05.02.1963
Neðri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

117. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki mikið, sem ég þarf að segja. Þetta er ekki eins mikill misskilningur hjá mér og hv. þm. vildi halda fram. Í sjálfu sér skiptir það ekki svo miklu máli, hvort við erum að ræða um árið 1960, 1961 eða 1962. Það, sem skiptir máli, er, að við förum með réttar tölur, þegar er verið að bera saman hvert ár fyrir sig. Hv. þm. vitnar hér í skýrslu Arnórs Sigurjónssonar og telur, að samkv. henni megi hann fullyrða, að bændur hafi vantað 30% á launatekjur sinar miðað við verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn. Þetta er ekki í þessari skýrslu. Og Arnór Sigurjónsson er þekktur fyrir mjög nákvæma útreikninga og skýrslugerð. Skýrslan segir ekki þetta. Hún segir ekki heldur, að þegar búið er að reikna bændum vexti af eigin fé, 6 þús. kr. árið 1960, þá eigi að draga það frá launatekjunum, ef ekki á að draga 18600 frá launatekjum 1962. Skýrsla Arnórs segir hins vegar, að því meira sem er fært á kostnað hjá bændum og hægt að fá samkomulag við neytendafulltrúana um að færa á kostnaðinn, því betri verður útkoma bóndans, — því meira sem hann fær samkomulag um að reikna vélakostnaðinn, benzínið, vaxtakostnaðinn og útgjöld búsins, því betri og hagstæðari verður útkoma bóndans, og þessir liðir hafa farið hækkandi. Í staðinn fyrir 6 þús. kr. í vexti af eigin fé árið 1960 eru 18600 kr. 1962.

Ég held nú, að mér og hv, flm. frv. beri svo lítið á milli í aðalatriðum, að það sé þess vegna ekki ástæða fyrir okkur að vera að ræða þetta öllu meira. Ég held, að við séum innilega sammála um, að það eigi að búa betur að bændum. En svo hefur hv. þm. talið ástæðu til þess, þó að hann sé svona velviljaður núv. ríkisstj., að gefa áminningu í mátulega háværum róm, og vissulega er hægt að fyrirgefa hv. þm, það, þó að hann telji, að ýmislegt hafi farið betur, áður en núv. ríkisstj. kom til valda, því að enn sem komið er er hann nú ekki a.m.k. yfirlýstur stuðningsmaður ríkisstj., þó að hann vilji henni virkilega vel.