04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

223. mál, hámark útlánsvaxta

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal láta mér nægja örfá orð, því að sannleikurinn er sá, að málflutningur hv. þm. er í raun og veru ekki svaraverður. Á svo lágu stigi er hann hvað röksemdir snertir, að það er í raun og veru að eyða tíma þingsins til sáralítils að elta ólar við hann. Sannleikurinn er sá, að ég mundi ekki gera það, ef ekki væri síðdegisfundur og jafnfáir þm. viðstaddir og raun ber vitni um. Ég mundi telja það fyrir neðan bæði virðingu mína og hv. þm. að eiga í slíku orðaskaki við hinn hv. þm. á venjulegum starfstíma þingsins, ef salurinn væri fullskipaður.

Um þvílík atriði er hér að ræða, að ekki ætti að vera þörf á því að ræða þau í ræðu eftir ræðu og hvað eftir annað.

Það eru tvö atriði, sem ég vil gera að umtalsefni nú í örfáum orðum, úr síðustu ræðu hv. þm.

Hann hafði sagt í ræðu sinni áður, að ríkisstj., — og þetta veit ég, að allir áheyrendur mínir muna að hann sagði og ég hef rétt eftir, — hann hafði sagt, að ríkisstj. hafi með einu pennastriki, með gengislækkuninni 1961, rænt sparifjáreigendur 500 millj. kr. M.ö.o.: hann sagði, að gengislækkunin, gengishækkun dollarsins, gengislækkun krónunnar, í ágúst 1961 hefði þýtt 500 millj. kr. tap fyrir sparifjáreigendur. Ég þarf ekki frekar að hafa nein stóryrði um það, hversu fáránlegur málflutningur þetta er, og það var þetta, sem ég hlaut að benda á og undirstrika og sagði í því sambandi: Vilji menn gera sér grein fyrir verðrýrnun sparifjárins, er mælikvarðinn ekki gengi dollarsins, heldur verðgildi krónunnar. Og eini mælikvarðinn, sem við höfum á verðgildi krónunnar, er vísitala framfærslukostnaðar.

Þá kemur þessi hv. þm. hér aftur upp og segir, — slær úr og í, — hvort það hafi verið rétt hjá sér eða ekki, — jú, þetta var rétt, en það er til annað réttara. M.ö.o.: hinn málflutningurinn, sem er hlægilegur, á að vera réttur, en það, sem ég segi, er þó réttara, að nota vísitöluna sem mælikvarða. Og hvað gerir hann svo? Hann segir: Framfærslukostnaðurinn hækkaði um svo og svo mikið vegna gengislækkunarinnar, nefnir breytingu á framfærsluvísitölunni og segir: Hún er öll gengislækkuninni að kenna. Hún á öll rót sina að rekja til gengislækkunarinnar. — Ég kemst því ekki hjá að segja, að þm. er ekki viðbjargandi. Hvernig má það vera, að það gerist hér á hinu háa Alþingi, að jafnreyndur stjórnmálamaður og hv. 7. þm. Reykv. standi hér frammi fyrir þó nokkrum hóp af þm. og öðrum áheyrendum og segi: Hækkun framfærsluvísitölunnar á ákveðnu tímabili er eingöngu afleiðing af ákveðinni gengisbreytingu? — Veit þm. ekki, að á þessu sama tímabili hækkaði allt kaupgjald í landinu um 14–15%? Veit hann það ekki, eða er hann búinn að gleyma því? Eða þegir hann um það visvitandi?

Á árinu 1962 hækkaði allt kaupgjald í landinu um 14–15%, eða frá 13 upp í 19%. Er nokkur svo skyni skroppinn maður til. í landinu, að ég tali ekki um þm. eða stjórnmálamann, að honum detti í hug, að kaupgjald geti hækkað um 14-15% að meðaltali án þess að hafa áhrif á vísitöluna? Ég þarf ekki annað en minna á það, sem standa ætti þm. næst, næst hans hjarta, verð landbúnaðarvaranna. Man þm. virkilega ekki, — ég veit, hann veit það, — er hann skyndilega búinn að gleyma því, þegar hann stígur hér í ræðustól til að halda áróðursræður, gleymir hann því skyndilega, að 14–15% kauphækkun leiðir til svo að segja alveg jafnmikillar hækkunar á öllum landbúnaðarvörum, vegna þess að bóndinn fær nákvæmlega sömu kauphækkun? Hvað á svona lagað að þýða? Hvers konar umskiptingur verður jafngreindur og ágætur maður og hv. þm., þegar hann kemur upp í þennan stól til að halda áróðursræður, að hann leyfi sér að bera á borð í alvöru fyrir þm. og fyrir almenning, að hækkun framfærsluvísitölunnar, sem varð á því tímabili, sem hann nefndi, sé nær eingöngu afleiðing gengislækkunarinnar? Þetta verð ég að segja, að er málflutningur, sem er algerlega óleyfilegur. Þetta geta krakkar í gagnfræðaskóla leyft sér að staðhæfa, jafnvel kannske krakkar í einhverjum æðri skólum en þeim, en þetta getur ekki þm., reyndur stjórnmálaritstjóri, leyft sér í ræðustól á sjálfu Alþingi. Ég sleppi að ræða frekar um það.

Enn hélt hv. þm. áfram að tala um 2% vaxtalækkun og 13% gengishækkun erlends gjaldeyris sem nokkurn veginn sambærilegar stærðir í frystihúsunum a.m.k. Þetta er hlutur, sem ég áður hef rakið rækilega á hinu háa Alþingi með tölum og nákvæmum útreikningum og sé enga ástæðu til að endurtaka það hér. Ég hef að sjálfsögðu aldrei borið á móti því, að verðgildi sparifjárins, að verðgildi hverrar krónu í sparifénu hafi rýrnað undanfarna mánuði og undanfarin ár. Þetta er eitt af því, sem ég hef undirstrikað og lagt áherzlu á í fyrstu ræðu minni um málið. Þetta hefur gerzt, því miður. Því miður hefur verðgildi sparifjár verið að rýrna. Samt talar hv. þm. eins og ég hafi verið að þræta fyrir, að þetta hafi gerzt. Þetta er einmitt það, sem hefur gerzt, því miður. En það, sem ég hef viljað segja, er, að þetta er ekki afleiðing af stefnu ríkisstj. Það varð verðhækkun, sem leiddi af gengislækkuninni 1960, en síðan áhrif þeirrar gengislækkunar komu fram í verðlaginu, hefur verðlagshækkunin verið að yfirgnæfandi meiri hluta og nær eingöngu fyrir áhrif kauphækkana. Það er meginstaðreynd í málinu. Þess vegna ber að rekja þá rýrnun hverrar krónu sparifjárins, sem orðið hefur, fyrst og fremst til þeirrar óheppilegu kaupgjalds- og verðlagsstefnu, sem orðið hefur því miður ofan á í íslenzku efnahagslífi gegn eindregnum vilja ríkisstj. Við það mál hefur hún því miður ekki ráðið. Og það er svo fjarri því, að ég hafi þrætt fyrir, að spariféð hafi verið að rýrna að verðgildi, að einmitt þetta voru önnur aðalrök mín gegn frv. í frumræðu minni. Ég sagði, einmitt af því að sparifjáreigendur hafa verið að tapa undanfarið vegna rangrar stefnu í verðlags- og kaupgjaldsmálum, að ekki mætti bæta við tap þeirra með því að lækka vextina nú, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.