25.10.1962
Neðri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

33. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um, að hér eigi ekki að vera um að ræða algert frelsi, heldur þurfi að hafa nokkurt eftirlit með þeim ferðaskrifstofum, sem koma til með að starfa, eftir að búið er að afnema einkarétt Ferðaskrifstofu ríkisins. Og í samræmi við það hef ég lagt fram sérstakt frv. á öðru þskj. um ferðaskrifstofur, þar sem er tekið fram, að það skuli vera háð leyfi ráðh. að mega reka ferðaskrifstofur og það skuli setja sérstaka reglugerð um það, hvaða skilyrði það eru, sem slíkar ferðaskrifstofur þurfi að fullnægja, og þær skuli ekki halda sínu rekstrarleyfi, nema því aðeins að þessum skilyrðum verði fullnægt. En ég álit, að þar sé um slíkt mál að ræða, að það sé mjög erfitt að setja um það sérstök lagaákvæði, heldur verði að leysa það mál með reglugerð, og þess vegna eigi þetta fyrst og fremst að heyra undir framkvæmd hjá ráðuneytum, en sé mjög erfitt að setja nákvæm skilyrði um þetta í lög, enda mundi niðurstaðan verða sú, að þó að einhver ákvæði verði sett um þetta skilmerkilega í lögin, þá mundi samt verða gefin út fyllri reglugerð um það, hvernig það ákvæði væri framkvæmt. Þess vegna álit ég, að það sé fullkomlega hægt að leysa þetta mál á þann hátt, sem lagt er til í frv. á þskj. 36, um ferðaskrifstofur.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að ég er mjög ánægður með þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að hann ætli að vinna að því, að umrædd nefnd, sem fjallar um þetta mál, ljúki störfum það tímanlega, að hægt verði að fjalla endanlega um þetta mál á þessu þingi.