25.10.1962
Neðri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

40. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í gildandi lögum um hafnargerðir og lendingarbætur er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður styrki að 2/5 hlutum allar meiri háttar hafnarframkvæmdir í landinu, enda séu þær gerðar í samráði við vita- og hafnarmálaskrifstofuna. Í lögunum er talið upp, hverjar hafnarframkvæmdir það séu, sem styrks eigi að njóta, og sú upptalning hefur lengzt nokkuð, eftir því sem árin hafa liðið, því að það er ævinlega að verða fleira, sem nauðsynlegt er að hafa í höfnum landsins, til þess að þær geti skilað sínu hlutverki.

Það er nú svo komið, að flest það, sem til þarf að afgreiða skip og varðveita þau, gera við þau o.s.frv., það er talið nauðsynlegt við hverja höfn og ríkisframlag ákveðið til alls þessa. Á hinn bóginn eru ekki enn sem komið er stigin stór skref í því, að við hafnirnar þurfi að vera neitt, sem gert er fyrir það fólk, sem á skipunum er. Að vísu vottar aðeins fyrir því í hafnarlögunum, eins og þau eru nú, að á þetta mál beri að líta, og ber að skoða það sem viðurkenningu af stjórnarvaldanna hálfu, að ekki séu öll vandamál leyst í hafnarlögum, þótt flestu því, sem viðkemur skipunum sjálfum, sé þar þannig fyrir komið, að fullnægjandi megi telja.

Það er sem sagt ákveðið í hafnarlögum, að verbúðir í viðleguhöfnum megi vera framlagsskyldar úr ríkissjóði til jafns við aðrar hafnarframkvæmdir. En nú er það raunverulega svo, að okkar atvinnulíf í sambandi við sjávarútveg kallar á það, að það þurfi að verða mikill tilflutningur fólks, þannig að fólk hópast saman á hinar ýmsu hafnir landsins á mismunandi árstímum, og þá er vissulega allt of lítið gert að því, að þetta fólk, — einmitt þetta fólk, sem þannig er slitið úr tengslum við heimili sín, eigi þess góðan kost að dveljast í sérstökum vistarverum, sem til þess eru ætlaðar. Sjómannastofur þurfa að mínu mati að vera meðal þess, sem úr ríkissjóði er styrkhæft sem hafnarframkvæmd við hverja höfn. Þeir, sem einkum hafa fjallað um fjárlögin á undanförnum árum, kannast a.m.k. við það og væntanlega reyndar allir þm., að ásókn á fjárhirzlur ríkisins fer sívaxandi, til þess að þaðan verði greiddur kostnaður við aukna löggæzlu einmitt í þeim hafnarbæjum eða þeim þorpum, sem myndazt hafa við hafnir landsins á þeim tímum, þegar þar er að vænta flestra manna í sambandi við þá atvinnu, sem þar er rekin. Löggæzlukostnaður úr ríkissjóði hefur líka farið stöðugt hækkandi á undanförnum árum. En því miður virðist það ekki vera einhlítt til þess að koma á eðlilegum lifnaðarháttum í sambandi við okkar atvinnuvegi, sem krefjast tilflutnings fólks, að auka tölu lögreglumanna eða stækka fangageymslur. Við það batnar ekki siðferði manna yfirleitt. Við þurfum þess vegna að hyggja að orsök þess, að slíkur kostnaður fer vaxandi hjá okkur. Ég hygg, að ein af ástæðunum fyrir því sé óumdeilanlega sú, að fólk, sem komið er burt af sínum heimilum til starfa í fiskihöfnum landsins, nýtur ekki þeirrar fyrirgreiðslu, sem vert væri. Ýmsir aðilar hafa með lofsverðum hætti reynt að koma upp sjómannastofum og vistarverum fyrir sjómenn og annað það fólk, sem hópast saman í sambandi við fiskveiðarnar og atvinnu við fiskverkun. En þetta er á engan hátt fullnægjandi. Og þess eru reyndar líka dæmi, að undir því yfirskini, að greiða ætti fyrir sjómönnum, hefur verið náð nokkru fé úr ríkissjóði, án þess að sú fyrirgreiðsla, sem stefnt var að, hafi komizt til framkvæmda.

Ég tel, að heppilegasta lausnin á þessu máli sé sú, að ríkissjóður ákveði, að sjómannastofur jafnt og önnur mannvirki, sem heyra til höfnum landsins, verði framlagsskyldar úr ríkissjóði að sama hluta og bryggjur, hafnarkranar o.s.frv. Það hygg ég, að mundi verða til þess, að hinir einstöku hafnarsjóðir mundu leggja sig fram um að búa einnig sem allra bezt að því fólki, sem nauðsynlegt er að komi á hafnirnar, en hefur því miður ekki aðstöðu þar sem skyldi. Það er augljóst mál, að sjómannastofa, sem væri samboðin nútímafólki, hlýtur að kosta verulegt fé. Þar þarf að vera góð aðstaða fyrir menn, bæði til lestrar og til skrifta. Þar þarf einnig að vera aðstaða til skemmtanahalds, svo sem eins og kvikmyndasýninga. Þar þarf að vera góð aðstaða til hreinlætis, til baða, og þar þurfa að vera skálar, þar sem hægt er að iðka léttar íþróttir á þeim höfnum, þar sem fólksfjöldinn safnast saman á vetrum, og helzt leikvangar, þar sem svo háttar, að samsöfnun fólks á sér stað að sumarlagi. En allt þetta hlýtur að kosta verulegt fé, og þess er tæpast að vænta, að þeir aðilar geti leyst þetta hlutverk myndarlega af hendi, nema þeir eigi til þess vísan nokkurn stuðning ríkissjóðs. En ég tel, að því fé ríkissjóðs, sem til þessa væri varið, væri óumdeilanlega vel varið og að íslenzkt þjóðfélag mundi fá þar í aðra hönd aukna ræktun á menningu fólksins í landinu, og einnig mætti þjóðfélagið meta það við þetta fólk, sem hér er í rauninni allhjálparvana, að það er þrátt fyrir allt að vinna þau þjóðnytsamlegustu störf, sem unnin eru í okkar landi.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera um það kostnaðaráætlun hér, hvað samþykkt þessa frv. mundi kosta ríkið á næstu árum. Vonandi mundi samþykkt frv. kosta ríkið eitthvert fé. Þar á ég við, að það mundi verða ráðizt í það af forráðamönnum hafnanna að framkvæma byggingu sjómannastofa og gera búnað þeirra góðan. En á hinn bóginn er augljóst, að hér gæti þó ekki orðið um svo stórar fjárfúlgur að ræða, að ríkið væri ekki í einu og öllu þess fullkomlega umkomið að standa við sinn hlut, við sínar skuldbindingar, sem því mundu skapast við samþykkt þessa frv.

Þetta frv. er ekki nýtt af nálinni hér í Alþingi. Það lá t.d. fyrir síðasta þingi og fékkst þá ekki afgreitt. Hér er það því flutt að nýju. En með því að efni þess er hv. þm. áður kunnugt, sé ég ekki ástæðu til að rekja það í einstökum atriðum nánar að svo komnu, en legg til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til sjútvn.