04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Hæstv. forseti. Það eru nú þegar búnar að vera allmiklar umr. um þetta mál, og ég skal ekki lengja þær mikið úr þessu, enda hef ég að sjálfsögðu mestan áhuga á því, að þetta mál komist áleiðis gegnum þingið. Hins vegar voru það nokkur atriði í ræðu, sem hæstv. viðskmrh. hélt hér fyrir nokkrum dögum, sem ég tel mig knúinn til að gera nokkrar aths. við.

Ég ætla þá fyrst að víkja að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um MacCarthyisma. Hann hélt því fram, að MacCarthyisma hefði verið beitt í þessu máli. Þetta er mikill misskilningur hjá hæstv. menntmrh., því að MacCarthyisminn, eins og kunnugt er, var fólginn í því að bera það á ýmsa frjálslynda stjórnmálamenn, að þeir væru kommúnistar. Það var það, sem MacCarthy varð frægur fyrir á sínum tíma, að hann hélt því fram um ýmsa af leiðtogum demókrata í Bandaríkjunum, að þeir væru kommúnistar, og reyndi að færa að því rök með ýmsum blekkingum og útúrsnúningum, og ég held, að það sé algerlega rangt hjá hæstv. menntmrh., að í þessum umr. hafi því nokkuð verið haldið fram af mér eða öðrum, sem hér hafa talað af hálfu Framsfl., að þeir væru að bera einhverjum á brýn, að þeir væru kommúnistar. En það er rétt að rifja það upp í þessu sambandi, hverjir það eru, sem nú eru merkisberar MacCarthyismans hér á landi, og ég álít, að það sé mjög heppilegt, að einmitt hæstv. menntmrh. skyldi verða til þess að minna á þetta, því að merki MacCarthyismans hér á landi er nú ekki sízt haldið uppi af hans flokki og því blaði, sem hann gefur út. Ég minnist þess t.d., að það er mjög sjaldan minnzt á mig í því blaði öðruvísi en ég sé kallaður 11. þm. kommúnista eða framsóknarmönnum sé borið það á brýn, að þeir séu meira og minna undirlægjur kommúnista. Ég minnist þess t.d. fyrir nokkrum dögum, að í Alþýðublaðinu var verið að segja frá bók, sem nýlega var skrifuð af afturhaldssömum rithöfundi í Bretlandi, eða skáldsögu, sem gekk út á að sanna það, að forustumenn vinstri armsins í Verkamannaflokknum þar í landi, Bevan og Wilson, væru líklegir til þess að koma Bretlandi undir Sovétríkin. Það var skrifað um þessa bók þannig í Alþýðublaðinu, að það væri ekki aðeins líklegt, að þetta gæti gerzt í Bretlandi, að leiðtogar vinstri arms jafnaðarmanna þar, Verkamannaflokksins þar, mundu verða þess valdandi, að Bretland kæmist undir Sovétríkin, heldur var haldið áfram og sagt, að það væri mjög líklegt, að slíkt gæti gerzt hér á landi og ég væri ekki sízt einn af þeim mönnum, sem væru líklegir til þess að vinna á þann hátt.

Sem sagt, af hálfu flokks hæstv. ráðh. og þeirra blaða, sem hann heldur úti, hefur ekki linnt um langt skeið sams konar ásökunum í garð ýmissa frjálslyndra manna hér á landi og MacCarthy var frægastur fyrir í Bandaríkjunum á sínum tíma. Og hvers vegna er það, sem þessum ásökunum hefur verið haldið fram gegn mér og öðrum á undanförnum árum? Það er alveg á sama hátt og um frjálslynda stjórnmátamenn í Bandaríkjunum, sem beittu sér þar gegn ýmsum röngum ráðstöfunum og hreyfðu ýmsum umbótamálum, að þeim ásökunum er nú beint gegn mér og öðrum, að við séum handbendi kommúnista, göngum erinda þeirra og séum líklegir til þess að koma Íslandi undir Sovétríkin. Ástæðan er einfaldlega sú, að við höfum barizt á móti ýmsum óhæfuverkum núv. ríkisstj., eins og gengisfellingunum, eins og gerðardómunum, eins og okurvöxtunum, eins og vinnuþrælkuninni, eins og margháttuðum kjaraskerðingum, sem þessi ríkisstj. hefur framkvæmt. Fyrir þetta hefur ekki linnt á kommúnismabrigzlum í okkar garð í Alþýðublaðinu og öðrum málgögnum stjórnarflokkanna. Og ég tel það mjög heppilegt, að hæstv. menntmrh. skyldi verða til þess hér að minna á þetta, vegna þess að þetta er ljótur blettur á íslenzkum stjórnmálum og ósæmilegur, alveg eins og MacCarthyisminn var á sínum tíma. Og ef hæstv. menntmrh. vill átelja nokkra fyrir MacCarthyisma eða vara við honum, þá á hann sérstaklega að beina þeim skeytum til sinna flokksmanna og blaða, sem halda uppi nákvæmlega sama áróðrinum og MacCarthy hélt uppi í Bandaríkjunum á sínum tíma og nú er fordæmdur viða um heim. Og það mætti segja mér, að það ætti eftir að setja ekki svo lítinn blæ á þá kosningabaráttu, sem er nú fram undan, að einmitt af hálfu hæstv. ráðh. og þeirra flokka verði reynt að berjast með sama hætti og MacCarthy barðist í Bandaríkjunum á sínum tíma, og þess vegna fagna ég því, að hæstv. menntmrh. skyldi verða til þess að minna á þetta hérna, því að hér er vissulega um fyrirbrigði að ræða, sem ástæða er til þess að vara við.

Ég kem þá að því hjá hæstv. menntmrh., sem hann taldi að bæri merki um svipaðar vinnuaðferðir hjá mér og hjá MacCarthy á sínum tíma, sem væri fólgið í því að snúa út úr vissum ummælum, og ég hefði snúið út úr ummælum, sem hann hefði viðhaft fyrir tveimur árum, og reynt að láta þau hafa allt aðra merkingu eða túlka þau á allt annan veg en rétt væri. Ég ætla einu sinni enn að lesa þessi ummæli upp og jafnframt greina þá útskýringu, sem hæstv. menntmrh. vildi láta þau hafa. Þessi ummæli hæstv. menntmrh. voru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki nauðsynleg lengur, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“

Hæstv. ráðh. las þessi ummæli þannig, aðeins fyrri hluta þeirra, sem hljóðar þannig: „Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera.“ Og þar lauk hann lestrinum og túlkaði þetta á þann veg, að það, sem hann hefði hér sagt, væri ekkert annað en það, að þessi mál yrði að taka til athugunar, ef til aðildar okkar ætti að koma. En ef hæstv. ráðh. les þetta dálítið lengra, þá verður dálítið annað upp á teningnum, því að áframhaldið hljóðar á þessa leið: „enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki nauðsynleg lengur, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.“

Hér kemur alveg skýrlega fram í þessum ummælum sú skoðun hæstv. ráðh., að það sé ekki nauðsynlegt að fylgja lengur þeirri stefnu, sem við höfum fylgt gagnvart löndunum erlendra fiskiskipa hér á landi eða gagnvart rekstri fiskiðjuvera hér á landi, heldur sé ekkert við það að athuga, þó að breyting verði á þessari stefnu, ef það er aðeins tryggt, að ekki leiði af ofveiði. Og það er á þessum ummælum hæstv. ráðh., sem ég hef fyrst og fremst byggt þann málflutning og útleggingar á hans ummælum, sem ég hef hér í frammi haft, og þau eru alveg tvímælalaus. Hæstv. ráðh. vill aðeins binda sig við það, sem segir í fyrri hluta málsgr., sem snertir það, að það sé nauðsynlegt að athuga þessi mál, en sleppir svo alveg síðari hluta setningarinnar, sem fjallar um það, að hann telji ekki neitt athugavert við það, þó að horfið verði frá þeirri stefnu, sem hann hefur fylgt að undanförnu í þessum efnum, aðeins ef það sé tryggt, að komið sé í veg fyrir, að breytingin á henni leiði til ofveiði. Þess vegna liggur það hér fyrir alveg skjalfest eins skýrt og verða má, að það var skoðun hæstv. ráðh. á þessum tíma, þegar hann lét þessi ummæli falla sumarið 1961, að hann teldi ekki neitt athugavert við að hverfa frá þeirri stefnu, sem fylgt hafði verið áður í þessum málum, þ.e.a.s. að neita útlendingum um fisklandanir hér á landi og spyrna gegn því, að þeir hefðu hér rekstur fiskvinnslustöðva eða fiskiðjuvera með höndum.

Hæstv. ráðh. er að vitna til þess, að í þeirri skýrslu, sem hann hafði hér flutt 12. nóv. s.l. um Efnahagsbandalag Evrópu, hafi hann látið ummæli falla, sem voru í mótsögn við það, sem hann hafði sagt 1961 um þetta efni. En það er alveg sama, hversu vandlega hæstv. ráðh. leitar í gegnum þessa skýrslu, þá finnur hann hvergi ummæli um það þess efnis, sem útiloki það, að útlendingum verði veitt einhver aðstaða til fisklandana eða rekstrar fiskiðjuvera hér á landi.

Þvert á móti er talað um, að það sé ekki óeðlilegt, þó að útlendingum verði veitt einhver aðstaða til atvinnurekstrar hér á landi. Það er ekkert skilgreint, um hvaða atvinnurekstur eigi þá að vera að ræða, en hins vegar sagt, að þetta yrði að sjálfsögðu að gera með einhverjum fyrirvörum. En hverjir eru þeir fyrirvarar, sem hæstv. stjórn á við í þessum efnum, og hvernig hyggst hún láta framkvæma þá? Ættu þessir fyrirvarar að vera fólgnir í því, að það væri t.d. háð leyfisveitingum ríkisstj., að hve miklu leyti útlendingar mættu annast þessa starfsemi hér á landi? Ég held, að ef þá sæti við völd svipuð ríkisstj. og sú, sem nú situr að völdum, þá yrði sáralitil trygging fólgin í slíkum fyrirvörum eins og þessum. Nei, það, sem er nauðsynlegt í þessum efnum, er að sjálfsögðu að hafa þær reglur, sem um þetta gilda, sem allra skýrastar og afdráttarlausar, og það verður ekki gert á annan hátt betur hvað snertir fiskiðnaðinn og fiskveiðarnar en það sé skýrt tekið fram, að þessi atvinnurekstur sé í höndum Íslendinga einna og ekki annarra, enda er annað alger óþarfi, vegna þess að Íslendingar eru búnir að sýna það um áratugi, að þeir þurfa ekki á neinni erlendri aðstoð að halda í þessum efnum. Þeir hafa verið algerlega einfærir um að stunda fiskveiðar hér við land og reka þann fiskiðnað, sem hefur verið í landinu og munu ekki síður verða það á komandi árum. Þess vegna er engin ástæða til þess að vera að opna þá hættu, sem í því getur fólgizt og í því mun felast, ef útlendingum væri veitt aðstaða til þess að annast slíkan atvinnurekstur hér á landi. Þess vegna eigum við að útiloka það, að slíkt geti átt sér stað, en ekki vera að opna það, jafnvel þó að því séu látnir fylgja ýmiss konar fyrirvarar, sem munu reynast meira og minna haldlausir, eins og þeir, sem hæstv. ráðh. er að tala um.

Ég held, að það, sem ég hef hér rakið, sýni það fullkomlega, að ég hef ekki snúið neitt út úr ummælum hæstv. ráðh., þeim sem hann lét falla á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands á sínum tíma, því að þar kemur svo skýrt fram eins og ég hef marglesið hér, að hæstv. ráðh. segir það alveg blákalt, að hann sé ekkert smeykur við það, þó að vikið verði frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið að undanförnu í þessum efnum, þ.e. að banna útlendingum fisklandanir og stemma stigu við rekstri þeirra í fiskiðnaði hér á landi, aðeins ef það væri tryggt, að af því leiði ekki ofveiði. Það er sá eini fyrirvari, sem hæstv. ráðh. hefur nokkru sinni gert í sambandi við fiskiðnaðinn fram að þessu, og þess vegna er það algerlega ósæmilegt af hæstv. viðskmrh. að vera að líkja þessu við einhvern MacGarthyisma eða fara með útúrsnúninga og blekkingar í þessum efnum, vegna þess að ummæli hans sjálfs taka af allan vafa um þetta atriði.

Þá kem ég að öðru atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem mér finnst ástæða til að gera sérstaka aths. við. Og það var það, að hann lét þau orð falla, að það hefði aldrei komið fram af hálfu hæstv. núv. ríkisstj., að hún vildi semja um atvinnuréttindi til handa útlendingum hér á landi, það væri bara MacGarthyismi, hreinar bekkingar, hrein ósannindi að halda einhverju slíku fram, ríkisstj. hefði aldrei dottið neitt slíkt í hug. Þetta margendurtók hæstv. ráðh. En hvað segir svo um þetta efni í þeirri skýrslu, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram fyrir Alþingi um Efnahagsbandalag Evrópu og Ísland 12. nóv. s.l.? Í þeirri bók eða í þeirri skýrslu er verið að gera grein fyrir því, hver sé munurinn á hinum tveimur leiðum, sem ríkisstj. álíti að komi til greina varðandi afstöðuna til Efnahagsbandalagsins, þ.e. munurinn á tollasamningsleiðinni og aukaaðildarleiðinni, og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Höfuðmunur tollasamningsleiðarinnar og aukaaðildarleiðarinnar er í rauninni fólginn í því, að með aukaaðildarleiðinni er auðveldara að tryggja Íslendingum hagkvæma viðskiptaaðstöðu. En það kostar samninga um viðkvæm mál, eins og rétt útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi og innflutning erlends fjármagns og erlends vinnuafls.“

Hér segir hæstv. ríkisstj. eins skýrt og verða má, að það muni fylgja aukaaðildarleiðinni, ef sú leið verði farin, að semja verði um þessi viðkvæmu mál, eins og rétt útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi, innflutning erlends fjármagns og erlends vinnuafls. Það kemur svo skýrt fram í þessari skýrslu og hefur komið hvað eftir annað fram í þessum umr. og þó miklu greinilegar í blöðum, að ríkisstj. telur það vel koma til mála að fara aukaaðildarleiðina, sem þessir samningar fylgja, og telur það ekki aðeins vel koma til mála, heldur telur þá leið miklu betri og réttari en hina leiðina, því að strax eftir að það kom fram hér í þinginu, að framsóknarmenn hölluðust að tolla- og viðskiptasamningsleiðinni, þá linnti ekki þeim ásökunum af hálfu hæstv. ráðh., að þetta væri neikvæð leið, sem Framsfl. hefði valið, þetta væri óábyrg leið. Þessi ummæli lét hæstv. viðskmrh. falla, og hæstv. forsrh. gekk enn þá lengra í fordæmingum sínum á því, að framsóknarmenn skyldu taka tolla- og viðskiptasamningsleiðina fram yfir aukaaðildarleiðina. Sem sagt, það kom eins skýrt fram og verða mátti í þeim umr., sem hér urðu um Efnahagsbandalagið fyrir nokkru, að ríkisstj. kýs miklu heldur aukaaðildarleiðina en tolla- og viðskiptasamningsleiðina, þó að hún a.m.k. nú fyrir kosningar vilji telja þessar báðar leiðir geta komið til greina.

Og hvað þýðir það að taka aukaaðildarleiðina fram yfir viðskiptasamningsleiðina, eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert og ljóst er og hefur komið fram í umr. hér á þinginu? Það þýðir það samkv. skýrslu sjálfrar ríkisstj. frá 12. nóv. s.l., að ríkisstj. er fús til þess að taka upp samninga við erlenda aðila um rétt útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi, um innflutning á erlendu fjármagni og um innflutning á erlendu vinnuafli. Það liggur þess vegna eins greinilega fyrir og verða má, að ríkisstj. er fús til samninga um þessi efni og tekur þá leið, sem þessir samningar fylgja, fram yfir hina leiðina í afstöðunni til Efnahagsbandalagsins, eins og ég nú hef rakið. Þrátt fyrir það kemur svo hæstv. viðskmrh. hér upp í þinginu og kallar það MacCarthyisma, kallar það blekkingar, falsanir og ósannindi, að því sé haldið fram, að ríkisstj. sé fús til að ganga til samninga um þessi mál, eftir að það liggur jafnglögglega fyrir og ég nú hef rakið.

Hvers vegna hefur hæstv. viðskmrh. valið sér slíkan málflutning eins og þennan, að afneita jafneindregið því, sem liggur fyrir í skýrslu frá hæstv. ríkisstj., og hvað er það, sem veldur því, að hæstv. viðskmrh. vill nú ekki kannast við ummæli sín frá 1961 og afneitar meira að segja því, sem hann segir í skýrslu, sem lögð er fyrir Alþingi fyrir fáum mánuðum? Hvers vegna er hæstv. viðskmrh. að afneita þessu jafnákveðið nú og hann gerði hér í seinustu ræðu sinni í þessum umr.? Hvað hefur komið til? Það er alveg augljós skýring á þessu. Það er vegna þess, að hæstv. ráðh. óttast orðið þá stefnu, sem fram kemur í þessum ummælum hans og yfirlýsingum. Hann vill ekki láta það sjást fyrir kosningarnar, að þetta sé raunverulega stefna hans og hæstv. ríkisstj. Og þess vegna grípur hann til þessa óvenjulega og ég vil segja óheiðarlega málflutnings að reyna að afneita öllu saman og telja það bara útúrsnúning og falsanir, þegar vitnað er í opinberar skýrslur, sem liggja fyrir frá hæstv. ríkisstj., og í ræður, sem hann hefur flutt og birtar hafa verið í velflestum blöðum, og segir bara, að þetta hafi aldrei átt sér stað, þetta séu falsanir og ósannindi, þó að það sé hægt að leggja þetta skjallega á borðið, eins og ég hef hér gert. Það er ótti hæstv. viðskmrh. við þá stefnu, sem hann og ríkisstj. raunverulega fylgir, sem kemur fram í öllum þessum afneitunum hans og svardögum. Það getur ekki farið á milli mála. Og ég verð að segja það, að ég held, svo að maður noti ekki um það mjög sterk orð, að í raun og sannleika sé hægt að hugsa sér fátt litilmannlegra en vera að afneita svona ummælum sínum og yfirlýsingum, eins og hæstv. viðskmrh. hefur gert hvað eftir annað í þessum umr., og ég er líka viss um það, að það mun ekki koma hæstv. ráðh. og stjórnarflokkunum að neinu gagni. Þeir eru búnir að segja svo mikið í þessum málum, og það liggur svo mikið fyrir skjalfest um viðhorf þeirra í þessum málum, að slíkir svardagar eins og þessir nú fyrir kosningarnar munu ekki koma að neinu haldi.

Ég sé ekki ástæðu til að þessu sinni að ræða það sérstaklega, sem kom til tals hér í umr. á þriðjudaginn, hygg ég, að það hafi verið, varðandi afstöðuna til Efnahagsbandalags Evrópu, þ.e.a.s. um þá málsmeðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft varðandi það mál að undanförnu. Það var svo rækilega rakið í ræðu hv. 1. þm. Austf., og ég býst líka við því, að hann muni ræða hér á eftir þær missagnir og blekkingar, sem komu fram í svari hæstv. ráðh. varðandi það atriði. En aðeins á eitt ætla ég þó að benda í þessu sambandi, sem er varðandi það, hvort hæstv. ríkisstj. hafi á sínum tíma ætlað að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu eða ekki.

Það kom mönnum talsvert á óvart á s.l. sumri, þegar það kom hvað eftir annað fram í ummælum, sem kanzlari Vestur-Þýzkalands, Konrad Adenauer, lét falla, að Ísland væri á meðal þeirra ríkja, sem hefðu hugsað sér að sækja um fulla aðild, og það var sagt, að þetta væri einhver misskilningur hjá gamla manninum, sem stafaði af því, að hann væri sennilega orðinn kalkaður og vissi ekki alltaf, hvað hann segði. En það hefur nú komið á daginn, að Adenauer er ekki eins kalkaður og hæstv. ríkisstj. hér á landi var að reyna að gefa í skyn á s.l. sumri, því að það liggur nú skjalfest fyrir í erlendum heimildum, að á sumrinu 1961 hafi ríkisstj. frekar hallazt að því að sækja um fulla aðild en aukaaðild. Í skýrslu, sem Evrópuráðið gaf þá út um afstöðu þeirra landa, sem stæðu bæði utan Efnahagsbandalagsins og Fríverzlunarbandalagsins, ef England gengi í Efnahagsbandalagið, þá var m.a. rætt sérstaklega um Ísland. Og í þessum bæklingi Evrópuráðsins er það tekið fram um afstöðu Íslands, að Ísland muni fremur kjósa að sækja um fulla aðild en aukaaðild, ef Bretland gerist aðili að Efnahagsbandalaginu. Þetta segir alveg skýrum orðum í skýrslu Evrópuráðsins, sem var gefin út sumarið 1961. Hvaðan halda menn, að Evrópuráðið hafi þessar upplýsingar? Halda menn, að embættismenn Evrópuráðsins hafi búið þetta til, að þetta séu einhverjar falsanir hjá þeim? Mér dettur ekki í hug að halda því fram. Mér dettur ekki í hug að álíta annað en hér sé um að ræða vitneskju, sem embættismenn Evrópuráðsins hafa fengið frá íslenzkum aðilum, ábyrgum íslenzkum aðilum, frá íslenzku ríkisstj. eða þeim embættismönnum, sem hún hefur falið að gefa upplýsingar um þessi efni. Þessi skýrsla Evrópuráðsins sker alveg úr um þá deilu, sem hefur verið á milli t.d. mín og hæstv. viðskmrh. um það, hver hafi verið afstaða ríkisstj. sumarið 1961, því að þetta hefur ekki komizt inn í skýrslu Evrópuráðsins af einhverjum misskilningi, heldur vegna þess, að hér er um upplýsingar að ræða, sem það hefur fengið frá réttum aðilum, frá íslenzkum stjórnarvöldum sjálfum, enda er það í fullu samræmi við allt það, sem var að gerast hér heima sumarmánuðina 1961, eins og sést greinilega í blöðum frá þeim tíma og eins af því, þegar hæstv. ríkisstj. vildi fá afdráttarlaus svör frá ýmsum stofnunum um það, hvert viðhorf þeirra væri til þess, að sótt yrði um fulla aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu eða ekki. Það er þess vegna alveg tilgangslaust fyrir hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskmrh. að ætla að reyna að mæla á móti því, að þessi hafi verið afstaða ríkisstj. 1961. Ríkisstj. frestaði svo a.m.k. að sinni af þeim ástæðum, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, að senda þessa umsókn inn, en af þessu má hins vegar vel ráða, hver sé raunveruleg afstaða hennar í þessum efnum og hvaða leið hún muni velja, ef það félli í hennar hlut að taka endanlegar ákvarðanir um það, hvað Ísland ætti að gera í þessum efnum á sínum tíma. Það er alveg augljóst af þessu, að þá mundi það verða niðurstaðan hjá ríkisstj., að ef ekki yrði um fulla aðild að ræða, þá a.m.k. um svo nána aukaaðild að ræða, að ekki yrði neinn teljandi munur á því og fullri aðild.

Ég skal svo ekki ræða um þetta atriði meira að sinni, heldur vil að lokum, vegna þess að fundartíma er nú að verða lokið og ég tel ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt mikið úr þessu, að minnast nokkrum orðum á sjálft frv., sem hér liggur fyrir og að sjálfsögðu skiptir meginatriði að rætt sé um.

Ég tel alveg hiklaust, að það sé mikil hætta á ferðum um það, að útlendingar leiti eftir því að ná yfirráðum yfir fiskiðjuverum hér á landi. Þeir atburðir eru nú að gerast í öðrum löndum, sem sýna þetta alveg ótvírætt. Það hefur t.d. nýlega gerzt í Noregi, að svissneskt firma hefur keypt upp fiskiðjuver í Norður-Noregi. Það er sagt svo frá í erlendum blöðum, að það standi yfir viðræður milli stjórna Bretlands og Noregs um, að norskir togarar fái rétt til fisklöndunar í Norður-Noregi. Það var nýlega sagt frá því einnig í norskum blöðum, að enski hringurinn Unilever sæktist eftir því að fá aðstöðu í Færeyingahöfn á Grænlandi og Norðmönnum stæði verulegur uggur af því, að þessi hringur mundi koma sínum ráðagerðum fram, og það er kunnugt um það, að ýmsir erlendir aðilar hafa verið að leita fyrir sér hér á landi um það að fá einhverja svipaða aðstöðu. Þetta veldur því, að aðstaðan í þessum efnum er nú orðin verulega önnur en áður var, að hinir erlendu auðhringar sækjast miklu meira eftir því að komast inn í fiskiðnað hinna ýmsu landa og þá ekki sízt Íslands heldur en átti sér stað fyrir fáum árum. Og það er þó ekki minnst hættan í því fólgin, að það kemur fram hjá fleiri en hæstv. viðskmrh., að það er lítil andstaða gegn því, að slík aðstaða verði veitt útlendingum hér á landi. Ég vil t.d. minna á það, að í tilefni þess, að ég hef flutt þetta frv. um, að Íslendingar einir skuli eiga og reka fiskiðjuver hér á landi, eru hvorki meira né minna en skrifaðir tveir leiðarar um mig í Morgunblaðið í dag, þar sem ég er stimplaður einangrunarsinni fyrir það að hafa flutt þetta frv. Það sýnir, hvernig afstaðan er á því heimili, stjórnarheimilinu, til þess, að útlendingum verði veitt aðstaða til þess að komast inn í fiskiðnaðinn hér á landi. Það er m.ö.o. kölluð hrein einangrunarstefna, ef menn vilja ekki veita erlendum aðilum þessi réttindi. (Forseti: Ég vil nú biðja hv. ræðumann —- —) Ég skal ljúka máli mínu strax.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég tel mikla nauðsyn á því, að það frv., sem hér liggur fyrir, verði gert að lögum strax á þessu þingi til þess að koma í veg fyrir það eða hamla gegn því, að fyrirætlanir hinna erlendu auðhringa takist um það að komast inn í fiskiðnaðinn, sem er tvímælalaust ein mikilvægasta atvinnugrein okkar.