18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég verð að segja, að þessi ræða hæstv. viðskmrh. kom mér dálítið á óvart, því að ég hafði þekkt hann sem greindan og gegnan mann og hélt þess vegna ekki, að hann mundi koma hér upp til að afneita jafnaugljóslega staðreyndum eins og hann gerði, að hann væri allt of reyndur og hygginn maður til þess að gera slíkt. En það er hins vegar þannig með hæstv. ríkisstj. um þessar mundir, að hún virðist telja það mjög nauðsynlegt að afneita ýmsum staðreyndum og jafnvel eins augljósri staðreynd og þeirri, að Efnahagsbandalag Evrópu sé raunverulega lengur til, því að það hefur komið hér fram, bæði hjá hæstv. viðskmrh. og hæstv. dómsmrh., að raunverulega sé það mál alveg úr sögunni, að við þurfum nokkuð að hugsa um afstöðu okkar til Efnahagsbandalags Evrópu í framtiðinni. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi orðað þetta þannig, að málið væri í raun og veru úr sögunni, og hæstv. dómsmrh. væri búinn að segja, að það væri búið að taka þann vanda frá okkur að þurfa að fjalla nokkuð um það, hver afstaða okkar til Efnahagsbandalags Evrópu eigi að vera.

Ég held, að það geri sér allir ljóst, og ég veit, að hæstv. ráðh. gera sér það líka, að þetta er fjarri réttu lagi. Efnahagsbandalag Evrópu er til, og það er ekki aðeins til, það fer vaxandi og það eru fleiri og fleiri lönd, sem leita eftir að ná einhverjum samningum við það, annaðhvort um aðild eða um tolla- og viðskiptamál, og það er óhjákvæmilegt fyrir okkur að taka einhverja afstöðu til þess fyrr eða siðar. Við megum ekki vera að blekkja þjóðina í þeim efnum. En hæstv. ráðh. vinna að því öllum árum nú fyrir þessar kosningar að afneita jafnaugljósum staðreyndum og þeim, að við þurfum fyrr eða seinna að taka afstöðu til Efnahagsbandalags Evrópu, og þar að auki keppast þeir við, eins og hæstv. viðskmrh. nú gerði, að afneita því, sem þeir hafa sjálfir haldið fram um þessi mál áður. Hæstv. viðskmrh. kom hér upp núna og sagðist alls ekki hafa sagt það, sem ég hafði eftir honum úr ræðu hans á fundi Verzlunarráðs Íslands sumarið 1961. En það vill nú svo vel til, að þessi ræða hæstv. ráðh. er birt í Morgunblaðinu og þar standa þessi ummæli hans alveg svart á hvítu, og ég skal nú lesa þau fyrir hann og ég skal lesa allan þann kafla, sem fjallar um þetta atriði, þ.e. atvinnuréttindi útlendinga hér á landi. Þau hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Það skiptir sérstöku máli fyrir Íslendinga, að gert er ráð fyrir því, að öll aðildarríki bandalagsins hafi jafnan rétt til að koma á fót fyrirtækjum á öllu bandalagssvæðinu og að öllu leyti jafna aðstöðu til atvinnurekstrar. Ef til einhvers konar aðildar okkar að þessu bandalagi kæmi, hlytum við að ætlast til þess, að þessi almenna regla gilti ekki um fiskveiðar. Hagnýtingu fiskimiða innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu getum við ekki deilt með öðrum þjóðum, enda hafa fiskstofnar algera sérstöðu samanborið við aðrar náttúruauðlindir.“

Svo kemur það í ummælum hæstv. ráðh., sem máli skiptir í þessu sambandi og snertir fiskiðjuverin og fiskiðnaðinn. Þar segir hæstv. ráðh.:

„Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útiendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma.“

Og svo segir ráðh. enn fremur:

„Enda yrði sú stefna,“ — það er hans skoðun, sem þar kemur fram, — „sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki lengur nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“

Þarna kemur alveg glöggt fram í þessum ummælum hæstv. ráðh., að hann álítur það ekkert varhugavert, þó að breytt sé þeirri stefnu, sem við fylgjum nú, þ.e. að leyfa ekki erlendum skipum að landa fiski hér á landi og leyfa ekki útlendingum að reka fiskiðjuver hér á landi. Hann telur, að þessi stefna, sem við fylgjum nú, sé ekki lengur nauðsynleg, aðeins ef við getum sett þær reglur, að rekstur útlendinga á fiskiðjuverum hér á landi leiði ekki til ofveiði. Það eru einu reglurnar, sem við þurfum að setja. Innan þess ramma er okkur fullkomlega óhætt, að því er hæstv. ráðh. sjálfur heldur fram, að leyfa útlendingum að reka fiskiðjuver hér á landi. Og svo kemur hæstv. ráðh. upp, eftir að þetta liggur skjalfest fyrir frá honum, og segist aldrei hafa haldið því fram, aldrei gefið það neitt til kynna, að hann áliti það rétt, að útlendingar fái að reka fiskiðjuver hér á landi, og hann sé algerlega mótfallinn því, að útlendingar hefðu eiginlega nokkurn atvinnurekstur hér á landi, og það væri vegna þess, að ríkisstj. væri á móti atvinnurekstri útlendinga hér á landi, sem hún vildi ekki, að Ísland væri fullgildur aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu. Og hæstv. ráðh. blés sig út og talaði hér mjög mikið um það, hvað hann og ríkisstj. væru ákaflega mótfallin því, að útlendingar hefðu nokkurn atvinnurekstur hér á landi. En svo gerir hæstv. ráðh. það í sömu andránni, að hann les upp úr sinni eigin skýrslu, sem hann birti hér á Alþingi 12. nóv. 1962, þar sem hann segir m.a.:

„Annars vegar getur atvinnurekstur útlendinga og störf sérmenntaðra erlendra manna hér á landi orðið okkur til mikilla hagsbóta.“

Hæstv. ráðh. les það hér upp eftir sjálfum sér, að atvinnurekstur útlendinga hér á landi geti orðið okkur til mikilla hagsbóta, og svo segir hann rétt á eftir, að hann sé alveg eindregið á móti því að leyfa útiendingum atvinnurekstur hér á landi og ríkisstj. sé alveg á móti því að leyfa nokkurn atvinnurekstur útlendinga hér á landi, þó að það standi í hennar eigin skýrslu, að þetta geti orðið okkur til mikilla hagsbóta. Hvaða mark á að taka á slíkum málflutningi eins og þessum, og hvers vegna getur það átt sér stað, að jafnhygginn maður og hæstv. viðskmrh. og jafngreindur maður og hæstv. viðskmrh. er skuli leyfa sér annan eins endemis málflutning og þetta? Af hverju stafar það, að hann heldur uppi slíkum málflutningi eins og þessum? Það er vegna þess, að aðstaða hæstv. ríkisstj. í þessu máli er orðin slík, að hún treystir sér ekki lengur til að verja það, sem hún hafði áður haldið fram og hún raunverulega vill. Hún þarf að gera allt, sem hún getur, til þess að neita sinni raunverulegu stefnu fyrir kosningar, og þess vegna koma hæstv. ráðh. hér upp og afneita sínum eigin ummælum og eigin skýrstum, eins og hæstv. viðskmrh. hefur nú gert. Og hæstv. viðskmrh. gekk miklu lengra en þetta í þessum svardögum, að afneita því, sem áður hafði verið stefna og vilji ríkisstj. Hann sagði t.d. annað eins og það, að það hefði aldrei verið vilji stjórnarinnar, að Ísland yrði fullgildur aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, henni hefði aldrei dottið jafnvoðalegur hlutur í hug eins og það að ætlast til þess, að Ísland yrði fullgildur aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, ekki dottið í hug að ræða um slíkt mál, hugsa um slíkt mál einu sinni.

En hvað segir nú reynslan í þessum efnum? Hver er fortíð hæstv. ríkisstj. í þessum efnum? Hún er engin önnur en sú, að sumarið 1961 kallaði ríkisstj. hér saman fulltrúa frá ýmsum fyrirtækjum, sem hafa með utanríkisverzlun og atvinnurekstur að gera, og þetta var, held ég, seint í júlímánuði, og krafðist þess, að þessi fyrirtæki væru búin að svara því fyrir miðjan ágúst, hvort þau álitu rétt, að Ísland ætti að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu eða ekki. Og það var ekki látið þar við sitja af hæstv. ríkisstj., að fyrirtækin ættu að svara þessu, heldur var það skýrt tekið fram af hæstv. viðskmrh. og efnahagsráðunaut ríkisstj., sem mætti á þessum fundum, að það væri ógerningur að ná nokkru sambandi við Efnahagsbandalagið, nema það yrði send inn umsókn um fulla aðild, og það voru jafnframt birtir alls konar útreikningar og upplýsingar um það, hvílík stórkostleg hætta það yrði fyrir okkur, ef við kæmumst ekki inn í sameiginlega markaðinn, eins og Efnahagsbandalagið þá var kallað. Og það gerðist meira en þetta sumarið 1961. Það birtist varla svo forustugrein í Morgunblaðinu um langan tíma, að það væri ekki talað um nauðsyn þess, að Ísland kæmi sem allra fyrst sem fullgildur aðili inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Ríkisstj. vann þess vegna að því öllum árum á þessum tíma, að Ísland yrði fullgildur aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það var hennar stefna, og hún fór ekki dult með það, ekki einu sinni í blöðum sínum og þá enn þá síður á lokuðum fundum, því að vitanlega dettur engum í hug að fara að senda inn umsókn um eitthvað nema það, sem hann ætlar sér að standa við. Hver fer að sækja um umsókn í félag öðruvísi en að ætla sér að ganga í félagið og þar fram eftir götunum? Enda var það vitanlegt, að þegar ríkisstj. vildi sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, þá fylgdi þar fullkomlega hugur máli, það var hennar stefna. En hvað var það, sem orsakaði svo það, að ríkisstj. féll frá þessu? Var það vegna þess, að hún fengi eftir á einhverja eftirþanka í sambandi við það, að það kynnu að vera einhver ákvæði í efnahagsbandalagssamningnum, sem væru óhagstæð fyrir Íslendinga, eins og atvinnuréttindi og annað þess háttar? Nei, það var ekki neitt slíkt, sem breytti afstöðu hæstv. ríkisstj. Það var allt annað, sem varð þess valdandi, að hún féll frá því að senda inn umsókn um fulla aðild Íslands, og það kom fram í þeirri ræðu, sem hæstv. viðskmrh. hélt hér á Alþingi fyrir nokkru, eða þegar seinast var rætt um skýrslu ríkisstj. varðandi Efnahagsbandalag Evrópu. Það, sem gerðist, var það, að tveir af hæstv. ráðh. fóru til Þýzkalands og ræddu við fulltrúa ríkisstj. í Bonn í sept. 1961. Og þar fengu þeir upplýsingar, að það mundi verða þýðingarlaust fyrir Ísland að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, sennilega m.a. vegna þess, sem hefur hvað eftir annað komið fram í ræðum Adenauers kanslara, að ef Ísland fengi fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, þá mundi það fá atkvæðisrétt í stofnunum bandalagsins, og hinir stóru úti í Evrópu kærðu sig ekkert um þetta atkvæði Íslands þar. En hvort sem það var þessi ástæða eða einhver önnur, þá voru svörin, sem íslenzku ráðh. fengu í Bonn í september 1961, þannig löguð, að það mundi vera þýðingarlaust fyrir Ísland að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, og það var þá fyrst, sem ríkisstj. tók upp þá stefnu, sem hæstv. viðskmrh. segir hana núna hafa, að Ísland eigi ekki að gerast aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það voru erlendir aðilar, sem komu í veg fyrir

það, að Ísland sækti um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, eins og hæstv. ríkisstj. vildi, en ekki vegna þess, að hæstv. ríkisstj. væri neitt hrædd við ákvæði efnahagsbandalagssamningsins eða hún væri eitthvað mótfallin atvinnuréttindum útlendinga hér á landi, enda stendur það í skýrslu hennar sjálfrar, eins og hæstv. viðskmrh. las upp áðan, að það gæti verið til stórra hagsbóta fyrir Íslendinga að leyfa útlendingum meiri og minni atvinnurekstur hér á landi.

Hjá hæstv. viðskmrh. hefur það komið eins skýrt fram og verða má, eins og ég hef nú lesið upp úr hans ræðu, að hann telur alls ekki neitt athugavert við það, að útlendingum sé leyft að reka fiskiðjuver hér á landi eða erlendum skipum séu leyfðar hér fisklandanir. Hann telur, að bara ef við setjum ákvæði, sem koma í veg fyrir, að þetta leiði til ofveiði, þá sé ekkert við að athuga, þó að slík réttindi séu leyfð. En ég vil í fullu bróðerni segja það við hæstv. viðskmrh., því að við erum gamlir kunningjar, að ég vænti þess, að hann leggi þann vana niður að flytja slíkar ræður eins og hann flutti hér áðan, því að hann bætir ekki fyrir sér með því að ætla að afneita þannig skýlausum staðreyndum um það, sem hann hefur áður sagt. Ég vænti þess vegna fastlega, að hæstv. viðskmrh. meti það við mig, að ég ráðlegg honum þetta, taki þetta sem vinarráð, enda er það líka áreiðanlega langbezt fyrir hann sjálfan, að hann hætti aftur þessum afneitunum og svardögum, sem hann hafði hér áður í frammi, því að það er honum algerlega tilgangslaust, og það er ekki með nokkru móti hægt að leyna því eða afneita því, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að vinna að því, að Ísland yrði fullur aðili að Efnahagsbandalaginu, að hún hafði ekki neitt við það að athuga, þó að útlendingar fengju meiri og minni atvinnurekstrarleyfi hér á landi, og það voru erlendir aðilar, sem á sínum tíma komu í veg fyrir það, að lögð væri inn umsókn um fulla aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu.

Það liggur skjalfest fyrir, að hæstv. viðskmrh. hafði ekki neitt við það að athuga, heldur telur það eðlilegt og sjálfsagt, að útlendingar fái að reka fiskiðjufyrirtæki hér á landi. Og það var ekki eingöngu hæstv. viðskmrh., sem taldi þetta eðlilegt og sjálfsagt, heldur taldi aðalmálgagn Sjálfstfl. þennan boðskap hans svo mikils virði, að það birti alla þá ræðu, þegar hæstv. viðskmrh. birti þennan boðskap sinn, án þess að gera við hann nokkra aths., heldur til að árétta það, að sú stefna, sem kæmi þarna fram í ræðu viðskmrh., væri líka stefna hins stjórnarflokksins.

Að síðustu vil ég svo segja það, að ef það er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að hugur hans sé nú orðinn svo breyttur eins og hann vilji vera láta og hann afneiti öllu því, sem hann hefur áður sagt um það, að það ætti að veita útlendingum atvinnurekstrarréttindi hér á landi, þá vænti ég, að það verði þó a.m.k. til þess að þetta frv., sem ég hef lagt hér fyrir, fái skjóta afgreiðslu og góða í þinginu, því að það er alveg inni á þessari stefnu, sem hæstv. ráðh. segist nú hafa og ríkisstj. telur sig nú hafa, að það eigi ekki að veita útlendingum atvinnuréttindi hér á landi nema með sérstökum hömlum og alls ekki í jafnþýðingarmikilli atvinnu fyrir Íslendinga og fiskiðjan er.