05.02.1963
Neðri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

117. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, fer fram á það, að bændur njóti meira en verið hefur þeirrar framleiðsluaukningar, sem orðið hefur í landbúnaðinum. Þessi till. er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið rædd í framleiðsluráði, hún hefur verið rædd í stjórn Stéttarsambands bænda, og nú hefur stjórn Stéttarsambands bænda og framleiðsluráð kosið nefnd til þess að endurskoða framleiðsluráðslögin, og till. um þetta er þar til rækilegrar athugunar. Ég vildi því leggja til, að þegar þetta frv. kemur í n., verði sú nefnd, sem vinnur nú að endurskoðun framleiðsluráðslaganna, kvödd til viðræðu í sambandi við þetta mál, og veit ég þá, að það fær undirtektir, sem eðlilegar eru og verða bændum til mests gagns.

Það er ekki alveg einfalt, þetta mál, það er ýmislegt, sem kemur til greina, þegar framleiðsluráðslögin eru athuguð. Og ef bændafulltrúar sex manna nefndarinnar hefðu nú málfrelsi hér í hv. d. og tækju til máls á eftir hv. flm. þessa frv., hefðu þeir margt að segja sér til varnar, og ég býst við, að sumir þeirra mundu segja ýmislegt til sóknar á hendur þeim málflutningi, sem hv. frsm. viðhafði hér áðan og er þessum hv. þm. ekki svo tamur. En það, sem ég á við með því, að málflutningurinn hafi verið dálítið sérstæður, var, að hv. þm. fór með fullyrðingar, sem hann að sjálfsögðu hefur haldið að væru réttar, en hafa ekki stoð í veruleikanum, þegar það er kannað og réttra heimilda er leitað. T.d. það, þegar hv. þm. fullyrðir, að bændur hafi 30% lægra kaup en þeim er ætlað lögum samkv., og sex manna nefnd hefur náð samkomulagi um laun bóndans og afurðaverðið, þá nær þetta ekki nokkurri átt. Og ég sé það líka hér, ég er með eitt hefti af Árbók landbúnaðarins 1962, þar sem síðasti verðgrundvöllur er skráður. Ég færi hv. ræðumanni það til afsökunar, að hann hefur ruglað tölum, og held, að það geti komið fyrir ágæta menn. Í verðgrundvellinum 1962 eru laun bóndans reiknuð 94576 kr. (Gripið fram í.) Laun bóndans í verðgrundvellinum 1961 voru lægri, mig minnir 79 þús., en hv. þm. sagði 59 þús. Þegar við tölum um launatekjur verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna annars vegar og hins vegar launatekjur bænda, verðum við að hafa sambærilegar tölur í báðum tilfellum. Við megum ekki í öðru tilfellinu taka tekjur, sem miðast við dagvinnukaup 8 stunda vinnu og eftirvinnu og í hinu tilfellinu taka aðeins 8 stunda vinnutekjur og sleppa eftirvinnunni. Það er þannig, að tekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna hafa verið 1961 um 79 þús. kr., þegar eftirvinman er reiknuð með, en um 60 þús. kr., þegar miðað er við 8 stunda vinnudag. Og bóndinn fær í þessu tilfelli reiknaða bæði dagvinnuna og eftirvinnuna í samræmi við það, sem verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn fá. En ef bóndinn vinnur lengri vinnudag, sem hann mun oft gera, þá ber hann skarðan hlut frá borði, og skv. hlutföllunum 1962 eru launatekjur bóndans 94576 kr., og er þá reiknað með þeim launatekjum, sem verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn fengu, þegar eftirvinnutekjur þeirra eru teknar með.

Þetta er allt of mikil ásökun á fulltrúa bænda í 6 manna nefnd, sem kom hér fram. Hins vegar get ég tekið undir það með hv. þm., að það væri æskilegt, ef hægt væri að búa betur að bændum, það er allt annað mál. En við vinnum ekki bezt að því með því að fara ekki rétt með staðreyndir, sem fyrir liggja.

Nú er það svo, að framleiðsluráðslögin eru frá 1947 og voru á sínum tíma ágæt, sérstaklega fyrir bændur, og ef við flettum Tímanum frá 1947 og alveg til ársloka 1958, þá voru þessi lög í því blaði talin ágæt vernd fyrir bændastéttina. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því, að til þess að þessi lög væru verulega góð fyrir bændastéttina, þurfti að endurbæta þau. Og það var eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. að gera það. Það var gert með því að taka ábyrgð á því, sem þurfti að flytja úr landi, tryggja það, að bændur fengju sama verð fyrir vöruna, hvort sem hún væri seld innanlands eða utan. Þetta er ein sú mesta og bezta trygging, sem bændastéttin hefur fengið, og hafa fulltrúar bænda í 6 manna nefnd, í stjórn Stéttarsambands bænda og framleiðsluráði skilið þetta og ekki látið neimar öfgar á sig fá, heldur gert sér grein fyrir, að með þessu atriði í lögunum hafa bændur fengið tryggingu, sem þeir lengi vildu fá, en áttu ekki kost á að fá fyrr en í árslok 1959.

Það var oft, sem bændur báru skarðan hlut frá borði, og það er rétt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að bændur fengu ekki áður fyrr það verð, sem þeim var reiknað í verðgrundvellinum. Og hvers vegna var það? Það var vegna þess, að þeir þurftu að flytja út kjöt, þeir þurftu að flytja út osta á mun lægra verði en innanlandsverðið var. Og áður en útflutningstryggingin kom til skjalanna, urðu bændur sjálfir að bera þennan halla. Það var t.d. hjá Mjólkurbúi Flóamanna eitt árið, sem vantaði 20 aura á lítra, vegna þess að það voru fluttir út ostar á lágu verði. Ég tel, að bændur megi ekki missa þessa tryggingu. Þeir verða að hafa hana. Það er undirstaðan til þess, að hægt sé að tryggja bændum það, sem lögin ætlast til, að tekjur þeirra verði í samræmi við aðrar vinnandi stéttir. Þess vegna mega bændur ekki missa þetta ákvæði úr lögunum, og bændur eru mér sammála um það.

Um það, sem hv. flm. fullyrti hér áðan, að afurðirnar í grundvellinum væru reiknaðar miklu meiri en þær reyndust vera, ef það væri rétt, þá væri það eingöngu vegna þess, að 6 manna nefndin og ráðunautar hennar hafa reiknað skakkt. Ég held, að þetta geti alls ekki verið rétt. 6 manna nefndin hlýtur að miða við það raunverulega, og ég hef reyndar ekki heyrt, að það hafi verið vefengt t.d. á mjólk, sem er tekin eingöngu skv. skýrslum mjólkurbúanna, ekki heldur á kjöti, sem er tekið skv. skýrslum. En það var eitt atriði, sem deilt var um 1961 um haustið. Það var ullarmagnið. Það var deilt um það, hvort ullarmagnið væri raunverulega eins mikið og áætlað var, en það mun hafa verið leiðrétt á s.l. hausti og ullarmagnið áætlað í grundvellinum fyrir 1962–63 í samræmi við raunveruleikann.

Það, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan um útflutning á mjólkurdufti, er ein bezta sönnunin á því, hversu mikils virði útflutningstryggingin er fyrir bændur. Hvað ættu bændur að gera við umframframleiðsluna, ef þeir hefðu ekki kauptryggingu? Þeir gætu auðvitað ekki gert við hana annað en flytja hana út. Áður voru fluttir út ostar, á meðan framleiðslan var meiri en fyrir innanlandsmarkaðinn. Nú tvö síðustu árin hefur verið flutt út mjólkurduft. Ég hef rætt það við framleiðsluráðið, hvort ekki væri hagstæðara að flytja út ost, og hafa þeir talið, að það væri mjög svipað, það mundi vera litið hagstæðara. Eigi að síður er nú orðið það mikið til af osti, að það verður að flytja eitthvað út af osti. Mjólkurmagnið hefur aukizt gífurlega nú 2–3 síðustu árin og er meira en til neyzlu innanlands. Og það er vitanlega ekki nema gott við því að segja. Ég held, að við megum ekki telja það eftir, þótt við greiðum með því, sem flutt er út af offramleiðslu landbúnaðarins miðað við innanlandsmarkaðinn. Ég held, að við verðum að gera það m.a. til þess að tryggja það, að þó að árferði versnaði, þá hefðum við samt nægilega mikið af landbúnaðarvörum, og líka til þess að fólkið fari ekki úr sveitunum meira en verið hefur. Og ég held, að þetta út af fyrir sig ætti að vera einn þáttur til þess að draga úr fólksflótta úr sveitunum. Framleiðslan hefur aukizt gífurlega, sem betur fer, segi ég, og það er í samræmi við þá stefnu, sem er mörkuð, og í ósamræmi við þá spádóma, sem hafðir voru hér uppi, að landbúnaðarframleiðslan, ræktunin og allt þess háttar mundi dragast saman.

Ef við lesum skýrslur um ræktunina í landinu, kemur í ljós, að ræktunin hefur verið að meðaltali á áratugnum 1950–60 3400–3500 hektarar. En árið 1961 voru ræktaðir 3960 hektarar og sennilega ekki minna s.l. ár. Og ef við förum að athuga áburðarnotkunina, þá hefur hún aldrei verið eins mikil og á s.l. ári, sem er í samræmi við það, að hinir ræktuðu blettir hafa stækkað, og einnig það, að farið er að bera áburð á jafnvel bithaga.

Það hefur verið talað um, að fólksflóttinn úr sveitunum væri óhollur, og það er rétt. Það eru vitanlega takmörk fyrir því, hversu langt má ganga í því efni. En þannig hefur þetta gengið frá því um aldamót, og hafi hv. alþm. hlustað á fyrirlestur eftir Pál Zóphóníasson, sem lesinn var í útvarpið í vetur, kemur greinilega fram, að fólksflutningar úr sveitum eru minni nú en þeir hafa oft verið áður. Ég hef látið taka saman, ég er ekki með þær skýrslur með mér hér, skýrslur um eyðijarðir, fjölgun þeirra á undanförnum árum og nú. Ég hef gert það af sérstöku tilefni, vegna þess að það hefur stundum verið látið í það skína, að jarðir hafi jafnvel ekki farið í eyði fyrr en nú, eftir að núv. ríkisstj. kom til valda. En ég vil geta þess, að árið 1957 fjölgaði eyðijörðum um 45 og 1958 um 45, 1959, næsta ár eftir að vinstri stjórnin fór frá völdum, um 73, en 1961 fjölgaði eyðijörðum um 42, þannig að það er ekki aukning á fjölda eyðijarða núna, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, nema síður sé. Og ég hef sagt það áður og ég segi það enn, og ég veit ekki, hvort til þess var vitnað í þeirri ræðu, sem ég nefndi hér áðan, hjá Páli Zóphóníassyni, hann hefði það eftir mér frá aðalfundi Stéttarsambands bænda, að það gæti verið eðlilegt, að litlar jarðir væru sameinaðar. Er nokkur hv. þm., sem telur það óeðlilegt, að litlar jarðir séu sameinaðar í eina jörð, ef þær eru svo litlar, að það sé ekki hægt að hafa það stór bú á þeim, að það skapi fjölskyldu lífsviðurværi? Ég held ekki. Ég held, að það sé eðlileg þróun, ef tvær litlar jarðir liggja saman, að þær séu sameinaðar í eina jörð. Og þá er hægt að hafa lífvænlega framleiðslu og lífvænlegan búskap á henni. En með því að gera þetta getur verið, að bændunum fækki eitthvað. En framleiðslan minnkar ekki. Framleiðslan getur einmitt aukizt við það. Einn bóndi, sem býr á tveimur litlum jörðum, hefur jafnvel aðstöðu til að framleiða meira en tveir bændur, sem eru á litlum jörðum og hafa ekki efni á að rækta eða fá sér vélakost.

Ég held, að þróunin í landbúnaðinum verði að miðast við það, hvernig framleiðslan er og hvernig að henni er búið á hverjum tíma, og það er vitanlega ekki æskilegt fyrir fámenn þjóðfélög eins og Íslendinga að binda allt of margt fólk í landbúnaði. Við vitum það, að Bandaríki Norður-Ameríku væru ekki forustuþjóð í heiminum, ef meginhluti þjóðarinnar byggi við landbúnað, eins og var fyrir 100 árum. Í öllum nútímaþjóðfélögum hlýtur að vera verkaskipting, og það, sem þarf að gera, er að stuðla að því, að það sé jafnvægi í þjóðarbúskapnum og það séu hæfilega margir í hverri atvinnugrein. Þannig er unnt að byggja upp þjóðfélag, sem verður frjálst og velmegandi efnalega.

Hv. flm. talaði um það, að verðgrundvöllurinn hefði versnað upp á siðkastið. Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég er á þeirri skoðun, að verðgrundvöllurinn megi verða mun betri en hann nú er. En við getum látið tölurnar tala og sýnt fram á, að verðgrundvöllurinn er hagstæðari nú fyrir bændur en hann var fyrir 3–4 árum. Fyrir 3 árum fékk bóndinn enga vexti af eigin fé í grundvellinum, nú fær bóndinn 5% vexti af eigin fé, sem reiknað er 372 þús. kr., eða 18600 kr. Við getum verið sammála um, að þetta er of lítið, því að bóndinn þarf að binda meira fjármagn en 372 þús. kr. í búinu, jörðinni og húsunum. Það er auðvitað of lítið, að hann fái 5%, en vissulega er það kjarabót, að hann skuli þó hafa fengið 5% í grundvöll 1962, þegar hann fékk ekkert 1958. Það er mikil kjarabót. Það eru ekki nema fá ár síðan farið var að reikna út fyrningu á útihúsum, og er undarlegt, hversu lengi það dróst. En nú er reiknuð 3% fyrning á útihúsum, sem vitanlega er allt of lítið. Við vitum, að útihúsin fyrnast á mun skemmri tíma en 33 árum. Það er þess vegna of lítið að reikna 3%. Þetta þarf að laga. Og það er vitanlega ýmislegt annað, sem þarf að laga. Það er t.d. ekki nokkur meining í því að vera að reikna öllum bændum í landinu tekjur af hlunnindum, að reikna öllum bændum í landinu t.d. tekjur af laxveiði, þar sem engin lax veiðist, reikna öllum bændum tekjur af dún, þar sem engin dúntekja er, reikna öllum bændum í landinu tekjur af selveiði, þar sem engin selur veiðist. En þannig hefur þetta verið framkvæmt undan farin ár, síðan framleiðslulöggjöfin var sett, og ég verð að segja, að þetta er atriði, sem þarf að lagfæra í lögunum, og eitt af því fáa, sem er algerlega raunhæft, því að við höfum hlustað á samþykktir af ýmsum fundum, sérstaklega í fyrrasumar, til breytinga á framleiðsluráðslögunum, og það er vitað, að meginhlutinn af tillögunum, sem samþykktar voru á slíkum fundum, var ekki til bóta, þó að þær hafi verið teknar til greina. En þetta væri tvímælalaust til bóta, að fella niður þennan hlunnindalið, sem er reiknaður til tekna bændum, sem alls ekki njóta hlunnindanna. Ég mundi einnig taka undir það, ef 6 manna nefnd og þeir, sem nú eru að endurskoða framleiðsluráðslögin, teldu eftir atvikum, þegar allt er tekið með í reikninginn, sem hlýtur óhjákvæmilega að koma fram, að það sé nauðsynlegt að koma þessu inn í framleiðsluráðslögin, sem hv. þm., Björn Pálsson, fer fram á, þá gæti það verið út af fyrir sig gott. Og það er rétt, sem hann sagði, að með þessu móti gætu bæði neytendur og framleiðendur notið góðs af aukinni framleiðni í landbúnaði. Þess vegna er eðlilegt, að tekið sé eftir þessu, og þess vegna er það, sem framleiðsluráð og stjórn Stéttarsambands bænda hafa rætt um þessa till. undanfarna mánuði.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í ræðu hv. þm. hvað þetta snertir. Ég veit, að frv. er flutt í góðum tilgangi hjá hv. þm. til þess að bæta framleiðsluráðslögin, og það má segja, að þó að hv. þm. verði það á að fullyrða ef til vill óþarflega mikið, þá er vel hægt að fyrirgefa það, sérstaklega þegar það er gert í ógáti. Og ég get lokið máli mínu, um leið og ég viðurkenni, að það væri æskilegt, að bændur gætu búið við betri kjör en þeir nú búa við. En ég er ekki samþykkur hv. flm. um það, að það sé verra hjá bændastéttinni nú en var, og ég er sannfærður um, að ef engin skemmdarverk verða unnin, þá munu bændur búa við batnandi hag. Það er t.d. alveg augljóst, að ef tíðarfarið verður sæmilegt á þessu ári, þá mundi hagur bænda verða betri á árinu 1963 en 1962, og það er vegna þess, að þeir njóta þeirrar hækkunar, sem hefur orðið á landbúnaðarvörum, allt árið 1963, en ekki nema lítils hluta 1962. Og ef rekstrarvörur bænda þyrftu ekki að hækka, ef t.d. áburður þyrfti ekki að hækka eða fóðurbætir, þá er enginn vafi á því, að það yrði hagstæðari rekstur hjá bændum á árinu 1963 en áður. Ég veit, að bændur hafa gert sér það ljóst og finna það. Ég hef iðulega rætt við bændur og spurt þá um það, hvernig hagurinn sé, og mér er kunnugt um það, hvar skórinn kreppir að. Og ég veit, að þeir segja mér alveg í einlægni, hvað þeim finnst um þessi mál. Og þeir hafa upplýst mig um, að það sé ekki verri aðstaða til búrekstrar nú en verið hefur og það sé batnandi, og það er vitanlega ákaflega mikið atriði. Hitt er svo rétt, sem oft er sagt, að það er erfiðleikum bundið fyrir fátæka menn að byrja búskap. Það hefur alltaf verið erfitt. Unnið hefur verið að því, eins og þið vitið, hv. þm., að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins, en það má segja, að þar sem ekki er nema eitt ár liðið, síðan grundvöllurinn var lagður að því, þá er árangurinn af því vitanlega ekki enn orðinn eins áhrifaríkur og hann mun verða eftir tiltölulega fá ár. Það er rétt, að það vantar t.d. fjármagn í veðdeild landbúnaðarins, sem gæti haft það hlutverk að veita lán til jarðakaupa og búfjárkaupa. Þetta eru verkefni, sem þarf að leysa, þangað til stofnlánadeildin er orðin svo öflug, að hún geti tekið þetta hlutverk að sér. En það getur hún eftir tiltölulega fá ár með þeirri uppbyggingu, sem henni er gefin með stofnlánadeildarlögunum.