11.02.1963
Neðri deild: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

133. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég legg hér fyrir, er gamall kunningi í þessari d. Það er búið alloft að flytja þetta frv. og reyna að koma því fram í því formi, sem það nú er, svo að ég býst ekki við að þurfa að hafa langt mál til þess að gera hv. þdm. grein fyrir því í stuttu máli. En tilgangur frv. er sá að slá því föstu, að núv. áburðarverksmiðja sé eign ríkisins, eins og hún er samkv. 3. gr. l., og fella niður 13. gr. l., sem stundum hefur valdið nokkrum misskilningi í þessum efnum, þar sem svo er kveðið á, að reksturinn skuli vera framkvæmdur af hlutafétaginu. Ég álít, að það megi ekki lengur við svo búið sitja, að það sé á huldu í augum ýmissa manna í landinu, hver eigi þessa verksmiðju, og það verði að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll, að þetta er eign ríkisins. Ég vil taka það um leið fram, að þetta á ekkert skylt við eignarnám eða neitt þess háttar, það væri algerlega rangt að mínu áliti að fara að taka núv. áburðarverksmiðju eignarnámi, það ætti bara ekki að fara að gefa vissum hluthöfum stórfé. Það, sem þarna er um að ræða, er að slá því föstu, að þetta er eign ríkisins, eins og er samkv. l., og eyða þeim misskilningi, að það séu einhverjir aðrir, sem eiga þetta fyrirtæki, þó að þeir hafi hins vegar tekið að sér með sérstökum lagaákvæðum að reka það.

Ég vil svo enn fremur í þessu sambandi benda á, að nú hafa í 3 ár viðgengizt lögbrot í sambandi við rekstur áburðarverksmiðjunnar, þar sem eru þær fyrningarafskriftir, sem á henni eru. 1961 — reikningar fyrir 1962 eru ekki komnir fram enn þá — er reiknað með fyrningarafskriftum upp á tæpar 20 millj., sem er miklu meira en heimild er til samkv. l. Gróðinn af verksmiðjunni, ef reikningar hafa verið færðir rétt, er 1961 12 millj., var 1960 11 millj. Á þrem árum, 1959, 1960 og 1961, er sá raunverulegi gróði, sem hefði átt að færa, um 30 millj. kr., en það hefur ekki verið fært sem gróði og hvorki verið notað til þess að hækka laun verkamanna við verksmiðjuna né til þess að lækka áburðarverðið, heldur hefur þetta með lögbrotum verið fært sem fyrningarafskriftir. Þetta er annað atriðið, sem rétt er að benda á og rétt er að sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, geri sér ljóst.

Út af þessu hafa orðið nokkrar deilur á undanförnum árum. Það hefur verið af hálfu hæstv. landbrh. tvisvar sinnum á undanförnum þingum flutt frv. um að breyta fyrningarákvæðum l. Þessi frv. hafa ekki verið samþykkt hér á Alþingi, og nú í ár hefur hæstv. ráðh. ekki treyst sér til þess að flytja neitt frv. um þetta efni, en hins vegar hefur þeim lögbrotum verið haldið áfram að setja fyrningarafskriftirnar miklu hærri en þær lögum samkv. eiga að vera.

Þá vil ég í þriðja lagi benda á og væri gott, að sú nefnd, sem þetta fer til, athugaði það mjög alvarlega, að það fer nú í hönd, að Sogsvirkjunarstjórnin segi upp samningnum um rafmagn til áburðarverksmiðjunnar. Sá samningur var gerður á sínum tíma undir þrýstingi Alþjóðabankans. Stjórn Sogsvirkjunarinnar var hótað því, að svo framarlega sem hún ekki samþykkti þann samning við áburðarverksmiðjuna, fengi hún ekki lán 1952 til að leggja út í Írafossvirkjunina, og 4 af Sogsvirkjunarstjórnarmeðlimum létu undan þessu og samþykktu þessa samninga, ég fyrir mitt leyti greiddi atkv. á móti þeim. Samkv. þeim samningum hefur áburðarverksmiðjan nú öll þessi ár fengið með alveg sérstökum kjörum, sem enginn annar í landinu hefur notið, rafmagn frá Sogsvirkjuninni eða að meðaltali a.m.k. síðustu árin á 4 aura kwst. Það á að segja samningnum upp með 5 ára fyrirvara, hann er til 15 ára og rennur út 1968, þannig að í ár kemur honum tvímælalaust til með að verða sagt upp. Það þýðir að mínu áliti og ég býst við fleiri, að það er alveg óhjákvæmilegt, að þarna verði alger breyting á og að það verði aldrei lægra verð en sem svarar 12 aurum kwst. Sementsverksmiðjan kaupir, held ég, á 15–20 aura kwst. núna og önnur iðnfyrirtæki í landinu, og ég býst ekki við, að iðnaðinum almennt í landinu, hvorki ríkisreknum né öðrum, þyki ástæða til þess, að áburðarverksmiðjan sitji ekki nokkurn veginn við sama borð og önnur iðnfyrirtæki. Hins vegar fær hún alltaf sérsamninga í krafti þess, að hún notar ákaflega mikið af ljósarafmagni eða næturrafmagni, en ég gæti trúað, að samt sem áður yrði breytingin sú, að í staðinn fyrir, að 1961 hafa raforkuútgjöld áburðarverksmiðjunnar verið 5.7 millj. eða tæpar 6 millj., ofur litið meira en verkalaunin, þá væri ekki ólíklegt, að það mundi hækka upp í einar 20 millj., og öll aðstaða áburðarverksmiðjunnar mundi þar með breytast.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, áður en að þessum breytingum kemur, sem óhjákvæmilegar eru, að það verði búið að koma þessu á hreint, að það sé ríkið, sem á þetta fyrirtæki, og að þetta fyrirtæki sé rekið með það fyrir augum að geta framleitt áburðinn sem ódýrast handa notendum hans og án þess að vera eitthvert sérstakt gróðafyrirtæki fyrir hluthafa. Ef skilningur þeirra manna, sem vilja skoða áburðarverksmiðjuna sem eign hlutafélagsins, reyndist réttur eða yrði þvingaður í gegn, þá mundi það þýða, að þeim mönnum, þegar maður reiknar út frá, að áburðarverksmiðjan sé nú um 350 millj. kr. virði, að þeim aðilum, sem lögðu fram 4 millj. kr. í hlutafé, yrði reikna$, þegar búið væri að skrifa þessa áburðarverksmiðju niður, að þeir ættu 140 millj. kr. eign í henni, og hafa hvorki þeir, sem lögðu þetta fram á sínum tíma, né Alþingi né nokkrir aðrir gengið út frá, að það væri meiningin með þessu, hins vegar álitið sjálfsagt, að þeim hluthöfum, sem hafa á sínum tíma lagt fram þetta fé til rekstrar, sé fyllilega bætt það upp, þeir fái bæði uppbætt þá verðrýrnun fjár, sem síðan hefur farið fram, og það tap á vöxtum og öðru slíku af sínu fé, sem þeir hafa beðið. En þá álít ég, að þetta þurfi að gerast sem allra, allra fyrst, að það megi ekki biða eftir því, að það sé farið að koma slík hefð á þetta eða ýmsir menn séu farnir að líta þannig á, að áburðarverksmiðjan sé eign hlutafélagsins. Ég álit þess vegna nauðsynlegt, að einmitt á þessu þingi, siðasta þinginu fyrir kosningar, síðasta þingi þessa kjörtímabils, sé gengið úr skugga um þetta endanlega.

Ég hef orðið var við það, að úti um allt land og ekki sízt hjá bændum er mikill áhugi á því, að því sé slegið föstu, að þetta fyrirtæki sé eign ríkisins, en ekki einstaks hlutafélags, og ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að það komi nú fram við atkvgr. við 2. umr. um þetta mál, hvaða afstöðu menn taka í því. Þetta mál hefur verið flutt a.m.k. tíu sinnum á þinginu, og það hefur aldrei fengið að komast til 2. umr. einvörðungu vegna þess, að menn hafa ekki treyst sér til þess að greiða atkv. um það. En lengi vel hefur það verið svo, að raunverulega hefur meiri hl. í fjhn. og ég held meiri hl. í þessari hv. d. verið fylgjandi þessu frv. En ég álit, að við svo búið megi ekki lengur standa, það verði að koma í ljós, hvaða afstöðu menn hafa um þetta, því að þeir, sem eru á móti því, að frv. nái fram að ganga, eru raunverulega þar með að gefa hluthöfunum, einkahluthöfunum í hlutafélaginu, rekstrarhlutafélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f, 2/5 hluta úr áburðarverksmiðjunni. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að sú hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, sem ég legg til að verði fjhn., eins og verið hefur, skili áliti um þetta frv., bezt þætti mér, að hún gæti orðið sammála um það, en alla vega, að þetta frv. fái þá þinglegu meðferð að geta komið til 2. umr. aftur, þannig að hv. d. geti tekið ákvörðun um það.

Við þrjár umr., þegar þessi lög voru upphaflega samþ., samþykkti þessi hv. d., að áburðarverksmiðjan skyldi vera eign ríkisins og rekin af ríkinu. Þá var engin 13. gr. í því, og aldrei, meðan áburðarverksmiðjan var undirbúin, var rætt um annað en þetta væri ríkiseign, og þegar það var lagt fyrir af þáv. hæstv. ríkisstj., 1949 eða hvenær sem það nú var, þá var það lagt fram sem hrein ríkiseign og enginn efi á því. Það var ekki fyrr en við 2. umr. í Ed., að sú breyt. var gerð á frv., sem valdið hefur öllum ruglingnum, 13. gr. var bætt við, og hef ég síðan fengið að heyra, að það mundi hafa verið eins konar málamiðlun til þess að friðþægja eitthvað vissum amerískum fjármálayfirvöldum, sem vildu heldur a.m.k., að reksturinn á þessu væri í hlutafélagsformi, ef þeir ættu að veita þau miklu lán til verksmiðjunnar, sem fyrirhugað var. Það er kunnugt, að samsvarandi þrýstingur eins og kann að hafa farið þarna fram átti sér stað seinna í sambandi við sementsverksmiðjuna, og var reynt af hálfu þeirra erlendu aðila, sem lán skyldu veita, að knýja þáv. ríkisstj. — það var ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. — til þess að gera sementsverksmiðjuna að einkafyrirtæki. Sú ríkissj. stóð algerlega á móti því og lét aldrei undan með það, og sementsverksmiðjan er hreint ríkisfyrirtæki í dag og varð það eftir þeim lögum, sem ríkisstj. þá lagði fyrir. Sama var um áburðarverksmiðjuna, þegar hún var lögð fyrir, það frv. Og þessi breyting, sem gerð var í Ed., þessi málamiðlun, sem þá var fundið upp á af hálfu þáv. stjórnarflokka, var einungis að láta þetta vera sem rekstrarfélag. Og það, sem hefur gefið tilefni til þess, að sumir hafa farið að líta þarna öðruvísi á, það er, að það álpaðist einu sinni út úr landbrh. Framsfl., að hann skoðaði áburðarverksmiðjuna sem eign hlutafélagsins. Ég gerði þá strax, þegar sú ræða var haldin, aths. við þetta og hef síðan flutt þetta frv. til þess að fá tekin af öll tvímæli um eignina á þessu. En ég vil vekja athygli á því, að þarna er um að ræða, hvort 130 millj. kr., sem í dag eru ríkiseign og eiga að vera það, eigi að gefast nokkrum hluthöfum, sem einu sinni lögðu fram 4 millj. kr. í ákveðið hlutafélag, eða ekki. Þetta getur ekki verið lengur svona á huldu. Það er nógu slæmt að vera búnir að láta þetta vera svona í 10 ár, og ég álit, að það verði að binda enda á allar efasemdir um það. Hins vegar hvað snertir þá menn, sem lögðu fram til rekstrar hlutafélagsins þessar 4 millj., — ég geng út frá í þessu frv., að það sé gert vel við þá, ég hef ekkert á móti því, síður en svo, en aðeins ekki hitt, að þeim séu gefnir 2/5 hlutar í þessu ríkisfyrirtæki.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. sé þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.