29.11.1962
Neðri deild: 23. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

97. mál, vegalög

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til laga um breyt. á vegalögunum. Þetta frv. er þó dálítið annars eðlis en þau frv., sem flutt hafa verið til breytinga á þessum 1., en þau hafa yfirleitt verið þess efnis að bæta inn á vegalögin nýjum vegum. Þetta frv. er ekki um það, heldur um hitt að breyta nokkuð til um þá hætti, sem á eru hafðir um þjóðvegi, viðhald þeirra og endurbætur, þar sem þjóðvegur liggur í gegnum þorp eða kaupstað.

Í gildandi vegalögum er án undantekninga gert ráð fyrir því, að þjóðvegur, sem liggur í gegnum þorp eða kaupstað, skuli vera á ábyrgð þess þorps eða þess kaupstaðar, sem hann liggur í gegnum, þannig að af ríkissjóði er í rauninni létt vegaviðhaldinu af þjóðveginum á þeim slóðum, þar sem hann liggur í gegnum þorpið eða kaupstaðinn. Nú er það svo, að altviða á landinu liggja þjóðvegir í gegnum þorp mismunandi fjölmenn og eru notaðir máske að miklum meiri hluta til af allt öðrum aðilum en íbúum viðkomandi þorps, og virðist þá lítil sanngirni í því að láta þorpsbúa sjálfa og eina annast kostnaðinn af viðhaldi og endurbótum vegarins í gegnum þorpið. Þetta frv. gerir þess vegna ráð fyrir breytingum á þessu. Og þær breytingar, sem í frv. felast, eru tvenns konar. Annars vegar leggur frv. til, að þar sem þjóðvegur liggur í gegnum þorp eða kaupstað, skuli það kannað, að hve miklu leyti hann er notaður í þágu þorpsbúa sjálfra, og þar sem vegurinn er aðeins að minni hluta til notaður af þorpsbúum sjálfum eða í þeirra þágu, þá skuli ríkið eftir sem áður bera kostnaðinn af viðhaldi vegarins, þó að þjóðvegurinn liggi í gegnum ákveðna verzlunarlóð ákveðins þorps eða kaupstaðar. Í öðru lagi er hér lögð sú skylda á herðar ríkinu, að þar sem slíkur vegur, þjóðvegur um þorp eða kaupstað, er svo mikið notaður, að umferð um hann nær ákveðnu marki eða fer upp fyrir ákveðið mark, þá skuli ríkinu skylt, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum, að byggja varanlegt slitlag á viðkomandi veg, þ.e.a.s. gera hann úr steinsteypu eða malbika hann.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum hér, hver óþægindi eru að því fyrir íbúa í kaupstöðum eða þorpum, sem sagt á þéttbyggðum stöðum, að fá mjög mikla umferð í gegnum þorpið eða kaupstaðinn á malarvegi, sem rýkur og veldur margs konar óþrifum í viðkomandi byggð. Á því verður að ráða bót, en sú framkvæmd er, svo sem allir vita, mjög dýr og ekki hægt til þess að ætlast, að íbúar í viðkomandi þorpi annist hana á eigin kostnað, enda engin sanngirni að ætlast til þess, þar sem vegirnir eru kannske að miklum meiri hluta til notaðir í annarra þágu en viðkomandi þorpsbúa eða kaupstaðarbúa sjálfra. Það væri ákaflega einföld leið til þess að finna það út, að hve miklu leyti vegur er notaður í þágu viðkomandi þorps og að hve miklu leyti í þágu annarra, að gera á því úrtaksrannsókn einn eða tvo eða máske einhverja daga á ári, athuga þá, hvar eru skrásett þau farartæki, sem um þorpið fara. Og ég held, að í framkvæmd mundu ekki verða vandkvæði á því að komast að hinu rétta um það.

Það er allra manna mál, að ekki sé tæknilegur möguleiki að halda sæmilega þriflegum eða góðum til umferðar malarvegum, sem mikil umferð er orðin á. En það er svo í sumum þorpum landsins, að í gegnum þau liggja malarvegir, sem þau hafa ekki efni á að breyta í varanlegri vegi og hafa á sér umferð, sem er langt fyrir ofan það mark, sem möguleiki er að halda slíkum vegi sæmilegum með. Það er þess vegna sýnilegt, að hér er ekki bara um réttlætismál að ræða, heldur líka óumflýjanlegt nauðsynjamál.

Ég flutti frv. um þetta sama efni á síðasta þingi, en það varð ekki útrætt þá og bíður því enn efnislegrar meðferðar hjá Alþingi, og vænti ég þess, að það verði tekið til meðferðar og afgreiðslu á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og samgmn.