31.01.1963
Neðri deild: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (2349)

76. mál, áætlunarráð ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Einu atriði í ræðu hv. 7. þm. Reykv. vil ég ekki láta ómótmælt, en það er sú staðhæfing hans, að Alþfl sé búinn að gefa á bátinn baráttu fyrir 8 stunda vinnudegi og að það hafi komið fram í ræðu, sem ég flutti við þessar umr., að Alþfl. sætti sig nú við 11–12 stunda vinnudag vinnandi manna. Þetta er að sjálfsögðu alröng staðhæfing og alröng ályktun dregin af mínu máli. Það, sem gaf mér megintilefni til þess að segja það, sem ég sagði við fyrri hluta þessarar umr, um kaup og kjör launamanna í landinu, voru staðhæfingar í grg, þessa frv. um, að kaupmáttur launamanna og verkamanna sérstaklega hefði rýrnað mjög undanfarin ár, og þetta var rökstutt með því einu að gera samanburð á breytingu á kaupmætti lægsta taxta Dagsbrúnarmanna um nokkur undanfarin ár. Vegna þess að þessum staðhæfingum hafði svo oft verið hampað áður hér í þingsölunum og í blöðum stjórnarandstæðinga, fannst mér kominn tími til þess að leiðrétta þær hér á sjálfu Alþingi.

Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði áður í ýtarlegri ræðu um þetta mál, en rifja aðeins upp meginniðurstöðurnar til þess að endurtaka það hér, hversu alröng sú ályktun 7. þm. Reykv. er, að í því, sem ég sagði um þetta mál, felist yfirlýsing um það, að 11–12 stunda vinnudagur launamanna sé hæfilegur starfstími þeirra.

Höfuðástæðan fyrir því, að algerlega rangt er að draga ályktanir af breytingu á kaupmætti lægsta taxta Dagsbrúnarmanna, að draga ályktanir af þessari staðreynd um kaupmátt launþega yfirleitt, er í fyrsta lagi sú, að tiltölulega mjög lítill hluti launamanna vinnur fyrir lægsta taxta Dagsbrúnarmanna, og enn fremur, að sá hópur launamanna, sem fyrir hann vinnur, hefur farið síminnkandi undanfarin ár.

Það hefur komið í ljós hér eins og í öllum öðrum nágrannalöndum, að ekki aðeins lægsti taxtinn, sem í gildi er, er ekki réttur mælikvarði á raunverulegt kaupgjald launþega yfirleitt, heldur eru taxtar verkalýðsfélaganna yfirleitt rangari mælikvarði á raunverulegt kaup þeirra, vegna þess að hér hefur á undanförnum árum gerzt nákvæmlega það sama og í öllum öðrum iðnaðarþjóðfélögum, að raunveruleg kjarabót launþega gerist alls ekki einvörðungu með þeim hætti, að kauptaxtar hækki, heldur ekki siður með þeim hætti, að menn flytjast milli launaflokka og afla sér betri tekna með hagnýtingu ákvæðisvinnu, þó að um sama vinnutíma sé að ræða. Nútíma iðnþjóðfélag hefur að þessu leyti byggt upp smám saman, einkum á árunum eftir styrjöldina, launakerfi, sem er svo gerólíkt því, sem tíðkaðist fyrir 20–30 árum, að allt annars konar samanburðargrundvelli þarf að beita nú, ef menn vilja mynda sér réttar hugmyndir um breytingar á peningatekjum, hvað þá kaupmætti launa. Þetta vildi ég undirstroka, að jafnvel þótt það hafi verið rétt fyrir 20–30 árum, að breytingar á þessum aðaltaxta Dagsbrúnarmanna frá ári til árs sýndu þær breytingar, sem yrðu á kaupi Dagsbrúnarmanna, og það væri góð spegilmynd af kaupi launþega í landinu yfirleitt, þá á það sér alls ekki stað nú í dag. Því miður eru hér á landi ekki gerðar árlega sundurliðaðar skýrslur um kaup launþega, svo sem nú tíðkast í flestum nágrannalanda, og er mikill bagi að því. Hér er því ekki hægt að vitna til slíkrar opinberrar skýrslugerðar. En sá möguleiki, sem hér er helzt fyrir hendi til þess að gera sér grein fyrir raunverulegum tekjum launþega og breytingum á þeim, er athugun, sem nú í meira en áratug hefur verið gerð árlega á tekjum þriggja stærstu launþegastéttanna, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, og er sú rannsókn gerð í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara ár hvert. Þessi rannsókn er byggð á skattaframtölum launþeganna sjálfra, og launþegarnir eru valdir eftir vísindalegum aðferðum til þess að gefa sem réttasta mynd af raunverulegum tekjum manna í þessum þremur aðallaunastéttum landsins, hjá verkamönnum, iðnaðarmönnum og sjómönnum. Þessar upplýsingar liggja fyrir, og ég taldi, ef menn vildu athuga breytingar á raunverulegum tekjum launastétta undanfarin ár, þá ættu þeir að vita, til hvaða niðurstöðu þessar rannsóknir hefðu leitt. Og frá þessum niðurstöðum skýrði ég. Og þar var niðurstaðan allt önnur en ef skoðuð var breytingin á lægsta Dagsbrúnartaxtanum einum saman. Nú sýna að vísu ekki breytingar á tekjuhæðinni í krónum taldar einar saman breytingar á raunverulegum lífskjörum, því að verðlag hefur hækkað. Þess vegna var það gert í þeim tölum, sem ég skýrði frá, að bæta við framtaldar tekjur þessara launastétta þeirri hækkun, sem hafði orðið á fjölskyldubótum eða á almannatryggingabótum undanfarin ár, og þeirri lækkun, sem hafði orðið á sköttum undanfarin ár. Og í árstekjurnar undanfarin ár þannig fengnar var síðan deilt með vísitölu neyzluverðlags, sömu vísitölu sem hv. flm. frv., Einar Olgeirsson, hafði notað til þess að leiðrétta lægsta taxta Dagsbrúnar, þannig að þar er alveg nákvæmlega sömu aðferðinni beitt. Þegar þannig var farið að, kom í ljós, að á árinu 1961 var kaupmáttur þessara þriggja aðallaunastétta landsins um 10% hærri en hann hafði verið á árinu 1958. Það er þessi upplýsing, það er þessi staðreynd, því að staðreynd er þetta sannarlega, sem hefur valdið feikilega miklu moldviðri hér á meðal hv. stjórnarandstæðinga á hinu háa Alþ. og í blöðum stjórnarandstöðunnar. Og þeir hafa fundið upp á ýmsu til þess að reyna að gera þessa niðurstöðu tortryggilega. Ég skal ekki rekja það, því að um það hefur þegar verið rætt í blöðum, og allar fullyrðingar, sem fram hafa verið settar í því skyni að gera þessa niðurstöðu tortryggilega, hafa verið rækilega hraktar.

Í því sambandi hefur mest borið á staðhæfingunni um, að þessar tekjutölur launastéttanna sé ekkert að marka, vegna þess að þessara tekna sé aflað með svo löngum vinnudegi. Ég hef aldrei borið á móti því og tók það raunar skýrt fram í frumræðu minni, að þessar tekjur byggðust á því, að unnið væri lengur en 8 tíma. Það vita allir, að svo er. En það, sem ég vildi fyrst og fremst gera í ræðu minni, var að bera saman kaupmáttinn undanfarin ár og valdi þá til samanburðar árið 1958 og árið 1961. Og þá kom sem sagt í ljós, að kaupmátturinn var 10% meiri síðara árið en hið fyrra. Vinnutíminn í þessu sambandi skiptir því aðeins máli, að hann hafi verið meiri seinna árið en hið fyrra. En það vil ég leyfa mér að staðhæfa, að vinnutíminn 1958 hafi verið jafnlangur og hann var árið 1961. Árið 1958 var mikið góðæri. Það var mesta aflaár, sem þá hafði komið í sögu landsins. Það var mikil eftirspurn eftir vinnuafli, geysimikil byggingastarfsemi og yfirleitt á því ári hver einasti framleiðslumöguleiki notaður út í yztu æsar, eins og hefur átt sér stað á árinu 1962, jafnvel síðari hluta ársins 1961. Það þarf a.m.k. að færa fram alveg sérstök rök fyrir því, að þessi staðhæfing mín sé ekki rétt. Allt hið almenna, sem við vitum um ástand atvinnulífsins, bendir til þess, að atvinnuástandið hafi verið mjög svipað á þessum tveim árum, full atvinna bæði árin og raunar heldur meiri eftirspurn eftir vinnuafli en hægt hafði verið að fullnægja. Því miður er hér ekki hægt að færa fram óyggjandi tölurök, hvorki með né móti, af því að okkur vantar skýrslur um unninn vinnutíma í helztu atvinnugreinum, en í athugun, sem ég hef séð á vinnutíma í byggingariðnaði, og í honum kemur yfirleitt fram, hversu mikil eftirspurn er eftir vinnuafli, var vinnutíminn hinn sami árið 1958 og hann er nú. Og það virðist mér benda ótvírætt í þá átt, að í höfuðatvinnugreinum landsmanna hafi vinnutíminn þá verið svipaður og hann er núna. Og sé þessi staðhæfing rétt, þá er það engin afsönnun á þeirri meginstaðhæfingu minni, að lífskjörin séu nú betri en þau voru fyrir 3–4 árum, að nú sé unnið 10–11 tíma á dag, fyrst það var líka unnið 10–11 tíma á dag árið 1958, sem fyrst og fremst er við miðað.

Ég skal að síðustu láta þess getið eða ítreka, að það er mjög bagalegt, að ekki skuli vera hér á landi samdar nákvæmar launaskýrslur, þ.e. nákvæmar skýrslur um tekjur og vinnutíma. Ef slíkar skýrslur væru til, ætti a.m.k. mikið af þeim deilum, sem háðar hafa verið undanfarnar vikur um jafnmikilvægt efni og þetta, ekki að þurfa að eiga sér stað. Ég vil að vísu ekki fullyrða, að þær mundu ekki eiga sér stað, þrátt fyrir það að óyggjandi skýrslur liggi fyrir, því að við þekkjum það, að deilt er um marga hluti, sem óyggjandi skýrslur liggja fyrir um í hagskýrslum og öðrum fjármálaskýrslum. En almenningur ætti þá a.m.k. betra með að átta sig á málunum. En slíkar skýrslur eru til annars staðar. Ég sá t.d. alveg nýlega í dönsku fjármálatímariti skýrslu um launabreytingar í danska iðnaðinum um allmörg undanfarin ár. Og þar var sundurliðað í þrennt, til hvers launabreytingarnar ættu rót sína að rekja: í fyrsta lagi til verðlagsuppbótanna dönsku, í öðru lagi til umsaminna breytinga á kauptöxtum milli fagfélaga og vinnuveitenda, og í þriðja lagi það, sem hér er farið að kalla launaskrið, þ.e. breytingar, sem verða á tekjum launþeganna utan við umsamda taxta. Og sá þátturinn af þessum þremur, sem stærstur var, sá þáttur, sem fært hafði dönskum iðnverkamönnum mesta raunverulega kjarabót, mesta hækkun á tekjum, var launaskriðið. M.ö.o.: dönsku launþegarnir í þessari stétt höfðu fengið meiri kauphækkun utan við samningana en þeir höfðu fengið í samningum og í gegnum dönsku verðlagsuppbæturnar. Þetta er í rauninni ekki atriði, sem vekur neina athygli í Danmörku. Þar eru menn fyrir langa löngu búnir að gera sér grein fyrir, að þetta er svona, að staðreyndin er þessi. Þess vegna þykir þetta engin sérstök frétt þar. Menn hafa vitað það svo að segja allar götur eftir stríð, að ástandið í launamálum þar og annars staðar er svona. En þegar skýrt er opinberlega frá tölum hér, sem leiða slíkt í ljós, — því að auðvitað hefur sú tekjuaukning, sem átt hefur sér stað hjá íslenzkum launastéttum og kom fram í tölunum, sem ég nefndi á sínum tíma, að mjög verulegu leyti átt rót sína að rekja til slíks launaskriðs, og kauptaxtarnir því alls ekki neinn mælikvarði á raunverulegar tekjur, — þegar slíkar upplýsingar eru birtar hér, er ekki aðeins að menn reki í rogastanz, — látum það nú vera, þó að menn geri það, — heldur berja menn höfðinu við steininn og segja: Þetta er ósatt, þetta er rangt. Það finnst mér a.m.k., að forustumenn íslenzkra launþegasamtaka ættu ekki að gera. Þeir ættu þó að vera svo kunnugir málum launþegasamtakanna í sínum nágrannalöndum að verða hvorki hvumsa né heldur berja höfðinu við steininn, þegar skýrt er hér frá hlutum, sem þykja sjálfsagðir og eru á hvers manns vitorði í öllum nágrannalöndunum.