11.12.1962
Neðri deild: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er þrennt, sem veldur því, að ég kveð mér hljóðs um þetta mál. Í fyrsta lagi er það efni frv. sjálfs, en þar er um athyglisvert mál að ræða. Í öðru lagi viðhafði flm. í framsöguræðu sinni ummæli um stjórnmál og þróunina undanfarin ár, sem ég álit röng, sérstaklega hvað snertir þátt Alþfl. í stjórnmálum og verkalýðsmálum. Í þriðja lagi eru í grg. skýrslur og töflur, sem ætlað er að sýna breytingar á kjörum launþega. Dregur flm. þær ályktanir af þeim, að kjör launþega hafi farið versnandi undanfarið og hluti þeirra af þjóðartekjunum minnkandi. Þessar skýrslur og töflur hafa raunar verið birtar áður, og er oft til þeirra vitnað, en af þeim er alls ekki hægt að draga þær ályktanir, sem gert er í grg. og margoft hefur verið gert opinberlega áður. Er því kominn tími til að leiðrétta rækilega þær villur, sem hér er um að ræða, og gera alvarlega tilraun til þess að leiða í ljós sannleikann um þetta efni. Mun ég leitast við að gera það síðar í þessari ræðu.

Ég ætla fyrst að fara nokkrum almennum orðum um efni þessa frv.

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld hefur það farið mjög í vöxt, að ríkisstjórnir efni til áætlunargerðar í sambandi við stjórn sína á efnahagsmálum. Á þetta ekki aðeins við um Austur-Evrópulönd, heldur hefur þetta einnig átt sér stað í flestum löndum Vestur-Evrópu og í þeim löndum í öðrum heimsálfum, sem nú keppa að því að iðnvæðast. Upphaflega voru það jafnaðarmenn í V.-Evrópu, sem beittu sér fyrir því, að slík áætlunargerð væri tekin upp í löndum, sem búa við einkarekstur eða blandaðan einkarekstur og opinberan rekstur. Síðar hafa aðrir stjórnmálaflokkar einnig beitt sér fyrir þessu. Nú síðast hefur stjórn brezka íhaldsflokksins tekið upp áætlunargerð. Og fyrir frumkvæði Bandaríkjastjórnar vinna öll aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar nú að undirbúningi áætlunar um aukningu þjóðarframleiðslu sinnar um 50% á áratugnum 1960–70.

Það er mikilvægt að gera sér ljóst, hvaða þýðingu áætlunargerð sem aðferð eða tæki við stjórn efnahagsmála getur haft og hvaða takmörk henni eru sett. Í fyrsta lagi er ástæða til að leggja áherzlu á, að hér er ekki um að ræða aðferð eða tæki, sem ætlað sé að koma í stað þeirra hagstjórnartækja, sem áður hafa verið notuð og eru notuð, svo sem stjórnar peningamála, stjórnar fjármála og réttrar skráningar erlends gengis. Öll þessi atriði eru nauðsynleg skilyrði eðlilegs rekstrar á þjóðarbúskapnum og framþróunar hans. Án þess að peningamálum og fjármálum sé rétt stjórnað og gengið rétt skráð, getur ekki til lengdar orðið um að ræða eðlilegan vöxt þjóðarframleiðslunnar. Þetta á ekki aðeins við um þau þjóðfélög, sem nefnd eru kapítalísk, heldur einnig um hin, sem telja sig sósíalísk, og hefur á þessu verið vaxandi skilningur einmitt í hinum sósíalísku löndum. Sem dæmi má nefna, að Júgóslavar framkvæmdu fyrir nokkrum árum víðtækar ráðstafanir til leiðréttingar á gengi erlends gjaldeyris og til þess að koma peningamálum og fjármálum sínum á réttan kjöl, og voru þessar ráðstafanir í heild í raun og veru alveg hliðstæðar þeim efnahagsráðstöfunum, sem núv. ríkisstj. framkvæmdi í ársbyrjun 1960. Þess má og geta, að Sovétríkin hafa nýlega leiðrétt gengisskráningu sína.

Í öðru lagi er ástæða til að benda á, að samning framkvæmdaáætlana getur ekki komið í staðinn fyrir ábyrgð og framtak stjórnenda atvinnufyrirtækja varðandi rekstur fyrirtækjanna og fjárfestingu þeirra. Þetta á jafnt við, hvort sem um er að ræða þjóðfélag, sem kallað er kapítalískt eða sósíalískt. Þennan lærdóm hafa einmitt hin sósíalísku ríki verið að læra að undanförnu og þó alveg sérstaklega Júgóslavía og Sovétríkin. Í þeim ríkjum er einmitt verið að breyta hagkerfinu í þá átt að láta ábyrgð og framtak stjórnenda fyrirtækjanna og verkamanna, sem í þeim vinna, fá sem mest og víðtækast svigrúm.

Áætlunargerðin hefur aðra og takmarkaðri þýðingu. Ef eðlileg skilyrði eru fyrir hendi í efnahagslífinu, getur áætlunargerðin stuðlað að tvennu:

Í fyrsta lagi er hún mikilvæg fyrir framkvæmdir opinberra aðila á þeim sviðum, sem undir þá heyra: svo sem vegagerð, hafnagerð, skólabyggingar og því um líkt. Áætlunargerðin getur stuðlað að því, að framkvæmdir á þessu sviði hæfi betur þörfunum en ella hefði verið, að þær séu framkvæmdar á skipulegri hátt en ella og fjár til þeirra sé aflað með heilbrigðu móti. Þannig getur áætlunargerðin stuðlað að því, að sem mestur árangur náist af starfsemi hins opinbera á því sviði, sem sérstaklega er í verkahring þess, og komið í veg fyrir, að þessi starfsemi hafi truflandi áhrif á efnahagslífið að öðru leyti.

Í öðru lagi getur áætlunargerðin stuðlað að því, að samskipti hins opinbera og atvinnulífsins verði heppilegri og hagkvæmari en ella mundi eiga sér stað. Áætlunargerðin getur stuðlað að því, að allir aðilar geri sér ljósari en ella þau vandamál, sem við er að etja í atvinnulífinu, og þar með auðveldað, að ráðstafanir séu gerðar til að leysa þau fyrr en ella hefði átt sér stað. Hún getur hjálpað bæði hinu opinbera og leiðtogum atvinnulífsins að skilja vandamálin og átta sig á því, hvaða tökum eigi að taka þau. Og hún getur stuðlað að því, að þessir aðilar vinni betur saman en ella.

Talið er, að á þessu sviði hafi sérstaklega mikill árangur náðst af áætlunargerð í Frakklandi og að áætlunargerðin þar hafi stuðlað að því, að einkareksturinn hafi sett sér hærra mark varðandi fjárfestingu og framleiðsluaukningu en ella hefði átt sér stað og þannig átt verulegan þátt í að örva aukningu þjóðarframleiðslunnar þar í landi.

Þegar núv. stjórnarflokkar hófu samstarf sitt 1959, varð það að samkomulagi milli þeirra að hagnýta áætlunargerð af þessu tagi til þess að stuðla að sem örustum vexti þjóðarframleiðslunnar, þegar yfir lengra tímabil væri litið. Af þessum ástæðum fékk ríkisstj. með fjárhagslegri aðstoð Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París þrjá norska sérfræðinga á þessu sviði til landsins, og störfuðu þeir hér síðari hluta ársins 1961 að því að gera frumdrög að framkvæmdaáætlun fyrir næstu 5 ár.

Meðan þeir störfuðu hér, kom í ljós, að mjög erfitt er að fást við þessi mál hér vegna skorts á mörgum grundvallarupplýsingum og vegna þess, að svipað starf hefur ekki verið unnið hér áður. Við þetta bættist, að engin stofnun var hér til, sem hafði aðstöðu til þess að sinna þessum málum sem höfuðverkefni. Varð það því niðurstaðan eftir allmiklar athuganir á því, hvaða fyrirkomulag mundi henta bezt, að ríkisstj., Seðlabankinn og Framkvæmdabankinn sameinuðust um að koma á fót stofnun til þess að sinna þessum verkefnum, og hlaut hún nafnið Efnahagsstofnunin. Jafnframt var hagdeild Framkvæmdabankans flutt til hinnar nýju stofnunar. Efnahagsstofnunin hefur aðeins starfað í nokkra mánuði, og er því lítil reynsla enn fengin af störfum hennar. Hún hefur fyrst og fremst unnið að því að halda áfram því verki, sem norsku sérfræðingarnir hófu. Má gera ráð fyrir, að fyrstu niðurstöður af því starfi verði tilbúnar snemma á næsta ári. Ástæða er til að leggja áherzlu á, að hér er um fyrstu tilraun að ræða. Enn er ekki hægt að fullyrða um, hvernig bezt væri að nota áætlunargerð hér á landi, og skilyrði til áætlunargerðar almennt eru af ýmsum ástæðum erfiðari hér á landi en annars staðar. Enn vantar hér ýmsar grundvallarupplýsingar, sem í öðrum löndum eru notaðar við slík störf. Ráðuneyti og stofnanir eru óvön þeim starfsháttum, sem áætlunargerðin krefst. Þar við bætist, að afskipti Alþingis af opinberum framkvæmdum eru miklu meiri en víðast hvar annars staðar. Hinar miklu sveiflur, sem eiga sér stað í höfuðatvinnuvegum Íslendinga, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, torvelda starfið einnig. Og auk þess er, eins og ég gat um áðan, hér um algera nýjung að ræða. Hér hefur aldrei fyrr verið reynt að gera áætlanir af þessu tagi, þ.e. áætlanir, er taki til allra greina þjóðarbúskaparins, en þó einkum til opinberra framkvæmda.

Í tilefni af ummælum í grg. þessa frv. er rétt að benda sérstaklega á, að nýbyggingaráð gerði aldrei neinar áætlanir af þessu tagi. Nýbyggingaráð var fyrst og fremst stofnun, sem úthlutaði gjaldeyri með sama hætti og innflutningsnefndin úthlutaði gjaldeyri á sama tíma og fjárhagsráð og innflutningsskrifstofan síðar. Nýbyggingaráð hafði með höndum úthlutun gjaldeyris til kaupa á skipum, vélum og því um líku. Þessi gjaldeyrisúthlutun fór fram án þess, að heildaráætlun um hana væri gerð og enn síður nokkur tilraun til þess að starfa eftir þjóðhagsáætlunum eða framkvæmdaáætlunum. Ég segi þetta ekki til þess að gagnrýna störf nýbyggingaráðs. Sannleikurinn var sá, að á þeim tíma hafa eflaust verið lítil skilyrði til að gera slíkar áætlanir, auk þess sem mikill hraði var hafður á framkvæmdum öllum og því lítill tími til stefnu.

Meðan stjórn Hermanns Jónassonar sat að völdum á árunum 1956–58, var ekkert unnið að slíkri áætlunargerð. Höfuðástæðan var sú, að Framsfl. hafði lítinn áhuga á slíku, og var það tilefni til verulegrar óánægju innan ríkisstj. af hálfu hinna tveggja stjórnarflokkanna, Alþfl. og Alþb. Það skal að vísu fúslega játað, að áætlunargerð hefði haft mjög takmarkaða þýðingu á þeim árum, á meðan ekki var búið að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. En slíkar ráðstafanir tókst vinstri stjórninni aldrei að gera, svo sem alkunna er.

Í þessu sambandi er þó rétt að skýra frá því, að í sambandi við efnahagsráðstafanir vorið 1958 var ákveðið í ríkisstj. Hermanns Jónassonar að taka áætlunargerðina fastari tökum. Það tafðist að vísu vegna þess, að engin stofnun var til í landinu, sem tekið gæti slíkt starf að sér, og mikil andstaða gegn því að koma á fót nýrri stofnun á þessu sviði. En þáv. forsrh., Hermann Jónasson, ákvað þó um haustið 1958 að setja á laggirnar nefnd til að vinna að þessum málum, og átti flm. þessa frv., hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, að taka sæti í nefndinni. Einar Olgeirsson neitaði hins vegar að taka sæti í nefndinni. Skildi ég það þá þannig og held enn, að sá skilningur sé réttur, að Einar Olgeirsson hafi ekki talið, að full alvara hafi fylgt þessu máli af hálfu ríkisstj. og þá Framsfl. fyrst og fremst, og hafi það verið ástæða þess, að hann tók ekki sæti í nefndinni. Ekkert varð því úr frekari aðgerðum í málinu, enda voru dagar ríkisstj. brátt taldir. Ásakanir Einars Olgeirssonar í garð þáv. ráðunautar í efnahagsmálum, Jónasar H. Haralz, og þáverandi aðalbankastjóra Seðlabankans, Vilhjálms Þórs, um, að þeir hafi verið sérstakir dragbítar á það, að ríkisstj. Hermanns Jónassonar sneri sér af alvöru að áætlunargerð, eru því á misskilningi byggðar. Jónasi H. Haralz var að vísu ætlað að vera formaður í nefndinni, sem ég gat um áðan, en að öðru leyti hafði hann ekkert með málið að gera, enda var það eingöngu rætt innan ríkisstj. og milli fulltrúa stjórnarflokkanna. Þótt talað hafi verið um nauðsyn áætlunargerðar á undanförnum árum og áratugum, hefur þó aldrei komið til neinna framkvæmda í þeim efnum, fyrr en núv. ríkisstj. hefur tekið þetta mál föstum tökum.

Flokkur hv. fim. þessa frv., Einars Olgeirssonar, hefur tvívegis átt aðild að ríkisstj. á árunum eftir stríð, Sósfl. á árunum 1944–46 og Alþb. á árunum 1956–58. Alþfl. átti sæti í báðum ríkisstj., Sjálfstfl. í þeirri fyrri, en Framsfl. í hinni síðari. Í hvorugt skiptið hafði stjórnarþátttaka flokks Einars Olgeirssonar neina þýðingu í þá átt, að efnt væri til áætlunargerðar. Ekki er hægt að kenna Framsfl. einum um það, hversu lítið flokki Einars Olgeirssonar hefur orðið ágengt í þessum efnum. Hann var ekki í stjórn 1944–46. En það er óneitanlega dálítið dapurleg staðreynd fyrir hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, og flokk hans, að aðild hans að tveim ríkisstj. skuli ekki hafa getað hrundið þessu áhugamáli hans fram um eitt hænufet. Hins vegar er ekki flokkur hans fyrr horfinn úr ríkisstj. og Alþfl. og Sjálfstfl. teknir einir við stjórnartaumunum en málið er tekið föstum tökum og því hrundið í framkvæmd. Þótt ég telji grundvallarhugsunina, sem felst í þessu frv. hv. 3. þm. Reykv., vera skynsamlega og það hefði áreiðanlega verið til mikilla bóta, ef fyrir löngu hefði tekizt samstaða um að hagnýta skynsamlega áætlunargerð um stjórn íslenzks þjóðarbúskapar, er ekki þar með sagt, að ég telji þá skipun málanna, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., vera hina hagfelldustu.

Í frv. er lagt til, að sett verði á laggirnar nefnd kosin af Alþingi til þess að fást við áætlunargerðina. Nefndin á að hafa heimild til þess að ráða til erlenda og innlenda sérfræðinga, og henni á að fela ýmis störf, sem nú eru unnin af öðrum aðilum, bæði nefndum og stofnunum. Er því ljóst, að hér hlyti að verða um mikið bákn að ræða. Framkvæmdavald á nefndin ekki að hafa, heldur á ríkisstj., einstök ráðuneyti, Seðlabankinn og aðrar ríkisstofnanir að sjá um framkvæmdirnar. Að vísu er það ekki ljóst af frv., hvernig eigi að tryggja það, að áætlunargerðin sé unnin í nægilegu samráði við ríkisstj. og aðra framkvæmdaraðila.

Núv. ríkisstj. hefur tekið raunhæfari tökum á þessum málum en gert er ráð fyrir í þessu frv. Í rauninni er ríkisstj. með stofnun Efnahagsstofnunarinnar búin að framkvæma meginefnið í þeim till., sem felast í þessu frv., en á skynsamlegri og raunhæfari hátt en þar er gert ráð fyrir. Ríkisstj. hefur ákveðið, að áætlunargerðin fari fram undir yfirstjórn hennar sjálfrar. Hún hefur ásamt þeim opinberu aðilum, sem þessi mál snerta mest, komið á fót stofnun til þess að vinna að þessum málum og jafnframt fellt undir þá stofnun þá starfsemi svipaðs eðlis, sem fyrir var, þannig að kostnaðarauki verði sem minnstur. Í stjórn stofnunarinnar sitja þeir embættismenn, sem þessi mál snerta mest, sem eru ráðunautar ríkisstj. Með þessu fyrirkomulagi er reynt að tryggja, að sjónarmið ríkisstj. og þeirra aðila, sem fara með yfirstjórn peningamála í landinu, komi fram við áætlunargerðina og tengslin milli áætlana og framkvæmda séu sem öruggust, jafnframt því sem sú sérþekking, sem fyrir hendi er, sé hagnýtt á sem beztan hátt. Ég hika ekki við að fullyrða, að þessi skipan sé hagkvæmari og betri á allan hátt en sú, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Í framsöguræðu sinni ræddi hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, nokkuð um stjórnmálaþróunina undanfarin ár og áratugi og þá einkum um þátt Alþfl. í henni. Hann taldi lítið hafa áunnizt í þágu íslenzks verkalýðs og virtist telja Alþfl. bera höfuðábyrgð á því. Hann fór og mörgum orðum um, að efnahagsþróunin hafi verið stjórnlaus og kjör launþega versnandi hin síðustu ár. Svipað segir í grg. þessa frv., en þar stendur á bls. 9 m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Og skýrslur sýna, að fjárfestingin í hlutfalli við þjóðarframleiðslu hefur farið vaxandi, en neyzla í hlutfalli við þjóðarframleiðslu farið minnkandi.“ Síðan kemur tafla um neyzlu og myndun fastra fjármuna á árunum 1948–1957, og síðan heldur flm. áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Og hið hörmulega var, að þessi fjárfesting var tilviljanakennd og stjórnlaus, óhugsuð og laus við að vera skipulögð frá því sjónarmiði að bæta lífskjör þjóðarheildarinnar sem mest með því að auka hagnýta framleiðslu hennar og vann því ekki nema að nokkru leyti það verk, sem er höfuðtilgangur fjárfestingar, að bæta og tryggja lífskjörin til frambúðar.“

Þetta er mjög harður dómur um stjórn íslenzkra efnahagsmála eftir styrjöldina. En hv. 3. þm. Reykv. má ekki gleyma því, að flokkur hans hefur setið í tveim ríkisstj., síðan styrjöldinni lauk, og á því sannarlega sinn þátt í því, ef fjárfestingin hefur verið tilviljanakennd og stjórnlaus, óhugsuð og laus við það að vera skipulögð frá því sjónarmiði að bæta lífskjör þjóðarheildarinnar sem mest.

Enda þótt ég geti ekki að öllu leyti tekið undir dóm hv. 3. þm. Reykv., er ég honum þó sammála um, að Íslendingum hefur því miður ekki farið stjórn efnahagsmála sinna eins vel úr hendi síðan í styrjaldarlok og skyldi. Þó að það sé að vísu ekki rétt hjá honum, eins og ég mun síðar koma rækilega að, að lífskjör launþega hafi farið versnandi, né heldur, að hlutur þeirra í þjóðartekjum hafi farið minnkandi, þá er hitt tvímælalaust, að vöxtur þjóðarframleiðslunnar hefði getað orðið meiri og kjör launþega því batnað meir en átt hefur sér stað, ef efnahagsmálum þjóðarinnar hefði verið stjórnað skynsamlegar en gert hefur verið lengst af síðan stríði lauk. Ég tel lítinn vafa á því, að ein höfuðástæða þess, að svona hefur til tekizt, sé sú, hve áhrif verkalýðshreyfingarinnar hafa verið tiltölulega lítil hér á landi. Verður þetta einkum ljóst, ef þróunin hér er borin saman við þróunina á hinum Norðurlöndunum. Þar hefur áhrifa verkalýðshreyfingarinnar á stjórn efnahagsmála gætt í miklu ríkara mæli en hér og meira tillit verið tekið til sjónarmiða hennar og hagsmuna. Hv. 3. þm. Reykv. virðist gera sér þetta ljóst, og hann sér, að þetta getur varla dulizt nokkrum manni. Þess vegna reynir hann að skýra þetta, og skýring hans er ofur einföld. Alþfl. hefur brugðizt, Framsfl. hefur reynzt afturhaldssamur, Sjálfstfl. hefur tekizt að efla auðvaldið á kostnað verkalýðsins. En það er eins og hv. 3. þm. Reykv. gleymi alveg, að á sviði íslenzkra stjórnmála og verkalýðsmála hafa starfað flokkar, sem heita Kommúnistaflokkur Íslands, Sameiningarflokkur alþýðu sósíalistaflokkurinn og Alþýðubandalagið. Eða heldur Einar Olgeirsson í raun og veru, að starfsemi þessara þriggja flokka hafi bókstaflega engin áhrif haft á framvindu íslenzkra stjórnmála og verkalýðsmála, síðan hinn fyrsti þeirra kom til sögunnar fyrir rúmum 30 árum? Það er kannske ekki von, að það hvarfli að hv. þm., að það, hversu ömurlegt honum þykir nú umhorfs í íslenzkum stjórnmálum og verkalýðsmálum, kunni að eiga rót sína að rekja til þess starfs, sem unnið hefur verið á vegum þessara þriggja flokka s.l. 30 ár og hann sjálfur hefur átt einhvern drýgstan þátt í. Það er kannske ekki von, að það hvarfli að hv. þm., að það, hversu lítinn árangur hann telur hafa náðst í þágu íslenzks verkalýðs á undanförnum áratugum, kunni að eiga rót sína til þátttöku hans sjálfs í íslenzkum stjórnmálum og verkalýðsmálum. En hann verður að fyrirgefa, þótt ýmsir aðrir láti sér það til hugar koma í fullri alvöru.

Það er staðreynd, að síðan á stríðsárunum hefur íslenzkum efnahagsmálum ekki verið vel stjórnað, eins og ég gat um áðan. Þróunin hefur einkennzt af stöðugri og að því er virðist illlæknanlegri verðbólgu. Kaupgjald og verðlag hefur hækkað hér á víxl meira en í flestum nágrannalandanna, en það hefur dregið úr vexti þjóðarframleiðslunnar, beint fjárfestingunni inn á rangar og óarðbærar brautir. Lífskjörin hafa ekki batnað eins ört og eins jafnt og átt hefur sér stað í nágrannalöndum og unnt hefði átt að vera hér. Af öllum stéttum þjóðfélagsins hefur launþegunum verið þessi þróun óhagstæðust. Þeir hafa búið við mesta óvissu. Sparifé þeirra hefur rýrnað í sífellu, en eignir eignamanna hækkað í verði. Þetta er sannarlega ekki þróun, sem er í samræmi við hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar, þeirra samtaka, sem í nútíma lýðræðisríkjum eru voldugust allra almannasamtaka. Slík þróun var ekki heldur látin eiga sér stað í nágrannalöndum, þar sem verkalýðshreyfingin var voldug og sterk. Hún gerðist hins vegar hér. Hvers vegna? Sannleikurinn er sá, að íslenzk verkalýðshreyfing hefur síðan á stríðsárunum aldrei reynzt vera það þjóðfélagsafl, sem reynzt hafi þess megnugt að hafa úrslitaáhrif á stjórn íslenzkra efnahagsmála launþegum til varanlegra hagsbóta. Skýringin er auðvitað sú, að verkalýðshreyfingin hefur verið þverklofin. Hún hefur verið gegnsýrð af pólitískri áróðursbaráttu. Samtök hennar hafa verið notuð til þess að afla stjórnmálaskoðunum fylgis, en ekki til þess að bæta hag meðlimanna. Meðan Alþfl. var einn af þrem þingflokkum á Alþingi, svo sem var fram til 1937, og á meðan Alþýðusambandið var í nánum tengslum við hann, voru Alþýðusambandið og Alþfl. voldugt lýðræðissinnað þjóðfélagsafl, sem taka varð tillit til við stjórn efnahagsmálanna og hvað eftir annað hafði látið myndarlega til sín taka. En árið 1938 dundi yfir hin mesta ógæfa, sem gerzt hefur í íslenzkum stjórnmálum, síðan þau komust á núv. grundvöll. Kommúnistaflokki Íslands undir forustu Einars Olgeirssonar tókst að kljúfa Alþfl. með stofnun Sameiningarflokks alþýðu — sósíalistaflokksins. Um leið var íslenzk verkalýðshreyfing í raun og veru einnig klofin. Þrátt fyrir fögur lýðræðisorð, sem flíkað var í fyrstu, kom auðvitað fljótt í ljós, að Sameiningarflokkur alþýðu –sósíalistaflokkurinn, var kommúnistaflokkur, að hann var, eins og Kommúnistaflokkur Íslands hafði verið, í nánum tengslum við aðalstöðvar heimskommúnismans í Moskvu og hafði sömu stefnu í alþjóðamálum og sömu lokamarkmið í innanlandsmálum og allir kommúnistaflokkar allra landa.

Þessum sömu öflum tókst um leið í raun og veru að ná forustu í íslenzkri verkalýðshreyfingu og hafa haldið henni lengst af síðan. Íslenzk verkalýðshreyfing var þar með komin undir áhrif manna, sem höfðu alheimskommúnismann fyrir sinn guð, trúðu á byltingu, en ekki umbætur, aðhylltust einræði, en ekki lýðræði, biðu eftir því, að alheimskommúnisminn flæddi austan að sem lengst í vesturátt, og töldu það höfuðskyldu sína að efla allar þær skoðanir, sem stuðluðu að sem mestri og skjótastri útbreiðslu alheimskommúnismans, í þeirri von, að einhvern tíma kæmi að því, að úrslitavald hans næði alla leið út til Íslands.

Í samræmi við þetta meginmarkmið hlaut öll raunveruleg kjarabarátta að teljast hégómi. Verkalýðnum gæti hvort eð er aldrei farnazt vel nema í náðarfaðmi kommúnismans. Þessi barátta bar mikinn árangur í fyrstu. Einari Olgeirssyni og félögum hans varð mikið ágengt. Í stað eins verkalýðsflokks, Alþfl., höfðu Íslendingar nú eignazt tvo flokka, næstum jafnstóra, sem einkum höfðu stuðning launþegasamtakanna og börðust þar hatrammlega um fylgi. Og alþýðusamtökin voru í raun og veru lömuð í raunhæfri hagsmunabaráttu sinni.

Smám saman fóru augu ýmissa að opnast fyrir því, að í raun og veru hefðu Íslendingar ekki eignazt nýjan flokk, þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1938, heldur hefði Kommúnistaflokkurinn gamli aðeins breytt um nafn. Samband Sósíalistaflokksins við alheimskommúnismann var orðið svo augljóst, að það var nánast orðið kátlegt að reyna að þræta fyrir það.

Þannig var ástandið orðið um miðjan síðasta áratug. En þá gerðist önnur ógæfa. Misvitrir og skammsýnir menn í Alþfl. björguðu þá hinum kommúníska Sósíalistaflokki úr kreppu og vandræðum með því að hlífa honum við að sýna andlit sitt í kosningunum 1956 og stofnuðu Alþb. svonefnda með kommúnistaleiðtogunum í Sósfl. Það hressti enn upp á fylgi klofningsmannanna í hinni íslenzku verkalýðshreyfingu og forðaði þeim frá fylgistapi, sem ella hefði án efa beðið þeirra. Klofningurinn milli verkalýðsflokkanna var enn staðfestur, gjáin var dýpkuð, bilið breikkað, verkalýðshreyfingin lamaðist enn. Hún var enn óhæfari til þess að gegna hlutverki sínu í þágu hagsmunabaráttu íslenzkra launþega. Þegar vinstri stjórnin svonefnda var mynduð sumarið 1956, beinlínis í þeim tilgangi að freista þess að koma á traustum vinnufriði í landinu með því að haga landsstjórninni í samráði við vilja verkalýðshreyfingarinnar, þá kom sú ömurlega staðreynd í ljós, að hjá hinum kommúnísku leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar var bókstaflega ekki fyrir hendi neinn skilningur á lögmálum efnahagslífsins og enginn vilji til þess að taka ábyrga afstöðu til lausnar efnahagsvandamálanna. Hinir kommúnísku verkalýðsleiðtogar höfðu ekki náð verkalýðshreyfingunni á sitt vald til að berjast þar fyrir kjarabótum, heldur til að vinna stjórnmálaskoðunum sínum fylgi. Þeir skoðuðu það því ekki sem neina skyldu sína að hugsa um efnahagsmál og þýðingu þeirra fyrir kjör launþega, hvað þá að taka raunhæfan þátt í því að reyna að leysa vandamálin á þann hátt, sem launþegum yrði til mestra hagsbóta. Það skyldi verða stefna stjórnmálamannanna að glíma við efnahagsvandamálin. Það skyldi verða réttur áróðursmannanna í hinni kommúnísku forustusveit verkalýðsfélaganna að setja fram kröfur og aftur kröfur og gagnrýna stjórnmálamennina, ef þeir treystu sér ekki til þess að verða við þeim. Hið ytra tilefni þess, að Hermann Jónasson sagði af sér á sínum tíma, var, svo sem alkunnugt er, að honum tókst ekki að fá stuðning Alþýðusambandsþings, sem var undir forustu Alþýðubandalagsmanna, við hógværa ósk sína um frestun á kaupgjaldshækkun í takmarkaðan tíma til þess að athuga leiðir til lausnar á miklum vanda. Undir forustu Alþb.-manna reyndist Alþýðusambandsþing ekki vilja taka á sig hina minnstu ábyrgð í sambandi við lausn mikils efnahagsvanda og alls engar tillögur hafa að gera um, hvernig gegn honum skyldi ráðizt. Undir forustu Alþb.-manna reyndist Alþýðusambandsþing m.ö.o. alls ekki vilja taka neinn þátt í því að móta stefnu ríkisvaldsins í efnahagsmálum. Það virtist skoða það sem höfuðhlutverk sitt að gera kröfur, ekki að eiga þátt í því að gera ráðstafanir til að verða við þeim.

Þetta er sá andi, sú stefna, sem Einar Olgeirsson og félagar hans ruddu braut inn í íslenzka verkalýðshreyfingu með klofningi sínum frá Alþfl. 1938 og efldu enn með því að fleka nokkra skammsýna Alþfl.-menn til fylgis við sig 1956. Það er þessi stefna, sem dregið hefur mátt úr íslenzkri verkalýðshreyfingu á undanförnum áratugum. Það er þessi stefna, sem er völd að því, að áhrif íslenzkrar verkalýðshreyfingar á framvindu íslenzkra efnahagsmála hafa verið minni undanfarna áratugi en nokkurrar annarrar verkalýðshreyfingar í nálægum löndum. Það er þessi stefna, sem veldur því, að íslenzka verkalýðshreyfingin nýtur því miður ekki þeirrar virðingar og þess trausts, sem hún ætti skilið og þyrfti að njóta. Það er þessi stefna, sem er höfuðskýringin á því, að allsherjarþing íslenzkrar verkalýðshreyfingar verða að þýðingarlitlum áróðurssamkomum, eins og síðasta Alþýðusambandsþing reyndist vera, og að heildarsamtök launþeganna, sjálft Alþýðusambandið, eru áhrifalítil í raunverulegri hagsmunabaráttu launþeganna og hafa litla þýðingu aðra en að vera tæki í baráttu stjórnmálaflokka.

Þetta eru allt saman ömurlegar staðreyndir. En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hvernig á þeim stendur. Höfuðskýringin eru áhrif kommúnismans í íslenzku þjóðlífi. Það mundi ekki koma mér á óvart, þótt sagnfræðingar framtíðarinnar teldu, að það hefði upphaflega verið hin íhaldssama kjördæmaskipun hér á landi, sem skapaði kommúnismanum lífsskilyrði. Vegna hennar náði Alþfl. og verkalýðshreyfingin ekki þeirri stjórnmálaaðstöðu, sem þróun þeirra og sjálf þjóðfélagsþróunin höfðu gert eðlilega. Þetta átti sinn þátt í því, að stór hópur Alþfl.-manna, sem því miður reyndust hér bæði skammsýnir og misvitrir, hjálpuðu kommúnistum að dulbúa sig í Sósfl. 1938. Svipuð saga endurtók sig síðan með stofnun Alþb. Kommúnistaflokkur Íslands hefði aldrei orðið vandamál í íslenzku þjóðlífi, hann hefði aldrei orðið áhrifamikill í íslenzkum stjórnmálum. Ef aðrir hefðu ekki hjálpað honum til þess að dulbúa sig, hefði sú ógæfa, sem átt hefur sér stað, aldrei gerzt og alþýðuhreyfingin íslenzka verið jafnáhrifamikil og getað orðið til sams konar gagns fyrir íslenzka launþega og átt hefur sér stað í öðrum nálægum löndum.

Íslenzk verkalýðshreyfing getur því nú spurt hinnar nístandi spurningar skáldsins, sem ég veit að hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, kann vel: „Því brauzt ég frá sókn þeirra vinnandi vega á vonlausu klifin, um hrapandi fell?“ Og hverjum skyldi standa nær að svara þeirri spurningu en einmitt Einari Olgeirssyni og félögum hans, sem nú geta litið yfir árangurinn af ævistarfi sínu.

Þrátt fyrir þá hörmulegu þróun íslenzkrar verkalýðshreyfingar, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, má þó ekki gleyma því, að mikill árangur hefur náðst í umbótum á kjörum íslenzkra launþega og til aukningar á félagslegu öryggi þeirra. Ég mun víkja nánar að því síðar, hver þróun lífskjaranna hefur verið árin eftir styrjöldina. Nú vil ég aðeins benda á nokkrar höfuðskýringar þess, að þróunin hefur orðið launþegum að mörgu leyti hagstæð þrátt fyrir sundrungu og vanmátt verkalýðshreyfingarinnar og þeirra stjórnmálaflokka, sem stutt hafa sig við hana fyrst og fremst.

Í fyrsta lagi kemur þar til, að íslenzka þjóðin hefur tileinkað sér nýja tækni á fjölmörgum sviðum og með hennar hjálp aukið þjóðarframleiðsluna mikið. Af þessu hafa launþegar að sjálfsögðu notið góðs. Í öðru lagi hefur hér á landi verið komið á félagsmálalöggjöf, sem er sambærileg því, sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Í þriðja lagi hefur að mestu verið komizt hjá atvinnuleysi árin eftir styrjöldina, sérstaklega s.l. 10 ár. Ég held varla, að á því geti leikið vafi, að áhrif Alþfl. í íslenzkum stjórnmálum hafi stuðlað að þessum árangri, þau áhrif, sem flokkurinn hefur getað haldið þrátt fyrir áföllin, sem hann varð fyrir 1938 og 1956. Er í því sambandi skemmst að minnast þeirra miklu umbóta á félagsmálalöggjöfinni, sem framkvæmdar voru 1936, 1946 og 1960. Í því sambandi vil ég þó sízt gleyma því, að þessi árangur hefði ekki getað náðst nema fyrir skilning og atbeina annarra flokka, sem upphaflega voru andsnúnir stefnumálum jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar. Á síðari árum hefur slíks skilnings umfram allt gætt hjá Sjálfstfl., og má telja, að þar sé að finna einhvern helzta grundvöll þess stjórnarsamstarfs, sem staðið hefur s.l. þrjú ár.

Þá skal ég gera að umræðuefni þær staðhæfingar, sem fram eru settar í grg. frv. um þróun efnahagsmálanna undanfarin ár og möguleikana í þeim efnum framvegis. Ég tel, að í grg. séu settar fram staðhæfingar um mikilvæg atriði, sem séu svo rangar í veigamiklum efnum, að óhjákvæmilegt sé að leiðrétta þær allýtarlega. Ég á hér fyrst og fremst við tvennt, annars vegar við staðhæfingar frv. um það, hvaða framleiðsluaukning sé möguleg hér í framtíðinni, og hins vegar skýrslu um kaupmátt Dagsbrúnarkaups undanfarin ár og þær ályktanir, sem af því eru dregnar. Ég sný mér fyrst að fyrra atriðinu.

Í grg. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í frv. er sett fram í aðaldráttum, hvað Alþingi ætlast til, að áætlunarráð — og þar með þjóðin og ríkisstj. — setji sér sem takmark og lágmark. Er þar talað um 10% aukningu þjóðarframleiðslunnar á ári. Þetta er sæmilega hátt mark og þó vel fært, ef allir leggjast á eitt. (Fskj. III sýnir, hvað aðrar þjóðir hafa komizt í þessum efnum á síðasta áratug).“

Í fskj. III er síðan tafla, sem sýnir meðalvöxt iðnaðar á árunum 1951–1959 í allmörgum löndum. Í grg. er m.ö.o. talað um, hversu mikið ýmsar þjóðir hafi aukið þjóðarframleiðslu sína á síðasta áratug, og síðan vísað í töflu, en taflan sýnir alls ekki vöxt þjóðarframleiðslu, heldur vöxt iðnaðarframleiðslu. Á þessu tvennu er hins vegar mikill munur í öllum löndum, en þó umfram allt í löndum Austur-Evrópu og Asíu, en helmingur talnanna er frá þeim löndum. Í Austur-Evrópu og Asíulöndum er iðnaður enn þá tiltölulega lítill hluti þjóðarbúskaparins. Jafnvel í Sovétríkjunum er landbúnaður langsamlega fjölmennasta atvinnugreinin. Mikill vöxtur í iðnaðarframleiðslu þarf því alls ekki að þýða mikinn vöxt allrar þjóðarframleiðslunnar, ef framlag til landbúnaðarins stendur í stað eða eykst lítið. En eins og alkunnugt er, er þetta einmitt það, sem gerzt hefur bæði í Austur-Evrópu og Asíu. Hagfræðingar hafa gert ýtarlegan samanburð á hagrekstri Ráðstjórnarríkjanna og Austur-Evrópuríkjanna yfirleitt annars vegar og Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hins vegar. Hér er um flókið og erfitt mál að ræða vegna þess, hve upplýsingar eru af skornum skammti um hagþróun í Austur-Evrópu, og vegna þess, að útreikningar um vöxt iðnaðarframleiðslu og vöxt þjóðarframleiðslu eru þar gerðir að verulegu leyti á allt annan og miklu ófullkomnari hátt en tíðkast á vesturlöndum. En niðurstaða þessara athugana er sú, að á árunum eftir síðari heimsstyrjöld hafi þjóðarframleiðslan í Sovétríkjunum aukizt hraðar en í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu sem heild. Aftur á móti virðist þjóðarframleiðslan í Sovétríkjunum ekki hafa aukizt örar en í þeim löndum Austur-Evrópu, þar sem aukningin hefur verið mest, svo sem í Þýzkalandi, Ítalíu og Austurríki. En í þeim löndum hefur aukningin verið 6–7% á ári að meðaltali áratuginn 1950–1960.

Þessar niðurstöður þurfa engum að koma á óvart. Sovétríkin eru tiltölulega skammt komin í iðnþróun samanborið við Bandaríkin og eru enn að tileinka sér nýtízkutækni á fjölmörgum sviðum. Mikill fjöldi þjóðarinnar starfar að landbúnaði, og flutningur fólks úr landbúnaði til iðnaðarstarfa hefur í för með sér mikinn vöxt iðnaðarframleiðslu án samsvarandi minnkunar framleiðslu í landbúnaði. Það er því ekkert eðlilegra en að þjóðarframleiðslan þar vaxi örar en í þeim löndum, sem eru komin miklu lengra í iðnþróun og þar sem mjög lítill hluti þjóðarinnar starfar að landbúnaði. Nákvæmlega hið sama átti sér stað í Rússlandi keisaratímans, sérstaklega á árunum frá aldamótum og fram að fyrri heimsstyrjöld. Þá óx þjóðarframleiðsla í Rússlandi talsvert miklu örar en í löndum Vestur-Evrópu. Það er hins vegar athyglisvert, hve litlum árangri Sovétríkin og önnur Austur-Evrópulönd hafa náð á sviði landbúnaðar. Á því sviði er aukning framleiðslu á mann miklu minni en í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu.

Hér á Íslandi hefur þjóðarframleiðslan aukizt um 4% að meðaltali á ári á áratugnum 1950–60. Þetta er svipaður vöxtur og átti sér stað í Vestur-Evrópu á þessu sama tímabili. Hér verður þó að taka það til greina, að fólksfjölgunin var örari á Íslandi en í Vestur-Evrópu, þannig að aukning þjóðarframleiðslu á mann var hér nokkru minni en þar. Þar við bætist, að fjármunamyndun á Íslandi var miklu hærri samanborið við þjóðarframleiðsluna en í þessum löndum Vestur-Evrópu. Má því segja, að Íslendingar hafi fengið talsvert miklu minna í aðra hönd fyrir þá fjárfestingu, sem átti sér stað, en þjóðir Vestur-Evrópu á sama tímabili. Til þess liggja ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er Ísland harðbýlt land. Það er stórt, fámennt og náttúruauðlindir þess fábreytilegar. Það hlýtur ávallt að verða erfiðara að ná miklum hagrekstri við slík skilyrði heldur en í þéttbýlli löndum. Í öðru lagi var mikil verðbólga á Íslandi allt þetta tímabil. Verðbólgan á Íslandi var miklu meiri og langærri en í flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu. Þessi verðbólguþróun hefur tvímælalaust haft lamandi áhrif á vöxt þjóðarframleiðslunnar. Hún hefur haft það í för með sér, að fé hefur verið fest í óarðbærum fyrirtækjum. Nægileg aðgát hefur yfirleitt ekki verið höfð í fjárfestingu, hún hefur dregið úr myndun sparifjár. Í þriðja lagi hafa framkvæmdir hins opinbera og einkaframkvæmdir fyrir opinbera tilstuðlan verið illa skipulagðar og stundum misráðnar. í fjórða lagi er svo þess að geta, að aðalatvinnuvegur Íslendinga, sjávarútvegurinn, er mjög háður duttlungum náttúrunnar og verðlagi á erlendum mörkuðum. Þetta hefur einnig háð efnahagsframþróun hér á Íslandi á liðnum áratug.

Þótt eflaust sé óhætt að fullyrða, að von geti staðið til þess, að skynsamleg stjórn efnahagsmála getið stuðlað að örari vexti þjóðarframleiðslunnar en átt hefur sér stað, er óþarfi að fara mörgum orðum um það markmið, sem hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, ræðir um í grg. þessa frv., þ.e. 10% aukningu þjóðarframleiðslunnar á ári. Slík tala er hrein fjarstæða. Svo mikil aukning hefur hvergi náðst nema þá um eins eða tveggja ára skeið og þá af sérstökum ástæðum, t.d. þegar um mikið atvinnuleysi hefur verið að ræða áður eða sérstök höft af hálfu náttúrunnar hafa komið til sögunnar. Hér á landi hefur aldrei orðið svo mikil aukning þjóðarframleiðslunnar á einu ári nema á árinu 1953, en til þess lágu alveg sérstakar ástæður, svo sem kunnugt er.

Þótt atvinnuvegir Íslendinga séu fábreyttir, er Ísland tiltölulega háþróað iðnaðarland, sem hefur tileinkað sér nýtízkutækni í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Þar að auki er full atvinna á Íslandi, og hefur svo lengi verið, sem betur fer. Það er því gersamlega útilokað, að þjóðarframleiðslan á Íslandi geti aukizt jafnstórum stökkum og hún getur gert í löndum, þar sem landbúnaður er enn aðalatvinnugreinin og hægt er að flytja á stuttu árabili fjölda fólks úr landbúnaðarframleiðslu, þar sem afköst þess eru lítil, yfir í nýtízkuiðnað, jafnframt því sem framleiðsla í landbúnaði er aukin með hagnýtingu vélakosts og annarrar nýtízkutækni. Þjóðarframleiðslan á Íslandi getur ekki aukizt nema á grundvelli alhliða umbóta í öllum atvinnugreinum, bættra vinnubragða, nýrrar tækni, fullkomnari skipulagningar, meiri þekkingar. En slík framleiðsluaukning gerist jafnan tiltölulega hægt, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Eðlilegt áhyggjuefni er það, að hún virðist hér hafa gerzt hægar en víða annars staðar, en til þess liggja þær ástæður, sem ég gat um áðan og að nokkru leyti eiga rót sína að rekja til náttúru landsins og ytri aðstæðna.

Það, sem hægt er að gera til þess að bæta hér úr, er fyrst og fremst að skapa sem bezt skilyrði fyrir því, að framleiðsluaukning geti átt sér stað. En það er ekki hægt með neinum töfrabrögðum. Það tekst aðeins með þrotlausu og nákvæmu og vel skipulögðu starfi á öllum sviðum framleiðslu, viðskipta og hvers konar þjónustu. Það er í þessu sambandi, sem er nauðsynlegt að vekja athygli á því, að forsenda þess, að slíkt starf geti borið árangur, er, að haldið sé eðlilegu jafnvægi í efnahagslífinu, þannig að ekki sé ríkjandi verðbólga innanlands og halli út á við. Ef slíkt á sér stað, hlýtur það smátt og smátt að eyðileggja skilyrði til aukningar þjóðarframleiðslunnar, og það er einmitt þetta, verðbólgan innanlands og hallinn út á við, sem var einn helzti dragbíturinn á aukningu þjóðarframleiðslunnar á áratugnum 1950–60. Þetta var einmitt grundvallarástæðan fyrir þeim breytingum í efnahagsmálum, sem núv. ríkisstj. beitti sér fyrir á árinu 1960. Þær ráðstafanir hafa þegar borið mikinn árangur. En það væri samt alrangt og varhugavert að búast við slíkum stórstökkum í aukningu þjóðarframleiðslunnar sem þeim, sem rætt er um í grg. þessa frv.

Þá er ég kominn að þeim staðhæfingum í grg. frv., sem ég tel rangastar og skaðlegastar og brýnasta nauðsyn til að leiðrétta rækilega. Ég á hér við þær ályktanir, sem dregnar eru af töflum grg. um kaupmátt tímakaups Dagsbrúnarmanna frá árinu 1945. Meginniðurstaða þessara talna er sú, að á s.l. ári hafi kaupmáttur tímakaups Dagsbrúnarmanna verið 85,4% af því, sem kaupmátturinn var að meðaltali árið 1945, og hafi kaupmátturinn í fyrra verið um 15% lægri en hann var árið 1949 og um 10% lægri en hann var 1958. Þessar tölur hafa margoft verið birtar opinberlega áður og af þeim dregin sú ályktun, að lífskjör launþega hafi farið versnandi og hafi undanfarin 15 ár yfirleitt verið lakari en þau voru í stríðslok, auk þess sem hlutdeild launþega í þjóðartekjunum hafi farið minnkandi.

Mér finnst vera kominn tími til að taka þessar tölur til rækilegrar athugunar og sýna fram á, að algerlega rangar ályktanir hafa verið af þeim dregnar. Fyrir þessum tölum er borinn Torfi Ásgeirsson hagfræðingur, þó að hlutur hans í þeim sé sá einn að hafa samið þessar töflur eftir ósk hv. flm. þessa frv. og á þann hátt, sem flm, óskaði að þær yrðu reiknaðar.

Um töflu grg. um kaupmátt tímakaups Dagsbrúnarmanna vil ég fyrst almennt segja þetta: Þróun kaupmáttar tímakaups Dagsbrúnarmanna skv. lægsta taxta gefur að sjálfsögðu ekki rétta mynd af þróun lífskjara Dagsbrúnarmanna og enn síður af þróun lífskjara launþega yfirleitt. Til þess liggja margar ástæður, og eru þessar helztar að því er Dagsbrúnarmennina sjálfa snertir: Atvinnutekjur ákvarðast ekki aðeins af breytingu lægsta taxtans, heldur af breytingu annarra taxta en hans, færslu starfa milli taxtaflokka, breytingu yfirvinnugreiðslna, áhrifum ákvæðisvinnulauna, fjölda vinnustunda og hlutfallinu milli almennra vinnustunda og yfirvinnustunda. Það er auðvitað ekki rétt, sem oft er haldið fram, að hér komi ekkert annað til greina en breytingar á lengd vinnutímans. Mörg önnur mikilvæg atriði koma hér til greina, þó að upplýsingar liggi ekki fyrir um það, hversu þýðingarmikið hvert og eitt þeirra út af fyrir sig sé. Þá er þess enn fremur að geta, að til þess að meta breytingar lífskjara verður ekki aðeins að taka tillit til atvinnutekna og neyzluvöruverðlags, heldur einnig til áhrifa beinna skatta og beinna persónulegra styrkja, þ.e.a.s. fyrst og fremst fjölskyldubóta. Þetta hefur ekki verulega þýðingu, fyrr en frá og með árinu 1960, en hefur meginþýðingu fyrir samanburð lífskjara fyrir og eftir 1960 vegna hinnar miklu lækkunar beinna skatta og hækkunar fjölskyldubóta, sem þá átti sér stað.

Í töflunum með grg. frv. er sleppt að taka tillit til skattalækkananna og aukningar tryggingabótanna. Að því er aðra launþega snertir má að sjálfsögðu ekki ganga út frá því, að þróun lífskjara þeirra sé hin sama og lífskjara Dagsbrúnarmanna. Þar getur verið og hefur tvímælalaust verið um nokkuð aðra þróun að ræða.

Af því, sem ég hef nú sagt, hlýtur að teljast augljóst, að vilji maður gera sér grein fyrir þeim breytingum, sem orðið hafa á lífskjörum launþega á ákveðnu tímabili, er algerlega villandi, ef ekki beinlínis rangt, að taka lægsta taxta Dagsbrúnarkaups og bera breytingar á honum saman við breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar, að ég ekki tali um, ef aðeins er miðað við vísitölu neyzluvöru og áhrifum beinna skatta og fjölskyldubóta sleppt, svo sem gert er í töflum grg.

Vilji menn gera sér grein fyrir þróun lífskjara hjá launþegum, er nauðsynlegt að þekkja atvinnutekjur þeirra og bera breytingar á atvinnutekjunum saman við breytingar á framfærslukostnaði. Nú vill svo vel til, að síðan 1949 hafa verið gerðar árlegar rannsóknir á atvinnutekjum kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna í sambandi við ákvörðun á verðlagi landbúnaðarvöru á haustin. Ég hef beðið Efnahagsstofnunina að gera skýrslu um niðurstöður þessara rannsókna síðan 1950 og áætlun um atvinnutekjur þessara sömu stétta á yfirstandandi ári, 1962. Við tekjur þær, sem þessar rannsóknir hafa leitt í ljós, hefur Efnahagsstofnunin síðan bætt áhrifum skattalækkana og aukningar beinna persónulegra styrkja frá og með árinu 1960. Ég hef jafnframt beðið Efnahagsstofnunina um að bera atvinnutekjurnar þannig leiðréttar saman við breytingar á vísitölu neyzluvöruverðlags, eins og gert er í töflum grg. Niðurstaðan verður þá raunverulegar atvinnutekjur, sem telja má mælikvarða á lífskjörin, á meðan ekki verða teljandi breytingar á lengd vinnutímans. Ég skal nú leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að gera grein fyrir helztu niðurstöðum Efnahagsstofnunarinnar um þetta efni.

Ég les fyrst skýrslu um atvinnutekjur kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna frá og með árinu 1950, en þær voru sem hér segir: 1950 27287 kr., 1951 32795 kr., 1952 36636 kr., 1953 40508 kr., 1954 45521 kr., 1955 51819 kr., 1956 58890 kr., 1957 59647 kr., 1958 69322 kr., 1959 74937 kr., 1960 78997 kr., 1961 86070 kr. og áætlun fyrir 1962 98120 kr. Þessar tölur eru gerðar á grundvelli sérstakrar úrtaksrannsóknar á skattaframtölum, á eigin framtölum kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna fyrir hlutaðeigandi ár. Á því getur því varla leikið vafi, að þær eru a.m.k. ekki of hátt taldar í niðurstöðum þessara rannsókna. En við útreikning meðaltalsins er beitt sérstakri úrtaksaðferð, sem þeir, sem fróðastir eru á því sviði, hafa um mörg ár verið sammála um að líkleg sé til skynsamlegastrar og réttlátastrar niðurstöðu. Tölur þær, sem ég las, eru til ársins 1960 þær tölur, sem þeir menn, sem um þetta hafa fjallað, hafa fengið út úr rannsókn sinni á skattaframtölum þessara launþega. 1960, 1961 og 1962 hefur Efnahagsstofnunin bætt við áhrifum skattalækkunarinnar og hækkunar fjölskyldubótanna. Og talan, sem ég gat um fyrir árið 1962, er áætlunartala Efnahagsstofnunarinnar fyrir árið 1962, en er þó byggð, að því er forstjóri og starfsmenn Efnahagsstofnunarinnar telja, á tiltölulega traustum grunni.

Nú segir þessi tafla, sem ég las um breytingar atvinnuteknanna, að sjálfsögðu ekki neitt til um það, hverjar breytingar hafa orðið á lífskjörum þeirra launþega, sem hér eiga hlut að máli, kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna. Til þess að gera sér grein fyrir breytingunni á lífskjörum þessara launþegastétta er nauðsynlegt að deila í þessar tekjur með framfærslukostnaðarvísitölu fyrir hlutaðeigandi ár, og hef ég einnig beðið Efnahagsstofnunina um að framkvæma þann útreikning. Þá notar Efnahagsstofnunin sömu vísitölu og hv. þm. gerir í töflunum í grg. frv., þ.e. vísitölu neyzluverðlagsins, og það er réttmætt, vegna þess að áhrifum skattalækkananna og fjölskyldubótaaukningarinnar hefur verið bætt við tekjuupphæðirnar frá 1960. Það ætti því enginn ágreiningur að geta verið um það, ekki a.m.k. við hv. flm. þessa frv., að þessi aðferð er rétt til að komast að raun um breytingar á lífskjörunum, því að þetta er nákvæmlega sama aðferðin, sama vísitalan og hann notar sjálfur í sínum reikningum. Nú skal ég — með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa töflu um breytingar á kaupmætti þessara atvinnutekna, sem ég las upp áðan frá 1950, og er hér um að ræða vísitölu, þar sem tekjurnar frá 1950 eru taldar jafnar 100. Kaupmáttur atvinnuteknanna var 1951 91%, 1952 89.7%, 1953 100,2%, 1954 111,1%, 1955 120,9%, 1956 123,5%, 1957 119,8%, 1958 129,8%, 1959 139,3%, 1960 139%, 1961 140,3%, 1962 142,8%. Ég vil undirstrika það, að þessi útreikningur á breytingum á kaupmættinum síðan 1950 er gerður með alveg nákvæmlega hliðstæðum hætti og hv. þm. beitir í grg. þessa frv. Munurinn er eingöngu sá, að hann reiknar út breytingar á kaupmætti lægsta Dagsbrúnartaxtans, sem hefur litla og síminnkandi þýðingu, en þessar tölur leiða í ljós breytingu á kaupmætti atvinnutekna þriggja stærstu launþegastéttanna í heild. Og niðurstaðan er sú, að á þessu ári, þ.e. 1962, er kaupmáttur atvinnutekna kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna á öllu landinu 42,8% hærri en hann var árið 1950. Kaupmáttur atvinnutekna lækkaði verulega á árunum 1951 og 1952, enda voru það erfiðustu ár, sem yfir íslenzkan þjóðarbúskap hafa gengið síðan fyrir styrjöldina, bæði vegna aflaleysis og verðfalls. En síðan 1953 hefur kaupmáttur atvinnutekna aukizt jafnt og þétt, nema hvað hann lækkaði nokkuð á árinu 1957, sem einnig var mjög erfitt ár, svo sem kunnugt er, en hefur síðan 1957 haldið áfram að aukast. Nú í ár, 1962, er kaupmáttur atvinnuteknanna 10% hærri en hann var árið 1958. Þetta er það, sem næst verður komizt um breytingar á lífskjörum íslenzkra launþega eftir þeim fyllstu og beztu upplýsingum, sem fyrir liggja.

Ég skal taka það fram, að það skiptir ekki máli fyrir þá þróun, sem ég lýsti og kemur fram í töflum Efnahagsstofnunarinnar, hvort miðað er við árið 1950, eins og hér hefur verið gert, eða árið 1948 eða árið 1945, enda þótt fyrir síðastnefnda árið séu upplýsingarnar miklu lakari. Það kemur hins vegar til greina, sé miðað við fyrri árin, að bæði atvinnutekjur og þjóðartekjur áranna lækkuðu nokkuð á árunum 1945–1950 vegna versnandi viðskiptakjara og aflabrests.

Þessi niðurstaða, sem ég hef nú lýst, er að sjálfsögðu mjög frábrugðin því, sem fæst með því að athuga breytingarnar á kaupmætti lægsta Dagsbrúnarkaups. Ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um, að athugun á kaupmætti atvinnutekna stærstu launastéttanna, þ.e. verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, gefur réttari mynd af breytingum á kjörum íslenzkra launþega yfirleitt heldur en viðmiðun við lægsta taxtann í einu verkalýðsfélagi, taxta, sem minnkandi hópur, sem nú orðið er sennilega orðinn tiltölulega fámennur, vinnur samkvæmt.

Þá kem ég að þeirri staðhæfingu, að hlutur launþega í þjóðarframleiðslunni hafi farið minnkandi. Ég hef í þessu sambandi beðið Efnahagsstofnunina um upplýsingar um þjóðartekjur Íslendinga síðan 1950, eða frá sama tíma og traustar upplýsingar liggja fyrir um atvinnutekjur þeirra launþegahópa, sem ég gat um áðan. Síðan hef ég beðið Efnahagsstofnunina um að gera samanburð á breytingu þjóðarteknanna á mann og breytingu atvinnuteknanna til þess að komast að raun um, hvort atvinnutekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna hafa hækkað minna eða meira frá ári til árs en þjóðartekjurnar á mann. Á því sést, hvort hlutur þessara helztu launþegastétta hefur farið minnkandi eða vaxandi í þjóðartekjunum. Ég hef hér fyrir framan mig töflu Efnahagsstofnunarinnar um þetta efni. Hún hefur reiknað út vísitölu, sem sýnir, hvort hlutdeild þessara launþegastétta í þjóðartekjunum hefur farið minnkandi eða vaxandi. Er þá gengið út frá árinu 1950. Ef vísitalan lækkar, hefur hlutdeild þessara launþegastétta í þjóðartekjunum farið minnkandi, ef talan fer yfir 100, hefur hún orðið hærri en hún var 1950. En þessi talnaröð lítur þannig út, með leyfi hæstv. forseta: 1950 er hlutfallið gert 100, 1951 verður talan 97,5, þá minnkar hlutdeild þessara launþegastétta í þjóðartekjunum sem því svarar, 1952 er talan 99, 1953 94,4, 1954 97,5, 1955 98,9, 1956 99,8, 1957 100,7, 1958 101,6, 1959 109,3, 1960 110,8, 1961 106,2, 1962 106. Þessi talnaröð leiðir m.ö.o. í ljós, að á árunum 1950–53 fer hlutur þessara þriggja launþegastétta í þjóðartekjunum örlítið minnkandi, en síðan hefur hann farið vaxandi. Árið 1957 nær hlutur þessara þriggja launþegastétta sama hlutfalli í þjóðartekjunum og hann hafði haft 1950, og síðan 1957 hefur hlutdeild þessara þriggja launþegastétta í þjóðartekjunum farið vaxandi og hefur á síðustu árum verið nokkru hærri en hún var í byrjun s.l. áratugs. Þessar tölur eru þó athyglisverðar hvað það snertir, að í ljós kemur, að tiltölulega mjög lítil breyting hefur orðið á hlutdeild þessara þriggja aðallaunþegastétta í þjóðartekjunum, þótt allmikil breyting hafi orðið á þjóðartekjunum sjálfum, eins og raunar kom fram í þeim skýrslum, sem ég áðan las.

Þessar upplýsingar, sem ég hef nú getið og allar eru unnar eins vandlega og unnt er á grundvelli allra traustustu gagna, sem fyrir hendi eru, leiða í ljós, að það er rangt, sem endurtekið hefur verið í sífellu undanfarna mánuði og ár, að lífskjörin hafi farið versnandi, hafi farið síversnandi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þau hafa þvert á móti farið batnandi. Eftir því sem næst verður komizt, verða lífskjör verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna á þessu ári, árinu 1962, um 10% betri en þau voru á árinu 1958, síðasta árinu, sem ríkisstj. Hermanns Jónassonar sat að völdum, og hlutur þessara þriggja launþegastétta, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, hefur á þessum undanförnum árum verið hærri en hann var að meðaltali á áratugnum 1950–60. Hitt er svo annað mál, að þótt þessi hafi verið þróun lífskjaranna yfirleitt, hefur sú þróun án efa verið æði mismunandi fyrir einstaka hópa launþega, en þar eru því miður litlar öruggar upplýsingar fyrir hendi.

Eins og oft hefur verið bent á áður, eru einmitt þeir lægst launuðu meðal launþega verkamenn, sem stunda almenna verkamannavinnu og dregizt hafa nokkuð aftur úr öðrum launþegum. Þetta hefur ekki skeð fyrir tilstuðlan núverandi ríkisstjórnar, heldur einmitt vegna þess, að verkalýðshreyfingin hefur ekki viljað fara að þeim tilmælum, sem ríkisstj. beindi til hennar. Hér er um mikið vandamál að ræða, — vandamál, sem verður ekki leyst, nema verkalýðshreyfingin sjálf stuðli að lausn þess í samráði við ríkisvaldið. Og nú er enn komið að því sama, sem ég var að tala um áðan: Hvers vegna hefur íslenzk verkalýðshreyfing reynzt vanmáttugri að tryggja æskilegt samræmi í launaþróuninni en verkalýðshreyfing flestra annarra landa? Er ekki svarið augljóst? Er ekki skýringin vanmátturinn og glundroðinn, sem 30 ára starf kommúnista og fylgifiska þeirra hefur fært yfir íslenzka verkalýðshreyfingu? Það er það starf, sem Dagsbrúnarmenn og aðrir verkamenn nú verða að gjalda í nokkrum mæli.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég draga saman í stuttu máli nokkur þeirra höfuðatriða, sem ég hef gert að umtalsefni. Ég vil leggja á það áherzlu, að kjör íslenzkra launþega hafa farið batnandi, en ekki versnandi, frá stríðslokum til ársins í ár og þó einkum á s.l. 10 árum. Ég vil enn fremur leggja á það áherzlu, að hluti launþega af þjóðartekjunum virðist hafa haldizt lítið breyttur öll árin síðan styrjöldinni lauk, en hefur þó heldur farið vaxandi síðustu árin. Versnandi kjör launþega á árunum 1948–52 stöfuðu af minnkun þjóðarteknanna, en ekki misskiptingu þeirra. Á síðustu árum hefur hlutur launþega af þjóðartekjunum ekki minnkað, eins og oft er haldið fram, heldur vaxið nokkuð. Þrátt fyrir þetta er ekki ástæða til að telja, að þróun íslenzkra efnahagsmála hafi á þessu tímabili verið þjóðinni í heild og launþegunum sérstaklega eins hliðholl og mögulegt hefði verið. Vöxtur íslenzkrar þjóðarframleiðslu hefur verið hægari en í flestum nágrannalandanna og minni árangur náðst af fjárfestingu hér á landi en víðast hvar annars staðar. Skýringin á þessu er að nokkru fólgin í aðstæðum, sem við ráðum ekki við, en aðeins að nokkru. Með skynsamlegri stjórn efnahagsmála er tvímælalaust hægt að ná betri árangri, og aðgerðir núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum hafa einmitt stefnt í þá átt. Árangurinn af þessari stefnu er þegar orðinn mikill. Ríkisstj. vill, að sá árangur geti haldizt og aukizt, og hún er reiðubúin að beita í því skyni þeim aðferðum, sem annars staðar hafa gefizt vel, eins og t.d. áætlunargerð í þeirri mynd, sem hentar íslenzkum aðstæðum. En hún ræður ekki ein. Í því efni kemur ekki hvað sízt til greina skilningur íslenzkrar verkalýðshreyfingar á eðli þeirra vandamála, sem við er að etja, og geta hennar til þess að taka þau réttum tökum.