06.12.1962
Neðri deild: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

70. mál, stuðningur við atvinnuvegina

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þar sem búizt er við, að ekki verði fundur í hv. d. fyrr en næstkomandi mánudag, vildi ég leyfa mér að biðja um að fá að gera örstutta athugasemd við ræðu hv. þm. Ég skal lofa því, að hún verði mjög stutt, enda gerist ekki þörf á öðru.

Okkur hv. þm. ber mjög mikið á milli. Hann ásamt flokksbróður sínum einum hefur lagt fram frv., sem á að spara sjávarútveginum 400 millj. kr. í útgjöld. Ég hef haldið því fram, að ákvæði frv. gætu ekki sparað útveginum meira en einhvers staðar milli 100 og 150 millj. kr. Það er þýðingarlaust, að við hv. þm. stöndum hér hvor framan í öðrum og deilum um þessar tölur, sérstaklega um, hversu mikið útgerðin gæti sparað á vaxtalækkuninni. Ég vil í stað þess stinga upp á því, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, leiti álits Seðlabankans á því, hversu mikil útgjaldalækkun mundi sigla í kjölfar þess, að 1.–3. gr. frv. yrðu framkvæmdar. Og ég vil jafnframt stinga upp á því, að frsm. nefndarinnar, þegar frv. kemur til 2. umr., greini frá svari Seðlabankans um þetta. Við skulum bíða eftir þeim úrskurði. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hann verður einhvers staðar á milli tölunnar 100 og 150 millj. kr., en hvergi nálægt tölunni 400 millj., sem þetta frv. þó er allt saman byggt á. Meira þarf ég svo ekki um þetta atriði að segja.

Þá er hitt meginatriði frv., að þessar 400 millj. kr. eiga skv. greinargerð að duga til þess að hækka hráefnisverð um hvorki meira né minna en 25–30% og kaup verkafólks, sem við framleiðsluna vinnur, um hvorki meira né minna en 20%. Áður en ég fer nokkrum orðum um þetta, vildi ég aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að sú gagnrýni, sem hv. þm. flutti á mínum tölum og byggð var á því að vitna í skýrslur Fiskifélagsins um landað hráefni árið 1961, er auðvitað fullkomlega út í bláinn, og þurfti ég raunverulega ekki á það að benda, því að öllum hv. þm. er ljóst, hvílíkur reginmunur er á fiskveiðum og sjávarafla hvers árs og útflutningi hvers árs. Það, sem við erum hér um að tala, er verðmæti útflutningsins annars vegar árið 1961 og hins vegar árið 1962. En að ætla að hnekkja tölum um verðmæti útflutningsins með því að vísa til verðmætis sjávarframleiðslunnar á sama ári er náttúrlega svo fullkomlega út í bláinn, að það er raunverulega ekki svaravert, sérstaklega þegar tölur eru teknar um síldveiðina, þar sem öllum er kunnugt um, hvílík geysisíldveiði varð árin 1961 og 1962. Þetta er svo einföld blekkingartilraun, að hún er varla svaraverð. En allt, sem hv. þm. gat um til þess að gera tölur mínar tortryggilegar, var á þessu byggt, að taka tölur úr framleiðsluskýrslunum til samanburðar við þær tölur, sem við höfum verið að tala um, sem eru úr útflutningsskýrslunum.

Með þessari einföldu athugasemd er í raun og veru allt það, sem hv. þm. sagði sem gagnrýni á mínar tölur, það er allt saman hrakið, því að það er allt saman byggt á sama misskilningnum eða sömu blekkingatilrauninni af hans hálfu.

Að síðustu get ég svo látið duga að taka fram, — og það getur verið síðasta orð mitt um þetta mál, því að með því tel ég tekin af öll tvímæli um, að þau orð, sem ég lét falla um þetta frv. í upphafi, voru ekki of stór, þó að þau hafi verið stór, — að ýmsar tölur frv. bera vott um það, að hv. þm. hafa áætlað útflutningsverðmæti ársins 1962 3550 millj. kr. Ég sagði í fyrri ræðu minni, að það kynni að vera heldur of hátt. Það þarf ekki að skipta máli, hvort það er um 200–300 millj. kr. hærra eða lægra, það skiptir engu máli í þessu sambandi, en flm. hafa miðað við 3550 millj. kr. útflutningsverðmæti á árinu 1962. Og hvað segir fyrri fim. nú í sinni löngu ræðu hér áðan? Hvaða tölu flytur hann nú um það, hvernig þetta útflutningsverðmæti sé saman sett? Hann telur hráefnisverðið vera 950 millj., greindi nákvæmlega, hvernig það var saman sett, og vinnulaun 300 millj. kr. M.ö.o.: hráefni og vinnulaun samtals í þessu útflutningsverðmæti eiga að vera 1250 millj. kr. Verðmæti hráefnisins og verðmæti vinnulaunanna í 3550 millj. kr. útflutningsframleiðslu er 1250 millj. kr., rúmlega 1/3. Getur nú hv. þm. sjálfur dæmt þetta frv. sitt öllu harkalegar en þetta, að bera þetta á borð fyrir hv. alþm., að samanlagt verðmæti hráefnis og launa verkafólks, sem við framleiðsluna vinnur, svo að orðin séu tekin úr grg. sjálfri, sé 1/3 af verðmæti alls útflutningsins. Á þessari meginvitleysu er það auðvitað byggt, að hægt sé að hækka hráefnisverðið um 25–30% og vinnulaun um 20%. Þarna er skýringin á meginvitleysu frv. M.ö.o.: hann útlistar skýringuna sjálfur og undirstrikar hana sjálfur. Það þarf ekki annað en lágmarksþekkingu á aðstæðum í útflutningsframleiðslunni til að vita, hvílík fjarstæða það er, að samanlagt verðmæti hráefnis og vinnulauna sé ekki nema rúmlega 1/3 af útflutningsverðmætinu. Mínar áætlanir um þetta höfðu verið þær, að af 3550 millj. kr. útflutningsverðmæti væri hráefnisverð um 2000 millj. kr. og vinnulaun um 700 millj. kr., þ.e. samtals hráefni og vinnulaun 2700 millj. af 3550 millj. Og þetta munu allir vitibornir menn vita, að hlýtur að teljast nokkurn veginn nærri lagi. En ef gert er ráð fyrir þessum tölum, hráefnisverði 2000 millj. og vinnulaunum 700 millj., í 3550 millj. útflutningsframleiðslu, þá þarf, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, einhvers staðar milli 640 og 740 millj. kr. til að geta hækkað hráefnisverð um 20–30% og kaupgjald um 20%, eða næstum því helmingi meira en frv. sjálft segir að það eigi að spara, þó að sú tala sé líka of há.

Ég fæ því ekki annað séð en eftir þessa ræðu hv. þm. standi allt það í meginatriðum algerlega óhaggað, sem ég sagði í minni gagnrýnisræðu á þetta frv., og ekki einungis, að það standi óhaggað, heldur hjálpaði hv. þm. mér nú í gagnrýni minni á frv. með því að upplýsa, hvernig hans eigin vitleysa er til komin. Hún er þannig til komin, að hann áætlar, að samanlagt hráefni og vinnulaun séu ekki nema rúmlega 33 af verðmæti útflutningsframleiðslunnar. Ef menn reikna út frá svona fráleitum, svona furðulega vitlausum forsendum, er ekki von, að menn komist að réttri niðurstöðu.