19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

70. mál, stuðningur við atvinnuvegina

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Hæstv. forseti. Aðalefni þess frv., sem hér liggur fyrir, er, að létt verði af útflutningsatvinnuvegum landsins ýmsum útgjöldum, sem á þeim hvíla nú, í því skyni að gera þeim síðan fært að rísa undir hækkuðum kaupgjaldsgreiðslum og öðrum hækkuðum útgjöldum, sem sjá má fyrir nú að þeir verða að taka á sig innan tíðar.

Ég hygg, að það muni flestir viðurkenna, að allar horfur séu á því, að fyrir dyrum standi allmiklar kauphækkanir í landinu, og sömuleiðis muni verða óhjákvæmilegt, að fiskverð verði hækkað allverulega frá því, sem verið hefur. Það er kunnugt, að mörg af stærstu verkalýðsfélögum landsins hafa þegar sagt upp kaupgjaldssamningum sínum og farið fram á kauphækkanir. Þau hafa bent á það, að að undanförnu hafi verðlag allt í landinu hækkað mikið og að þeim sé því nauðsynlegt að hækka kaupgjaldstaxtana. Það gefur líka auga leið, að fiskverðið hlýtur að fylgja hér á eftir, því að það er alllangt síðan það fiskverð, sem nú er í gildi, var síðast ákveðið, en verð á fiski er um leið undirstaða að kaupgjaldi sjómanna, og þegar aðrar launastéttir í landinu fá kauphækkanir, hefur jafnan orðið reynslan, að sjómennirnir gera kröfu um kauphækkun sér til handa um leið.

Nú vita allir, að þegar kauphækkanir ganga yfir, fer jafnan svo, að útflutningsatvinnuvegirnir geta komizt í nokkurn vanda með það, hvernig þeir eigi að mæta hækkuðum útgjöldum vegna hækkaðs kaups. Oft og tíðum hefur það orðið svo, að ráðið, sem gripið hefur verið til, hefur verið það að lækka gengi íslenzkrar krónu og bæta útflutningnum upp á þann hátt, en slíkt hefur jafnan reynzt skammgóður vermir, vegna þess að gengislækkunin hefur leitt af sér nýjar verðhækkanir og þá jafnframt gjarnan nýjar kauphækkanir aftur.

Við, sem stöndum að flutningi þessa frv., bendum á, að það er hægt að lækka ýmis útgjöld útflutningsatvinnuveganna frá því, sem verið hefur, um mjög verulegar fjárhæðir og gera útflutningsatvinnuvegunum þannig mögulegt að standa undir hækkuðu kaupgjaldi og greiðslum af sjávarútveginum, t.d. greiðslum af hækkuðu fiskverði.

Ég skal nú í stuttu máli gera grein fyrir því, hvaða útgjöld hér er aðallega um að ræða, sem við teljum að megi lækka útflutningsatvinnuvegunum til góða.

Eins og kunnugt er, þá er sjávarútvegurinn aðalútflutningsatvinnuvegurinn, og því mun ég fyrst og fremst ræða hér um þær lækkanir á útgjöldum, sem snerta sjávarútveginn mest.

Í þessu frv. gerum við ráð fyrir, að vaxtaútgjöld atvinnuveganna verði lækkuð mjög verulega frá því, sem þau hafa verið. Vaxtaútgjöldum má aðallega skipta í þrennt hjá atvinnuvegunum. Í fyrsta lagi er þar um vexti af svonefndum afurðalánum að ræða. Í öðru lagi er um vexti af öðrum rekstrarlánum atvinnuveganna að ræða. Og í þriðja lagi er um vexti af beinum stofnlánum að ræða.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að vextir af afurðalánum verði lækkaðir úr 7–7½%, sem þeir eru nú, niður í 2½–3%. Sú lækkun, sem þarna er lögð til, mundi fyrst og fremst koma niður á Seðlabankanum, vegna þess að það er hann, sem stendur undir þessum lánum að langmestu leyti. Það er ekki til þess ætlazt, að Seðlabankinn sé rekinn með þeim hætti, að hann safni gróða. Hans hlutverk er fyrst og fremst að stýra peningamálum landsins og það á þann hátt, sem megi verða framleiðsluatvinnuvegunum að sem mestu gagni. Það er enginn vafi á því, og það hefur raunar oft verið viðurkennt áður, m.a. af ýmsum hagfræðingum, sem ríkisstj. hefur mjög stuðzt við í sínum efnahagsmálaaðgerðum, að út af fyrir sig væri þetta framkvæmanlegt. Það væri hægt að haga þessu máli á þann veg, sem við leggjum til í þessu frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. En það, sem einkum hefur verið sett fyrir sig í þessum efnum, er, að ef afurðalánavextirnir yrðu lækkaðir þetta mikið, t.d. til sjávarútvegsins eða til útflutningsatvinnuveganna, þá væri hætta á því, að ýmsar aðrar framleiðslugreinar, sem meira eru miðaðar við framleiðslu fyrir innanlandsmarkað, mundu koma á eftir og fá að njóta svona lágra vaxta. Ég fyrir mitt leyti vil skilja hér algerlega á milli og hef gert grein fyrir því nokkrum sinnum áður. Ég álít, að útflutningsatvinnuvegirnir hafi sérstöðu í þessum efnum og það eigi að láta þá njóta þess með sérstaklega lágum vöxtum á einmitt þessum tegundum lána, á hinum svonefndu afurðalánum. Þetta er á margan hátt mjög hliðstætt því, sem gerist í mörgum öðrum löndum, þar sem í gildi eru ýmsar reglur, sem miða að því að efla útflutningsframleiðsluna sérstaklega, þar sem útflutningsframleiðslunni eru búin á ýmsan hátt önnur kjör en framleiðslu þeirri, sem aðallega er miðuð við innanlandsmarkað. Það ber líka að hafa í huga í sambandi við þessi svonefndu afurðalán, að þar er aðeins um lán að ræða til fremur stutts tíma út á framleiddar afurðir, sem gjarnan eru þá fulltilbúnar til útflutnings og oft og tíðum seldar, og því er hér um algerlega örugg lán að ræða. En það þarf óneitanlega að festa fé í þessari framleiðslu um stundarsakir og það mikið fé, á meðan vörunni hefur ekki verið breytt í gjaldeyri.

Í öðru lagi leggjum við svo til, að vextir af almennum rekstrarlánum útflutningsframleiðslunnar verði einnig lækkaðir, en þá aðeins lækkaðir niður í það, sem almennir vextir eru í landinu eða niður í það, sem þeir voru, áður en vaxtahækkunin síðasta var ákveðin. Þar gerum við ráð fyrir því, að útflutningsatvinnuvegirnir borgi sömu vexti af öðrum sínum rekstrarlánum en afurðalánum og aðrir atvinnuvegir gera. En þar yrði þó um nokkra lækkun að ræða, því að vextir af slíkum lánum eru nú 9–9½%, en mundu samkv. okkar till. færast niður í 7–7½%.

Þá er í þriðja lagi um vaxtalækkun að ræða samkv. þessu frv. af almennum stofnlánum. Nú eru vextir af almennum stofnlánum, t.d. sjávarútvegsins, yfirleitt 6½–8%. En fyrir viðreisnarlöggjöfina voru þessir vextir 4½% af þorra lánanna og á nokkrum upp í 6%. Þá var lánstími af flestum stofnlánum sjávarútvegsins 20 ár, en með viðreisnarlöggjöfinni var lánstíminn færður niður í 15 ár. Við leggjum til með þessu frv., að vextirnir af stofnlánum verði lækkaðir niður í það, sem þeir voru áður, og lánstíminn verði aftur lengdur og þannig verði létt á útgjöldum útflutningsatvinnuveganna í sambandi við vaxtagreiðslur af stofnfjárlánum. Við áætlum, að ef farið yrði að þessum till. okkar um lækkun vaxta, mætti á þann hátt lækka útgjöld útflutningsatvinnuveganna um u.þ.b. 100 millj. á hverju ári, það mætti létta útgjöldum af útflutningsatvinnuvegunum í kringum 100 millj. kr. á ári.

Þá leggjum við til í þessu frv., að vátryggingariðgjöld sjávarútvegsins verði lækkuð mjög verulega frá því, sem þau eru nú. Við gerum ráð fyrir því samkv. okkar till., að fyrst taki við um næstu áramót bráðabirgðafyrirkomulag á vátryggingargreiðslum fiskiskipaflotans, sem standi fram á mitt næsta ár, og þennan tíma verði málunum þannig fyrir komið, að ríkið hlutist til um það, að vátryggingariðgjöldin verði almennt lækkuð um helming frá því, sem þau hafa verið. En í umr. hér á Alþingi hefur það m.a. verið upplýst af hálfu hæstv. ríkisstj., að vátryggingariðgjöld fiskiskipa hér á landi séu yfirleitt helmingi hærri en þau eru í Noregi og í sumum tilfellum sé munurinn þó meiri. En upp úr miðju næsta ári teljum við, að það eigi að setja upp nýtt vátryggingarfélag, sem ríkið byggi upp, sem taki við vátryggingum fiskiskipaflotans, og þá sé að því stefnt, að hægt verði að halda vátryggingariðgjöldunum í um helmingi af því, sem þau hafa verið. Það er rétt, að af þessu gæti orðið nokkur áhætta fyrir ríkissjóð í fyrstunni, en það er ekki líklegt, að sú áhætta ætti að valda miklum útgjöldum fyrir ríkið.

Eins og nú er háttað, er talið, að vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans, þ.e.a.s. bátaflotans og togaraflotans, séu í kringum 140 millj. kr. á hverju ári. Hér er um gífurlega miklar greiðslur að ræða. Væri hægt, eins og við gerum ráð fyrir, að lækka þessi útgjöld um helming, þá væri létt af útgerðinni á næstu árum 70 millj. kr. á hverju ári. Það er rétt, að nú sem stendur er þessum málum komið fyrir á nokkuð sérstakan hátt, og mun ég víkja að því nánar í sambandi við aðrar till. okkar hér.

Þriðja till. okkar miðar að því að lækka útflutningsgjöld á sjávarafurðum frá því, sem nú er, niður í það sama, sem þau voru, áður en brbl. ríkisstj. voru sett í ágústbyrjun 1961. Fram að þeim tíma veru útflutningsgjöld af sjávarafurðum 2,9%, en nú eru slík gjöld komin upp í 7,4%. Það er enginn vafi á því, að slík útflutningsgjöld eins og þetta þekkjast ekki hjá nokkurri annarri þjóð. Yfirleitt er það svo, að það er talið mjög óeðlilegt að leggja sérstök gjöld á útfluttar vörur. Það er mjög sjaldgæft, að nokkur þjóð hagi þannig tekjuöflun sinni, að hún miði við það að skattleggja útflutninginn. Þvert á móti er þessum málum þannig fyrir komið, eins og ég sagði hér áður í minni ræðu, hjá mörgum þjóðum, að þær hafa í gildi ákveðnar reglur, sem miða að því að örva útflutninginn og veita útflutningnum sérstakan stuðning. Þar má m.a. minna á hin þekktu exportcredit-kerfi, sem margir þekkja og mikið eru notuð með erlendum þjóðum og eru öll einmitt miðuð við það að gera framleiðslu í þeim löndum fært að keppa á erlendum mörkuðum eða veita þeim þar sérstök fríðindi í sambandi við reksturinn. Eins og útflutningsgjöldin eru orðin nú hjá okkur, þá hygg ég, að þau muni koma til með að nema á þessu ári um 230–250 millj. kr. Sumt af þessum gjöldum rennur að vísu til fiskveiðasjóðs, til stofnlánasjóðs sjávarútvegsins, og það mætti segja, að við það væri búandi að taka smágjald í þann sjóð, á meðan ekki var frekar að gert í sambandi við útflutningsgjöld. En þó verður það að segjast eins og það er, að það er hæpið að hafa þær reglur gagnvart sjávarútveginum einum, að hann eigi einn út af fyrir sig að greiða þau gjöld, sem eiga að leggjast í stofnlánasjóði sjávarútvegsins, á sama tíma og flestar aðrar atvinnugreinar landsins eiga að fá fé til sinna stofnlána af almannafé í landinu.

Sú hækkun, sem ákveðin var á útflutningsgjöldum sjávarútvegsins í byrjun ágústmánaðar 1961, mun nema nú um 160 millj. kr. á ári, — aðeins hækkunin. Það er rétt, að þegar forsvarsmenn sjávarútvegsins töldu, að hagur hans væri ekki þannig, að hann þyldi að taka á sig þessi háu útflutningsgjöld, eins og við hafði verið miðað í brbl. ríkisstj. í ágústbyrjun 1961, þá var síðar á árinu gerð sú breyting á, að nokkrar greinar sjávarútvegsins fengju mikinn hluta af þessari gjaldahækkun upp í vátryggingargreiðslur fiskiskipaflotans um sinn. En þau ákvæði gilda aðeins um takmarkaðan tíma, og ég ætla líka, að það muni flestir viðurkenna, að það nær engri átt að halda slíku skipulagi við. Það er mjög óeðlilegt að ætla sér að leggja almennt útflutningsgjald á allar útfluttar sjávarafurðir og nota þann skatt til almennrar greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipanna, og það sérstaklega þegar svo er ástatt með framkvæmdina á vátryggingunni, eins og nú er, þegar skipin eru vátryggð eftir margs konar og mjög breytilegum reglum, þegar bótagreiðslurnar til hinna einstöku aðila eru mjög misjafnar. Enda er ég ekki í nokkrum vafa um það, að í skjóli þessa fyrirkomulags, eins og það er nú, þróast margt mjög óheilbrigt. Það eina rétta í þessum efnum er, að upp verði byggt sem fyrst vátryggingarfélag fyrir forgöngu ríkisins og undir beinu eftirliti ríkisins, sem sé byggt upp á þeim grundvelli, að það hljóti að skapa þannig aðhald, að vátryggingariðgjöldin verði af sjálfu sér sem lægst.

Í þessu frv. gerum við flm. þess ráð fyrir því, að útflutningsgjöldin verði lækkuð úr 7,4%, sem þau eru nú, niður í það sama sem þau voru fyrir ágústbyrjun 1961, niður í 2,9%. En eins og ég hef sagt, þá held ég, að fyllilega kæmi til mála að lækka þessi útflutningsgjöld enn þá meir og haga síðan fjáröflun til fiskveiðasjóðs á annan hátt en nú hefur verið gert. Ef þessi till. okkar væri samþ., yrði raunverulega létt af sjávarútveginum gjöldum, sem nema 160 millj. kr., en það er að vísu rétt, að sú lækkun yrði ekki til góða fyrir allar greinar sjávarútvegsins, miðað við það ástand, sem ríkir enn í þessum efnum. En þetta fyrirkomulag á greiðslu vátryggingariðgjaldanna mun eiga að standa a.m.k. út þetta ár.

Þá gerum við einnig ráð fyrir í þessu frv., að framkvæmd verði nokkur lækkun á flutningsgjöldum íslenzkra skipa, hvað við kemur flutningi á íslenzkum framleiðsluvörum á erlenda markaði. Kröfur um þetta efni hafa komið fram hvað eftir annað frá samtökum útvegsmanna. Það er almenn skoðun, að þau flutningsgjöld, sem íslenzk skip halda uppi og hafa raunverulega mótað, því að erlendu skipafélögin fara eftir þeim flutningsgjöldum, sem íslenzku skipafélögin, sem eru hér yfirgnæfandi í þessari starfsemi, raunverulega hafa markað, — að þessi flutningsgjöld séu of há og það eigi að lækka þau. Séu flutningsgjöld íslenzkra skipa borin saman við það, sem flutningsgjöld eru á milli annarra landa, bendir allt til þess, að flutningsgjöldin héðan frá Íslandi og á erlenda markaði séu til verulegra muna of há. Við leggjum því til, að til bráðabirgða verði ákveðið að lækka þessi flutningsgjöld í þágu útflutningsatvinnuveganna um 20%.

Þá er einnig lagt til í þessu frv., að önnur vátryggingariðgjöld en þau, sem beinlínis eru af veiðiskipunum sjálfum, en útflutningsatvinnuvegirnir verða að borga, ýmis önnur vátryggingariðgjöld, þau verði einnig með beinum fyrirmælum lækkuð nokkuð, og hygg ég líka, að full ástæða sé til þess og vátryggingarfélögin stæðu sig vel við það.

Þá er lagt til, að sölufélögum framleiðenda verði bannað að taka hærri þóknun í sambandi við söluumboð sín á útfluttum vörum en sem nemur 1%. Nú er langalgengast, að þessi félög taki 2% fyrir milligöngu sína, en í mörgum tilfellum vinna þau þó störf sín þannig, að þau vinna síðan í gegnum aðra milliliði, sem einnig verður að borga, 2% og allt upp í 4%. Af sumum útflutningsgreinunum er þannig tekið í umboðssölulaun innlendra og erlenda aðila 6% og allt upp í 8%. Hér er auðvitað um óhæfilega skattlagningu að ræða, og ætti að banna það, að þessar stofnanir tækju meira en sem nemur 1%, og það ætti að banna það einnig, að erlend umboðssölufélög fengju að taka meira en sem nemur 2% af sannanlegu söluverði.

Í grg. þessa frv. bendum við flm. á það, að ef þær ráðstafanir yrðu gerðar, sem í því eru greindar, mætti lækka útgjöld útflutningsatvinnuveganna um a.m.k. 400 millj. kr. á hverju ári. Að vísu yrði sú upphæð nokkru lægri á þessu ári eða fyrsta ári, á meðan þær reglur gilda, að verulegur hluti af hinu hækkaða útflutningsgjaldi er látinn renna til fiskiskipaflotans.

Ég tel, að það sé óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir svipaðar þessum, ef á að vera unnt að gera útflutningsatvinnuvegunum fært að standa undir þeim kauphækkunum, sem nú má sjá fyrir að hljóta að koma. Það þarf heldur enginn um það að efast, að það getur varla dregizt nema fram að næstu áramótum, þar til upp koma kröfur um það, að almennt fiskverð til bátaflotans verði að hækka allverulega frá því, sem það var ákveðið fyrir rúmu ári. Fiskverðið til bátanna er ekki orðið í neinu samræmi við annað verðlag í landinu, sem allt hefur verið stórum hækkandi, og það skapar engan eðlilegan grundvöll fyrir kaupgjaldi til sjómanna, eins og það er nú, ef kaup sjómanna á að fylgjast eitthvað með kaupgjaldi annarra launastétta í landinu. Auk þess er svo það, að við höfum lengi búið við það, að fiskverð okkar er allt of lágt, borið saman t.d. við fiskverð í Noregi. Nú er t.d. þannig komið, að um fiskverð í Noregi hefur verið samið fyrir stuttu þannig, að þar fá norskir fiskimenn og norskir útgerðarmenn 5,15 kr. fyrir hvert kg af þorski, slægðum með haus, á sama tíma sem hæsta verðið hér fyrir úrvalsflokk er 3,21 kr. fyrir fiskinn í sama ástandi. Mismunurinn er orðinn um það bil 2 kr. á hvert fiskkíló. Það mundi þýða hér fyrir veiði meðalbáts á vertíð um það bil að verðmæti 1 millj. kr. Þessi mismunur er auðvitað orðinn svo mikill, að engu er líkt. Miðað við þau hlutaskipti, sem nú eru í bátaútgerð okkar, mundi þetta jafngilda því, að ef við hefðum hér sama fiskverð og í gildi er nú í Noregi, þá yrði hlutur hvers einstaks skipverja hér 21–30 þús. kr. hærri en hann er í dag á vetrarvertíðinni einni. Svipaður munur er líka á verðinu á síld hér á landi og í Noregi. Þar hefur nú nýlega verið samið um verð á síld til frystingar, og verðið er 3,60 kr. á kg af síld til frystingar þar. En hér hefur líka nýlega verið samið um verðið á síld til frystingar, og það er 1,75 kr. á kg. Verðmunurinn er svo mikill, að verðið í Noregi er helmingi hærra en það er hér. Það er alveg ófullnægjandi skýring í sambandi við þann mikla verðmun á norska verðinu og því íslenzka að benda á, að í Noregi séu greiddar uppbætur úr ríkissjóði með fiskveiðunum þar. Það er að vísu rétt, að norska ríkið gerir það, en þær uppbótagreiðslur nema ekki nema örlitlu af þessum mikla mismun. Þeir, sem kynnt hafa sér þessi mál, hafa allir komizt að raun um það, að þessi mismunur liggur fyrst og fremst í nokkrum höfuðatriðum, og þau eru þessi, sem það frv. einmitt grípur á, sem hér liggur fyrir: Fyrst og fremst er um að ræða gífurlegan mismun á vaxtagreiðslum í Noregi og hér, þar sem vextirnir þar eru miklu lægri og gilda til miklu skemmri tíma, þar sem þar tekst að afskipa miklu hraðar en hér. En það er nákvæmlega sama, hvort þar er um að ræða vexti af stofnlánum eða vexti af almennum rekstrarlánum, þá eru vextirnir þar miklu lægri. Og í öðru lagi eru útflutningsgjöld þar varla til. Þar er um að ræða útflutningsgjöld á útfluttum sjávarafurðum, sem nema 0,75%, en hér eru hins vegar útflutningsgjöld, sem nema 7,4%. Aðeins útflutningsgjaldið eitt, 1,4%, mun nema á milli 50 og 60 aurum á hvert kg af hráefni miðað við þorskverð. Auk þessa koma svo til önnur þau atriði, sem frv. þetta fjallar um og ég hef hér gert nokkra grein fyrir, þar sem útgjöldin, sem hvíla á útflutningsframleiðslunni, eru sýnilega miklu hærri hjá okkur. Og það er óhjákvæmileg nauðsyn að vinna að því að lækka þessi útgjöld, svo að hægt sé að halda uppi sambærilegu fiskverði hér og hægt sé að greiða sambærileg laun hér við framleiðslustörfin eins og t.d. er hægt að gera í Noregi.

Það er einnig mjög athyglisvert, að í norskum sjávarútvegi er greiðslan á kaupi til verkafólksins einnig miklu hærri en hér. Þar er algengasta kaupið 33–35 kr. á tímann, á sama tíma og kaupið hér hefur verið um 25 kr. á tímann.

Ég gerði hér allrækilega grein fyrir efni þessa frv. á síðasta þingi, en þá fluttum við frv., sömu flm. og standa að þessu frv., sem mjög er í sömu átt. Ég sé því ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum nú að sinni, en vænti þess, að þetta mál fái nú greiða fyrirgreiðslu í þeirri nefnd, sem fær það til athugunar. Það er auðvitað hægt að hugsa sér á frv. ýmsar breytingar. En aðalatriðið er, að það sé tekið á þessu vandamáli, sem frv. fjallar um, það sé snúizt að því að létta á þeim útgjöldum, sem hægt er að létta á útflutningsframleiðslunni, svo að hún geti staðið undir þeim útgjöldum, sem sýnilega verða lögð á hana á næstunni umfram það, sem verið hefur.

Ég legg svo til, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. sjútvn.