04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

223. mál, hámark útlánsvaxta

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég heyri það, að hv. þm. hefur hitnað talsvert í skapi út af þeim orðum, sem ég lét falla um frv. hans áðan. Ég get að vísu vel skilið það.

Hann er skapmaður, og ég er ekkert hissa á því, þó að hann láti ekki herma upp á sig annað eins og hann varð ber að áðan, án þess að honum sárnaði svolítið, það tel ég vera alveg eðlilegt. Hitt þykir mér hins vegar miður, að hann virðist hafa farið talsvert úr jafnvægi. Hann viðhafði mikil stóryrði, án efa sögð að óyfirveguðu ráði. Hann kallaði gengisbreytinguna 1961 mesta gerræði sögunnar. Fyrr má nú vera: mesta gerræði sögunnar — og hann margendurtók, að málflutningur minn væri algerlega blygðunarlaus. Ég mun nú horfa fram hjá öllu þessu. En það sem verra var, ýmis rök hans í ræðunni báru þess greinilega vitni, að dómgreind hans hafði færzt algerlega úr skorðum, og um það skal ég nú nefna tvö dæmi og láta þar með mínum afskiptum af þessu merka frv. lokið.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki mikið, sem þetta frv. ætlaðist til gagnvart sparifjáreigendum, þó að það svipti þá 100 millj. og gæfi þær skuldurum og atvinnurekendum, því að með einu pennastriki hefði ríkisstj. og Seðlabankinn í ágúst 1961 rænt sparifjáreigendur 500 millj. kr. Hér er satt að segja um svo mikla fávizku að ræða og svo bjánalegan málflutning, að það er hv. þm. til skammar. Hv. þm., sem hefur um áratugi verið ritstjóri við stórt dagblað, það er honum til skammar að misreikna sig svo hörmulega sem hér á sér stað, og nú skal ég sýrna fram á, í hverju þessi fáránlegi misskilningur liggur.

Hv. þm. gerir sér lítið fyrir og reiknar sparifjáreign landsmanna yfir í dollara eftir genginu fyrir ágústbyrjun 1961 og eftir ágústbyrjun og reiknar svo dollaramismuninn yfir í íslenzkar kr. Ef sparifjáreigendur hefðu raunverulega tapað þessari upphæð, sem sparifjáreignin umreiknuð í dollara nemur, jafngildir þetta því, að hv. þm. telji alla sparifjáreigendur eingöngu nota sparifé til að kaupa dollara. Ef það er mælikvarði á verðgildi sparifjárins, hvert dollaragengið er og hvernig það breytist, þá getur það því aðeins verið réttur mælikvarði, að menn noti hverja krónu alls sparifjárins til að kaupa dollara. Sjá ekki hv. þm., hvað þetta er hneykslanlega fíflalegur málflutningur? Eða má ég spyrja hv. þm., notar hann allt kaup sitt til að kaupa dollara? Telur hann, að kaupmáttur kaups síns hafi breytzt í nákvæmlega sama hlutfalli og verð dollara hækkaði við gengisbreytinguna? Ef hann notar allt sitt kaup til að kaupa dollara fyrir, þá er þetta rétt. En það þykir mér satt að segja afskaplega ósennilegt. Það kann að vera, að hann kaupi einhverja dollara fyrir einhvern hluta af kaupi sínu, það veit ég ekki. Hitt veit ég, að hann kaupir fyrir hluta af kaupi sínu vörur, sem keyptar eru fyrir dollara og þar af leiðandi hækka í verði sem svarar verðhækkun dollarans. En hitt veit ég líka, að hann kaupir fyrir annan hluta af kaupi sínu vörur, sem enginn dollari hefur farið í að framleiða eða nær enginn dollari hefur farið í að framleiða. Þær vörur hækka ekki í verði, þó að dollarinn hækki í verði. Eða hækkaði kjöt og mjólk eftir gengisbreytinguna í sama hlutfalli og dollarinn hækkaði? Hækkuðu föt í sama hlutfalli? Hækkuðu bíómiðar í sama hlutfalli? Og þannig mætti lengi halda áfram að telja. Nei, hér fellur hv. þm. í svo augljósan pytt, að ég hefði gjarnan getað kosið mér að þurfa ekki að horfa á hann niðri í þessum pytti. Mér dettur raunar ekki í hug, að hv. þm. sé svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki við svolitla umhugsun, um hvers konar fásinnu hann hefur gert sig sekan, en þá á hann að koma hér og játa það, að þarna hljóp áróðurstilhneigingin með hann í gönur og hann varð sér til minnkunar.

Hin stórfjólan, sem hv. þm. rétti d. í ræðu sinni, var sú, að í ágúst 1961 hefði valið verið á milli þess að lækka vexti eða lækka gengið. Hann sagði: Ef vextir hefðu verið lækkaðir fyrr á árinu 1961, mátti komast hjá því að lækka gengið. — Hitt er í raun og veru bara smáreikningsskekkja hjá þeim endemum, sem í þessu felast. Ef einhver glóra væri í þessu, ætti það að þýða það sama fyrir íslenzka útflutningsatvinnuvegi að fá 2% lækkun á vöxtum með sínum skuldum og fá 11% hækkun á öllum sínum útflutningstekjum.

Gengislækkunin í ágúst 1961 færði íslenzkum útflutningsatvinnuvegum 13% aukningu á því fé, sem þeir fá fyrir útflutning sinn. Sannleikurinn er sá, að kaupgjald hafði hækkað svo mjög í íslenzkum útflutningsatvinnuvegum, að þessi 13% aukning á tekjum útflutningsatvinnuveganna fyrir útflutning rétt gerði að jafna þá kauphækkun, sem orðið hafði. En nú kemur hér einn hv. þm. og ritstjóri stjórnmáladagblaðs og heldur því fram, að það séu nokkurn veginn jafnar tölur, 13% af öllum útflutningi íslenzkra útflutningsatvinnuvega og 2% lækkun á vöxtum af skuldum þeirra. Mikið mega þeir vera skuldugir eftir langa stjórnarþátttöku flokks hans í stjórn landsins. Mikið mega þeir vera skuldugir, ef 2% lækkun á vöxtum af skuldunum jafngildir 13% hækkun á öllum þeirra útflutningstekjum.

Hér er augljóslega um svo fáránlegan málflutning að ræða, að að því þarf ekki frekari orðum að eyða. En ég vil ráðleggja hv. þm. að hafa svolítið meira jafnvægi í málflutningi sínum og huga, ef hann ætlar að halda þessum umr. áfram, þannig að honum verði ekki jafnógurlegar skyssur á eins og honum urðu í þeim tveim tilfellum, sem ég hef nú gert að umræðuefni.