05.02.1963
Neðri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

117. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Afurðir bænda eru verðlagðar samkv. framleiðsluráðslögum landbúnaðarins. 4. gr. l. hljóðar þannig:

„Söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.“

Lengri er gr. ekki. Samkv. þessu ákvæði hefðu bændur átt að hafa hliðstæðar tekjur og aðrar vinnandi stéttir þjóðfélagsins, og er þá miðað við iðnaðarmenn, sjómenn og verkamenn, en það á að miða við þessar stéttir. Það er ljóst, að samkv. þessari gr. eiga þeir að hafa þessar tekjur, hvort sem þeir framleiða mikið eða litið. Nú hygg ég, að flestum muni koma saman um, að það sé ekki til þess að hvetja menn til framfara, ef þeir eiga að fá sama kaup, hvort sem þeir vinna vel eða illa. Ég hygg, að það yrði ekki til þess að efla framfarir sjávarútvegs, iðnaðar eða yfirleitt neinna atvinnuvega, ef kaupgjald þeirra stétta væri miðað við það, að þeir fengju jafnmikið, hvort sem þeir ynnu vel eða illa og afköstuðu miklu eða litlu. Þetta gat verið gott til að byrja með á sínum tíma, en til lengdar getur þetta ekki gengið, ef eðlileg þróun á að verða í einum atvinnuvegi. En nú skyldi maður ætla, að þetta væri svo, að bændur hefðu fengið þetta kaup. Því er ekki að heilsa. Arnór Sigurjónsson hefur gert ýtarlega athugun á tekjum bænda í hagskýrslum, og hann hefur unnið þar mikið og þarft verk. Þar kemur í ljós, að meðaltekjur bænda árið 1960 hafa verið 55840 kr. af landbúnaði. Auk þess hafa bætzt við aukatekjur, sem eru fyrir vinnu annars staðar, og aðrar slíkar tekjur, þannig að heildartekjurnar hafa orðið 66104 kr. Þegar verðlag er reiknað út, eru reiknaðir vextir af eigin fé, en þegar þessi upphæð fæst, þá er búið að draga frá vexti af skuldum, en ekki vexti af eigin fé. Og samkv. því, sem verðlagsráð landbúnaðarins hefur ákveðið, áttu bændur að fá í vexti af eigin fé þetta ár 6896 kr. Þetta þýðir það, að bændur hafa fengið í heildartekjur 59208 kr. árið 1960. En hæstv. viðskmrh. lýsti því yfir samkv. úrdrætti frá hagstofunni, að þetta ár hefðu tekjur sjómanna, iðnaðarmanna og verkamanna verið 79 þús. Það munar þarna 20 þús., en það þýðir 30%. Það er því hvorki meira né minna en það er hallað á bændur um 30% árið 1960. Þeir fá 30% minna kaup en þeir eiga að fá samkv gildandi lögum.

Nú hefur hlutur bænda versnað síðan, vegna þess að þegar hinn mikli sjávarafli kom árið 1961 og 1962, óx mikið atvinna í sjávarþorpunum. Þetta varð mikill tekjuauki fyrir þá, sem þar búa. Konurnar unnu við síldarsöltun, og unglingarnir fengu vinnu líka. En hjá bændum er það þannig, að tekjur fjölskyldunnar eru að mestu leyti innifaldar í áætluðu kaupi bóndans, vegna þess að yfirleitt er börnum ekki reiknað kaup og konum alls ekki, þótt þær vinni að bústörfum, sem þær gera í mörgum tilfellum. Ég hygg, að það sé ástæða til þess að gera sér ljóst, í hverju þetta liggur. Og ég hef farið í gegnum þau gögn, sem ég hef getað fundið, til þess að fá þetta upplýst.

Það hefur verið miðað við svokallaðan verðlagsgrundvöll, sem 6 manna nefndin hefur ákveðið í flestum tilfellum. Og ég hef aðallega miðað við árið 1953 og svo aftur nú síðasta árið. Og ég hef orðið var við það, að yfirleitt hefur afurðamagnið verið reiknað hærra til bænda en það hefur raunverulega verið, sérstaklega bar á þessu fyrstu árin, en það hefur alltaf verið. Magnið hefur verið reiknað meira og verðið hefur orðið lægra til bænda en þeim hefur verið ætlað, þótt í sumum tilfellum siðari árin hafi þeir fengið nokkurn veginn svipað verð. Samkv. verðlagsgrundvellinum hefur framleiðsluaukningin orðið frá 1953 til síðasta árs 32% á mjólk, 3% á nautgripakjöti, 72% á kindakjöti, 72% á gærum, 53% á ull og 33% á hrossum. En þetta eru áætlaðar tölur. 1953 var magnið, sem bændur framleiddu, miklu minna en gert var ráð fyrir í verðlagsgrundvellinum. En auk þess hefur aðstaða bænda breytzt frá þessu ári þannig, að þá hefur aðkeypt vinna, ef henni er breytt í núgildandi gengi, 43 kr. dollarinn, þá hefur verið talið, að bændur keyptu vinnu fyrir 33583 kr., en nú er þeim ætlað að kaupa vinnu fyrir 13946 kr. En tekjur af aukabúgreinum hafa hins vegar verið hækkaðar hjá bændum úr 9870 og upp í 19580 kr. Útkoman samkv. síðasta verðlagsgrundvelli er því þannig, að aukatekjur bóndans, það sem hann vinnur annars staðar fyrst og fremst, eiga að vera 19580 kr., en það, sem hann á að greiða í kaup, 13946 kr. Á því er auðséð, að hann getur ekki reiknað börnum sínum mikið kaup. Sem sagt, bóndinn á að vinna meira annars staðar en hann greiðir öðrum í kaup, þannig að hann á að gera betur en að vinna fyrir vísitölubúinu. Þetta vitum við, sem búskap höfum stundað, að er ekki rétt. Það er ekki hægt að reka bú algerlega án aðkeyptrar vinnu. Þetta liggur í því, að vinna barna er ekki reiknuð nema að litlu leyti. Hins vegar hafa vaxbatekjur verið reiknaðar nokkru meiri nú síðasta árið en áður. Í raun og veru voru 1953 sama og engir vextir reiknaðir af eignum, sem stóðu í búinu. Aðkeypta vinnan hefur því lækkað um 60%, en aukatekjur bóndans hafa tvöfaldazt.

Ef við lítum nú yfir, hvað bændur hafa gert s.l. 10 ár, þá er það meira en lítið, sem framleiðslan hefur aukizt. Innlögð mjólk var 47 millj. 571 þús. árið 1953, en árið 1962 er hún komin upp í 88 millj. 656 þús. kg. Mjólkurmagnið hefur aukizt um 86%. Kjötið hefur aukizt úr 3714 tonnum í 11781 tonn. Það hefur um það bil þrefaldazt. Þessu ber ekki saman við prósenturnar, sem ég reiknaði út áðan, miðað við verðlagsgrundvöllinn 1953, og það liggur í því, að magnið var reiknað miklu hærra árið 1953 en bændur fengu. En enn þá brennur það við, að magnið er áætlað meira en bændur fá. Ég t.d. álít, að árið 1953 hafi mjólkurframleiðsla bónda raunverulega verið 12 þús., en þá var áætlað, að meðalbóndinn ætti að framleiða 14900 lítra. 1962 eru mjólkurtekjur bóndans áætlaðar 19710 lítrar, en hafa, eftir því sem ég kemst næst, ekki verið nema um 16000 lítrar. Verðlagið hefur lækkað, eftir því sem framleiðslan hefur aukizt. Bóndinn hefur ekkert grætt á að auka sína framleiðslu. Og það hlýtur að vera öllum ljóst, að það getur ekki gengið til lengdar. Það er ekki eðlilegt, að bændur leggi á sig aukið erfiði og meiri kostnað við að kaupa vélar, ef þeir njóta þess í engu. En þannig hefur löggjöfin verið, að hlutur bóndans hefur ekkert batnað, þó að framleiðslumagnið hafi aukizt.

Ég hef athugað, hvert verðlagið ætti að vera nú, ef það væri miðað við gengisbreytingarnar, sem orðið hafa. 1953 var dilkakjötið á 13,80. Nú ætti það að vera, miðað við þær gengisbreytingar, sem orðið hafa síðan, 37 kr., en er 28 kr. Mjólkin var áætluð árið 1953 á 2,75. Nú ætti bóndinn að fá 7,45, en það er gert ráð fyrir, að hann fái 5,27. Á þessu sést, að hin aukna framleiðsla hefur ekki komið bændum til góða, heldur þeim, sem vöruna keyptu. Mér hefur verið það ljóst, að kaupgeta neytenda hefur verið takmörkuð. En ég hygg, að þetta hafi breytzt til batnaðar síðustu tvö árin vegna þess mikla sjávarafla, sem borizt hefur á land, og aukinnar atvinnu af þeim ástæðum.

Það er staðreynd, að nú í ár eru bændur langlægst launaða stétt landsins. Þetta liggur fyrir í hagskýrslum, sem ekki er ástæða til að rengja. Yfirleitt er ekki um mjög vafasamt framtal að ræða. Það virðist t.d. samkv. athugunum, sem Arnór Sigurjónsson hefur gert, að það vanti 10% af lömbum inn á landbúnaðarskýrslurnar, en þetta þýðir það, að gamalt fólk og börn, sem ekki gerir skýrslur, á þessi lömb. Mjólkurmagnið er mjög eðlilegt, og hann telur, að áburður og fóðurbætir séu mjög eðlilega talin, þannig að það er ekki mikið, sem skakkar í röngum framtölum, og ekki ástæða til að ætla, að það sé frekar hjá bændum en öðrum. Samkv. upplýsingum, sem hæstv. viðskmrh. gefur, eru tekjur annarra vinnandi stétta 1960 79 þús. kr., en bændanna um 59 þús. Það munar um 30%, sem bændur fá minna en þeir eiga að fá. Og þetta er alvarlegur hlutur. Ég álít, að Arnór Sigurjónsson hafi unnið mjög þarft verk í vinnu sinni á hagstofunni. Ég skal játa það, að bændur reka ekki bú sín alls staðar á þann hátt, sem hagkvæmast er. Og það er einmitt með hagfræðilegum athugunum, sem á að vera hægt að bæta úr slíku. Það ætti að vera hægt að laga það, sem aflaga fer, að einhverju eða öllu leyti. Lægstar tekjur virðast menn hafa í Norður-Múlasýslu, þar næst í Barðastrandarsýslu. Ég skal ekki fullyrða um, hvort aðstaða til markaða eða búskaparskilyrði eru verri í þessum sýslum eða hvort það liggur í því, að búskapur er ekki rekinn á réttan hátt þar. En slíkt þarf að athuga.

Ef bændur fá eitthvað meira fyrir það, ef þeir vinna vel, þá fyrst fást þeir til að leggja sig fram um að gera betur. Ég fer fram á það, að 25% af aukinni framleiðslu komi fram í hækkuðu kaupi bóndans. Samkv. þeim grundvelli, sem sex manna nefndin miðar aðallega við, er um helmingur af brúttótekjum búsins kostnaðarliðir, en um helmingur er vinna, og þá geri ég ráð fyrir, að ef framleiðslan vex vegna betri tækni eða aukinna vinnuafkasta, þá skiptist þetta jafnt á milli neytenda og framleiðenda. Mér er það alveg ljóst, að fulltrúar bæjanna eiga dálítið erfitt með að ganga einhliða til móts við bændur, en ég hygg, að það sé engin áhætta fyrir þá að ganga það til móts við bændur, að báðir græði 50% á betri vinnuafköstum. Það er ómögulegt fyrir neytendurna í bæjunum að deila á þá fyrir það. Ég tek það fram í grg., að ég legg enga áherzlu á það, hvort prósentan er einu stigi minni eða meiri eða við hvaða ár er miðað. Það er gert ráð fyrir í lagabreytingunni, sem ég kem með, að það sé miðað við árið 1962–1963. Ég skyldi fúslega ganga inn á, að það væri miðað við eitthvert annað ár fyrr. Sem sagt, það er ekki aðalatriðið. En aðalatriðið er það, að þessari spennitreyju, sem bændum er haldið í nú, sé hneppt frá þeim, því að annars getur íslenzkur landbúnaður ekki þróazt og þrifizt. Þetta er grundvallarskilyrði, til þess að landbúnaðurinn geti tekið eðlilegum framförum, að hann sé ekki fjötraður á þennan dæmafáa hátt.

Áhrifin af þessu eru þau, að þeir, sem meira mega sín, þeir, sem meiri hafa efnin, eiga tiltölulega auðvelt með að stækka búin. Þeir fá þess vegna meiri tekjur, bæði brúttótekjur og nettótekjur. En þetta kemur ekki fram í, að hagur bændastéttarinnar batni í heild. Þetta kemur eingöngu fram þannig, að það er þrengt að þeim; sem eru efnaminni, framleiða minna. Þetta hefur komið glöggt í ljós nú síðari árin, að það eru minni bændurnir, sem þrengir að, en stærri bændurnir komast vel af. Það eru þess vegna hættulegar skorður, sem þarna eru reistar. Stærri bændurnir framleiða á kostnað minni bændanna, og ef þessu heldur áfram, þá verður það beinlínis til þess, að minni bændurnir gefast upp. Gengislækkunin hefur líka unnið að þessu. Á henni hafa efnameiri bændurnir hagnazt, en þeir efnaminni skaðazt. Þeir, sem eru að byrja búskap, eiga örðugt. Ég kom til hjóna, meðan ég var fyrir norðan í jólaleyfinu, og það voru óvenju efnileg og dugleg hjón. Bóndinn var búinn að reisa 40 kúa fjós eða langt kominn að byggja það. Hann sagði mér, að það kostaði á 6. hundrað þús. kr. Hann sagðist hafa um 150–200 þús. í lausaskuldum og hafði von um 300 þús. kr. fast lán. Þetta þýðir, að vaxtabyrði hans af fjósinu er um 40 þús. Þá átti hann eftir að fjölga kúnum. Þetta var bara fyrir fjósið, fyrir utan öll önnur mannvirki. Það er þess vegna erfiður hlutur þeirra, sem hafa að meðaltali 70 þús. kr. nettótekjur á ári og borga slíka vexti, það er óframkvæmanlegt.

Ég hef tiltölulega lítið vonzkazt út af þessu eina prósenti, sem við erum látnir greiða til Búnaðarbankans, og ég skal greiða það með glöðu geði og jafnvel þótt það væri 11/2 %, ef vextirnir væru lækkaðir við þá, sem eru að byrja búskap, því að það er ógerlegt fyrir bændur, sem nú eru að byrja búskap, að eiga að borga 61/2 % af föstum lánum og 10% af víxlaskuldum, á meðan við, sem höfum eldri lán, borgum tiltölulega verðmiklar krónur með verðlitlum krónum og ekki nema 4% vexti. Aðstaðan er svo ólík, að það er óverjandi. Það er ekkert við það að athuga, þótt við værum á einhvern hátt skattlagðir, sem betur erum settir, til þess að hjálpa þeim, sem nú eru verr settir. En vaxtahækkunin og gengislækkunin gerði þeim, sem eru að byrja búskap, svo að segja ómögulegt að reka búskap, og þegar þar við bætist, að bændastéttin í heild vinnur fyrir 30% lægra kaupi en aðrar stéttir, þá sjá allir menn, hvert stefnir.

Bændunum hefur verið að fækka. því er slegið fram á hagskýrslunni, að þeim muni hafa fækkað um 600 síðustu 5 árin, en það er ekki rétt, því að það er tekið fram í aths. með hagskýrslunni, að þarna sé að nokkru leyti um það að ræða, að menn hafi verið felldir niður, sem hafa haft svo litla landbúnaðarframleiðslu, að þeir hafi tæplega getað talizt bændur. Og eftir þeim ályktunum, sem ég gat dregið af þessu, þá geri ég ráð fyrir, að á síðustu 5 árum hafi bændum fækkað um ca. 200. En haldi þessu áfram, að bændur eigi að hafa 30% lægri laun en aðrar stéttir og þar að auki vanta vinnuskilyrði fyrir konu og fyrir stálpuð börn eða vinna þeirra hverfi inn í þessar litlu tekjur, sem bóndinn hefur, — haldi því áfram og þrengt sé að þeim, sem eru að byrja búskap á þann hátt, sem gert er nú, með háum vöxtum og lánsfjárskorti, þá sé ég ekki annað en ungir menn hverfi frekar að öðrum atvinnugreinum en búskap.

Hér er því um tvennt að ræða, sem ég legg sérstaka áherzlu á í þessari lagabreytingu, sem ég ber hér fram. Það er, að það er ógerlegt, að landbúnaðurinn geti þróazt í þessari spennitreyju, sem hann er í samkv. þessum l., það er ekki hægt. Og í öðru lagi er óviðunandi fyrir íslenzka bændastétt að fá 30% minna fyrir vinnu sína en hún á að fá lögum samkvæmt. Ég skal játa það, að minni búin þurfa að stækka, en þau geta ekki stækkað, nema bændum séu veitt þau skilyrði, að þeir geti komið fyrir sig meiri ræktun og stækkað búin, og yfirleitt skilyrðin gerð þannig, að þeir geti framleitt með minni tilkostnaði. Ég er sannfærður um, að það er hægt að framleiða sauðfjárafurðir hér með minni kostnaði en nú gerist. Við skulum bara taka Norður-Múlasýslu með sín grösugu beitilönd. Það er talið, að þar sé meira grasi gróið land miðað við hverja kind en nokkurs staðar annars á landinu. Með því að nota þessa beit og gefa t.d. síldina með er hægt að framleiða mjög ódýrt dilkakjöt. En það geta menn ekki, ef það er kreppt svo að þeim, að þeir geti engan veginn rétt sig við, hvorki stækkað búið, byggt fjárhús né yfirleitt rekið sinn búskap á hagkvæman hátt.

Ég hef trú á framtíð íslenzks landbúnaðar og er sannfærður um, að hann á mikla framtið, ef rétt er á hlutunum haldið. Hitt er annað mál, að þegar sjórinn er eins gjöfull og nú, meðan síldin er hér við landið, þá er það freisting fyrir unga menn að fara frá landbúnaðinum og veiða síld. En skeð getur, að þetta breytist, síldin hverfi frá landinu, og þá standa þeir, sem eiga þessi dýru síldarskip, ráðalausir og tekjurnar hverfa að miklu leyti. Ég hygg því, að það sé bezt að stilla öllu í hóf, fækka bændunum ekki allt of mikið. Ég skal játa það, að bændur geta framleitt meira, ef skilyrði eru fyrir hendi. Það er þess vegna ekki bein ástæða til að leggja mikla áherzlu á að fjölga þeim. Fólksfjölgunin er ör hér á landi, og bæirnir stækka. Ég hygg því, að það verði miklu meiri markaður fyrir landbúnaðarvörur á komandi árum en nú er, þannig að það megi gera ráð fyrir, að meginið af landbúnaðarvörum seljist innanlands. Um markaðshorfur skal ég ekki spá. En ég er sannfærður um það, að Ísland á framtið fyrir sér að vissu marki sem landbúnaðarland, ekki sem skógaland eða til kornræktar, heldur til sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. En landið verður ekki ræktað eða byggt, ef þeir, sem við það vinna, eiga að búa við allt önnur og verri skilyrði en aðrir menn í þjóðfélaginu.

Ég veit, að það er á valdi stjórnarflokkanna, hvað þeir gera við þessa lagabreytingu. En um grundvallarverðlagið þarf ekki að semja nein lög, þar er aðeins um framkvæmdaratriði að ræða. Bændur hafa ekki haldið nægilega vel á sínum málum eða verið rangindum beittir. En það þarf lagabreytingu til þess að breyta því ákvæði, að laun bænda skuli vera hliðstæð launum annarra stétta án tillits til þess, hvort þeir vinna sitt verk vel eða illa, því að það hindrar algerlega eðlilega þróun og verður til þess, að þeir sterkari útrýma eða hrekja þá, sem minna mega sín, frá jörðunum. Ég veit, að það er á valdi stjórnarliðsins, hvort þetta verður samþ. eða ekki. Ég geri ráð fyrir, að ég skrifi um þetta og bændum verði ljóst, hvar þeir standa í þessu efni, og það skrýtna er, að bændum sjálfum var þetta atriði miklu betur ljóst en yfirleitt flestum af þeim mönnum, sem eiga að fást við þeirra mál í framkvæmdinni. Ég hef talað við margan bónda, sem er það ljóst, að það er þýðingarlaust að vera að erfiða þetta, þeir fengju ekkert meira fyrir það. Og það er rétt hjá þeim. Verði þessi lagagrein látin vera óbreytt, er langskynsamlegast og eðlilegast fyrir bændur að koma sér saman um það í bróðerni að minnka sína framleiðslu um helming, þeir fá sama kaup. Þess vegna sjá allir menn með heilbrigða skynsemi, hversu fáránlegt þetta er. En ég hef alltaf viljað þessari ríkisstj. vel og ráðið henni heilræði, eftir því sem ég hef getað eða haft vit til, og ég held, af því að það á að kjósa í sumar, þá væri skynsamlegast að leysa þessi mál nú. Eins væri skynsamlegra að lækka vexti á föstu lánunum hjá Búnaðarbankanum, ef ríkisstj. ætlast til þess, að unga fólkið í sveitinni kjósi með sér í næstu kosningum. (Gripið fram í.) Ef ég væri í stjórnarliðinu, mundi ég a.m.k. mæla með því, að þetta væri gert. Það er ekki óeðlilegt, þótt sumum verði dálítið þungt í skapi vegna þeirra vandkvæða, sem eru nú á því að byrja búskap.