30.10.1962
Neðri deild: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

55. mál, innflutningsgjald af heimilisvélum

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Eins og rakið er í grg., sem fylgir þessu frv., hafa flestar stéttir á undanförnum árum tryggt sér styttri og hagfelldari vinnutíma. Ein stétt þjóðfélagsins, húsmæðurnar, hefur hins vegar ekki fylgzt með í þessari þróun. Þvert á móti má segja, að vinnutími margra þeirra hafi lengst. Bæði er það, að það er miklu örðugra nú en áður var fyrir heimilin að fá vinnuhjálp, og auk þess hefur hinn nýi tími og tækni haft það í för með sér, að heimilisstörfin eru á ýmsan hátt orðin miklu fjölþættari og margbreyttari en áður var. Afleiðingar alls þessa og ýmissa fleiri ástæðna eru þær, að vinnutími margra húsmæðra hefur lengzt, miðað við það, sem áður var, og sú hætta, sem í þessu liggur, mætti m.a. vera ljós, þegar það er íhugað, að það eru einmitt húsmæðurnar, sem eiga að annast mikilvægustu stofnanir þjóðfélagsins, þær stofnanir, sem leggja raunverulega grundvöllinn að öðrum stofnunum þjóðfélagsins, en þar á ég að sjálfsögðu við heimilið.

Þess má svo geta, eins og rakið er í grg., að á seinustu áratugum og árum hafa komið til sögunnar ýmsar vélar, sem létta heimilisstörfin. En svo undarlegt hefur þetta verið, að löggjafinn hefur fram að þessu yfirleitt litið á þessar vélar eins og þær væru einhverjar sérstakar lúxusvörur og lagt á þær tolla og skatta samkv. því. Þetta hefur gert það að verkum, að miklu færri húsmæður hafa átt þess kost að afla sér þessara véla en skyldi, og það oft einmitt þær, sem hafa versta aðstöðuna og í mörgum tilfellum hafa líka mesta þörfina fyrir þær. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er stefnt að því að bæta úr þessum órétti.

Á heimilisvélar leggjast nú allir venjulegir tollar og skattar, eins og vörumagnstollur. verðtollur, innflutningssöluskattur og smásöluskattur. Þessu til viðbótar leggst svo á heimilisvélarnar samkv. lögum frá 1960 rösklega 40% innflutningsgjald. En það gjald er aðeins lagt á vörur, sem eru taldar lúxusvörur eða miður nauðsynlegar.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er ekki gengið lengra en það, að lagt er til, að innflutningsgjaldið frá 1960 falli niður, en aðrar álögur séu látnar haldast. Þessu mundi þó fylgja veruleg verðlækkun á þessum vélum, eins og má sjást á því, að t.d. þvottavél, sem kostar núna 19200 kr. í heildsölu, mundi eftir þessa breytingu ekki kosta nema 14200 kr. í heildsölu. En kæliskápur, sem nú kostar 18200 kr. í heildsölu, mundi eftir þessa breytingu ekki kosta nema 13500 kr. í heildsölu. En rétt er að benda á, að þrátt fyrir það, þó að þessi verðlækkun ætti sér stað, er verð þessara véla samt talsvert hærra en það var haustið 1958. En þá kostaði t.d. þvottavél, sem nú kostar 19200 kr., ekki nema 13100, en kæliskápur, sem kostar nú 18200 kr., kostaði þá ekki nema 12000 kr. í heildsölu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að rekja þetta mál öllu lengra að sinni. Ég treysti því, að Alþingi líti svo á, að störf húsmæðra séu svo þýðingarmikil, að það sé rangt að verðleggja þessar nauðsynlegu vélar þeirra sem lúxusvörur, og þess vegna verði þessu gjaldi létt af.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjhn.