19.02.1963
Neðri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (2403)

152. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum mátti segja, að það hafi verið tveir staðir hér á landi, sem væru svipað settir í samgöngumálum, þ.e.a.s. Vestfirðir og Vestmannaeyjar. Báðir áttu við alltilfinnanlega einangrun í samgöngumálum að búa. Síðan má segja, að sú breyting hafi orðið, að Vestmanneyingar hafi fengið nokkra bót á sinni samgöngueinangrun. Þeir fengu byggt sérstakt Vestmannaeyjaskip, sem nú heldur uppi ákveðnum og öruggum ferðum milli Vestmannaeyjakaupstaðar og Reykjavíkur. Þetta gerir það að verkum, að þeir Vestmanneyingar og aðrir, sem þurfa að fara milli Vestmannaeyja og meginlandsins, áttu þess áður ekki neina vissu að komast til baka aftur, gátu jafnvel orðið tepptir viku eða hálfan mánuð, þó að þeir vildu treysta á flugið, þar var aðeins ein flugbraut og ekki flugskilyrði góð nema í einni veðurátt. En síðan Vestmannaeyjaskipið kom, eru menn öruggir um það að geta komizt frá Reykjavík til Vestmannaeyja eða frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur, vegna þess að skipið er í bakhöndinni og þeir eiga þess kost að komast á einni nóttu aftur sína leið sinna erinda.

Vestfirðir eru svipað settir. Þeir hafa stopular og strjálar samgöngur á sjó milli Vestfjarða og Reykjavíkur og telja þá aðbúð, sem þeir eiga að þessu leyti við að búa, allsendis ófullnægjandi og hafa um langa hríð krafizt þess, að úr þessu yrði bætt með einhverjum ráðum. Flugsamgöngurnar eru í svipuðu ástandi og við Vestmannaeyjar. Á Ísafirði er flugvöllur, ein flugbraut, ekki flugfært á hann nema í einni veðurátt líkt og í Vestmannaeyjum og þannig lítið á flugið að treysta fyrir þá, sem þurfa að komast áfram sinna ferða og erinda örugglega án tafa. Strandferðaskipin koma að vísu að sjálfsögðu við á Ísafirði í ferðum sínum norður og austur um landið eða á leiðinni til Reykjavíkur úr hringferðunum norður og vestur um landið, en þessar ferðir eru of strjálar fyrir Vestfirði og einangrun kreppir að íbúum og atvinnulífi, svo að þar er vafalaust að finna eina af mörgum ástæðum þess, að fólki fækkar meira á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum og fólkið streymir þaðan, þó að efnahagsaðstaða sé þar nú hin síðari ár a.m.k. fyllilega sambærileg við það, sem er víða annars staðar á landinu.

En öfugt við þá þróun, sem ég áðan lýsti með örfáum orðum að því er snertir Vestmannaeyjar, er það þannig með Vestfirði, að flugsamgöngunum hefur hrakað við það, að sjóflugvélarnar, sem gátu lent á einum 5–6 stöðum á Vestfjörðum, eru nú hættar og flugsamgöngurnar við Vestfirði eru aðallega í höndum Flugfélags Íslands, sem hefur vél, sem einungis getur lent á Ísafjarðarflugvelli. Það er alveg óumdeilanlegt, að flugsamgöngunum við Vestfirði hefur því hrakað frá því, sem áður var. Þar er veitt einhæfari og lakari þjónusta en hægt var, þegar hægt var að hafa áætlunarflug til margra staða þar vestur frá, t.d. Patreksfjarðar, Bíldudals, Dýrafjarðar, Ísafjarðar, Hólmavíkur. En allt stendur við það sama að því er snertir samgöngurnar á sjó.

Félagasamtök á Vestfjörðum hafa gert ítrekaðar áskoranir til Vestfjarðaþm. um að reyna að fá bættar samgöngurnar á sjó, annað tveggja með því að ná samkomulagi við Skipaútgerð ríkisins um að breyta áætlunarferðum þeirra skipa þannig, að að betra gagni kæmi fyrir Vestfjarðabyggðirnar og ferðirnar yrðu öruggari og áreiðanlegri fyrir þessar byggðir, en ef ekki fengist fullnægjandi lausn á þennan hátt, þá með byggingu nýs skips, þ.e.a.s. með sams konar lausn á málinu og Vestmanneyingar fengu nú fyrir nokkrum árum. Eðlilega var því málið rætt fyrst við forstöðumann Skipaútgerðar ríkisins, og hann mun e.t.v. hafa rætt málið við samgmrh., en hann benti á, að sá skipakostur, sem Skipaútgerð ríkisins hefði til umráða, væri ekki heppilegur til þessara ferða. Hekla og Esja væru of stór skip og of dýr til þess að vera bundin við þessar styttri og tíðari ferðir milli Vestfjarða og Reykjavíkur, farþegarúm þeirra óþarflega stórt og jafnvel lestarúm líka og skipin of dýr í rekstri, breytingar á þeim vafalaust mjög dýrar og einnig orðin það gömul skip, að þau eru dýrari í rekstri og viðhaldi en nýtt skip mundi vera. Ég gat því ekki betur heyrt á forstöðumanni Skipaútgerðar ríkisins, þegar ég ásamt öðrum Vestfjarðaþm. átti tal við hann um þessi mál, heldur en hann drægi sízt úr því, að e.t.v. væri heppilegasta lausnin á þessum vandamálum sú, að byggt yrði nýtt skip, sem hefði þetta afmarkaða hlutverk að halda uppi samgöngum, fólks- og vöruflutningum, milli Vestfjarðahafna og Reykjavíkur. Svo mikið er víst, að hann taldi það sízt neina fjarstæðu, að sú lausn yrði fundin á málinu, en vandkvæði margvísleg, sem hann með rökum taldi fram á því að leysa málið til hlítar með þeim skipastóli, sem hann nú hefði. Breiðirnar taldi hann líka óheppilegar til þess að taka upp þetta hlutverk. Þær voru hafðar af þeirri stærð, sem þær eru, á sínum tíma með tilliti til þess, að stærri skip komu ekki að notum á fjöldamörgum höfnum í kringum landið. En ef skip væru byggð nú til þess að inna af hendi þeirra hlutverk, að gegna hinni almennu strandþjónustu við Ísland, þá mundu þar vafalaust vera valin nokkru stærri skip, einkum vöruflutningaskip, því að hafnarskilyrði hafa nú gert það mögulegt, að stærri skip gætu fengið þar þjónustu, og þau þá verið þannig, að þau inntu betur af hendi sitt hlutverk.

Fyrir tveimur árum eða svo hélt Fjórðungssamband Vestfjarða fund í Bjarkalundi og bauð þar til, eins og venjulega, Vestfjarðaþm., og var þar auðvitað rætt um samgönguvandkvæði Vestfirðinga. Og þar var gerð ályktun, að ég hygg einróma, þar sem skorað var á Vestfjarðaþm. að beita sér fyrir umbótum í þessum málum og alveg sérstaklega bent á byggingu sérstaks Vestfjarðaskips sem úrlausn í málinu. Þegar við hugðum að þessu máli fyrir rúmu ári, var okkur sagt frá því, að þar væru ýmsar athuganir í gangi, m.a. hefðu erlendir sérfræðingar verið fengnir til þess að athuga rekstur Skipaútgerðar ríkisins og till. væru nú frammi um það að breyta rekstri Skipaútgerðarinnar í hagkvæmara horf og jafnvel stórbreytingar fyrirhugaðar á hinum stærri skipum útgerðarinnar, Esju og Heklu, eða jafnvel í ráði að selja annað skipið og fá nýtt í staðinn. Nú er liðið meir en ár síðan, og enn eru sagðar fréttir af þessum hagræðingartill. norskra sérfræðinga í sambandi við Skipaútgerð ríkisins, en hvort þær, sem nú eru á döfinni. reynast betur framkvæmanlegar en þær, sem menn höfðu til athugunar fyrir meira en ári, skal ég ekki um segja. En frekar er ég vantrúaður á það, að nokkrar hagræðingartill. erlendra sérfræðinga geti komið að gagni til fullrar og viðunandi lausnar á þessu máli í sambandi við þann skipastól, sem Skipaútgerð ríkisins hefur nú yfir að ráða.

Þess vegna er það, að eftir að við Vestfjarðaþm. höfðum rætt þetta mál, var ég ákveðinn í því að flytja þetta frv., jafnvel þó að ekki fengist samstaða um það við Vestfjarðaþm. Efnislega hygg ég, að ég megi segja, að allir Vestfjarðaþm. séu samþykkir þessu máli. En það, sem á milli ber, er það, að nokkrir af Vestfjarðaþm. hafa trú á því, að e.t.v. kunni það að vera ómaksins vert að rannsaka málið og velta fyrir sér möguleikum á lausn þess með núv. skipastóli, breytingum á honum og framkvæmd þeirra hagræðingartill., sem nú alllengi hafa verið á döfinni í sambandi við þá útgerð. Mér skilst á þeim, að þeir vilji ganga úr skugga um þetta fyrst og þess vegna hafi þeir til lausnar á þessu máli lagt fram þáltill. á þskj. 279, sem fer fram á það að skora á ríkisstj. að láta fara fram ýtarlega athugun á því, hvernig bezt verði bætt úr þörf Vestfjarða fyrir öruggar og reglubundnar samgöngur á sjó, og skuli þessum athugunum þannig hagað, að niðurstöður liggi fyrir fyrir næsta reglulegt Alþingi. Ég hef þegar tekið það fram, að ég hef ekki trú á þessari lausn, og held, að þetta sé óþarfa töf á málinu, ef sú niðurstaða yrði neikvæð, sem mig uggir, þá yrði að taka málið upp eftir ár eða svo til þeirrar lausnar, sem hér er lagt til í frv. því, sem ég er fyrsti flm. að og hv. 4. þm. Reykn. flytur ásamt mér. Flutningi málsins er hagað þannig af þeirri ástæðu, að báðir þm. Framsfl. í Vestfjarðakjördæmi, sem vildu gjarnan eiga aðild að flutningi þessa máls, eiga sæti, eins og kunnugt er, í hv. Ed. og gátu því ekki verið aðilar að flutningi málsins hér í hv. Nd.

Ég skal svo ekki fjölyrða um málið. Í þessu frv. er lagt til, að ríkisstj. Íslands fái heimild til þess að láta smíða nýtt strandferðaskip fyrir reikning ríkissjóðs, og er lagt til, að skipið verði 600–700 rúmlestir að stærð og verði byggt til fólks- og vöruflutninga með það fyrir augum að þjóna þessu hlutverki, fólks- og vöruflutningum milli Reykjavíkur og Vestfjarðahafna.

Líkt og til var hagað með Vestmannaeyjaskipið, þar var ákveðið, að heimahöfn þess skyldi vera Vestmannaeyjar, er hér lagt til í 2. gr. frv., að heimahöfn þessa skips skuli vera Ísafjörður.

Í 3. gr. frv. er ákvæði um það, að ríkisstj. skuli fela Skipaútgerð ríkisins rekstur þessa skips eða hverjum öðrum þeim aðila, sem treysta megi til þess að annast góða flutningaþjónustu á siglingaleið skipsins með sem hagkvæmustum hætti. því er ekki að leyna, að það einasta ágreiningsatriði efnislega, sem ég varð var við í hópi Vestfjarðaþm. um þetta mál í raun og veru, var það, að einn úr hópi okkar Vestfjarðaþm. er andvígur Skipaútgerð ríkisins, hefur áður á Alþingi lagt til, að hún verði lögð niður, og hann sagðist því ekki vilja verða aðili að flutningi frv., sem færi fram á það að bæta einu skipi við hjá Skipaútgerð ríkisins, og það er heil brú vissulega í þeirri afstöðu og ekkert við því að segja. Það er alkunnugt sjónarmið þessa hv. þm., og tek ég það gott og gilt, að hann vegna þess gat ekki verið meðflm.

Að lokum er svo lagt til í þessu frv., að ríkisstj. sé heimilað að taka allt að 20 millj. kr. lán til byggingar þessa skips, og skal ég játa, að það er ekki nein nákvæm áætlunarupphæð, sem hér er um að ræða, en nefnd sú tala, sem mundi undir öllum kringumstæðum gera mögulegt að hefja byggingu þessa skips, ef ríkisstj. hefði þá heimild í höndum, og væri því hægt að hefja framkvæmdir samkv. frv. að fenginni þessari heimild. Vera má, að skipið kynni að kosta eitthvað minna eða eitthvað meira, um það er ekki gott að segja, það fer líka eftir því, hversu fljótt yrði við brugðizt. Ég fullyrði það, að Vestfjarðabyggðunum er hin fyllsta þörf á því, að myndarlegt átak sé gert til bættra samgangna á sjó, því að öryggi í samgöngum við Vestfirði verður ekki fengið með öðrum hætti fremur. Eins og Vestmanneyingar komast nú örugglega, þegar þeir eiga skipið í bakhönd, frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur eða öfugt á einni nóttu, þá er það þannig, að innan eins sólarhrings geta menn komizt milli Vestfjarða og Reykjavíkur eða öfugt, ef þeir eiga örugga skipsferð í bakhöndinni, og vöruflutningar allir ganga með engum hætti örugglegar eða greiðlegar milli Reykjavíkur og Vestfjarðahafna en með skipi, a.m.k. þegar litið er á allt árið. Það má leysa þetta mál með bifreiðum um hásumarið og hefur að nokkru leyti verið gert, en það er ekki fullnægjandi þjónusta fyrir allt árið. Lausnin að því er snertir þennan þátt í vestfirskum samgöngum er því skip, sem hafi það hlutverk og sinni því og helzt ekki öðru.

Það var af mörgum spáð illa fyrir Vestmannaeyjaskipinu, þegar umr. voru um það á Alþingi, þetta mundi verða til þess að auka taprekstur Skipaútgerðar ríkisins, sögðu margir. En hvað segir reynslan? Reynslan segir, að það skip og það eitt af þeim skipum, sem Skipaútgerð ríkisins rekur, mun vera rekið án taps a.m.k., jafnvel með hagnaði. Þannig hefur það gefizt, og er þó aðeins einn kaupstaður, að vísu nokkuð stór, gagnaðilinn að þessum samgönguráðstöfunum. En Vestfjarðabyggðirnar allar með Ísafjarðarkaupstað og hin 7–8 allfjölmennu kauptún í viðbót eru viðskiptaaðilinn að því er snertir fólks- og vöruflutningana milli Reykjavíkur og Vestfjarða. Rekstrargrundvöllur ætti því allur að vera traustari til þess að bera uppi ámóta skip og Vestmannaeyjaskipið er, þegar um væri að ræða skip til að leysa þessi sömu verkefni fyrir Vestfjarðabyggðir.

Ég leyfi mér því fyrir hönd okkar flm. að mæla fastlega með samþykkt þessa frv. og einkanlega með tilliti til þess, að allt of lítið hefur verið gert af hendi Alþingis til þess að bæta úr samgönguþörfum Vestfirðinga og samgöngunauðsyn Vestfirðinga að því er snertir samgöngur á landi. Miðað við það ástand, sem þeir þættir samgöngumálanna eru á, tel ég, að það sé enn þá ríkari ástæða til þess að gera nú enn betur að því er snertir hinn meginþáttinn í samgöngumálum þessa landshluta og byggðarlaga, þ.e.a.s. samgöngurnar á sjónum, og ég vil því vænta þess, að hv. Alþingi taki þessu máli vel og viki ekki frá sér þeirri nauðsyn, sem nú blasir við að leysa þarf og hér hefur með nokkrum orðum verið reynt að gera grein fyrir.

Ég tel einsætt, að frv. verði vísað til hv. samgmn., og legg til, að því verði, þegar umr. lýkur, vísað til þeirrar hv. nefndar.