22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

210. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. var af veikum mætti, að því er mér fannst, að reyna að sannfæra þingheim um, að sú leið, sem hann hefur valið í þessu máli, væri sú rétta og fyrir henni væri fjöldi fordæma hér á hv. Alþingi. Um síðara atriðið skal ég ekki segja neitt, ég þekki ekki svo til þingsögunnar lengur en 4 seinustu árin, en ég vil benda á, að sveitarstjórnarlögin frá 1961 gera alveg ákveðið ráð fyrir fastákveðinni leið í þessum efnum. Þau gera alls ekki ráð fyrir, að mál sem þetta um skiptingu hreppa eigi að afgreiðast á Alþingi. Þau gera ráð fyrir, að það sé framkvæmdavaldshafanna að skipta hreppsfélagi, ef óskir koma fram um það frá viðkomandi sveitarstjórn. Og fram hjá þeirri staðreynd kemst hæstv. ráðh. ekki, og ég verð að segja eins og er, að hann fer algerlega ranga leið, þegar hann ætlar að taka málefni sem þetta upp á hv. Alþingi.

Um rökstuðning hæstv. ráðh. fyrir nauðsyn þess að skipta þessu hreppsfélagi get ég verið fáorður. Rökin er að finna í grg. Ég hygg, að enginn hv. alþm., sem les grg., geti talið þau rök mikilvæg. Það dettur engum í hug, að þeir íbúar Kjalarneshrepps, sem búa austan Kleifa, geti ekki haldið áfram að sækja skemmtanir inn að Hlégarði í Mosfellssveit, enda þótt Kjalarneshreppur sé óklofinn. Og Kjalarneshreppsbúar, sem búa austan Kleifa og hafa notið ýmissar þjónustu í Mosfellshreppi, geta vafalaust notið hennar áfram, eins og þeir hafa gert hingað til. Það þarf enga skiptingu á hreppnum til þess að tryggja slíkt. Þetta tal um, að landfræðilega sé óeðlilegt, að Kjalarneshreppur, eins og hann er nú, sé áframhaldandi samfelld heild, er fjarstæða.

Nei, rökin fyrir nauðsyn þessa máls eru vægast sagt léttvæg. Málatilbúnaðurinn er að mínu viti mjög óviðunandi, og leiðin, sem valin er í þessu máli, er ekki í samræmi við það, sem sveitarstjórnarlög ákveða.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það mætti ekki láta hreppsbúa í Kjalarneshreppi austan Kleifa, þótt þeir væru aðeins 1/3 hluti allra hreppsbúa, gjalda þess, að þeir væru minni hl. og þeir gætu ekki fengið hreppsfélaginu skipt þess vegna. En ef á að fara að taka þá reglu upp að láta minni hl., hvort sem er í hreppsfélagi eða í stærri bæjarfélögum eða á hv. Alþingi, ráða gangi mála, þá ber nokkuð nýtt við. Það er ekki að mínu viti nema um 1/4 hluti íbúa Kjalarneshrepps, sem býr austan Kleifa, og þar af eru 2 ríkisjarðir, eins og hv. 3. þm. Reykn. upplýsti hér áðan, Mógilsá og Kollafjörður, og ég þykist geta fullyrt það, að það hafa engar óskir komið frá eigendum þeirra jarða um þessa skiptingu.

Mitt álit hefur því ekkert breytzt við ræðu hæstv. ráðh. Ég held enn þá, að engin nauður reki til þess að skipta Kjalarneshreppi. Og þó að ég hafi á vissan hátt samúð með sjónarmiði minni hl. í sambandi við staðsetningu félagsheimilisins, þá dettur mér ekki í hug, að slíkt eigi eða geti leitt nokkurn mann til þess að viðurkenna það sem reglu, að minni hl. í einu sveitarfélagi geti risið upp hvenær sem er og heimtað, að hv. Alþingi skipti viðkomandi hreppsfélagi, af því að hann hefur orðið í minni hl. út af einhverju ákveðnu máli heima í héraði.

Ég undirstrika það að endingu, að ef á að fara þá leið, þá er í hreint óefni komið, og þá veit ég ekki, hvernig við ætlum að draga mörkin eða hvernig við ætlum að fóta okkur í framtíðinni.