05.02.1963
Neðri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

117. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ekki efast ég um það, að hv. þm. hafi flutt ræðu sína af mikilli velvild í garð ríkisstj. og hennar stuðningsflokka. Hitt vil ég þó ekki ætla honum, að með henni hafi hann beinlínis verið að höggva mjög nærri sínum eigin flokki, Framsfl. En ef orð hans væru rétt, þau sem hann mælti í ræðu sinni, væri þar um að ræða eina mestu gagnrýni, sem flutt hefur verið á hans eigin flokk hér á hinu háa Alþingi um langt skeið, og skal ég víkja að þessu í örfáum orðum.

Það var kjarni í ræðu hv. fim. þessa frv. annars vegar, að gildandi lög um verðlagningu landbúnaðarafurða væru mjög ófullkomin og bændum óhagstæð, og svo hins vegar, að framkvæmd sex manna nefndarinnar svokölluðu, sem hefur með höndum ákvörðun verðlagsgrundvallar landbúnaðarins, á þessum lögum hefði verið með þeim endemum, að hvorki meira né minna en 30% hefðu verið höfð af bændum við ákvörðun verðlagsgrundvallar landbúnaðarins, m.ö.o., þær tekjur, sem bændur hefðu upp úr verðlagsgrundvellinum, væru 30% minni en þær ættu að vera samkv. ákvæðum l. Er vissulega illt í efni, ef þetta væri rétt annars vegar, að lög, sem sett voru með tilstilli Framsfl. á sínum tíma, væru jafnmeingölluð og þm. vildi vera láta. En út yfir tæki þó, ef það væri rétt, að ákvörðun sex manna nefndarinnar svokölluðu, þar sem sitja sérstakir trúnaðarmenn bænda, gildir framsóknarmenn, — ef vinnubrögð þessarar n. væru með þeim endemum, að haft væri af bændum sem svaraði 30% af þeim launum, sem þeir ættu rétt á. Ég hygg, að það sé nóg að draga efni ræðu hv. þm. saman í þessar niðurstöður til þess að sjá, að hér er mjög hallað réttu máli.

Ég skal ekki, a.m.k. ekki að þessu sinni, víkja í einstökum atriðum að þeim útreikningum, sem hv. þm. flutti í ræðu sinni, enda þurfa þeir nokkru nánari athugunar við, ef gera á þeim rækileg skil. En á það vildi ég benda, hversu ósennilegt er, að hv. þm. geti farið hér með rétt mál, að sex manna nefndin svokallaða, sem ákveður verðlag á afurðum bænda, náði fullu samkomulagi á s.l. hausti um verðlagið fyrir næsta verðlagsár, fulltrúar bænda og neytenda náðu algeru samkomulagi um verðlagsgrundvöllinn. Má geta nærri, hvort líkur væru á því, að slíkt samkomulag hefði náðst, ef niðurstaðan væri jafnfráleit og hv. þm. vildi gera skóna, að hún hafi verið. Á það má líka benda, að undanfarin ár hefur, að ég held, ávallt náðst samkomulag í sex manna nefndinni um grundvöllinn, að einu ári undanskildu, þegar ekki náðist samkomulag í yfirdómi og verðlagningarmálin gengu til úrskurðar oddamanns, sem er hagstofustjóri. Ég hygg, að það sé í raun og veru alveg nóg að benda á þetta samkomulag í þeirri opinberu nefnd, sem ákveður bændum verðlag, til þess að sýna fram á, að staðhæfingar hv. þm. um það efni, að stórlega væri haft af bændum, eiga ekki við nein rök að styðjast.

Enn fremur er ég þeirrar skoðunar, að dómur hans um löggjöfina um verðlagningu landbúnaðarafurða, sá dómur hans, að sú löggjöf sé bændum mjög óhagstæð, sé mjög rangur. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar, að þessi löggjöf veiti bændum meiri rétt en nokkur önnur stétt í landinu býr við varðandi kjör sín, vegna þess að með þessum lögum eru bændum ákveðin hliðstæð kjör og launastéttir í bæjum njóta. En þetta eru skilyrði, sem engin önnur stétt í landinu býr við, þau skilyrði að fá kjarabót sjálfkrafa, ef launastéttir í bæjum hafa komið fram kjarabótum fyrir sig, sem oft hafa kostað þær mikla baráttu og erfið verkföll. Bændur landsins þurfa aldrei að standa í kjarabaráttu, aldrei að standa í verkfalli til þess að fá fram kjarabætur. Þeim eru færðar þær á silfurfati, um leið og aðrar stéttir hafa, eins og ég segi, e.t.v. eftir harða baráttu náð fram bótum á sínum kjörum. Löggjafinn hefur því búið mjög vel að íslenzkum bændum, og ættu forustumenn bænda sízt að vanþakka það, svo sem þó kom greinilega fram í ræðu hv. þm. áðan.

En fyrst þetta tilefni gafst til að skjóta hér fram nokkrum aths., vil ég nota það til þess að vekja athygli á öðru atriði í sambandi við framleiðsluráðslögin, atriði, sem ég tel að bráðnauðsynlega þurfi endurbóta við í þeirri löggjöf. Það eru ákvæði l. um heimildir til greiðslu útflutningsuppbóta á útfluttar landbúnaðarvörur. Ákvæði l. virðast nú vera framkvæmd þannig, að gerð er krafa til þess, ef landbúnaðarafurð er flutt úr landi, að á hana séu greiddar útflutningsbætur sem svarar mismun á því verði, sem fæst fyrir vöruna erlendis, og því grundvallarverði, sem sex manna nefnd eða framleiðsluráð hefur ákveðið á þessa vöru hér innanlands, án þess að nokkur takmörk séu fyrir því, hversu háar þessar útflutningsuppbætur geti orðið. Það er þetta atriði, sem ég tel skorta ákvæði um í framleiðsluráðslögin. Það væri eðlilegt, að þar væri eitthvert ákvæði, sem takmarkaði það, að útflutningsuppbætur gætu numið hlutfallslega mjög mikilli upphæð af því verði, sem fæst fyrir vöruna erlendis, eða svo að notað sé venjulegt mælt mál, að varan sé ekki allt að því gefin úr landi, en veitt sé með henni úr opinberum sjóði hér innanlands e.t.v. tvöföld sú upphæð, sem fæst fyrir vöruna, þegar hún er flutt úr landi, þannig að í raun og veru séu íslenzkir skattgreiðendur að gefa íslenzkar landbúnaðarvörur úr landi. En ástæðan til þess, að ég nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þessari staðreynd, er sú, að einmitt nú um þessar mundir eru Íslendingar að gera viðskiptasamninga við Ungverja, og ein af þeim vörum, sem undanfarin ár — einnig á siðasta ári — hefur verið flutt til Ungverjalands, er undanrennuduft. Þangað hafa í raun og veru verið fluttar margar fleiri íslenzkar landbúnaðarafurðir, sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur selt þangað til lands, en ein af þeim vörum, sem fluttar hafa verið til Ungverjalands, er undanrennuduft, og í sambandi við viðskiptasamningana eða undirbúning þeirra kom í ljós, að útflutningsbætur á þessa vöru hafa verið svo háar, að ég tel fullkomið hneyksli, að slík vara skuli hafa verið flutt úr landi með jafnstórkostlegri meðgjöf af hálfu íslenzkra skattborgara og raun ber vitni um. Þessum orðum mínum skal ég nú finna stað.

Á s.l. ári voru framleidd í landinu 717 tonn af þessari vörutegund, undanrennudufti. Sala innanlands nam á milli 150 og 200 tonnum, sumpart þó sala af fyrra árs framleiðslu, en útflutningur janúar–nóvember nam 650 tonnum. Þessi vara var flutt úr landi fyrir 2.9 millj. kr., og var meðaleiningarverð 4,50 kr. En útflutningsuppbætur úr almannasjóði námu á þessa vöru hvorki meira né minna en 8.4 millj. kr. eða 12,92 kr. á hvert kg, eða m.ö.o. útflutningsbæturnar námu hvorki meira né minna en næstum þrefaldri upphæðinni, sem varan var seld úr landi fyrir. Hér er vara seld úr landi fyrir u.þ.b. einn fjórðung af því verði, sem bændum er greitt fyrir hana. Útlendi neytandinn borgar u.þ.b. einn fjórðung af því verði, sem bóndinn fær, íslenzkir skattgreiðendur greiða upp undir 3/4 af því verði, sem íslenzki bóndinn eða framleiðandinn fær. Verðið er nokkuð misjafnt. Til Vestur-Þýzkalands var þessi vara flutt á s.l. ári fyrir 5,54 kr. kg, en útflutningsbætur námu 12,61 kr. Til Ungverjalands var varan flutt á 4,72 kr. til 4,79 kr., lægra verð til Ungverjalands en til Vestur-Þýzkalands, útflutningsuppbætur námu frá 13,01 kr. upp í 13,53 kr. Nokkurt magn var enn fremur flutt til Sviss. Þar fékkst lægsta verðið, 3,63 kr., útflutningsuppbætur 12,30. Meðalútflutningsbætur á þessa landbúnaðarafurð námu því á s.l. ári 287% á útflutningsverð. Og nú leyfi ég mér að spyrja hv. alþm., hvort ekki sé ástæða til þess að taka til athugunar breytingar á framleiðsluráðslögunum, sem komi í veg fyrir aðra eins fjarstæðu og hér á sér stað, að verið sé að framleiða landbúnaðarvöru í landinu, svo að segja gefa hana til útlanda, en halda framleiðslunni hreinlega uppi á kostnað íslenzkra skattgreiðenda.

Fyrst hv. þm. hefur gert till. um það, að framleiðsluráðslögin séu athuguð, með því að gera till. um breyt. á 4. gr. 1., vildi ég beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort hún telji ekki ástæðu til þess að setja í framleiðsluráðslögin ákvæði, sem komi í veg fyrir, að annað eins og þetta geti gerzt í framleiðslumálum íslenzks landbúnaðar og íslenzkum utanríkisviðskiptum.