04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (2502)

223. mál, hámark útlánsvaxta

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég held, að þau ummæli, sem hæstv. viðskmrh. viðhafði nú, eins og um fávizku, bjánalegan og hneykslanlegan málflutning, séu beztu sýnishorn um það, hvorum okkar hafi runnið meira í skap, mér eða honum. Ég held, að ég hafi ekki notað ummæli eins og hann hvað þetta snertir.

Ég skal þá víkja að þeim tveimur aths., sem hæstv. viðskmrh. gerði. Hann sagði viðkomandi rýrnun sparifjárins, sem leiði af gengislækkuninni 1961, að þá væri ekki rétt að miða við dollara, breyta henni í dollara fyrir gengisfellinguna og eftir gengisfellinguna, — það væri ekki rétt mynd, sem fengist á þennan hátt. En samkv. því hefur rýrnun sparifjárins orðið eitthvað um 11%. Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri rétt að miða þetta við þá hækkun, sem hefði orðið á framfærslukostnaðinum innanlands vegna gengislækkunarinnar. Og ég skal gjarnan reikna út dæmið fyrir hann á þann hátt.

Eins og ég nefndi hér áðan, er ég talaði fyrir öðru máli, var framfærsluvísitalan 1. júli 1961 106 stig, þ.e.a.s. sú framfærsluvísitala, sem ríkisstj. miðar við. Í dag er þessi vísitala, framfærsluvísitalan innanlands, 129 stig. Hún hefur hækkað um 23 stig á þessu tímabili, þ.e.a.s. framfærslukostnaðurinn hefur hækkað um 23%. Vísitalan hefur hækkað um 23 stig á þessu tímabili, síðan gengislækkunin varð, eða um 23%. Og eins og ég sýndi fram á hér áðan, má beint og óbeint rekja allar þessar hækkanir til gengisfellingarinnar 1961. Heldur nú hæstv. ráðh., að það mundi koma betri mynd, ef við reiknuðum út verðrýrnun sparifjárins með þessari tölu eða þeirri, sem ég gerði? Nei, samkv. þeirri tölu, sem ég reiknaði með, kom ekki út nema 11% rýrnun á sparifé. Samkv. þeirri tölu, sem hann vill reikna með, kemur út 23% rýrnun á sparifé. Að vísu er rétt að draga þarna frá þann vaxtamun, sem er á núv. vöxtum og því, sem framsóknarmenn hafa lagt til, svo að það væri þá rétt að gera ráð fyrir, að rýrnun sparifjárins, ef miðað væri við framfærsluvísitöluna, væri eitthvað í kringum 20%. Nei, ég held, að það sé hæstv. viðskmrh., sem hefur hlaupið á sig hér, því að með þeirri aðferð, sem hann vill hafa, kemur út miklu meiri rýrnun á sparifé en samkv. þeirri aðferð, sem ég hafði, þ.e. að miða við erlendan gjaldeyri. Samkv. minni aðferð var rýrnunin ekki nema 11%, en samkv. aðferð hæstv. viðskmrh., sem ég skal alveg ganga inn á að gefi enn þá réttari mynd, er rýrnun sparifjárins orðin 20% á þessum tíma, vegna þess að það er sú hækkun, sem hefur orðið á framfærsluvísitölunni, þegar maður gerir ráð fyrir þeim vaxtamun, sem ég hef áður minnzt á.

Ég held, að þessi málflutningur hæstv. viðskmrh. sýni það, að hann er eiginlega alveg genginn af göflunum og hann veit ekki fullkomlega hvað hann segir, því að hann er kominn svo, að hann bendir á reikningsaðferðir, sem gera málstað hans enn lakari en þó þær reikningsaðferðir, sem ég var með.

Þá var hæstv. viðskmrh. að ræða um það, sem ég sagði, að 1961 hefði verið ólikt betra fyrir sparifjáreigendur, að gripið hefði verið til einhverrar vaxtalækkunar heldur en gengisfellingar.

Ég held því reyndar fram og hélt því fram hér áðan, að það hefði ekki þurft að gera neinar ráðstafanir sumarið 1961, vegna þess að atvinnuvegirnir hefðu vel fullkomlega getað risið undir þeim hóflegu kauphækkunum, sem þá var samið um. En ef það hefði átt að gera einhverjar ráðstafanir vegna frystihúsanna, sem munu hafa verið einna lakast sett af þeim aðilum, sem fengust við útflutningsframleiðsluna, þá hefði það komið sér miklu betur fyrir þau, að það hefði orðið lækkun á vöxtunum, heldur en hefði verið gripið til gengisfellingarinnar. Þetta hefur margsinnis verið sýnt mjög rækilega fram á hér í þinginu, t.d. í umr. um þessi mál í fyrra, og sé ég ekki ástæðu til að rifja það upp hér. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef sparifjáreigendur 1961 hefðu átt að velja um, hvort það hefði verið betra að grípa til þess að lækka vextina eitthvað, í stað þess að fella gengið, þá er ég ekki í minnsta vafa um það, hver niðurstaðan hefði orðið hjá þeim. Að sjálfsögðu hefðu þeir miklu frekar kosið, að vextirnir væru t.d. lækkaðir um 2%, heldur en væri farið út í 13% gengislækkun. En afkomu frystihúsanna er þannig háttað, að 2% gengislækkun hefði sparað þeim rekstrarkostnað jafnmikið og gengislækkunin gaf þeim bætta rekstrarafkomu, því að það er náttúrlega mikill misskilningur, sem hæstv. viðskmrh. virðist halda, að ef gengið lækkaði um t.d. 10% eða 13%, þá muni sú hækkun öll koma fram hjá frystihúsunum. Frystihúsin fá ekki nema lítinn hluta af þeirri hækkun, hún fer til sjómanna og útvegsmanna o.s.frv., og þess vegna verður það tiltölulega lítið, sem frystihúsin fá af þessu, og þau munar þess vegna alveg eins mikið um 2% vaxtalækkun, sökum þess að bæði hvíla á þeim þung stofnlán og auk þess verða þau venjulega að hafa mikið veltufé. Þess vegna þýðir vaxtalækkun mjög mikið fyrir þau.

Ég held nú samt, satt að segja, að það hefði alls ekki þurft að grípa til neinnar vaxtalækkunar sumarið 1961 vegna þeirrar kauphækkunar, sem átti sér stað, og atvinnuvegirnir hefðu án nokkurra sérstakra ráðstafana getað risið undir þeim hóflegu kauphækkunum, sem þá áttu sér stað. Bæði vaxtalækkun og gengislækkun hefðu þess vegna verið óþarfar af þeim ástæðum. En ef um þetta tvennt hefði verið að velja, þá er ég ekki í neinum vafa um, hvort hefði hentað betur sparifjáreigendum, vaxtalækkunin eða gengislækkunin.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég hef áður sagt hér, að þeir aðilar í landinu, sem ég tel að ríkisstjórn og Alþingi eigi að láta sig mestu máli skipta og vinna fyrst og fremst fyrir, séu hinir efnaminni borgarar og það sé unga fólkið í landinu. Og það er alveg sérstaklega þetta fólk, sem græðir hlutfallslega meira á vaxtalækkun en nokkurt fólk annað.