01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

216. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það frv., sem við leggjum hér fyrir, hv. 4. landsk. (HV) og ég, til stjórnarskipunarlaga um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, var upphaflega ákveðið að undirbúa á þingflokksfundi Alþb. 16. nóv. í haust, og hefur síðan verið unnið að því að reyna að útbúa þetta frv. þannig, að tryggður væri sá tilgangur með því, sem ég nú skal reyna að gera grein fyrir.

Til þess að gera sér fullkomlega ljóst, af hverju það er nauðsynlegt að gera breyt. á 68. gr. stjórnarskrárinnar, er nauðsynlegt að athuga það ásband, sem við nú búum við hvað þessi mál snertir, og hvernig viðhorfið hér á Íslandi er orðið gerbreytt frá þeim tíma, er lögin um eignarrétt og afnotarétt fasteigna voru sett 1919. Eins og nú er ástatt á Íslandi, eru þeir menn, sem hafa rétt til þess að eiga hér fasteignir, eða þeir aðilar fyrir utan Íslendinga sjálfa, það eru þeir útlendingar, sem eru búsettir á Íslandi í fyrsta lagi, það eru í öðru lagi hlutafélög, sem útlendingar geta átt allt að helming í og útlendingar, sem búsettir eru hér á Íslandi, geta með þeim skapað meiri hluta i, það eru í þriðja lagi erlend félög, svo framarlega sem þau fá leyfi til þess af hálfu ríkisstj., eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. l., og enn fremur er með milliríkjasamningum, sem ríkisstj. gerir, hægt að opna þetta alveg eins og vill.

Í 11. gr. núgildandi laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Lög þessi taka eigi til“ — svo kemur fyrst umboðsmanna ríkisins og síðar annarra ríkja, en seinast: „þegna annarra ríkja, að því leyti sem það kynni að koma í bága við milliríkjasamninga.“ Þetta mun að vísu á sínum tíma hafa verið sett inn með tilliti til Dana, sem höfðu þá sérstök réttindi samkv. sambandslögunum. En þetta ákvæði stendur enn þá í l., þannig að svo framarlega sem ein ríkisstj. nú gerir milliríkjasamninga, sem opna möguleika fyrir borgara þess lands, sem samningurinn er gerður við, að geta notið sömu réttinda og Íslendingar viðvíkjandi því að eiga fasteignir hér á landi, þá er þar með slíkur milliríkjasamningur af sjálfu sér búinn að heimila borgurum viðkomandi lands að hafa sama rétt og Íslendingar hafa. Þegar þessi lög voru sett, munu menn almennt ekki hafa gengið út frá því, að hætta væri á svona löguðu. Milliríkjasamningurinn við Dani þá þótti hvað snerti jafnrétti hér á Íslandi vera nauðungarsamningur, og það var mikil andúð gegn honum og gerðar vissar ráðstafanir í okkar kosningalögum og öðru slíku og stjórnarskrá til þess að koma í veg fyrir, að af því hlytust slæmar afleiðingar. Síðan hann féll úr gildi, hefur þetta staðið, en hins vegar hefur almenningsálit verið svo sterkt í þessum efnum, að það hefur engin ríkisstj. enn þá beitt þessum aðferðum.

Ég vil þess vegna í fyrsta lagi leggja áherzlu á, að lögin frá 1919, eins og þau eru nú, opna, svo framarlega sem íslenzk ríkisstj. vill, mjög mikla möguleika fyrir útiendinga til þess að öðlast hér alls konar aðstöðu um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og náttúruauðlinda. Og það, sem hefur breytzt frá því, sem var fyrir 40 árum, er, eins og ég mun síðar koma nánar að, að það er ekki lengur hægt að vera jafnöruggur um vilja og afstöðu ríkisstj. í þessum efnum og Íslendingar voru í þann tíð. Samt sem áður hefur það nú orðið svo, að hér á Íslandi er ekkert útlent auðmagn að heita má, þrátt fyrir það þó að þetta hafi staðið opið nú um nokkurt skeið eftir þessum lögum. Og hvernig stendur á því, að hér skuli ekki raunverulega vera verulegt útlent auðmagn? Fyrir því hafa verið þennan tíma fjórar ástæður: Í fyrsta lagi: Skattakerfið á Íslandi hefur verið þannig, að það hefur verið frekar erfitt fyrir auðfélög yfirleitt, íslenzk sem erlend, og það hefur þess vegna þótt alveg sérstaklega óárennilegt allan þennan tíma að heita má fyrir erlend auðfélög að fara að leggja sitt fé í hlutafélög hér á Íslandi vegna þess, hve skattalöggjöfin hér væri harðvitug. í öðru lagi: Allan þennan tíma hafa gjaldeyrisyfirfærslur eða a.m.k. frá 1930 verið ákaflega óvissar, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið. Þær hafa yfirleitt verið ákaflega erfiðar allan þennan tíma, þannig að útlendingar, sem hefðu lagt fé sitt í fyrirtæki hér á Íslandi, hefðu verið mjög óvissir um það, hvort þeir fengju slíkt yfirfært í gjaldeyri síns lands, og enn fremur hefðu þeir átt það á hættu vegna sífelldrar verðbólgu allan þennan tíma, að þeirra fé mundi missa gildi sitt, svo framarlega sem þeir ættu að geyma það í peningum a.m.k. og gætu ekki fest það í fasteignum. Í þriðja lagi hefur pólitíska ástandið á Íslandi allan þennan tíma verið álitið mjög ótryggt, eins og auðmenn erlendis venjulega orða það, m.ö.o. eins og auðmennirnir mundu segja: Kommúnisminn hefur verið mjög sterkur hér á Íslandi og erlent auðvald hefur ekki þótzt vera öruggt um sína fjárfestingu hér. En í fjórða lagi hefur verið rótgróin andúð hjá þjóðinni yfirleitt og raunar lengst af hjá ríkisstj. líka gegn því, að erlent auðvald eignaðist ítök hér á Íslandi.

Nú er þetta breytt, a.m.k. margir þættir í þessu, og sumar af þessum ástæðum, sem hafa hrætt erlent auðvald frá fram að þessu, brott fallnar.

Í fyrsta lagi: Skattakerfið, eins og það er nú, hefur verið lagað þannig að hagsmunum hins íslenzka auðvalds og þar með raunverulega um leið hagsmunum erlends auðvalds, svo framarlega sem það kynni að vilja festa sitt fé hér, að skattakerfið er nú allmiklu rýmra. Það er í raun og veru svo, að það nálgast allt að því skattfrelsi fyrir auðfélög, ef þau vildu festa sitt fé hérna núna, og það, sem var um tíma mjög hættulegt fyrir auðfélögin í þessum efnum, hið ótakmarkaða vald íslenzkra sveitarfélaga til þess að leggja á útsvör, er að heita má afnumið. Ríkið er búið að svipta raunverulega þessi sveitarfélög því valdi, þannig að það mikla og harðvítuga vald, sem sveitarfélögin höfðu frá gömlum tíma um útsvarsálagningu, og sú hætta, sem í því fólst fyrir erlend auðfélög, er brott numin.

Í öðru lagi, hvað gjaldeyrismálin snertir, er búið að hafa alveg hausavíxl á. Þar sem það var hingað til mjög erfitt fyrir auðfélög að festa sitt fé hér á Íslandi vegna aðstöðunnar með gjaldeyrinn, bæði yfirfærslu og óvissu, þá er það orðið þveröfugt nú. Undanfarna áratugi hefur það alltaf þótt vera svo, að íslenzk króna hafi verið of hátt skráð. Ameríkanarnir, þegar þeir hafa verið að gagnrýna okkur út af fjármálaástandinu, þá hafa þeir alltaf sagt, að dollarinn væri of lágt skráður hér á Íslandi. Og meðan íslenzk króna er of hátt skráð að áliti erlends auðvalds, er náttúrlega ekki girnilegt fyrir það sama erlenda auðvald að fara að kaupa mikið af þeim íslenzku krónum, sem það álitur vera of dýrar fyrir sig. Nú hefur þessu verið gerbreytt þannig, að íslenzk króna er skráð mun lægra en hennar sannvirði er, ekki aðeins gagnvart dollar, því að allar aðrar myntir Evrópu líka, jafnt pund, dönsk króna sem aðrar, eru raunverulega skráðar algerlega rangt gagnvart dollarnum. Dollarinn er helmingi hærri t.d. gagnvart danskri krónu en hann ætti í raun og veru að vera samkv. kaupgildi. Það er raunverulega aðferð fyrir þá, sem dalina hafa, að kaupa upp eignir í Evrópu fyrir lítið gjald, fyrir hálfvirði á móts við það, sem mundi vera heima hjá þeim. En íslenzka krónan hefur þar að auki raunverulega nú verið skráð fyrir neðan það jafngildi, sem t.d. dönsk króna eða pund hefur, þannig að nú er það frá sjónarmiði erlends auðvalds eftirsóknarvert að kaupa íslenzkar krónur og það, sem fæst fyrir íslenzkar krónur. Ísland er orðið með ódýrustu löndum álfunnar. Það er komið í sama flokk og Spánn hvað það snertir. Jafnt fyrir erlenda ferðamenn sem erlenda hugsanlega fjárfestingaraðila er Ísland nú orðið með ódýrustu löndum, þannig að fyrir ranga skráningu á ísl. krónu er nú eftirsóknarvert fyrir útlent auðvald að festa sitt fé hér á Íslandi. Það þýðir m.ö.o. með þeirri aðstöðu, sem hér er smátt og smátt að skapast, að verið væri bókstaflega, ef ekki yrði rönd þar við reist, að gefa útlendingum Ísland, það væri verið að bjóða þeim upp á það að kaupa upp hér náttúruauðæfi og fasteignir, að svo miklu leyti sem lög eða stjórnarskrá heimilaði það, að kaupa það ódýrt. Þetta er hvað snertir þá breytingu, sem orðið hefur á skattakerfinu og gjaldeyriskerfinu, og hvort tveggja hjálpar til þess að ryðja erlendu auðvaldi braut hér á Íslandi eða gera Ísland eftirsóknarverðara fyrir það.

Hvað snertir þriðju ástæðuna, sem ég nefndi áðan, þá er að vísu það ástand minna breytt. Pólitíska ástandið á Íslandi er enn mjög ótryggt frá sjónarmiði erlends auðvalds, og ég býst við, að þar komi ekki aðeins til, að verkalýðshreyfingin hér á Íslandi þyki sterk og róttæk, heldur líka ef þeir útlendu fjárfestingarmenn trúa því, sem aðalblöð stærstu borgaraflokkanna hér á Íslandi, Framsfl. og Sjálfstfl., segja hvert um annað, þá er ástandið siður en svo girnilegt hvað slíkt snertir samkv. frásögnum Morgunblaðsins fyrir þá útlendu auðmenn, sem kynnu að trúa því, að Framsókn sé alveg í greipum kommúnista. Og samkv. frásögn Tímans er Sjálfstfl. í mjög nánu bandalagi við kommúnista. Ef útlent auðvald fer eftir þeim blöðum, sem það ætti bezt að geta treyst hér af sínum Atlantshafsbandalagsblöðum á Íslandi, þá er það náttúrlega ekki rétt efnilegt. En hins vegar vitum við, að það eru ýmsar tilhneigingar uppi til þess að gera ýmsar ráðstafanir með lögum á Atþingi til þess að veikja verkalýðshreyfinguna og svipta hana því frelsi, sem hún hefur, og þar með að miklu leyti þeim styrkleika, sem hún hefur haft, þannig að líka hvað þetta atriði snertir væri náttúrlega ekki óhugsandi, að breyting gæti orðið á. En jafnvel þrátt fyrir þetta hlutverk, sem verkalýðshreyfingin hefur, og þrátt fyrir allar þær grýlur, sem blöð Framsfl. og Sjálfstfl. mála upp fyrir útlendu auðvaldi og kunna eitthvað að hræða það enn þá, ef það trúir þeim, þá er hitt þó því miður orðið staðreynd, að kaupgjald á Íslandi er orðið með því lægsta í Evrópu frá sjónarmiði t.d. amerískra fjárfestingarmanna.

Um fjórða atriðið hefur e.t.v. ein stærsta breytingin orðið á. Það þótti fyrr á tímum alveg nóg, ef ríkisstj. þyrfti að veita leyfi útlendum auðmönnum hér á Íslandi, þá þóttist þjóðin viss um, að það yrði ekki gert. Aftur á móti er svo komið, að hjá þeim ríkisstj., sem verið hafa nú undanfarið og það í vaxandi mæli, þá virðist vera áhugi fyrir að hleypa erlendu auðvaldi inn í landið, öfugt við það, sem var 1918. Og nú hefur áróðurinn fyrir þessu, ekki hvað sízt í blöðum Sjálfstfl., farið alveg gífurlega vaxandi og virðist raunar eiga ítök viðar. Að mínu áliti er að vísu þjóðin enn þá mjög hrædd við að hleypa útlendu auðvaldi inn, og ég held, að það mundi verða mjög erfitt að fá hana inn á slíkt, nema þá kannske ef skipulagt yrði mjög mikið atvinnuleysi hér, þá kynni hún í neyð sinni að vilja gina við einhverju slíku. En a.m.k. á meðan nægileg atvinna helzt, yrði ákaflega erfitt að fá þjóðina inn á það að hleypa erlendu auðvaldi inn í landið. En hins vegar hefur sú ríkisstj., sem að völdum situr, eins og lögum nú er háttað, svo mikil völd í því efni, að ef hún vilt slíkt, getur hún gert það. Þess vegna er nú hætta á ferðum, sem við þurfum að horfast í augu við. Þessari hættu hefur sérstaklega brugðið upp í sambandi við Efnahagsbandalag Evrópu og umr. um það, og skal ég koma að því síðar, en annars gera nokkra grein fyrir þessari hættu og minna á jafnvel, hvernig henni hefur verið mætt áður.

Það er rétt á þessu stigi, sem við stöndum nú, að minna á, að það brá fyrir þessari sömu hættu nokkru eftir 1918, sem sé einmitt í sambandi við það jafnrétti, sem Danir fengu þá á Íslandi til fjárfestingar, í sambandi við eina af þeim íslenzku auðlindum, sem einna dýrmætust er, sem sé í sambandi við fossana, og þá var svo komið eftir 1920, að meginið af fossunum var þá komið í útlenda eign, og það var stórhætta á, að Íslendingar misstu yfirráðin yfir sínum fossum alveg í hendur útlendinga. Jón Þorláksson, formaður Sjálfstæðisfl., gaf 1923 lýsingu á, hvernig þá væri komið, í ræðu, sem hann hélt hér í Nd. 3. maí. Þá sagði hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú var svo ástatt, að þegar fossanefndin sat að störfum, voru svo að segja öll stærstu og hagkvæmustu fallvötn landsins komin í hendur útlendinga, nema hluti landssjóðs og Reykjavíkurbæjar í vatnsréttindum Sogsins. Ýmist voru vötnin seld eða leigð útlendum félögum til lengri eða skemmri tíma. Af þessum ástæðum tókum við, fossanefndin, til athugunar, hvort fara skyldi að eins og Norðmenn 1880 og viðurkenna eignarréttinn og leggja síðan strangar sérleyfishömlur á verzlun þeirra. En okkur þótti of seint að fara þá leið, við vorum þegar búnir að selja vatnsréttindin í hendur útlendinga.“

Þetta var lýsingin, sem Jón Þorláksson gaf þá á, hvernig komið var, og lýsti því þá yfir, hvaða hætta væri á ferðum. Jón Þorláksson var þá einn af fremstu forustumönnum íslenzkrar borgarastéttar. Íslenzk borgarastétt var þá enn ung, og áhrifin frá aldalangri sjálfstæðisbaráttu okkar voru þá mjög sterk, þannig að það þótti sjálfsagt — og borgarastéttinni þótti það ekki síður en öðrum, að Íslendingar ættu sjálfir að sitja að þeim auðlindum, sem þeir ættu. Þegar Jón Þorláksson var að lýsa hættunum, sem fólust í því frv., sem var lagt fram einmitt um fossamálin, vitnaði hann í þann mann, sem hafði verið með honum í fossanefndinni, staðið með honum í þeim hluta hennar, sem stóð á móti útlendingunum, sem var Guðmundur Björnsson landlæknir, og vitnaði í þessi orð eftir honum í þessari sömu ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„En nú vill hv. meiri hl. fara þessa leið og gefa útiendingunum allan þann framtíðargróða, sem við getum haft af notkun fallvatnanna. Ég er ekki fyrir að nota stór orð, en get þó ekki látið hjá líða að flytja þessari hv. d. þá orðsendingu frá fyrrv. forseta Ed. og fyrrv. meðnm. mínum, Guðmundi Björnssyni landlækni, eftir beinum tilmælum hans, að hann geti ekki skoðað þetta öðruvísi en föðurlandssvik.“

Svo segir hann á eftir:

„Við höfðum og höfum enn trú á því, að sá tími komi, að unnt verði að ráða fram úr þeirri fjárhagslegu þraut að nota vatnsorkuna fyrir ljósgjafa og hitagjafa handa landsmönnum. Og við förum fram á það, að löggjafarvaldið sýni þá framsýni að taka tillit til nauðsynjarinnar á þessum framkvæmdum og leggja ekki stein í götu þeirra, og við förum fram á það, að þeir jarðeigendur, sem kynnu að hafa gert sér von um að geta selt einhver vatnsréttindi, sleppi þeim vonum vegna nauðsynjar eftirkomendanna.“

Þannig voru áskoranirnar frá þeim manni, sem þá var einn af helztu forustumönnum borgarastéttarinnar á Íslandi, um að varðveita vald Íslendinga sjálfra yfir þessum auðlindum landsins, fossunum, til þess að bjarga þessu handa eftirkomendunum og selja það ekki á þessu stigi í hendur útlendu valdi. Það munaði litlu þá, að þetta yrði gert. Þeir voru í minni hl., sem börðust þá harðast, Jón Þorláksson og Bjarni frá Vogi, nema um eina brtt., sem þeir fengu samþykkta, en þessi brtt. var um það að tryggja ríkinu virkjunarvaldið. Það fékkst í gegn, að ríkið skyldi vera sá aðili, sem eitt saman mætti virkja fossana, en það fékkst ekki í gegn að svipta þá yfirráðunum yfir fossunum, og á þessu höfum við flotið síðan. Það bjargaðist, að það var eyðilagður eignarréttur útlenda auðvaldsins yfir ánum, sem útlenda auðvaldið var búið að kaupa á Íslandi, vegna þess að það fékk ekki leyfi til þess að virkja þær. Það var að vísu þá aðeins sett í hendur ríkisstj., það þótti líka nóg, engin ríkisstj. mundi gera þetta. Og eins og margir hv. núv. þm. muna eftir, var það svo 1948, að þá keyptum við Þjórsá af útlendingum, af Dönum, fyrir 3 millj. kr. Hún var búin að vera þeim eyðilögð allan þennan tíma, og það var ekkert fyrir okkur að snara út 3 millj. kr. í að borga þeim fyrir vatnsréttindin í Þjórsá. En svona var þetta allt saman. Svona skall hurð nærri hælum, strax eftir að við fengum fullveldið, að útlent auðvald gæti hremmt eina af dýrustu auðlindunum, sem við áttum þá. Og forustumenn íslenzkrar borgarastéttar, eins og Jón Þorláksson, voru óhræddir við að gripa bókstaflega til þjóðnýtingar, til þess að ríkið ætti þe3si vatnsföll, til þess að hindra útlent auðvald í því að ráða þeim.

Bjarni frá Vogi var þá e.t.v. einna harðorðastur um þá fulltrúa útlendinganna, sem töldu það skerða eignarrétt einstaklingsins að ætla að svipta þá, sem áttu jarðirnar að fossunum, réttinum til þess að selja þá, og sagði svo, þegar hann var að mæla 18. sept. 1919 hér á Alþingi fyrir sérleyfislögum, em þá voru lögð fram og fengust ekki í gegn, þá sagði hann þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Og samþykki ekki þetta þing sérleyfislög og setji þannig skorður við frekara braski, þá mun eftir nokkurn tíma ekki eitt einasta vatn vera óselt, og mun það, sem selt er, ekki aðeins verða metið á 12 millj. kr., heldur 100 millj. kr.“ Það var öðruvísi milljónin þá en nú. „Þessar vífilengjur, að sérleyfislög eigi ekki að samþykkja nú, eru því til þess eins fram bornar, að fossafélögin geti grætt sem mest á bralli því, sem þau hafa haft hér í frammi, með því að senda hingað leynilega sendimenn til þess að ginna þessa hluti út úr fáfróðum mönnum fyrir smámuni. Það er því til góðs þjónum þessara félaga, sem eiga hér bæði heil blöð og venzlamenn og nú er að sjá að eigi suma þm. líka. Þetta er það, sem orsakar allt hatrið og allar skammirnar, sem dynja á okkur, meiri hl. fossanefndar, í blöðum þessara þjóna erlendra auðkýfinga.“

Þetta voru orð Bjarna frá Vogi þennan dag. Við sjáum þess vegna, að í þeirri baráttu, sem háð var 1919–1923, tókst að verjast því, að Íslendingar misstu eignarréttinn og valdið yfir fossunum í hendur útlends auðvalds. Þá þótti nóg að gefa ríkisstj. það vald. Það þurfti leyfi hennar til þess, að útlent auðvald fengi þessa aðstöðu. Það datt engum öðrum í hug þá, að það væri alltaf öruggt, að ríkisstj. mundi standa á verði um hag landsmanna.

Ég rifja þetta upp hér aðeins vegna þess, að nú stöndum við ekki aðeins í þeirri hættu að geta misst það, sem jafngildir yfirráðunum og notkunarréttinum yfir fossunum. Nú stöndum við í þeirri hættu að geta misst yfirráðin yfir fiskimiðunum, fossunum og jörðinni líka. Hættan, sem vofði yfir okkur 1919 og þar á eftir, er komin aftur margfalt meiri. Við skulum aðeins rifja upp í því sambandi, hvað það er, sem Efnahagsbandalag Evrópu, sú mikla auðhringasamsteypa, sækist eftir hér á Íslandi, og hvað það er, sem auðvald hvaða annarrar þjóðar sem er, sem á einn eða annan hátt yrði hleypt hér inn í landið, þótt það væri bara með einföldum milliríkjasamningi, — hvað það er, sem það getur náð tökum á hérna, og hvað það er, sem það sækist eftir. Það er fyrst og fremst þrennt:

Það eru í fyrsta lagi fiskimiðin sjálf. Hér hefur verið rætt allmikið um þau oft áður og þá hættu, sem vofði yfir, hvort útlendingar fengju rétt til þess að veiða í okkar landhelgi, og annað slíkt. Ég vil taka það fram, að jafnvel þótt við hindruðum það að öllu leyti, settum þar rammar skorður, bæði í milliríkjasamningum, stjórnarskrá og öðru slíku, að útlendingar gætu ekki fengið að vera hér í landhelgi, þá geta þeir náð sömu aðstöðu með því að eiga hér fiskiðjuver. Ef útlendingar, sem eru búsettir hér á Íslandi, eins og hægt er meira að segja eftir lögum frá 1919 enn í dag, — ef þeir og útlend félög í sambandi við þá, sem birgja þá að fé, geta eignað sér fiskiðjuverin eða réttara sagt komið sér upp almennilegum fiskiðjuverum, verulega vel reknum, þá ráða slík vel rekin fiskiðjuver, sem standa í sambandi við stóra, volduga hringa erlendis, sem ráða að miklu leyti markaðnum þar, — þá ráða slík fiskiðjuver raunverulega yfir flotanum. Flotinn er háður þeim. Ef erlendum aðilum að viðbættum útlendum mönnum búsettum á Íslandi væri látið haldast uppi að hafa áfram þann rétt, sem þeir hafa núna, eftir að það er komið í ljós, að áhugi er orðinn fyrir því og jafnvel vilji ríkisstj. að hleypa þeim hér inn, þá vofir hættan yfir. Nú veit ég, að sumir mundu segja, að þessi hætta vofi raunverulega alltaf yfir okkur á annan máta, sem sé þann máta, að einhverjir Íslendingar geti gerzt leppar fyrir það útienda auðvald. Það er rétt á vissan máta, að sú hætta er alltaf fyrir hendi, en hún er ekki nærri því eins slæm og hin, að útlendir aðilar beinlínis geti átt fiskiðjuverin. Ef íslenzkur maður á fiskiðjuver, þó að hann sé á einhvern máta leppur fyrir útlent auðvald, þá hefur það útlenda auðvald, sem hefur léð honum sitt fé, enga tryggingu og ekkert öryggi gagnvart íslenzku ríkisvaldi. Eign íslenzks ríkisborgara, sem á slíkt fiskiðjuver samkv. lögum, getur t.d. íslenzk ríkisstj. tekið eignarnámi samkv. okkar stjórnarskrá, hvenær sem hún álítur þess þörf, og út af því hljótast engin vandræði. Það ber aðeins að greiða honum þær skaðabætur, sem honum ber samkv. íslenzkri stjórnarskrá. Ef það er hins vegar opinberlega útlendingur, sem á þetta fiskiðjuver eða á verulegra hagsmuna að gæta þar, þá hefur sá útlendingur aðstöðu til þess að láta sína ríkisstj. koma í spilið, þegar farið er máske að gera ráðstafanir til þess að þjóðnýta hans eign. Og við höfum einmitt kynnzt því af mörgu, sem gerzt hefur í heiminum undanfarið, hvað harðvítugir árekstrar við erlent vald geta hlotizt af því, þegar þjóðir, sem eitt sinn voru nýlenduþjóðir, eru að eignast aftur sitt eigið land og þau mannvirki, sem í því eru. Þó að útlent auðvald kynni að vilja leppa hér á Íslandi svo og svo mikið af eignum, þá á það allt á hættu, þannig að það mætti þá vera mjög öruggt um sína aðstöðu, ef það færi inn á slíkt. Hins vegar, ef útlendir aðilar geta í félagi við útiendinga t.d., sem búsettir eru á Íslandi, eignazt stór fiskiðjuver, getur erlent auðvald drottnað yfir íslenzkum sjávarútvegi. Það eru fiskiðjuverin, sem hafa tökin á bátunum, og þar að auki hefur það sýnt sig, að það er vaxandi tilhneiging hjá íslenzku ríkisvaldi að beita ríkisvaldinu gegn framleiðendum fisksins, gegn sjómönnunum og útgerðarmönnunum, og skammta þeim með gerðardómi ákveðið verð fyrir fiskinn og tryggja þannig hagsmuni þeirra, sem eiga fiskiðjuverin.

Ef það gerðist svo á sama tíma, að t.d. viðskiptin, sem Ísland hefur haft meira eða minna undanfarna áratugi til sósíalistísku landanna, væru brotin niður, þá yrði þessi hætta enn þá meiri. Viðskipti þar austur á bóginn hafa verið íslenzkum sjávarútvegi mjög góður bakhjallur í hans sjálfstæðisbaráttu, ef ég mætti svo að orði komast. Það hefur verið miklu hægara fyrir okkur fjárhagslega að heyja þá hörðu baráttu, sem við höfum háð t.d. á mörkuðum Bandaríkjanna til þess að reyna að komast þar inn, meðan við gátum selt allt að af freðfiskinum til sósíalistísku ríkjanna og fengum borgað út í hönd. en gátum svo notað það fé til þess að festa það í fyrirtækjum vestanhafs, þannig að hvenær sem t.d. viðskiptin austur á bóginn yrðu brotin niður, yrði aðstaða íslenzks sjávarútvegs gagnvart slíku erlendu auðvaldi, sem farið væri að teygja sig hér inn í sjávarútveginn, miklu, miklu lakari. Það hefur aukið á okkar baráttumöguleika fyrir mörkuðum í þeim kapítalistísku löndum, að við höfum haft þennan allstóra og örugga markað í þeim sósíalistísku löndum.

Við skulum muna það, að víðast hvar erlendis er ástandið svo, að fiskimenn eru fátækir menn, en það eru voldugir hringar — lítum bara til Englands — sem ráða hins vegar yfir sjálfum fiskiðjuverunum, fisksölunni og úrvinnslunni. Og það mundi skjótt skapast það ástand hér líka, svo framarlega sem útlent auðvald gæti komizt hér inn. Því er það, að eins og okkar lög eru í dag, er hægt hvenær sem er að hleypa útlendum aðilum og þó sérstaklega útlendingum búsettum á Íslandi inn í íslenzkan sjávarútveg, og ef útlenda auðvaldið þyrði að treysta að öðru leyti á það pólitíska ástand á Íslandi, þá gæti það þess vegna farið að festa fé hér í stórum stíl. Þess vegna, ef við viljum girða fyrir, að þessar lagasmugur séu notaðar, þá þarf að gera þær breytingar, sem í þessu frv. felast, á stjórnarskránni, sem ég mun síðar koma að. Fiskveiðarnar og fiskimiðin og aðgangurinn að þeim er fyrsta dýrmæta auðlindin, sem erlenda auðvaldið mundi sælast eftir, önnur eru fossarnir. Ég hef þegar rakið tilraunina fyrir 40 árum fyrir útlenda auðvaldið að eignast þá. Það er ekki nauðsynlegt fyrir útlenda auðvaldið að eignast fossana í dag til þess að njóta þeirra. Það er nóg fyrir útlent auðvald í dag að fá fossana leigða, t.d. til 25 ára, til þess að hafa öll not af þeim, sem það útlenda auðvald mundi girnast. Hér á Íslandi er í okkar fossum um 4 millj. kw. ónotað afl, sem er að verða með bezta og ódýrasta afli í heimi. 25 ára leigutími á rafmagni úr slíkum fossum þýðir raunverulega sama sem ófyrirsjáanlega framtíð, miðað við það, hve ört allt þróast nú. Ef útlendingar fengju nú aðstöðu til þess að reisa iðjuver við íslenzka fossa og fengju samninga, um leið og þeir t.d. lánuðu Íslendingum fé til þess að virkja fossana, fengju samninga um rafmagn úr þeim orkuverum til 25 ára, þá væru þeir þar með búnir að fá það, sem þeir þyrftu. Og undanfarin ár hefur beinlínis verið eftir því sótzt og það ekki bara af fulltrúum núv. ríkisstj., heldur líka annarra ríkisstj., að athuga, hvort ekki væri hægt að ná samningum við ameríska alúminíumauðhringa um að veita slík lán til virkjunar íslenzkra fossa og koma upp iðjuverum hér á Íslandi. Sú aðferð mundi nú vera útlendu auðvaldi það sama og eign fossanna var Titan og öðrum slíkum auðfélögum 1919–1923, þegar þeir voru að berjast fyrir því að ná yfirráðunum yfir þeim, þannig að líka eftir núverandi lögum, svo framarlega sem ein ríkisstj. vill það viðhafa og viðkomandi erlend auðfélög þyrðu það vegna pólitísks ástands á Íslandi, þá vofir þessi hætta yfir, að leigurétturinn á fossunum yrði þannig seldur í hendur útlendinga.

Í þriðja lagi, það, sem útlent auðvald mundi girnast hérna á Íslandi, er íslenzk jörð eða íslenzkt land. Ég býst við, að landið hér á Íslandi sé nú eitt ódýrasta land Evrópu. Í allri Vestur-Evrópu er landið sjálft ákaflega dýrt. Í þessum þéttbýlu löndum er sjálf jörðin jafndýr oft eins og mikill hluti þeirra fasteigna, sem á jörðinni eru reistar. Hér á Íslandi, ekki sízt hér á Suðurlandsundirlendi, er ágætis ónotað landbúnaðarland, sem hefur það fram yfir flesta landbúnaðarjörð annars staðar í Evrópu, að það er hægt að hita stóran hluta af því upp með hveraorku og koma hér upp samfelldum breiðum, svo að skiptir hundruðum hektara, af gróðurhúsum, þar sem hægt væri að framleiða allt mögulegt, sem landbúnaður, sem rekinn væri í stórum stíl, virkilega girntist. Það er enginn efi á því, að það er nú þegar orðið eftirsóknarvert fyrir útlendinga að eignast t.d. jarðir bæði í Árnessýslu og Rangárvallasýslu, og það eru þegar að skapast möguleikar með búsetu og öðru slíku á Íslandi fyrir útlent auðvald til þess að sölsa slíkt undir sig. Ég hef að vísu ekki orðið var við, að okkar íslenzku burgeisar reyni slíkt í stórum stíl. Dálítið ber á því, að þeir kaupi upp jarðir. Virðist manni það þó vera meira vegna sportsins en framkvæmdanna. Það er eins og það sé laxveiðin, sem skapar í þeirra augum meiri auð í jörðunum heldur en það, sem jörðin sjálf gæti gefið af sér. En ástandið er þannig í dag, að fyrir nokkra milljónatugi er hægt að kaupa upp alla Árnes- og Rangárvallasýslu. Og fyrir útlent auðvald verður það leikur að leggja fé í slíkt, ef það hefur aðstöðu til þess og ef sú leið er opnuð. Það er hverfandi lítill vandi, eins og lög eru á Íslandi núna, fyrir eina ríkisstj., sem vildi slíkt gera, að hleypa útlendingum í það. Það hefur meira að segja verið svo með þessa hluti alla, að sjálf hitaorkan í jörðinni hefur enn þá ekki fengizt hér á Alþingi gerð þannig að þjóðareign, að ekki væri hægt að selja hana með jörðunum. Það er enn þá ekki búið að bjarga henni út úr einkabraskinu, þannig að Ísland liggur næstum eins og frumstæð nýlenda sem bráð á fótum þess auðvalds, sem hér væri hleypt inn og áður en menn áttuðu sig á gæti verið búið að kaupa upp margt af því, sem hér væri dýrmætast. Þannig er það sem sé bæði með fiskimiðin, fossana og sjálfa íslenzku jörðina. Þetta er allt saman í hættu, eins og hugsunarhátturinn er orðinn hjá þeim, sem voldugastir eru á Íslandi nú. Auk þessa er eitt, sem menn kannske gera lítið úr, en er óskaplega dýrmætt, það eru öll auðæfi okkar óbyggða.

Um óbyggðirnar eru ekki einu sinni almennileg lög, hvað þá heldur að það sé nokkuð í stjórnarskrá um þær. Óbyggðirnar á Íslandi ættu fyrir löngu að hafa verið gerðar að slíkri þjóðareign samkv. stjórnarskrá, að ekki væri hægt að selja þær. Sósfl. reyndi á sínum tíma að fá slíkt fram, en það tókst ekki. Eignarrétturinn á óbyggðunum er þannig núna, að það er komið undir úrskurði hæstaréttar í hvert sinn, hvernig er litið á hann. Og jafnvel stundum hættir við, að sé blandað saman gömlum afnotarétti einstakra hreppa og eignarréttinum að þessum óbyggðum sjálfum. Í þessum óbyggðum felst orka, bara hvað hveraorkuna snertir, sem er 4 millj. kw. eins og fossarnir, bara þó að það sé metið til þess krafts, sem orkan er, svo að maður tali nú ekki um sjálfan hitann í þessu. Og þarna eru auðlindir, sem við vitum að hvað eftir annað hefur verið rætt um, þegar t.d. hefur verið rætt um þungavatnsvinnslu hér á Íslandi eða annað slíkt.

M.ö.o.: eins og auðæfi Íslands eru í dag, aðgangurinn að fiskimiðunum, fossarnir, jörðin sjálf og allar okkar óbyggðir, liggur þetta allt flatt eins og bráð fyrir útlendu auðvaldi til þess að láta það hremma það ódýrt, hvenær svo sem það vill hagnýta sér núv. íslenzk lög og þannig ríkisstj. situr að völdum, að hún hafi ekkert á móti því, að útlendingar festi sitt fé hér á Íslandi. Útlendingar þurfa ekki nema búsetja sig hérna og það í nokkuð stórum stíl, þá geta þeir verið búnir að kaupa þetta upp, áður en við vitum af, — og hver veit, hvað þeir eru komnir langt með það nú þegar? Við, sem nú lifum, megum hins vegar ekki hugsa þannig, eins og kannske ýmsir þeir bændur gera í dag, sem eru að flosna upp frá sínum jörðum og geta ekki einu sinni selt þær og þykir gott að geta losnað kannske við þær fyrir eitthvað smáræði, 150–200 þús. kr. skuld í Búnaðarbankanum eða eitthvað slíkt. Við, sem lifum í dag, verðum að hugsa um Ísland sem byggt af milljónum Íslendinga og að þær milljónir Íslendinga, sem eiga eftir að erfa þetta land og verða okkar eftirkomendur hér, geri þær kröfur til okkar, að við stöndum vörð um þeirra rétt til þess að eiga þetta land og allar þess auðlindir og eiga það einir. Okkar land er gífurlega auðugt. En það er ekki nema hálfnumið og ekki nærri því hálfnumið enn þá, Og það, sem við verðum að reyna að tryggja í dag, er, að það verði Íslendingar einir, sem nema það, að það setjist ekki hér að aðrir aðilar, fyrst voldugir aðilar, sem kaupa upp aðstöðuna til þess að ráða því, og síðan útlendingar, sem flytjast hér inn og smám saman eignast landið. Þess vegna verður að koma í veg fyrir, að útlendingar geti eignazt landið.

Mönnum brá nokkuð við og menn sáu þessa hættu skýrar en áður, þegar hættunni af Efnahagsbandalagi Evrópu brá upp 1961. Það er talað um það, að þessi hætta sé ekki mikil nú þessa dagana. Það er rétt, hún hefur minnkað í augnablikinu. En það er alveg víst, að hún kemur aftur, og það er nokkurn veginn alveg víst, að hún kemur alvarlega aftur til umr. árið 1966, þegar kemur að öðru stiginu í þeim samningum, sem fram fara um afnám tolla og annars slíks í Efnahagsbandalaginu, og aftur verða gerðar tilraunir, vafalaust mjög alvarlegar, til þess að semja við England og fríverzlunarbandalagslöndin yfirleitt, þannig að 1966 kemur þessi hætta alveg jafnt upp aftur eins og hún kom 1961. Hættan á inngöngu í Efnahagsbandalagið kom upp 1961, án þess að á þá hættu hefði verið minnzt í kosningunum 1959 og menn hefðu yfirleitt gert sér nokkra grein fyrir því verulega, hver hún væri. Og alveg eins getur hún komið upp 1966, jafnvel þó að menn vildu sem minnst ræða þetta í kosningunum 1963. Þetta mál hefur verið það mikið rætt hér, að ég þarf ekki að gera það að miklu umtalsefni. Hættan er í tvennu formi. Það er í fyrsta lagi spurningin um innlimun í slíkt Efnahagsbandalag, þ.e. fulla aðild. Það eru allir orðnir hræddir við, a.m.k. fyrir kosningarnar, að standa með henni. Það er í öðru lagi spurningin um aukaaðild, sem menn vilja líka, meira að segja þeir, sem voru mjög mikið með henni um tíma, fara mjög varlega í. En ég vil minna á, að meira að segja þótt engin aukaaðild kæmi til að Efnahagsbandalagi Evrópu á næsta kjörtímabili, þá væri hægt án alirar aukaaðildar, þá væri hægt í skjóli núv. íslenzkra laga að veita ríkisborgurum erlends lands með milliríkjasamningum, jafnvel við hvert land út af fyrir sig, slík réttindi, sem sköpuðu okkur nákvæmlega sömu hættu og aukaaðild eða jafnvel full aðild. Hættan er þess vegna fyrir hendi, hvenær sem ein ríkisstj. meira að segja vill nota þær lagaheimildir, sem nú eru til á Íslandi.

Nú vilja máske sumir segja, að það væri nóg til þess að afstýra þessari hættu allri, sem gæti stafað hvort heldur væri af Efnahagsbandalaginu eða milliríkjasamningum við einstök lönd, þá væri nóg að. breyta íslenzkum lögum. En þó að við breytum íslenzkum lögum í dag, þó að við vildum samkomulag um það á þessu þingi, þá er hægt að breyta þeim lögum aftur eftir næstu kosningar, ef sú ríkisstj., sem fer hér með völd, hefur vilja til slíks, þannig að í lagabreytingunum sjálfum felst ekki mikil trygging né löng. Það er jafnvel hægt, — og það höfum við séð, að gert hefur verið allfreklega á þessu kjörtímabili, sem nú er að enda, — það er jafnvel hægt með brbl., ef ríkisstj. þykir það vissara, að breyta svona lögum og taka sér slíka heimild, stílla Alþingi frammi fyrir orðnum hlut og treysta Síðan á flokkshollustu sinna fylgismanna, til þess að þeir, jafnvel þó að óánægðir væru, staðfestu slík brbl. á eftir. Því er það, að það er einvörðungu stjórnarskrárbreyting, sem getur komið í veg fyrir það, að útlendu auðvaldi sé hleypt inn í landið í skjóli meira að segja núv. laga og ríkisstjórnar, sem væri slíks sinnis. Það er einungis stjórnarskrárbreyting, sem gæti komið í veg fyrir það, og hún ein, sem gæti tryggt, að fólkið sjálft fengi þá að dæma, áður en nokkru yrði breytt, því að þá yrði að rjúfa þing, ef ætti að fara að breyta slíkri stjórnarskrá, og þjóðin ætti þess vegna að dæma, áður en hún væri svipt þeim rétti, sem hún hefði öðlazt með slíkri stjórnarskrá.

Því er það, að við, sem alllengi höfum verið að athuga þessi mál, höfum komizt að þeirri niðurstöðu, sem felst í frv. okkar hv. 4. landsk. Þar leggjum við til að breyta núv. 68. gr. stjórnarskrárinnar, sem er ákaflega stutt og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn útlendingur getur fengið ríkisborgararétt nema með lögum. Um heimild útlendinga til þess að eiga fasteignaréttindi hér á landi, skal skipa með lögum.“

Í staðinn fyrir þessa grein komi nú ný og mjög ákveðin og einbeitt grein, eins og menn taka eftir. Samkv. núv. stjórnarskrá getur hvaða þingmeirihl. sem er gefið útlendingum hvaða rétt sem vera skal á Íslandi með einfaldri lagasetningu. Það er hægt að veita útlendum ríkisborgurum öll sömu réttindi og Íslendingum með einfaldri lagasetningu samkv. núv. stjórnarskrá. Þess vegna leggjum við til, að í fyrsta lagi sé kaflinn um eignirnar og eignaaðstöðuna orðaður þannig, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands orðist svo:

„Fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi skulu Íslendingar einir eiga, eða stofnanir, sem Íslendingar eiga einir. Sendiráð erlendra ríkja mega þó eiga hér húseignir samkv. alþjóáavenjum, sem um það gilda. Alþjóðlegar stofnanir, sem Ísland er aðili að, mega og eiga fasteignir til menningar- og heilbrigðisstarfsemi, þó þarf lög um það hverju sinni. — Engir nema Íslendingar mega taka á leigu atvinnutæki eða íslenzk náttúruauðæfi. Undanþegin þessu ákvæði eru þó flutningaskip og flugvélar. Að því er snertir erlenda menn búsetta hérlendis, skal mæla fyrir um þessi atriði með lögum.“

Þetta er það, sem snertir fasteignirnar og náttúruauðæfin. Í fyrsta lagi er með þessu því slegið föstu, að það verði Íslendingar einir og stofnanir, sem Íslendingar eiga einir, sem megi eiga hér fasteignir og náttúruauðæfi. Það þýðir: félög, sem Íslendingar einir eru í. Þar með eru útilokuð hlutafélög, sem útlendingar eiga í. Þau hafa nú alveg sama rétt, ef þeir eiga þar minni hl., eins og Íslendingar. Og með þessu er útilokaður líka í þessu efni réttur þeirra útlendinga, sem búsettir eru á Íslandi. Um það er aftur á móti ákveðið, að mæla skuli sérstaklega fyrir með lögum.

Þessi setning: „Fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi skulu íslendingar einir eiga, eða stofnanir, sem Íslendingar eiga einir“ — þetta er mjög róttæk og harðvítug löggjöf, það skal ég viðurkenna, og við hugsuðum ákaflega mikið og lengi og bárum undir lögfróða menn þetta atriði til þess að sjá, hvernig hægt væri að ganga þannig frá þessu, að engin smuga væri á. Og þetta var sú niðurstaða, sem við komumst að. Og ég held, að þetta eigi að tryggja það, að Íslendingar eigi einir að geta átt öll þau auðæfi, sem í okkar landi felast.

Í núgildandi lögum er það tekið fram, að sendiráð erlendra ríkja megi eiga hér húseignir samkv. alþjóðavenjum, og það urðum við þess vegna að taka upp í stjórnarskrá. Þá er spurningin viðvíkjandi alþjóðlegum stofnunum, sem Ísland er aðili að. Þar eru þó nokkur vandkvæði á. Það er ekki hægt að ætla að hindra — við skulum segja t.d. stofnun eins og Norðurlandaráð, sem nú ætlar að koma hér upp norrænu húsi, hvernig sem yrði með eignina á því, að það gæti átt slíkt. Og einstakar stofnanir, við skulum segja eins og stofnanir Sameinuðu þjóðanna, sem við erum þátttakandi í, gætu óskað eftir að koma hér upp einhverjum sérstökum stofnunum, rannsóknarstöð í sambandi við fisk eða eitthvað þess háttar, matvælastofnun eða einhverju þess háttar, sem við mundum ekki geta haft á móti. Þess vegna höfum við þarna þann hátt á, að þetta væri opnað, þegar um væri að ræða stofnanir, sem ynnu að menningar- og heilbrigðismálum, en þó þyrfti lög um það hverju sinni frá Alþingi. Og ég held, að þar með eigi að vera skapaðir möguleikar til þess, að þetta verði ekki óhæfilega þröngt, en samt sem áður nægilega sterkt til þess að tryggja rétt okkar Íslendinga í þessum efnum.

Þá var spurningin um að taka á leigu atvinnutæki. Það er náttúrlega gefið mál, að svo framarlega sem útlendingar hefðu rétt til þess að taka t.d. hér á leigu — við skulum segja, að hér væri komið upp stórri alúminíumverksmiðju og útlendingar mættu taka hana á leigu til 25 ára, þá gætu þeir á nákvæmlega sama máta farið í kringum þetta, og þeirra leiguréttindi og annað slíkt mundi frá sjónarmiði t.d. þeirra erlendu ríkisstj., ef slík leiguréttindi væru tekin leigunámi eða eignarnámi, jafnt geta skapað árekstra við erlent vald. Sú niðurstaða, sem við komumst að eftir satt að segja mjög miklar bollaleggingar í þessu, var, að engir nema Íslendingar mættu taka hér á leigu atvinnutæki, t.d. verksmiðjur og annað slíkt, eða íslenzk náttúruauðæfi, það þýðir jafnt jörð, fossa og annað þess háttar, eða hagnýtingu þeirra náttúruauðæfa. Þar með er að vísu ekki girt fyrir þá hættu, sem ég hef minnzt á áður viðvíkjandi leppmennsku. En sú hætta skapar okkur ekki neina lögfræðilega árekstramöguleika við erlent vald. Ég tók það greinilega fram áðan, að ef útlent auðvald vill eiga það á hættu að leppa hér fé, þá gerir það það á eigin áhættu og viðkomandi ríkisstj. hjálpar þeim ekkert í slíkum efnum, svo framarlega sem íslenzk ríkisstj. t.d. ætti eftir að þjóðnýta slíkar eignir, sem þá væru að lagaforminu til eignir íslenzks borgara.

Það undanþáguákvæði, sem við álitum hins vegar óhjákvæmilegt að setja þarna inn í, var, að flutningaskip og flugvélar gætu íslenzkir aðilar fengið að leigja öðrum en Íslendingum. Við vildum náttúrlega ekki útiloka þann hlut t.d., að íslenzk flutningaskipafélög gætu, ef þau hefðu hagsmuni af því einhvern tíma, t.d. leigt skip, eitt eða tvö eða fleiri, útlendum aðilum. Það væri ómögulegt fyrir þau að starfa upp á þann máta að geta ekki hagnýtt sér slíkt. Sama væri með íslenzkar flugvélar, ef það mætti ekki leigja íslenzka flugvél erlendum aðila. Við erum farnir að verða það mikið í alþjóðlegum siglingum, jafnt í hafi sem lofti, að þessi möguleiki verður að standa opinn fyrir þá íslenzku aðila, sem eiga flutningaskip og flugvélar, að þeir geti jafnvel leigt slíkt um tíma útlendum aðilum. Hins vegar á ekki að geta stafað nein almenn hætta af slíku. Hins vegar skal ég fyllilega viðurkenna það, að þegar maður á að setja í stjórnarskrá ákvæði um þessa hluti, er það lögfræðilega séð þó nokkuð erfitt, og það er oft búið að umsteypa þessu hjá okkur til þess að reyna að finna það út, að það geti ekki hamlað eðlilegri þróun íslenzkra atvinnugreina, sem hafa t.d. síðustu 10 árin tekið hjá okkur gífurlegum stakkaskiptum, svo gífurlegum framförum eins og t.d. flugið, að það geti ekki hamlað því, og ég held, að það sé alveg tryggt með þessu orðalagi.

Þá var eftir aðstaðan fyrir erlenda menn, sem búsettir eru hérlendis. Þar var um mjög erfitt mál að ræða. Þegar erlendir menn eru hér búsettir, og þeir geta jafnvel búið hér áratugum saman og það jafnvel án þess að kæra sig um að verða íslenzkir ríkisborgarar og haft sin atvinnuréttindi hér og allt annað slíkt, þá er mjög erfitt að meina þeim að geta leigt hér atvinnutæki, — það er mjög erfitt. Þeir geta ekki eignazt fasteignir eða náttúruauðæfi eftir 1. mgr. Þeir eru útilokaðir frá því. En hvað snertir það að taka á leigu íslenzk atvinnutæki, íslenzk náttúruauðæfi, þá þarf um það sérstaka löggjöf. Ég skal viðurkenna, að það er þó nokkuð hörð löggjöf að hindra erlenda menn búsetta hér í því að eignast hér fasteignir og eignast hér náttúruauðæfi. En við sáum ekki neitt annað ráð til þess að vera öruggir um það, ef útlendir aðilar kærðu sig um að láta fjölda erlendra manna búsetja sig hér, að þeir gætu ekki keypt upp svo og svo dýrmætan hluta af okkar landi. Hitt aftur á móti, að þeir gætu tekið hér á leigu, slíkt vildum við ekki útiloka og höfðum þess vegna það ráð, að það skyldi mæla fyrir um slíkt með lögum.

Tilgangurinn með þessum tveim mgr. er sá að reyna á núverandi stigi, þegar Ísland liggur svo að segja opið og jafnvel varnarlítið fyrir útlendu auðvaldi og búið að afnema flestar þær hindranir, sem verið hafa hingað til fyrir erlendri fjárfestingu hér á Íslandi, eins og skattakerfið og gjaldeyrisskráninguna, þá er þetta flutt til þess að reyna að tryggja það, að öll þau auðæfi, sem á Íslandi eru til, geti í framtiðinni haldizt í eigu Íslendinga einna, — Íslendinga sjálfra og íslendinga einna. Og ég held, að eins og nú er komið málum, sé það alveg óhjákvæmilegt, að svona strangar ráðstafanir séu gerðar til þess að tryggja slíkt. Við gátum ekki séð, að það væri hægt að bjarga þessu með vægari ákvæðum en þarna er lagt til.

Í öðru lagi fjallaði svo þessi 68. gr. stjórnarskrárinnar um ríkisborgararétt útlendinga. Þar stóð, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn útlendingur getur fengið ríkisborgararétt nema með lögum“.

M.ö.o.: eins og nú er, er hægt að veita útlendingum ríkisborgararétt á Íslandi, ef Alþingi vill, ef meiri hl. Alþingis vill, bara einu ári eftir að þeir koma hér eða hvað fljótt sem vera skal og gefa þannig fjölda útlendinga rétt til þess að vera íslenzkir ríkisborgarar. Hins vegar er í stjórnarskránni það ákvæði, að kosningarrétt öðlast menn ekki fyrr en eftir fimm ára búsetu hér. Það er gamla ákvæðið, sem sett var inn til þess að reyna að hamla gagnvart Dönum, ef þeir vildu fara að setjast hér að í ríkum mæli, af því að þeir höfðu sömu réttindi sem við á Íslandi eftir 1918, og þetta fimm ára ákvæði var þá sett. En nú þarf eftir stjórnarskránni aðeins lagafyrirmæli um, hvernig útiendingar öðlist ríkisborgararétt. Við vildum, um leið og hert væri með ákvæðum á rétti útlendinga viðvíkjandi eignum hér á Íslandi, líka taka fyrir spurninguna um þeirra ríkisborgararétt. Og þar setjum við í fyrsta lagi, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn útlendingur getur fengið ríkisborgararétt nema með lögum, enda hafi hann haft búsetu á landinu í 10 ár.“

Þetta er sú regla, sem hefur verið notuð af hálfu allshn. á Alþingi undanfarin ár. Og þessa reglu mundum við gera að stjórnarskráratriði með þessu móti. Þó er þar strax ein undantekning: „Þó geta Norðurlandabúar fengið ríkisborgararétt eftir 5 ára búsetu í landinu.“ Við höfum alltaf litið svo á, og það hefur líka verið framkvæmt þannig hér á Alþingi, að Norðurlandabúar gætu fengið hér ríkisborgararétt eftir 5 ára búsetu. Við höfum alltaf haft aðra afstöðu til Norðurlandabúa í þessum efnum, og sú hætta, sem okkur stafar af ýmsum öðrum útlendum þjóðum, stafar, býst ég við, að flestra okkar áliti ekki af Norðurlandabúum almennt. Vissulega kann stundum að stafa einhver hætta af auðvaldi Norðurlanda, en þó er hún ekki neitt svipuð og sú, sem mundi stafa af sumu öðru erlendu auðvaldi. Við vitum að vísu, að t.d. sænskir auðhringar eru ríkir og voldugir. En jafnvel þó að þeir eignuðust hér hluti og það allmikla á Íslandi og þó að Ísland seinna meir kynni að vilja þjóðnýta eitthvað af þeirra eignum hér, þá mundi sænsk ríkisstj. aldrei fara að senda herlið hingað til lands á móti Íslendingum út af slíku. Sambandið milli okkar frændþjóðanna á Norðurlöndum er það gott, að slíkt mundi ekki vilja til, en gæti hins vegar gerzt með ýmsar aðrar þjóðir.

Enn fremur er sett þarna það ákvæði, að menn af íslenzku bergi brotnir geti fengið ríkisborgararétt fyrr samkv. sérstökum lögum. Þar kemur tvennt til. Annars vegar er það oft svo, að Íslendingar, sem fæddir eru erlendis og af því að foreldrar þeirra hafa þar verið, hafa verið erlendir ríkisborgarar og jafnvel ekki aðgætt það sjálfir eftir að hafa flutt hingað heim, að öðlast í tíma íslenzkan ríkisborgararétt, og þá er náttúrlega sjálfsagt, að það sé mögulegt bara með einföldum lögum að tryggja þeim slíka aðstöðu. Og enn fremur mundi ég fyrir mitt leyti lita svo á, — ég veit ekki, hvernig lögfræðingar endanlega mundu úrskurða það, en þeir lögfræðingar, sem við höfum ráðfært okkur við, flm., litu svo á, að t.d. Vestur-Íslendingar, sem kæmu hingað heim, mundu þá líka koma undir þetta. Og ég held, að að öllu leyti væri rétt að hafa þessa möguleika opna.

Ég tel eðlilegt, að ef sett eru svona hörð ákvæði til að tryggja eignarrétt og umráðarétt Íslendinga yfir auðæfum Íslands, þá sé líka rétt um leið að setja svona ákveðin fyrirmæli í stjórnarskrána um ríkisborgararéttinn, því að kæmist t.d. ríkisstj. undir sérstaklega mikinn þrýsting erlendra ríkisstj., sem hún máske væri að semja við í sambandi við efnahagsmál eða annað slíkt, þá væri jafnvel sá möguleiki opinn, að gerðar væru hér ráðstafanir til þess að opna landið mjög mikið fyrir erlendum ríkisborgurum og veita þeim hér þá máske miklu fyrr ríkisborgararétt en tíðkazt hefur undanfarin ár. Við höfum horft upp á það, að þetta hefur verið að slappast hjá okkur, og það veitir ekki af, að við stöndum þarna betur á verði.

Öll þessi grein stjórnarskrárinnar, eins og við leggjum til að henni sé breytt, miðar þess vegna að því að tryggja Íslendingum í fyrsta lagi eignarréttinn á sínu eigin landi og öllum þess auðlindum og í öðru lagi tryggja hann þeim einum, sem hafa ríkisborgararétt, og þeim einum slíkum, ef þeir væru búnir að dveljast hér það lengi, að þeir mundu vera orðnir meira eða minna og sérstaklega þó þeirra börn hugsandi sem Íslendingar. Ég held, að þessi breyting sé, eins og viðhorfið er nú í þjóðfélaginu, alveg lífsnauðsyn til þess að tryggja og varðveita rétt Íslendinga einna og Íslendinga sjálfra yfir Íslandi í framtiðinni. Við skulum hugsa til þess, í hvaða erfiðleikum sumar þjóðir, sem áttu einu sinni fræga sögu í sínu eigin landi, standa í dag, bara nefna Ísraelsmenn, hvað það kostar, ef útlendingar geta komizt inn í eitt land um tíma og náð þar tökum, og hve mikils getur þurft við til þess að ná í hendur þjóðarinnar slíku valdi aftur, ef hún einu sinni missir það. Í þessu máli býst ég við, að mjög margir þm., ef ekki flestir, hlytu að vera á einu máli um, að svona ströng fyrirmæli væru það eina, sem gæti tryggt rétt og vald Íslendinga og Íslendinga einna til að ráða sínu landi. Sumir mundu kannske vera reiðubúnir að setja slík ákvæði með lögum. En það er ekki einhlítt, það er ekki nóg, eins og ég hef getið um áður. Þeim lögum er aftur hægt að breyta. Ef allir þm. og allir þingflokkar eru á því að vilja tryggja þennan rétt Íslendinga í eins ríkum mæli og við flm. leggjum til með þessu frv., þá ættu þeir að fallast nú á þessa stjórnarskrárbreytingu. Nú standa kosningar fyrir dyrum. Nú þarf hvort sem er að rjúfa þing. Ef svona stjórnarskrárfrv. er samþykkt, þá eru það fyrirmælin, að um leið og það er samþykkt í siðari deild, skuli þing rofið og efnt til nýrra kosninga. Og þó að sé vitanlegt, að slíkar kosningar mundu ekki fyrst og fremst snúast um sjálft stjórnarskrárfrv., — það er margt annað, sem nú er um að ræða, — þá mundi það þýða, ef allir flokkar þings hefðu lýst því yfir, að þeir væru fylgjandi þeim ákvæðum, sem hér eru, þá leiðir náttúrlega þar af, að þeir skuldbinda sig siðferðilega til þess að samþykkja það að loknum kosningum, þannig að þá væri þetta orðið þáttur í stjórnarskrá Íslands.

Það var oft um það talað og settar til þess ýmsar nefndir, eftir að lýðveldið var stofnsett, að breyta okkar stjórnarskrá. Það var margt í henni, sem menn vildu breyta, bæði viðvíkjandi félagslegum réttindum og annað slíkt, því að hún er enn þá hvað ákaflega margt slíkt snertir næstum því að stofni til eins og 1874. Það hefur ekki orðið samkomulag um neinar breytingar slíkar, enn sem komið er, þó að brátt séu nú liðnir tveir áratugir frá stofnun lýðveldisins, og þær einu breytingar, sem framkvæmdar hafa verið, hafa verið breytingar á kjördæmaskipuninni og kosningunum. Og vafalaust er það eitt af því, sem meðfram hindraði lengi vel, að aðrar breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni, að í hvert skipti, sem um þær var rætt, sérstaklega á tímabilinu 1945–1955, þá kom kjördæmamálið alltaf upp, og frá sjónarmiði okkar, sem nú erum í Alþb., var það svo á þeim tíma, — við vorum ýmsir þá fulltrúar Sósfl., — þá vofði allan þann tíma sú hætta yfir, að hér yrði komið á einmenningskjördæmum með samkomulagi stærstu flokkanna á þingi, þannig að það var ekki hættulaust í raun og veru á þeim tímum að breyta stjórnarskránni mikið frá sjónarmiði þeirra, sem vildu reyna að efla lýðræðið í landinu og skapa mönnum jafnan kosningarrétt og jöfn áhrif á Alþingi og ríkisstj. Slík stjórnarskrárbreyting hins vegar, sem hér er lögð til, er raunverulega í fyllsta samræmi við það, sem gert var 1944, þegar Ísland var gert að lýðveldi, þegar seinustu erlendu fjötrarnir voru höggnir af Íslandi og konungsvaldið afnumið. Þessi stjórnarskrárbreyting, sem við hér leggjum til, á að tryggja Íslendingum það, sem greinilegt er að þeim er ekki tryggt að fullu nú, tryggja þeim einum eignarréttinn og umráðaréttinn yfir sínu landi og öllum þess auðæfum, þannig að útlendingar geti aldrei aftur öðlazt aðstöðu til þess að ráða hér í okkar landi og drottna í því í krafti eignarhalds, sem þeir eitt sinn höfðu. Ég álít, að það sé þess vegna prófsteinn áafstöðu þingflokkanna og heilindi þeirra í þessum málum, hverja afstöðu þeir taka til þessa stjórnarskrárfrv. Vilji þeir samþykkja þetta stjórnarskrárfrv., Þýðir það um leið, að þingflokkarnir vilja standa saman um að gera það alveg hreint og ótvírætt, að það séu Íslendingar sjálfir og Íslendingar einir, sem eigi náttúruauðæfin og fasteignirnar hér á Íslandi, og skapa þannig sameiginlega varðstöðu um rétt, fyrst og fremst okkar eftirkomenda, til að ráða þessu. Ég vil taka það fram um leið, að við flm. erum auðvitað reiðubúnir til þess að endurskoða orðalag þessa frv. Ég hef getið þess í minni framsöguræðu, að það er allerfitt mál að setja löggjöf, þegar hún á að vera í stjórnarskrá, um þetta efni. Og við erum vissulega til samninga um þá hluti, ef þeim tilgangi, sem fyrir okkur vakir, er náð. Ég skal líka taka það fram, að það er vel hugsanlegt, að um einhver einstök atriði kunnum við kannske að hafa gengið of langt og þurfi að skapa einhverjar smugur. Ég skal bara nefna sem dæmi, að t.d. kaþólska kirkjan á Íslandi á eignir hér. Ég skal ekki segja, hvernig um þær eignir er lögfræðilega séð. Ef sá íslenzki kaþólski söfnuður á þær eignir, sem hér eru, þá samrýmist það atveg okkar stjórnarskrá, að hann geti átt þær. Í þeim kaþólska söfnuði eru Íslendingar, og það er eins og hver önnur stofnun, sem kemur þar undir. Væri það hins vegar sú alþjóðlega kaþólska kirkja, sem ætti þær eignir, sem kaþólski söfnuðurinn e.t.v. telst eiga hér núna, þá þyrfti að athuga þetta mál. Það eru nokkur atriði, sem geta komið upp í sambandi við þetta og við höfum þó nokkuð rætt, en þarf nokkurrar athugunar við. En ég efast ekki um, að væri vilji fyrir að ná höfuðtilganginum með þessari stjórnarskrárbreytingu, þá sé hægt að finna orðalag, sem mundi tryggja — við skulum segja aðstöðu kaþólskra manna hérna þannig, eða þá hitt, að svo framarlega sem sú alþjóðlega kaþólska kirkja ætti slíkar eignir, þá yrði hún að gefa þeim kaþólska söfnuði á Íslandi einum slíkar eignir. Það eru nokkur slík atriði, sem þó varða ekki í raun og veru höfuðtilgang þessa frv., því að það er ekki lengur hætta á því, að sú kaþólska kirkja eignist þorrann af auðæfum á Íslandi, sem hún átti einu sinni, en þá er ég auðvitað reiðubúinn til samninga og samkomulags um slíka hluti.

Það hefur verið venja, þegar breytingar á stjórnarskránni hafa verið gerðar hér á Alþingi, að til þess að athuga slíkar breytingar væri sett sérstök nefnd, það væri kosin sérstök nefnd, sem kölluð hefur ætíð verið stjórnarskrárnefnd, til þess að athuga slíkt, og ég mundi leggja til, að við hefðum þann hátt á að vísu. Það er náttúrlega mögulegt að vísu að vísa hvaða frv. sem er til einhverrar n., sem manni finnst rétt, en ég held, að það sé rétt hjá okkur að halda þeirri hefð. Að vísu kann oft að verða komið fram með brtt. við stjórnarskrána, sem varða kannske ekki mjög miklu, við skulum segja bara sem dæmi kosningarréttinn og 5 ára búsetuna, sem máske mönnum fyndist líka vera rétt að endurskoða í sambandi við þetta, og mönnum mundi þá ekki finnast e.t.v. nauðsyn að vísa því til stjórnarskrárnefndar. En ég held þó, að sé réttara af okkur að gera stjórnarskránni alltaf það hátt undir höfði, að í hvert skipti, sem einhver breyting er við hana gerð, skuli skipuð sérstök nefnd í þessu, enda er það líka frá öðru sjónarmiði rétt. Um leið og við nú flytjum þetta frv. um breytingu á stjórnarskránni, þá geta auðvitað komið fram ýmsar aðrar tili., t.d. í þeirri nefnd, sem málið fer til, um breytingar á stjórnarskránni, sem snerta ýmsa aðra hluti. Það kynnu að verða veigamiklar breytingar og það kynni að vera óhjákvæmilegt, að það væri sérstök stjórnarskrárnefnd, sem um það fjallaði. Ég vil þess vegna, herra forseti, gera það að till. minni, að kosin sé, eins og áður hefur tíðkazt, sérstök stjórnarskrárnefnd fimm manna í hv. d. til þess að fjalla um þetta mál, og legg svo til, að því sé að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og slíkrar nefndar, er hún hefur verið kosin.