02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um rétt útlendra til þess að reka hér fiskiðjuver. Og hv. flm. málsins hefur gert grein fyrir því, að ýmsar ástæður valda því, að hann flytur nú frv.

Við athugun kemur í ljós, að ákvæði íslenzkrar löggjafar um, hverjir megi setja hér upp fiskvinnslustöðvar og reka þær, eru ófullkomin. Og frv. stefnir að því að taka af tvímæli í þessu efni, að útiendingar geti ekki sett upp fiskiðjuver með því einu að búsetja sig í landinu.

Hv. flm. frv. hefur gert grein fyrir því, og ég vil taka undir það með honum, að full ástæða er til að endurskoða öll þau ákvæði, sem snerta rétt útlendinga í þessu efni, í tilefni af ýmsu því, sem fram hefur komið frá hæstv. ríkisstj. og úr stjórnarherbúðunum undanfarið varðandi þessi mál, einkum þó í sambandi við bollaleggingar stjórnarfiokkanna um einhvers konar þátttöku eða aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Það dylst engum, að í stjórnarherbúðunum og stjórnarráðinu hjá ríkisstj. löðrar allt í ráðagerðum um að breyta alveg stefnunni í sjávarútvegsmálum Íslendinga á þá lund að hleypa útlendingum inn í fiskiðnaðinn og leyfa þeim hér fisklandanir. Þessar ráðagerðir fara alls ekki dult, því að það er um þær ritað hispurslaust í blöðum stjórnarflokkanna, og þetta kemur líka fram hjá hæstv. ráðh. sjálfum í blaðagreinum og með ýmsu öðru móti.

Í þessu sambandi hefur verið vitnað til yfirlýsingar, sem hæstv. viðskmrh. gaf á fundi hjá Verzlunarráðinu, ætla ég, að það hafi verið, þar sem hann kemst þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta, þegar hann talar um afstöðuna til Efnahagsbandalagsins:

„Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki lengur nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“

Eins og hefur verið upplýst, er ekkert hér úr sambandi slitið. Þessi yfirlýsing stendur ein út af fyrir sig, og þarna er gert ráð fyrir því, að það þurfi aðeins einhverjar reglur til að fyrirbyggja ofveiði, en að öðru leyti sé það augljóst, að endurskoða þurfi þá stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarið, en hún er sú að leyfa útlendingum alls ekki fisklandanir Í reyndinni hefur það orðið þannig, að útlendingar hafa ekki heldur sett hér á fót fiskiðjuver. Þótt lagaákvæðin um það séu óljós eða loðin, hafa þeir þó ekki sett hér á fót fiskiðjuver.

Þetta hefur að vísu ekki alltaf verið orðað á þá lund af hendi hæstv. ráðh., sem hæstv. viðskmrh. orðaði það í þetta sinn, sem ég var að lýsa. Stundum hefur þetta verið orðað þannig, að á hinn bóginn kæmi til greina breyting á þeim reglum, sem nú hafa verið í gildi um alllangt skeið varðandi landanir og stofnsetningu atvinnufyrirtækja, þar sem þær séu nú að ýmsu leyti orðnar úreltar. Þannig hefur þetta stundum verið orðað af hendi hæstv. ríkisstj., en jafnframt hefur af og til verið látið fylgja með, svo að allt sé til tínt, að þessi réttur ætti ekki að vera ótakmarkaður, það ætti að setja einhver takmörk. Stundum hefur þó aðeins verið rætt um, að það þyrfti að vernda gegn ofveiði, en stundum að einhver takmörk yrði að setja fyrir fisklöndunum útiendinga og réttindum þeirra til að reka hér fiskiðjuver.

Það er því alls ekki hægt að deila um, að hæstv. ríkisstj. hefur haft uppi margvíslegar bollaleggingar um að breyta stefnunni í sjávarútvegsmálum og hleypa útlendingum inn í fiskiðnaðinn og fisklandanirnar.

Það eina, sem er óljóst, er það, hversu langt ríkisstj. hefur viljað ganga í þessu. En hún heldur þessu öllu opnu og hefur marglýst því yfir sem sinni stefnu, að þetta þurfi að endurskoða og sé ekkert því til fyrirstöðu að ætla útlendingum slíkan rétt innan vissra takmarkana. Það kemur því meir en einkennilega fyrir, þegar hæstv. viðskmrh. vill nú drepa þessu á dreif og tæpast kannast við, að þessar bollaleggingar hafi verið uppi hafðar, þar sem þær hafa þó verið svo augljósar fyrir allra augum.

Hér er ekki um neitt smámál að ræða, því að mín skoðun er sú, að Íslendingar hafi einmitt getað búið jafnvel í landi sínu undanfarið og raun hefur á orðið vegna þess, að þeir hafa einir getað notfært sér fiskveiðarnar í fiskveiðilandhelginni og hafa einir haft réttindi til þess að landa fiski á Íslandi og í framkvæmdinni setið alveg einir að því að reka hér fiskiðnað.

Það eru ekki aðeins fiskveiðarnar sjálfar, heldur líka rétturinn til að landa fiski og rétturinn til að reka hér fískiðnað, reka hann hér íhlutunarlaust af útlendingum, sem er og hefur verið undirstaðan undir velmegun þjóðarinnar í landinu, og þannig vænti ég, að þetta verði áfram. Ég tel það lífsnauðsyn fyrir Íslendinga að halda þessum rétti áfram fyrir sig og láta þetta ekki öðrum í té, einkum þegar þess er gætt, að ef útlendingar ná hér yfirráðum í fiskiðnaði og hafa rétt til fisklandana hér, þá eru þeir þar með komnir inn í sjáifa fiskiveiðilandhelgina með veiðarnar, því að það er augljóst mál, að fiskiðjuver, sem útlendingarnir ráða yfir, gætu eignazt skip og báta og gert út í landhelginni. Þar með væri búið að opna landhelgina sjálfa.

Ég hef ævinlega verið talsmaður þess að breyta ekki um stefnu í sjávarútvegsmálunum að þessu leyti og hef talið og tel, að við eigum að halda fast við stefnu fiskveiðilaganna, en ekki breyta til. En hæstv. ríkisstj. er óðfluga og hefur óðfluga nú um nokkur missiri verið að bollaleggja að breyta frá þeirri stefnu, sem mótuð er í fiskveiðilöggjöfinni. Um það er alls ekki hægt að deila, og það er ósæmilegt, ef hæstv. viðskmrh. er að bera brigður á slíkt. Það er ósæmilegt. Hitt er annað mál, að það liggur ekki fyrir, hversu langt hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að ganga. En hún heldur öllu opnu, jafnvei allt upp í það, að ofveiðin ein ætti að setja takmörkin. En stundum er eins og ég sagði áðan, aðrir fyrirvarar nokku öðruvísi orðaðir. En stefnunni hefur hæstv. ríkisstj. sífellt verið að ráðgera að breyta.

Í sambandi við þær umr., sem hér hafa orðið á hv. Alþingi varðandi Efnahagsbandalagið og málefni Íslands, hefur hæstv. viðskmrh. fyrir hönd ríkisstj. einnig verið að bollaleggja þessa stefnubreytingu í sjávarútvegsmálum, þar sem hann og ríkisstj. hefur viljað halda alveg opinni aukaaðild og fært henni margt til gildis, en tekið jafnframt fram, að aukaaðild muni þurfa að fylgja samningar um atvinnurekstrarréttindi útlendra bandalagsþjóða á Íslandi og þá vitaskuld ekki sízt um réttindi til að landa hér fiski og til að reka hér fiskiðnað. Hæstv. ráðh. hefur beinlínis orðað þetta þannig, að aukaaðildarleiðinni hlytu að fylgja samningar um viðkvæm mál, og viðkvæmu málin, sem hann á við, — allir vita, hver þau eru. Það fer ekki dult, það eru einmitt þessi atvinnurekstrarmál og þá ekki sízt rétturinn til fisklandana fyrir útlenda og til að hafa hér með höndum fiskiðnað.

Hæstv. viðskmrh. hefur líka stundum gert mjög litið úr þeirri hættu, sem af því stafaði fyrir Íslendinga, þótt inn á þessa braut yrði farið. Er ötlum hv.. þm. það kunnugt, að hann hefur viljað gera mjög lítið úr þeirri hættu. En aftur á móti við, sem viljum fara tolla- og viðskiptasamningsleiðina í efnahagsbandalagsmálinu, álítum stórhættulegt að veita útlendingum slíkan rétt. Og það er ekki sízt það, sem veldur því, að við höfum svo eindregið viljað beita okkur fyrir því, að einmitt tolla- og viðskiptasamningsleiðin yrði farin, einmitt til að ljá ekki máls á þessum atvinnurekstrarréttindum.

Í sambandi við tollaleiðina og viðskiptasamningsleiðina segir hæstv. ríkisstj. einmitt í sinni skýrslu, að atvinnurekstrarréttindi útlendinga komi að sjálfsögðu ekki til greina í sambandi við þá leið, en aftur á móti einmitt mjög í sambandi við aukaaðildarleiðina, sem ríkisstjórnin hefur alveg tvímælalaust miklu fremur viljað snúa sér að.

Það er enginn sleggjudómur, þó að þetta sé tekið fram, enda verður augljóst m.a. af því, að hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar hafa deilt mjög á Framsfl. fyrir að taka tolla- og viðskiptasamningsleiðina fram yfir hina. Og það er augljóst, hvað stjórnin vill og stjórnarflokkarnir vilja, það er einmitt aðildarleiðin, og í því sambandi hafa verið þessar sífelldu bollaleggingar um stefnubreytingu í sjávarútvegsmálunum, að gerbreyta þeirri stefnu, sem fiskveiðilöggjöf Íslands er byggð á og bezt hefur reynzt íslenzku þjóðinni.

Ég tók það fram áðan, að það væri ýmislegt óljóst um lagaákvæði hér varðandi fiskiðnaðinn, og það þarf að athuga gaumgæfilega, hvort þetta frv. nær nógu langt til að gera það allt ljóst, t.d. um réttindi félaga í því sambandi. Það þarf að athuga þetta gaumgæfilega í nefnd, og ég vil í því sambandi alveg sérstaklega benda á þáltill., sem framsóknarmenn hafa flutt, þar sem gert er ráð fyrir, að allsherjar endurskoðun fari fram á öllum lagaákvæðum varðandi rétt útiendinga til að eiga hér fasteignir og reka hér atvinnu. Það er einmitt slík allsherjar endurskoðun, sem þarf að fara hér fram í tilefni af öllum þessum bollaleggingum um að hleypa útlendingum meira en verið hefur inn í íslenzkan atvinnurekstur. En fram að þessu hafa menn ekki fundið svo sárt nauðsyn þess að endurskoða þessi ákvæði sakir þess, hve útlendingar hafa litið sótt hér inn í rekstur. En með tilkomu Efnahagsbandalagsins gerbreytist allt þetta viðhorf og einnig í sambandi við það, hversu kaupgjald á Íslandi er orðið lágt samanborið við kaupgjald í öðrum nálægum löndum, og hefur það snúizt mjög við á síðustu missirum.

Það breytir einnig mjög viðhorfinu í þessu og það dylst heldur engum, að útlendir hringar eru með alls konar bollaleggingar um að komast inn í íslenzka fiskiðnaðinn, eins og málum er nú komið, og reyna vafalaust með ýmsu óbeinu móti á næstunni, ef ekki verða sterkari skorður við reistar en enn þá er um að ræða í okkar löggjöf. Ég tala nú ekki um, hver niðurstaðan yrði, ef hér yrðu veitt almenn réttindi í þessum efnum í sambandi við aukaaðild að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Í sambandi við þetta mál, við umr. hér á hv. Alþingi, sveigðist talið nokkuð að ýmsu því, sem gerzt hefur í sambandi við málefni Efnahagsbandalags Evrópu, og er það ekkert einkennilegt. Hæstv. viðskmrh. fór að ræða nokkuð um afstöðu framsóknarmanna í því máli einmitt í sambandi við þetta mál og að sumu leyti gaf það mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs.

Ég gat ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en svo, að það væri óeðlilegt af hendi framsóknarmanna að finna nokkuð að meðferð þessara mála á vegum hæstv. ríkisstj., t.d. sumarið 1961, og hæstv. ráðh. vildi jafnvel gefa í skyn, að þá hefðu ekki þær hugmyndir um þessi mál verið fæddar hjá framsóknarmönnum, sem síðar hefðu mótazt, sem sé: hann vildi gefa í skyn, að um eitthvert ósamræmi væri að ræða og að nokkrar aths., sem hv. flm. þessa máls, 7. þm. Reykv., lét falla, væru óeðlilegar eða ófyrirsynju gerðar. En þær lutu fyrst og fremst að því, sem gerðist sumarið 1961 og þá um haustið. Þetta gefur mér tilefni til þess að segja aðeins fáein orð um þau efni, og vil ég nota þetta tækifæri einmitt til að koma inn á örfá atriði, sem ekki hefur orðið svigrúm til að ræða í sambandi við skýrslu ríkisstj. um Efnahagsbandalag Evrópu. En hún hefur raunar hlotið þá fáheyrðu meðferð hér í þinginu, að hún hefur verið látin liggja mánuðum saman og ekki fengizt rædd nema örlítið.

Það, sem ég vildi minnast á nú, var þetta: Þegar Alþingi lauk störfum vorið 1961, var afstaða Íslands til Efnahagsbandalagsins sáralitið eða raunar ekki komin á dagskrá, og það var fyrir það, að þá virtist mönnum horfa þannig, að EFTA, þ.e.a.s. sjö landa sambandið, mundi halda áfram fullum fetum út af fyrir sig og Efnahagsbandalagið mundi verða út af fyrir sig. Og þá var ekki talið aðkallandi fyrir Íslendinga að skoða nánar viðhorfið til Efnahagsbandalagsins. Þannig munu margir hafa hugsað um vorið. En um sumarið snemma gerist það, að Bretland sækir um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þá var þingið farið heim, og hæstv. ríkisstj. sá enga ástæðu til þess að hafa neitt samband við Framsfl. út af því vandamáli. Á hinn bóginn fréttu menn utan að sér, að hæstv. ríkisstj. væri farin að safna saman fulltrúum frá ýmsum samböndum eða félagssamtökum í landinu til þess að gefa þeim upplýsingar eða ræða við þá um Efnahagsbandalag Evrópu. En stjórnmálaflokkunum var ekki gefinn neinn kostur á að eiga hlut að þessu eða fylgjast neitt með. Ég var þetta sumar, eins og oftar upp á síðkastið, í síldarverksmiðjustjórn ríkisins og nokkuð mikið á Norðurlandi. Einn góðan veðurdag í ágúst, það mun hafa verið 18. ágúst, var ég norður á Siglufirði, og sé þá, að það stendur í Morgunblaðinu með talsvert stórri fyrirsögn „Inntökubeiðni í Efnahagsbandalagið“. Þar er þá frétt í blaðinu um, að sú spurning hafi verið borin upp fyrir fulltrúum ýmissa félagasamtaka á vegum einhverrar nefndar, sem ríkisstj. hefði starfandi, hvort fulltrúar samtakanna teldu, að Íslendingar ættu að leggja fram þá þegar beiðni um inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu. Það stendur þannig í fréttinni, með leyfi hæstv. forseta, að hálfum mánuði fyrir þennan „merka“ fund hafi embættismannanefndin, sem fylgzt hafi með þróun markaðsbandalagsmálanna, lagt fyrir, — stendur einmitt: „lagt fyrir“ fulltrúa atvinnuveganna að gefa svör varðandi afstöðu samtaka sinna á þessum fundi. Sem sagt, það var lagt fyrir fulltrúa þessara samtaka, að því er Morgunblaðið segir, að gefa svör við þeirri spurningu fyrir 18. ágúst í hittiðfyrra, hvort samtökin vildu að gengið yrði í Efnahagsbandalag Evrópu eða ekki. Og síðan segir blaðið, að það hafi komið fram stuðningur af hendi fulltrúanna yfirleitt við það, að inngöngubeiðni yrði send, en alveg afsvar frá einum samtökum, Alþýðusambandi Íslands, en nokkrir fulltrúanna hafi gert eðlilega fyrirvara um stuðning sinn, stendur, og þótti nú sannast að segja engum merkilegt!

Það er auðséð, að blaðinu finnast þetta vera mikil fagnaðartíðindi, hversu þessu sé vel tekið hjá fulltrúum svona margra félagssamtaka á Íslandi í ágústmánuði 1961 um beiðni um inntöku í Efnahagsbandalag Evrópu. Það er enginn vafi á því, hvar hjarta blaðsins slær í þessu. Það telur þetta mikil fagnaðartíðindi, en á hinn bóginn höfðu þó verið á þessu ýmsir fyrirvarar.

Ég segi það hreint eins og er, að mér hefur sjaldan orðið meira bilt við á ævi minni en þegar ég sá þessa frétt í Morgunblaðinu. Þetta kom hreinlega eins og þruma úr heiðskíru lofti og gersamlega á óvart, að efnahagsbandalagsmálið, sem stjórnmálaflokkar, sem utan við stjórnina stóðu, höfðu bókstaflega engar upplýsingar fengið um, væri komið á það stig, að ríkisstj. væri farin að leggja þá spurningu fyrir fulltrúa félagssamtaka í landinu, hvort þau vildu láta sækja um inngöngu í Efnahagsbandalagið eða ekki, slík spurning væri borin fram og „lagt fyrir“ fulltrúa atvinnuveganna að gefa svör varðandi afstöðu samtaka sinna 18. ágúst.

Út af þessu fór ég samstundis til Reykjavíkur og beitti mér fyrir fundi í framkvæmdastjórn Framsfl. Og í leiðinni kynnti ég mér hjá einum samtökum af þessum, sem ég átti aðgang að, þ. e. a. s. hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, hvað hefði skeð. Var mér þá sagt það tíðinda, að því hefði verið haldið blákalt fram í þessum samtölum, að engar upplýsingar fengjust um Efnahagsbandalag Evrópu, nema umsókn um aðild yrði send, og síðan hefði verið hamrað á því, að umsóknin gæti verið alveg óbindandi og bara til að hægt væri að fá upplýsingar. Síðan var mér sagt, að framkvæmdastjóri sjávarafurðadeildar Sambandsins hefði fylgzt með á þessum fundum, sem haldnir voru á vegum ríkisstj. og samtaka atvinnurekendanna, og hann hefði skýrt frá því, að hann hefði tjáð sig samþykkan því, að slík umsókn yrði send, með þeim fyrirvara, að hún væri óbindandi og aðeins til þess að fá upplýsingar. Þessi afstaða hans, var mér sagt í SÍS, mótaðist af því, að ekki væri talið hægt að fá að kynnast Efnahagsbandalagi Evrópu öðruvísi en með því að senda umsókn.

Það er óþarfi að taka það fram, það sést á þessu, að þetta hafði ekki verið á nokkurn hátt borið undir stjórn SÍS, því að ég á sæti í henni, en sá eða heyrði ekkert um þetta fyrr en í þessu Morgunblaði norður á Siglufirði 18. ágúst 1961. Þannig var nú haldið á þessu máli þá af hendi hæstv. ríkisstj. og þeirra, sem hún hafði í mátinu fyrir sig.

Ég skal svo taka það fram, að við héldum, eins og ég sagði, fund í framkvæmdastjórn Framsfl. og ákváðum undireins að kjósa menn til að snúa sér til hæstv, ríkisstj., til að krefjast upplýsinga um Efnahagsbandalag Evrópu og hvað ríkisstj. væri raunverulega að fara, en fyrst og fremst auðvitað til að reyna að stöðva það, sem mönnum sýndist þarna standa til að gera, — hreinlega til þess að stöðva það, ef hægt væri. Við snerum okkur síðan til ríkisstj., ég og Hermann Jónasson, sem til þess vorum kjörnir, og óskuðum eftir því að hafa aðstöðu til þess að fylgjast með málinu, og var það samþ., eins og skýrt var frá í blöðunum.

Okkur var sagt, að það hefði verið búið að taka ákvörðun um það í stjórninni um sömu mundir að hafa samband við okkur til þess að gefa okkur kost á að fylgjast með. Síðan höfum við fylgzt með því, sem stjórnin hefur viljað láta okkur fylgjast með, og höfum fengið upplýsingar um það, sem fram hefur farið í málinu, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið taka saman jafnóðum. Þetta hefur verið upplýst áður og er út af fyrir sig ekki nein ný tíðindi. Við fórum þá fram á það að fá Rómarsáttmálann, sem er grundvöllur Efnahagsbandalagsins, á íslenzku, en þá kom í ljós, að Rómarsáttmálinn var ekki til á íslenzku og ekki heldur útdráttur úr honum, og hvorugt fengum við fyrr en nokkru síðar. Það liggur því fyrir hreint og klárt, að þegar ríkisstj. flutti málið á þá lund fyrir samtökunum, sem ég var að lýsa, og var að reyna að þrýsta þeim til eða fá þau til að játa því, að send yrði inn umsókn í EBE, um þær mundir var ekki einu sinni til útdráttur úr Rómarsáttmálanum á íslenzku, hvað þá meira.

Við fulltrúar Framsfl. héldum því strax fram við hæstv. ríkisstj., að það kæmi auðvitað ekki til mála að senda inn inntökubeiðni af neinu tagi eða neinar óskir um samninga, það ætti að biða átekta, kynna sér Rómarsáttmálann og önnur efnisatriði málsins og leggja vinnu í að skoða aðstöðu Íslands. Og okkar afstaða hefur verið sú alla tíð, að það hefði ekki átt að fara að flytja þetta mát fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi, fyrr en Íslendingar, réttir aðilar á Íslandi, væru búnir að gera það upp við sig, að hverju ætti að stefna. Þetta hefur alltaf verið okkar afstaða. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað fara eftir þessu, sent ýmist ráðh. eða aðra menn, að því er látið hefur verið í veðri vaka, til að kynna málstað Íslands, sem gat þó ekki orðið til að kynna málstað Íslands, því að málstaður Íslands í þessu efni hefur aldrei verið mótaður. Þess vegna hefur í þessum samtölum allt löðrað af alls konar ráðagerðum hæstv. ríkisstj., t.d. í sambandi við fiskiðnaðarmál og annað slíkt, án þess að réttir aðilar hafi fjallað um á Íslandi, hvað kæmi til greina að gera í þeim málum, verið bollalögð stefnubreyting í sjávarútvegsmálum, án þess að réttir aðilar á Íslandi hafi fjallað um málið. Ég undirstrika þetta. Og þetta hefur ekki farið neitt dult í sambandi við skrif hér innanlands einnig um þessi efni, þar sem sífellt hafa verið ráðagerðir um, að það komi fullkomlega til greina að breyta stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum varðandi landanir erlendra á fiski og rekstri fiskiðnaðar.

Við lögðum höfuðáherzluna á, að það væri rangt að taka þessi mál upp við erlendar ríkisstj. eða forustu Efnahagsbandalagsins, án þess að Íslendingar hefðu mótaðan málstað af réttum aðilum. Ég kalla það ekki málstað Íslands, sem ráðh. kann að hafa dottið í hug í þessu sambandi, án þess að það hafi verið rætt eða upp gert innanlands á réttum vettvangi.

Við bentum á, að ef farið væri út í slíkar viðræður og slíkar bollaleggingar, yrði það til þess, að útlendingarnir mundu halda fyrirlestra yfir sendimönnunum um, hvað þeim sýndist eðlilegast fyrir Ísland, og mundi það hafa allt of mikil áhrif á mótun afstöðu Íslendinga. Enn fremur, að þegar farið væri að spyrja, hvað þeim sýndist, hinum íslenzku sendimönnum, þá mundu þeir væntanlega svara einhverju, og þá væri engin trygging fyrir því, að það, sem þeir svöruðu, væri í samræmi við fyrirætlanir Íslendinga, ef þetta mál fengi ekki eðlilega meðferð hér innanlands fyrst. Þess vegna væri það eina rétta að bíða átekta, þangað til þessi mál skýrðust mun betur og Íslendingar gætu gert það upp við sig, eftir hverju þeir ættu raunverulega að sækjast í sambandi við Efnahagsbandalag Evrópu. Það væri því ekki tímabært að taka upp viðræður við Efnahagsbandalag Evrópu,fyrr en Íslendingar hefðu gert það upp við sig, eftir hverju þeir ættu að sækjast, Íslendingar hefðu stefnu í viðræðunum.

Við óttuðumst, að ef út í þessar umræður yrði farið, fengju hinir útlendu aðilar algerlega ranga mynd af því, hvað Íslendingar gætu raunverulega hugsað sér að gera í þessum málum. Við óttuðumst þetta ekki sízt vegna þess, hvernig stjórnin hafði þá þegar tekið málið upp á sínum vegum sumarið 1961 og hvað komið hafði úr stjórnarherbúðunum varðandi afstöðu Íslands — hugsanlega aðild og hugsanlegar breytingar á stefnu í sjávarútvegsmálum og fleira. Þess vegna lögðum við höfuðáherzlu á, að það yrði beðið átekta.

Jafnframt reyndum við að kynna okkur þetta mál sem bezt og móta okkar afstöðu. Auðvitað tók það sinn tíma að átta sig á því. En í janúarmánuði 1962, örfáum mánuðum eftir að við fyrst höfðum aðstöðu til að kynna okkur þessi efni, var haldin ráðstefna um þetta mikilsverða mál á vegum Frjálsrar menningar. Þá var þessum athugunum okkar það langt komið og búið að sjá það mikið yfir málið, að ég túlkaði þá á þeirri ráðstefnu þá skoðun, að Íslendingar ættu fyrst og fremst að reyna að leysa sín mál, samskipti sín við Efnahagsbandalagið, með tolla- og viðskiptasamningi. Ég hélt þá, að slíkur samningur kynni að geta komið til greina undir 238. gr. Rómarsáttmálans, því að um þær mundir var því haldið fram m.a. í stjórnarherbúðunum, að undir þá grein gæti komið allt frá 1% skuldbindingum eða 1 % innihaldi Rómarsáttmálans upp í 99%. Hafa þau orð, sem ég sagði um þau efni, síðan verið misnotuð, eins og við mátti búast, til að rangtúlka mína afstöðu og halda því fram, að ég hafi á þessari ráðstefnu mælt með aukaaðild. En þar er öllu snúið við, því að ég mælti með tolla- og viðskiptasamningi sérstökum sem leið í málinu, en ekki neins konar aðild, en gerði ráð fyrir því þá, að slíkur samningur kynni að geta rúmazt innan 238. gr.

Sú stefna að leysa málið þannig var þá af minni hendi strax tekin upp. Í næsta mánuði var svo haldinn miðstjórnarfundur Framsfl., þar sem ályktað var í sömu átt og greinilega tekið fram, að miðstjórnin teldi fulla aðild ekki geta komið til mála. Það gæti ekki komið til mála að ganga undir samstjórn efnahagsmála í einu eða öðru formi eða afsala sér því, að Íslendingar hefðu það algerlega á sínu valdi, hverjir gætu haft með höndum atvinnurekstur í landinu. Enn fremur, að það ætti að fara inn á þá braut að reyna að semja við Efnahagsbandalagið um tolla- og viðskiptamál. Sama stefnan var tekin á aðalfundi miðstjórnar Framsfl., eins og ég hafði talað fyrir á ráðstefnu Frjálsrar menningar.

Samt lét hæstv. viðskmrh. sér sæma hér um daginn í sambandi við þetta mál að gefa í skyn, að hugmyndir okkar framsóknarmanna um þessi efni væru eitthvað talsvert öðruvísi nú en þær hefðu verið í upphafi, eins og hann orðaði það, þá hefðu þessar hugmyndir ekki fæðzt hjá framsóknarmönnum, sem siðar hefðu mótazt. Ég kann ekki við þennan málflutning, og það var ekki sízt þetta, sem varð til þess, að ég ákvað að kveðja mér hljóðs nú og gefa þessar skýringar.

Hér fer ekkert á milli mála um þá stefnu, sem framsóknarmenn hafa tekið í málinu, sem þeir mótuðu eins snemma og hugsanlegt var að taka stefnuna. Og ég vil bæta því við, að strax um haustið 1961, skömmu eftir að við leituðum eftir upplýsingunum frá hæstv. ríkisstj. og fórum fram á að fá að fylgjast með þessu máli, — skömmu eftir að þetta gerðist létum við það greinilega í ljós, að full aðild kæmi ekki til greina og Íslendingar gætu ekki gengið undir samstjórn í efnahagsmálum með bandalagsþjóðunum. Það sögðum við þá strax, en hæstv. ríkisstj. var ekki reiðubúin þá að lýsa þessu yfir. Og það er ekki viðkunnanlegt, ef hæstv. viðskmrh. vill vefengja þetta. Við vorum reiðubúnir þá strax til að segja þetta, sem fyrstu skref af okkar hendi, og bættum síðan við frekari upplýsingum um okkar afstöðu, eins fljótt og hugsanlegt var vegna skoðunar á málinu. Okkar stefna hefur ætíð verið þessi sama, sem mótuð var af aðalfundi miðstjórnar Framsfl. snemma á árinu 1962.

Það er svo athyglisvert, að þegar ég hélt því fram á fundi Frjálsrar menningar í jan. 1962, að fyrst og fremst þyrfti að reyna að leysa málefni Íslands á grundvelli tolla- og viðskiptasamninga, þá hélt hæstv. viðskmrh. því fram af miklu kappi, að óhugsandi væri að fá nokkra viðhlítandi lausn á málefnum Íslands eftir þeirri leið. En aftur á móti núna, þegar hæstv. ríkisstj. gerði skýrslu sina í haust og hún var lesin hér á Alþingi, þá er hæstv. ríkisstj. farin að gera ráð fyrir því, að mögulegt muni vera að leysa mál Íslands eftir þessari leið, en telur þó tvær leiðir opnar. því miður voru heilindi hæstv. ríkisstj. þó ekki meiri en svo, að þegar Framsfl. í umr. í haust endurnýjaði fyrri afstöðu sina, að hann vildi fara tolla- og viðskiptasamningsleiðina, og valdi þannig aðra þá leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú viljað telja að væri opin, þá réðst hæstv. ráðh. á Framsfl. fyrir ábyrgðarleysi í þessu sambandi, fyrir að lýsa sig samþykkan annarri þeirri leið, sem hæstv. ríkisstj. vildi láta líta svo út að hún teldi opna.

Við vitum ákaflega vel, hvernig á þessu stendur. Það stendur þannig á þessu, að þó að hæstv. ríkisstj. telji það nú af pólitískum ástæðum innanlands henta að láta menn halda, að hún vilji alveg eins vel tolla- og viðskiptasamningsleiðina, eins og aðildarleiðina, þá er því ekki til að dreifa. Þess vegna ræðst ríkisstj. á Framsfl. fyrir að velja tolla- og viðskiptasamningsleiðina. Það er vegna þess, að ef hæstv. ríkisstj. fær að ráða þessum málum eftir kosningarnar, þá verður tolla- og viðskiptasamningsleiðin lögð til hliðar og aðildarleiðin tekin upp, þegar það telst tímabært að leita samninga við Efnahagsbandalag Evrópu. Og sannleikurinn er sá, að hæstv ríkisstj. og hennar lið hefur svo margt látið frá sér fara í þessa átt, að um þetta getur enginn vaðið í neinni villu. Það er svo aftur á móti af því, að mikill meginþorri þjóðarinnar er á hinn bóginn gersamlega á móti því að ganga undir samstjórnina og á móti aðild að Efnahagsbandalaginu, sem ríkisstj. vill nú stinga höfðinu í sandinn að dæmi strútsins og halda því að þjóðinni, að efnahagsbandalagsmálið sé í raun og veru úr sögunni á Íslandi. Það er af því að hún óttast, að sú afstaða, sem ber er orðin af hennar hendi, sé óvinsæl með þjóðinni, og þá er gripið til þess ráðs að halda því fram, að í raun og veru sé efnahagsbandalagsmálið úr sögunni.

En hvað er það rétta í því, og hvernig horfir það við? Það horfir einfaldlega þannig við, að sex þjóðir hafa myndað Efnahagsbandalag Evrópu, að langflestar þær þjóðir, sem utan Efnahagsbandalagsins eru í Evrópu, hafa sótt um inngöngu, hafa lýst sig reiðubúnar að ganga undir samstjórn í efnahagsmálum, hafa lýst sig reiðubúnar til að opna lönd sín og náttúrugæði fyrir öðrum þjóðum. Þetta eru þær stefnuyfirlýsingar, sem nú liggja fyrir frá langflestum þeirra þjóða, sem ekki eru nú þegar í Efnahagsbandalagi Evrópu. En það hefur aðeins komið snurða á þráðinn og innganga Breta tafizt vegna ágreinings um þau efni innan Efnahagsbandalags Evrópu. En tæplega finnst sá ábyrgur stjórnmálamaður í Evrópu, sem ekki lýsir yfir því, að hann telji það vafalaust, að þessi þróun verður ekki stöðvuð, að þjóðir Evrópu sameinist á næstu missirum og næstu árum í Efnahagsbandalagi Evrópu, annaðhvort sem fullir aðilar eða sem aukaaðilar, Bretar og hinir. Það linnir ekki yfirlýsingum frá ábyrgum stjórnmálamönnum í Evrópu, að þetta hljóti að ske, straumnum verði ekki snúið við. Allir lýsa þessu yfir nema íslenzku ráðherrarnir. Þeir segja: Efnahagsbandalagið er ekki lengur til sem nokkurt mál á Íslandi. Til þess þarf enga afstöðu að taka, þó að það sé svo að segja hverju barni ljóst, að á næsta kjörtímabili verður Ísland að taka stefnuna í þessum málum. Ísland verður að taka stefnuna. Það verður að ákveða um, hvort það ætlar að vinna að því að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu eða standa utan við bandalagið og reyna að leysa mál sín með samningum við bandalagið um viðskiptamál og tollamál, eins og Íslendingar hafa leyst sín vandkvæði í samningum við þær þjóðir, sem nú eru komnar í Efnahagsbandalagið eða stefna þangað inn.

Við, sem teljum, að Íslendingar geti ekki gengið í Efnahagsbandalagið, við segjum það hispurslaust og álítum, að það verði að leysa þessi mál með samningum við þessar þjóðir, þó að þær gangi í bandalag. Við getum ekki, svona dvergþjóð eins og við, gengið í þjóðasamtök eins og þessi, sem stefna óðfluga að því að verða að nýju ríki. Við mundum drukkna algerlega í þjóðahafinu. Og við getum ekki opnað okkar land fyrir þessum þjóðum, þar sem efnahagsstarfsemin og atvinnustarfsemin er rekin í svo stórum stíl, að einn evrópskan auðhring mundi ekkert muna um að kaupa upp allar eignir á Íslandi, mundi ekki muna neitt um það.

Fyrir ekki mjög löngu var birtur listi yfir fyrirtæki í Þýzkalandi, og það mun hafa þurft að fara niður fyrir 44 fyrirtæki í V.-Þýzkalandi einu saman til þess að finna fyrirtæki, sem hafði jafnlitla umsetningu og nam öllum þjóðartekjum Íslendinga, ekki fjárlögunum, heldur öllum þjóðartekjum Íslendinga. Síðan eru þessi fyrirtæki tengd saman mörg af þessari stærð, og þá sjáum við, hvers konar efnahagslíf er í þessum löndum samanborið við okkur. Augljóst er því, að við getum alls ekki sameinazt þessum þjóðum. Við verðum að koma okkar málum þannig fyrir, að við getum samið við þær um eðlileg viðskipti, en haldið áfram okkar fullveldi.

Ég hef nú gerzt nokkuð langorður um þessi efni, en það er fullkomlega að gefnu tilefni í þeim umr., er fram fóru einmitt um þetta mál í sambandi við þetta frv.