29.11.1962
Neðri deild: 23. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

97. mál, vegalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Með þessu frv. er hreyft mjög veigamiklu vandamáli, sem snertir bæði vegakerfi landsins í heild og alveg sérstaklega vega- og gatnamál þéttbýlisins, þorpa, kaupstaða og borga.

Í tilefni af frv. vil ég geta þess, að fyrir tæplega tveimur árum var samkv. ákvörðun Alþingis sett á laggirnar nefnd til þess að endurskoða vegalög. Þessi nefnd hefur fyrir nokkru skilað áliti sínu, og ég hygg, að það muni vera til athugunar hjá hæstv. ríkisstj. Ég tel mig geta skýrt frá því, að eitt af því fyrsta, sem tekið var til athugunar í þessari nefnd, var einmitt það vandamál, sem fjallað er um í þessu frv. Það varð ljóst, að eins og vegakerfið hefur verið undanfarið, hafa verið í því göt, þar sem umferðin er mest. Þjóðvegunum hefur lokið við mörk þéttbýlisins, og oft hefur farið svo, að vegirnir gegnum þorpin hafa verið hvað verstir, einmitt vegna þess að ríkið sleppir þar afskiptum, sem sízt skyldi og umferðin oftast nær og eðlilega er langmest.

N. fjallaði um þetta mál og gerir í till. sínum ráð fyrir að leysa það. Ég tel ekki rétt að fara á þessu stigi nánar út í það, hvernig þær till. eru, en mér virðist fljótt á litið, að þær gangi þó nokkuð lengra en hv. flm. gerir með þessu frv.

Ég vil vænta þess, að þetta mál verði leitt til lykta á þessu þingi, hvort sem það verður með þessu frv. eða með heildarfrv. um vegalög, sem ég tel æskilegra, þar sem þetta mál yrði leyst í samhengi við önnur vega- og gatnamál í landinu.