12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

188. mál, veiting prestakalla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hafði búizt við, að það yrði hér einhver á undan mér, sem mælti fyrir þessu frv. af hálfu hv. n., en það hefur nú ekki orðið. Mér finnst eigi að síður rétt að láta það koma fram nú við 1. umr. þessa máls, að mér finnst þetta frv. vera hér á skökkum stað. Þetta frv. fjallar um það að taka rétt af söfnuðum landsins, rétt, sem þeir hafa lengi haft. Og það hefur verið venja, að þegar tillögur hafa verið gerðar um það að taka rétt af einhverjum aðila, þá hafi honum verið gefinn kostur á því að láta sitt álit í ljós, áður en þingið hefur um það fjallað að taka þennan rétt af honum. Ég veit ekki til þess, að þetta mál hafi enn verið rætt í einum einasta söfnuði landsins. En ég tel það alveg eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð, að áður en slíkt mál eins og þetta er tekið til endanlegrar afgreiðslu hér á Alþ., fái þeir aðilar, sem verið er að taka réttinn af, að segja sitt álit um það, sem eru söfnuðir landsins. Ég hygg, að hin rétta vinnuaðferð í þessu máli hefði verið sú, að þegar t.d. kirkjuráð og kirkjuþing og biskup og kirkjumálaráðh. hefðu verið búnir að ganga frá þessu frv., þá hefði það verið sent til umsagnar þeirra aðila, sem það snertir alveg sérstaklega, sem eru söfnuðirnir, og málið fyrst tekið til meðferðar hér á þinginu, þegar þeirra álit lægi fyrir. Þess vegna álít ég, að það hljóti að vera hin eðlilegu vinnubrögð hér á þinginu, að þegar þetta mál hefur gengið til þeirrar n., sem það fer til, þá hlutist hún til um það, að áður en lengra sé haldið, verði málið sent söfnuðum landsins til umsagnar.

Mér þykir hins vegar rétt að láta það koma fram strax, að ég er því frv., sem hér liggur fyrir, fullkomlega andvigur. Ég hef heyrt það, og það kemur líka fram í grg. frv., að það megi finna ýmsa ágalla á prestskosningum, og mér dettur ekki í hug að neita því. En hvaða kosningar eru það, sem ekki er hægt að finna sams konar ágalla á? Ég held, að þeir ágallar, sem eru taldir fram í sambandi við prestskosningar, komi ekki síður til greina t.d. í sambandi við alþingiskosningar, bæjarstjórnarkosningar og sveitarstjórnarkosningar. Og ef það er rétt að afnema prestskosningar vegna þessara ágalla, vegna þess að það sé kannske ýmis áróður, sem eigi sér stað í sambandi við þær, þá má náttúrlega nota sams konar rök til þess að réttlæta það, að það eigi að afnema sveitarstjórnarkosningar, bæjarstjórnarkosningar og þingkosningar. En ég hygg, að það verði samt niðurstaða manna, að þrátt fyrir þessa ágalla, sem hægt er að finna á hinum ýmsu kosningum, hvort heldur er um prestskosningar eða þingkosningar að ræða, þá sé þó þetta fyrirkomulag, frjálsar kosningar, hið bezta, sem enn hefur verið fundið upp til þess að ráða slíkum málum til lykta. Og ég óttast það, að ef byrjað er á því að skerða kosningarrétt manna á einu sviði, þá geti það orðið upphaf þess, að hann verði einnig skertur að öðru leyti og víðtækari skerðing geti komið í kjölfarið.

Um prestskosningarnar vil ég annars segja það, að ég held, að það megi að öllum líkindum rekja það til þeirra, sem ég tel vera einna bezt fyrir íslenzka þjóðkirkju. Ég tel það íslenzkri þjóðkirkju mest til gildis, að hún er yfirleitt víðsýn og frjálslynd kirkja. Hún er viðsýnni og frjálslyndari kirkja en yfirleitt þekkist í öðrum löndum. Það hafa ekki einstakir trúarhópar, jafnvel sértrúarhópar, náð eins sterkum ítökum innan íslenzku þjóðkirkjunnar og á sér stað í mörgum öðrum þjóðkirkjum, og þetta þakka ég ekki sízt prestskosningunum. Prestskosningarnar hafa verið trygging fyrir því, að það hefur meira víðsýni og meira frjálslyndi fengið að njóta sin innan íslenzkrar þjóðkirkju heldur en yfirleitt annars staðar tíðkast, vegna þess að hinn frjálslyndi kosningarréttur hefur tryggt það, að einstakir trúarhópar og sértrúarflokkar hafa ekki náð eins miklum ítökum og ella. Ég óttast það mjög, ef það fyrirkomulag yrði tekið upp, sem stefnt er að í þessu frv., að það gæti orðið til þess, að einstakir sértrúarhópar og sértrúarmenn næðu tökum á sóknarnefndunum og notuðu svo þá aðstöðu til þess að tryggja það, að prestar væru fyrst og fremst valdir út frá því sjónarmiði, að þeir væru fylgjendur þessa ákveðna sértrúarhóps eða sértrúarmanna, og þess vegna geti fyrir kirkjuna falizt veruleg hætta í því, að þetta fyrirkomulag verði tekið upp, að sú víðsýni og það frjálslyndi, sem hingað til hefur ríkt innan íslenzkrar þjóðkirkju, verði í hættu, ef vikið verður frá prestskosningunum og það fyrirkomulag tekið upp, sem hér er stefnt að. Ég hygg, að söfnuðirnir verði þá ekki eins vel á verði um það að gæta frjálslyndis og víðsýni eins og þeir eru nú, þar sem þeir hafa aðstöðu til þess að velja sér prest hverju sinni. Þess vegna álít ég það frá kirkjulegu sjónarmiði spor aftur á bak að taka upp það fyrirkomulag, sem stefnt er að í þessu frv. Og frá sjónarmiði þjóðfélagsins í heild tel ég það spor aftur á bak, að verið sé að afnema kosningar, því að ef það tekst á einu sviði, getur þess verið skammt að bíða, að það verði gert í öðrum efnum á eftir, því eð eins og ég sagði áðan eru engir þeir ágallar til í sambandi við prestskosningar, sem ekki eru þá í sambandi við aðrar kosningar og ef það er rétt að nota þá sem röksemd til þess að afnema prestskosningar, þá má alveg eins gera það á öðrum sviðum á eftir. Vegna þjóðfélagsins í heild og vegna þjóðkirkjunnar álit ég, að það mál, sem hér liggur fyrir, eigi ekki að ná fram að ganga.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel það vera rétta vinnuaðferð í sambandi við þetta mál, ef það er meiningin að reyna að knýja það fram, að áður en lengra er haldið, hlutist sú þn., sem fær málið til meðferðar, til um það, að það verði sent söfnuðum landsins til umsagnar, því að það er ómótmælanlegt, að söfnuðir landsins hafa enn ekki fengið neitt um þetta mál að fjalla. því hefur verið haldið alveg utan við þá enn sem komið er.