22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

209. mál, jarðgöng gegnum Breiðadalsheiði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fáir bæir eða borgir taka eðlilegum vexti, nema þær styðjist við sveitir, byggðir í sveitum eða uppland, eins og það er kallað. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að öllu öðru fremur er það sú staðreynd, að umhverfi Akureyrar er blómleg sveitahéruð, sem veldur því, að Akureyrarkaupstaður er nú annar stærsti bær landsins. Ég er einnig sannfærður um það, að ein af orsökunum til þess, að Ísafjarðarkaupstaður hefur ekki tekið eðlilegum vexti á undanförnum árum, er einkanlega það, að bæjarfélagið er einangrað frá sveitahéruðunum í Ísafjarðardjúpi og sveitabyggðunum vestan Breiðadalsheiðar, þ.e.a.s. sveitunum við Önundarfjörð og Dýrafjörð. Borg getur ekki blómgazt og dafnað án náinna samskipta við sveitir og landbúnað, og landbúnaður fær ekki heldur þrifizt, nema hann hafi sem markað kaupstað við sitt hæfl. Þannig er það nú, að Ísafjarðarkaupstaður er aðgreindur frá byggðunum í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Það er ekki komið vegasamband enn þá þarna á milli, og samgöngur á sjó hafa verið þau einustu tengsl, sem verið hafa á milli kaupstaðarbyggðarinnar og sveitahéraðanna við Ísafjarðardjúp.

Nú standa þó vonir til innan nokkurra ára, við skulum kannske gera okkur vonir um, að það yrði innan 5 ára, — að sveitir Inndjúpsins komist í beint og órofið akvegasamband við Ísafjarðarkaupstað og að lausn á þeirri hlið málsins sé því ekki allfjarri. En Breiðadalsheiði mun enn um sinn verða þröskuldur á vegi náinna samskipta og eðlilegra viðskipta milli sveitabyggðanna í Dýrafirði og Önundarfirði vestan Breiðadalsheiðar. Þessi fjallvegur er á 7. hundrað m yfir sjó, og akvegur um hann helzt ekki opinn nema 4–5 mánuði ársins. Hann er lokaður að öllum jafnaði 6–7 mánuði ársins og marga vetur 7–8 mánuði árs. Nú mundi einhver spyrja: Er ekki auðvelt úr þessu að bæta og leggja veg, sem haldizt gæti opinn að vetri til, yfir þessa heiði eins og margar aðrar íslenzkar heiðar? En ég hef það svar við þessu, að ég hef fyrir mér ummæli verkfræðinga, sem fengizt hafa við þessi verkefni, um það, að yfir Breiðadalsheiði, háheiðina, verði naumast lagður akvegur, sem fær verði að jafnaði að vetrinum. Þetta er það hátt yfir sjó, að fannkoma er þarna mikil uppi, en það sker úr, að vestanvert við háheiðina liggur vegurinn utan í snarbrattri fjallshlið og í slíkri fjallakreppu, að þar verður ekki byggður vegur, segja mér verkfræðingar, sem varinn verður vetrarsnjóum og haldið opnum. Það mundi því nánast sagt ekki vera um annað úrræði að ræða til þess að halda vetrarsamgöngum opnum um Breiðadalsheiði en annaðhvort, eins og Norðmenn gera stundum, að yfirbyggja veg yfir háheiðina eða gera jarðgöng gegnum heiðarkambinn. Að vestanverðu að Breiðadalsheiði liggur Breiðadalur, og að norðanverðu liggur að heiðinni Dagverðardalur. Það er talið, að unnt sé að byggja nútímavegi um þessa dali upp í 400–500 m hæð, þannig að þeir geti haldizt opnir fyrir umferð í flestum vetrum. En þegar kemur ofar, þá er fannkingi svo mikið, að ekki er talið fært að halda vetrarvegum opnum miklu hærra. Þannig hagar til, að breiður hjalli myndast í um það bil 500 m hæð að norðanverðu við Breiðadalsheiðina og hjalli, sem er nokkru lægri, að vestanverðu við háheiðina, en upp af þessum hjöllum rís hár fjallskambur, og það er í gegnum hann, sem lagt er til í þessu frv. að jarðgöng verði gerð.

Vegamálaskrifstofan hefur nokkuð athugað þetta mál, því að hugur verkfræðinganna hefur fyrir nokkru stefnt að því, að málið verði ekki leyst með öðru en jarðgöngum, og einn af verkfræðingum vegamálaskrifstofunnar hefur mælt, hve löng þau jarðgöng yrðu, sem gera þyrfti, ef jarðgöngin væru tekin í um það bil 500 m hæð yfir sjó eða á þessum hjöllum, sem ég áðan nefndi. Niðurstaða þessara mælinga er sú, að yrðu jarðgöngin gerð þarna, yrði um 600 m löng jarðgöng að ræða. Nú segja verkfræðingarnir, að þessi jarðgöng þyrftu að vera um það bil 6 X 6 m, og væri því flöturinn, sem þyrfti að sprengja úr bergínu, um 36 fermetrar. Þeir telja, að kostnaður við að sprengja rúmmetrann við venjulegar aðstæður muni vera um 250 kr. Það má því af þessu sjá, að lengdarmetri í slíkum jarðgöngum mun að áliti verkfræðinganna kosta um 9–10 þús. kr. eða 600 m 51/2–6 millj. kr. Það er að vísu nokkuð há upphæð. En ef við berum það saman við annað, komumst við að þeirri niðurstöðu, að þetta er ekki meiri upphæð en svo, að fyrir hana er hægt að kaupa 120–150 tonna vélbát, fiskibát, sem einstaklingar margir leika sér að með nokkurri aðstoð frá þjóðfélagsins hendi, og upphæðin ein ætti því ekki að hræða, þegar um er að ræða samfélagið og allfjölmennar byggðir, sem þessa mannvirkis mundu njóta. Það verður a.m.k. ekki sagt, að þetta séu neinir draumórar, því að það eru það alls ekki. Þetta er verkefni, sem hægt er, ef vilji er fyrir hendi, að leysa og leysa á skömmum tíma. Ég er t.d. sannfærður um það, að ef ríkisvaldið beitti sér fyrir því, væri ekki torvelt að fá 1 millj. norskra kr. að láni og sérfræðinga norska, alvana við slíka mannvirkjagerð, til þess að leysa þetta verk af hendi á einu sumri, ef hægt væri jafnframt að endurgreiða þetta lán á við skulum segja 10–15 árum, og það ætti ekki að vera neinn ómöguleiki að ætla til Breiðadalsheiðarvegar 700 þús. kr. á fjárlögum hvers árs, þangað til upphæðin væri greidd.

Ég skal að vísu taka það fram, að við höfum þegar verkfræðilega þekkingu í landinu, sem nægir til þess að framkvæma slíkt verk. Jarðgöngin gegnum Arnardalshamar voru fyrstu jarðgöng, sem hér voru gerð. Þau eru að vísu örstutt, ekki nema 33 eða 35 m, en þar var farið í gegnum eitt harðasta berg, sem til er á Íslandi, og tókst þó að vinna það, að vísu eftir ýmsa byrjunarerfiðleika. En við fengum frekari reynslu af gerð jarðganga í sambandi við síðustu virkjun Sogsins. Þar var um að ræða mikil jarðgöng, sem gerð voru sem líður í því virkjunarmannvirki. Og ég hef einmitt haft tal af þeim verkfræðingi, sem hafði yfirumsjón með því verki, og heyrt hans álit á því, hvernig aðstaða sé til þess að vinna hið vestfirzka blágrýti einmitt í sambandi við gerð jarðganga, og telur hann, að það sé jafnvel auðveldara en að vinna ýmsar mýkri bergtegundir, því að blágrýtið sé oftast lítið sprungið og valdi það meir um en harkan, hvort auðvelt sé eða ekki að vinna það.

Ég get þess líka í grg., að frændur vorir Færeyingar eru nú að ljúka við 1400 m löng jarðgöng í Færeyjum, og það skemmtilega við það er, að það er íslenzkur verkfræðingur, sem stjórnar því verki. Þetta verk var boðið út, og mér er tjáð, að það kosti 21/2 millj. d. kr., eða 15 millj. ísl. kr., 1400 m löng jarðgöng. Þessi verkfræðingur heitir Páll Sigurjónsson og hann er nú að ljúka þessu verki.

Í sambandi við þetta mál vil ég geta þess, að það er brýn og aðkallandi nauðsyn að leggja veg um Breiðadalsheiði. Um þessa heiði hefur aldrei verið lagður vegur. Vegurinn um Breiðadal og Dagverðardal og yfir heiðina er niðurgrafinn ruðningsvegur til bráðabirgða, og það er álit margra, að þetta sé versti vegarspottinn, erfiðasti vegarspottinn á allri leiðinni frá Reykjavík til Ísafjarðar. Það er jafnvei gefið, að það er nærtækt verkefni, sem ekki verður skotið lengi á frest, að byggja góðan veg um Breiðadal og Dagverðardal og Breiðadalsheiði, eða e.t.v. frekar um Seljalandsdal norðan heiðarinnar og til Ísafjarðar, færa veginn þannig til að norðanverðu.

Og þá kemur að því, hvar er eðlilegast að byrja á þessu verki? Ég held því fram, að eðlilegast sé að byrja á jarðgöngunum gegnum háheiðina, vegna þess að út frá þeim fasta punkti er eðlilegast að mæla fyrir veginum til beggja handa, norður yfir og vestur yfir, og einnig eru það rök fyrir því að byrja á jarðgöngunum, að úr þeim kemur grjót, sem er auðvitað valið efni í undirbyggingu vegarins til beggja handa. Ég tel þetta allnokkurt stórmál, ekki bara fyrir Ísfirðinga, heldur engu síður, eins og ég gat um í upphafi míns máls, fyrir búendur Önundarfjarðar og Dýrafjarðar, — ég nefni báða þessa firði, fólkið, sem þar býr, af því að heiðin, sem skilur Önundarfjörð og Dýrafjörð, Gemlufallsheiði, er svo lág, að engum vandkvæðum er bundið að byggja vetrarfæran veg yfir hana, og þess vegna tengjast báðir þessir firðir Ísafirði, ef öruggur vetrarvegur fæst yfir aðaltorfæruna, Breiðadalsheiði.

Í þessu frv. er í fyrsta lagi lagt til, að vegamálastjóra og sérfræðingum hans sé falið að annast allan nauðsynlegan verkfræðilegan undirbúning að því, að jarðgöng verði gerð gegnum Breiðadalsheiði milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar og skuli þessum undirbúningi hraðað. Í annan stað er það svo meginefni frv., að ríkisstj. sé heimilað að taka lán, allt að 7 millj. kr., til undirbúningsframkvæmda og byrjunar verksins, og er í raun og veru þegar upplýst, að verkfræðingar telja, að miðað við núv. kostnað mundi verðið á jarðgöngum í 500 m hæð yfir sjó ekki nema nema um 6 millj. kr. En yrði það niðurstaða rannsóknar að hafa jarðgöngin neðar í gegnum fjallgarðinn, þá yrðu jarðgöngin auðvitað að sama skapi lengri og dýrari.

Ef þessi lánsheimild yrði notuð, er það hyggja mín, að þetta lán mætti endurgreiða af fjárlagafjárveitingum á 10–15 ára tíma með því að taka 600–700 þús. kr. á fjárlög hverju sinni, eftir að undirbúningur verksins væri hafinn og framkvæmd ákveðin. E.t.v. hefur til skamms tíma verið haft á móti því að byggja vegagerð á lánsfé, en það verður ekki gert nú, það verður ekki gert á þessu þingi, eða a.m.k. get ég ekki látið mér detta það í hug. Á þessu þingi hefur verið ákveðið að taka marga tugi millj. kr. að láni til vegagerðar, og þegar það hefur verið gert, getur enginn borið fram ástæður fyrir því, að ekki ætti að vera tiltækilegt að ráðast í allra nauðsynlegustu og þýðingarmestu vegagerð, sem hægt er að ráðast í á Vestfjörðum, fyrir lánsfé. En um það verður ekki heldur deilt, að Vestfirðir hafa tvímælalaust dregizt aftur úr í samgöngumálum og eru verr staddir í vegamálum en nokkur landshluti annar. Það þarf því að láta hendur standa fram úr ermum umfram aðra landshluta, án þess að ég dragi nokkuð úr þörfum annarra á bættum vegum og efldum samgöngum.

Ég tel málið varða mikinn fjölda fólks á Vestfjörðum, þ.e.a.s. íbúa kauptúnanna í Vesturlsafjarðarsýslu og íbúa sveitanna í Önundarfirði og Dýrafirði, og ég tel málið varða íbúa Ísafjarðarkaupstaðar á sama hátt og íbúa kauptúnanna við Ísafjarðardjúp, Bolungarvíkur, Hnífsdals og Súðavíkur, og allra helzt fólkið í sveitunum við Ísafjarðardjúp. Eftir að vegasamband hefur opnazt inn um Djúpið frá Ísafirði, væru þessar sveitabyggðir orðnar tengdar fjölbýlinu við Ísafjarðardjúp, en það eru vitanlega beztu markaðarnir fyrir landbúnaðarvöru og þörf kaupstaðabúanna og kauptúnanna bezt tryggð með akvegasambandi, sem nothæft væri allt árið, en ekki lokað 7–8 mánuði árs, eins og nú á sér stað.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vil vænta þess, að hv. alþm. hafi skilning á, að hér er um nauðsynjamál að ræða fyrir mikinn hluta af íbúum Vestfjarða. Og það er hér bent á leið til úrbóta, en vart verður önnur fundin, til þess að leysa þau vandamál, sem þar er um að ræða. Þar byggi ég ekki á eigin skoðun, heldur á áliti sérfræðinga, sem ég hef rætt þetta mál við.

Það gæti verið hæfilegt, að þessu máli væri vísað til samgmn., en ég tel samt réttara vegna fjárhagshliðarinnar á málinu, — þetta er mál, sem er upp á nokkrar millj., — að málinu væri vísað til hv. fjhn., og mundi þá láta hæstv. forseta um það, hvort hann teldi nokkuð fráleitt að vísa því til fjhn., ef hann kynni frekar að vera þeirrar skoðunar en það ætti heima í samgmn. Ég skal ekki deila um það. Ég læt svo máli mínu lokið og vil vænta þess, þó að nú sé mjög áliðið þings, að þetta mál, ekkert síður en ýmis stórmál, sem hæstv. ríkisstj. er að leggja fyrir þingið um þessar mundir og ætlar að fá afgreidd, gæti flotið þar með og yrði ekki borið við tímaleysi í sambandi við það, en hin væru látin strunsa í gegnum þingið.