04.02.1963
Neðri deild: 34. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

114. mál, lögtak og fjárnám

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar má að vissu leyti skipta í tvo þætti. Annars vegar er barátta, sem miðast að sjálfu kaupgjaldinu, en hins vegar sú, sem kalla mætti félagslega baráttu og stefnir að því að tryggja ýmiss konar réttindi og hlunnindi, sem bæta kjör hinna vinnandi manna.

Eitt af því, sem síðast vannst á sviði hinna félagslegu umbóta með samningum við atvinnurekendur og að vísu eftir verkfall, voru greiðslur í sjúkrasjóði og aðra sambærilega sjóði verkalýðsfélaga. Þegar þetta náðist fram, voru að vísu uppi skiptar skoðanir um, hvort þetta 1%, sem í flestum tilfellum var um að ræða, skyldi renna í slíka sjóði eða greiðast sem kaup. Niðurstaðan varð á flestum stöðum að fara sjúkrasjóðsleiðina.

Nú hefur komið í ljós, að ýmis verkalýðsfélög eiga í erfiðleikum við að innheimta þessar greiðslur. Fyrir ábendingar forráðamanna í nokkrum verkalýðsfélögum höfum við þrír Alþýðuflokksmenn flutt frv., sem mundi heimila lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar á slíkum gjöldum. Í lögum eru þegar nokkur ákvæði, sem eru þess eðlis, að hér er ekki um nýja eða óeðlilega leið að ræða, og eftir þeim upplýsingum, sem við höfum fengið, mundi þessi lagasetning ein verða til þess, að innheimtan gengi mun betur, án þess að þyrfti beinlínis að grípa til þeirrar heimildar, sem lögin veita. Mundi verða svo, að skoðun kunnugra, að heimildin ein mundi skapa nægilega mikið aðhald til, að slík innheimta gengi vandræðalítið.

Með því að ýmis félagsleg ákvæði, sem hafa komizt inn í samninga, hafa vaxandi þýðingu varðandi lausn á vinnudeilum og góða sambúð á milli vinnusala og vinnukaupenda, teljum við, að það væri eðlilegt og mundi verða til bóta fyrir báða aðila, ef sú heimild, sem við leggjum til að veitt verði, næði fram að ganga.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.