25.10.1962
Neðri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

33. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef fylgzt nokkuð með störfum þeirrar nefndar, sem hér er um að ræða, en það er auðvitað ekki á mínu valdi að lofa neinu um það, hvenær hún ljúki störfum.

Ég get tekið undir þá ósk hv. þm., að hún ljúki störfum sem fyrst og áður en þessu þingi lýkur, þannig að niðurstöður hennar liggi fyrir þessu þingi, áður en því lýkur, svo að því gefist kostur á að breyta þeim lögum, sem hér er um að ræða, ef þingvilji reynist fyrir því.

Varðandi hitt atriðið, sem þm. sagði í lok ræðu sinnar, að hér væri um svo einfalt mál að ræða, að nefndarskipun til athugunar á því sé allsendis óþörf, verð ég að segja, að þessu sjónarmiði er ég algerlega ósammála. Hér er þvert á móti um mjög margbrotið og vandasamt mál að ræða. Þetta frv. felur í sér, að réttur til að veita viðtöku erlendum ferðamönnum, þ.e. réttur til að reka ferðaskrifstofur, sé gefinn algerlega frjáls. En það er ekki litið á það sem einfalt og vandalaust mál í löndunum í kringum okkur. Í þessu sambandi vil ég láta þess getið, að eitt aðalverkefni samgmn. Norðurlandaráðs nú á þessu ári hefur verið að fjalla um ósk, sem komið hefur fram frá formanni Sambands ferðaskrifstofa á Norðurlöndum þess efnis, að Norðurlandaráðið hafi forgöngu um, að löggjöf Norðurlandanna um ferðaskrifstofur verði endurskoðuð, vegna þess að þar er yfirleitt um að ræða frelsi til að reka ferðaskrifstofur með ótakmörkuðu verkefni. Þetta hefur jafnvel á Norðurlöndunum leitt til vandamála, sem þar eru skoðuð mjög alvarlegs eðlis. Það verður æ algengara, að upp kemst um misferli í sambandi við rekstur á ferðaskrifstofum. Þær skipuleggja hópferðir víða um heim, og það verður æ algengara, að þeir, sem taka þátt í slíkum hópferðum, séu hlunnfarnir með margvíslegum hætti. Fyrirgreiðsla er ekki sú sama, sem lofað hafði verið. Það eru ekki staðin skil á því fé, sem tekið hefur verið á móti. Þetta er á Norðurlöndum, þar sem þó má fullyrða, að siðferði í viðskiptaháttum sé með því bezta, sem gerist í veröldinni, — þetta er jafnvel þar orðið mjög alvarlegt vandamál, svo alvarlegt, að löggjafinn virðist verða að taka þetta mál til meðferðar þar. Þá virðist mega segja, að full ástæða sé fyrir okkur að hafa aðgát í því sambandi, þegar upp á því er stungið hér að lögleiða sams konar tilhögun og á hinum Norðurlöndunum. sem þar er farin að þykja varhugaverð. Með þessu er ég ekki að segja, að ekki komi til mála að breyta núgildandi löggjöf um þetta efni, sem gerir ráð fyrir einkasölu í þessum efnum. Það er eitt af verkefnum nefndarinnar að fjalla um það og mynda sér rökstudda og skynsamlega skoðun á því efni, sem Alþingi þá fær væntanlega að kynnast á sínum tíma. En hinu vildi ég andmæla, að hér sé um einhvern augljósan og einfaldan hlut að ræða, sem hægt sé að grípa til án nokkurrar frekari umhugsunar, að innleiða algert frelsi varðandi rekstur ferðaskrifstofa. Það er spor, sem yrði eflaust ekki til heilla. Ef slakað verður á þeim einkasöluböndum, sem nú eru í þessu máli, er a.m.k. nauðsynlegt, að mjög strangt opinbert eftirlit kæmi í staðinn.