Hótel Búðir, gagnfræðaskólinn í Stykkishólmi, gistihúsið Bjarkalundur, Hreðavatnsskálinn og veitingahúsið á Hvolsveili. Enn fremur var nokkur hluti þessa fjár notaður til að bæta aðbúnað í heimavist menntaskólans á Akureyri og heimavist menntaskólans á Laugarvatni. Það voru notaðar 381 þús. kr. til að bæta heimavistina á Akureyri og 253 þús. kr. til að bæta heimavistarhúsnæðið á Laugarvatni. Þessar framkvæmdir höfðu það í för með sér, að á sumrinu 1961 voru gistirúm um það bil 100 fleiri en ella hefði orðið.

Á s.l. vetri, einkum á s.l. vori, varð ljóst, að gera þyrfti enn myndarlegt átak til að auka gistirúmið, því að það hefur komið í ljós með hverju ári undanfarið, að straumur ferðamanna til Íslands fer mjög vaxandi. Þess vegna varð það að ráði milli mín, hæstv. fjmrh. og hæstv. samgmrh., að nokkru fé skyldi varið nú á s.l. sumri til að bæta aðstöðu í ýmsum heimavistarskólum utan Reykjavíkur til þess að gera þá hæfari til gistihúsahalds. En við vorum á einu máli um, og það var einnig nefndin, sem ég nefndi áðan og málið hafði rætt mjög ýtarlega, að ein ódýrasta og hagkvæmasta leiðin til að stórauka tölu gistirúma í landinu væri einmitt sú að hagnýta heimavistarskólana utan Reykjavíkur og gera þá að sómasamlegum gistihúsum.

Það var ákveðið á s.l. vori að verja á þessu sumri 3 millj. kr. til að bæta aðbúnað í tilteknum heimavistarskólum og leggja til, að þetta fé yrði endurgreitt á þrem árum með fjárveitingum, sem veittar væru til þeirra skóla, þar sem endurbæturnar á húsnæðinu færu fram. Í fjárlagafrv., sem nýlega hefur verið lagt fyrir Alþingi, hefur verið gert ráð fyrir fyrstu greiðslunni af þremur, 1 millj. kr., til endurgreiðslu á þessu fé, sem í sumar var varið til að endurbæta gistiaðstöðu í heimavistarskólum.

Ég skal nú gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem hér er um að ræða: Til endurbóta á heimavist menntaskólans á Laugarvatni var varið 648 þús. kr. Til endurbóta á heimavist menntaskólans á Akureyri var varið 651 þús. kr., til endurbóta á heimavist héraðsskólans á Laugarvatni 500 þús., héraðsskólans á Laugum 454 þús., alþýðuskólans á Eiðum 271 þús. kr., eða samtals um 2.6 millj. kr.

Þessar framkvæmdir í sumar ollu því, að þessar 5 stofnanir, menntaskólinn á Akureyri og skólarnir á Laugarvatni, Laugum og Eiðum, urðu góðir gististaðir og gerðu kleift að taka á móti mörgum hundruðum fleiri ferðamanna en ella hefði verið kleift. Þessar framkvæmdir fóru fram að verulegu leyti að ráði Ferðaskrifstofu ríkisins og á hennar vegum.

Ég skal að síðustu gera grein fyrir því, að ég tel mjög nauðsynlegt að halda áfram að gera ráðstafanir til þess, að aðstaða til að taka á móti erlendum ferðamönnum hér á Íslandi batni, vegna þess að í ljós hefur komið, einkum eftir gengisbreytinguna 1960, að Ísland hefur fengið stórauknar heimsóknir erlendra ferðamanna og hér er um verulega tekjulind að ræða.

Á árinu 1961 komu til landsins 13516 erlendir ferðamenn. Ég hef hér fyrir framan mig áætlun kunnugra manna um, að þessir erlendu ferðamenn hafi varið í ferða- og dvalarkostnað auk annars kostnaðar hér á landi á þessu ári 114 millj. kr. Sú upphæð sundurliðast í aðalatriðum þannig: Dvalar- og ferðakostnaður er áætlaður 37.5 millj. kr., dvalar- og ferðakostnaður 2200 manna, sem komu með skemmtiferðaskipum, auk þeirrar tölu, sem ég nefndi áðan, til skammrar dvalar, 1.1 millj., fargjöld með flugvélum 58.8 millj., fargjöld með skipum 4.5 millj. og tekjur af minjagripasölu 12.5 millj., samtals 114.5 millj. kr. Þessir sömu aðilar telja, að óhætt sé að gera ráð fyrir því, að tekjur af erlendum ferðamönnum á þessu ári, árinu 1962, muni nema um 135–140 millj. kr.

Má af þessu marka, að hér er um verulegan tekjustofn fyrir þjóðarbúið að ræða. Það er því full ástæða til að gefa þessum málum rækilegan gaum. Þess vegna fjallar það frv., sem hér er um að ræða, um málefni, sem er allrar athygli vert. Mér þótti hins vegar rétt, að það kæmi fram í þessu sambandi, að ferðaskrifstofan hefur innt af hendi mjög víðtækt og mjög merkilegt starf, ekki aðeins það, sem henni ber skylda til lögum samkv., heldur hefur hún einnig annazt verkefni utan síns verksviðs, og það, hversu vel hún hefur sinnt þeim störfum, hefur einmitt gert henni kleift að inna af hendi skyldustörf sín betur en ella hefði verið henni kleift. Mér þótti og rétt, að þessar upplýsingar um þær ráðstafanir, sem af opinberri hálfu hafa verið gerðar til að bæta gistiaðstöðuna í landinu, kæmu fram í þessu sambandi, vegna þess að ég tel þurfa að halda áfram á þeirri braut, sem þegar hefur verið mörkuð með aðgerðum tveggja síðustu ára, sérstaklega á því sviði að hagnýta heimavistarskólana utan Reykjavíkur sem gistihús á sumrum.